Fyrirgefning og endurreisn!

Fyrirgefning og endurreisn!

Ég hef fylgst, eins og líklega margir aðrir, með umræðu í fjölmiðlum síðastliðna daga og viku um kynferðisbrot innan kirkjunnar og meðhöndlun fjölmiðla á nafngreindum einstaklingum, og um leið umræðu um fyrirgefningu, iðrun og yfirbót.

Ég hef fylgst, eins og líklega margir aðrir, með umræðu í fjölmiðlum síðastliðna daga og viku um kynferðisbrot innan kirkjunnar og meðhöndlun fjölmiðla á nafngreindum einstaklingum, og um leið umræðu um fyrirgefningu, iðrun og yfirbót.

Þetta málefni er langt frá því að vera auðvelt umfjöllunar, því í innsta kjarna þess erum við að fjalla um hvernig við saman sem samfélag náum að vernda hið smæsta og varnarlausasta í lífinu eins og börnin okkar. Við gerum með okkur þann samfélagssáttmála að líða ekki þau alvarlegu brot þegar einstaklingar fara yfir siðferðisleg mörk og brjóta gegn líkamsrétti barna og hafa þá á sama tíma í raun fyrirgert rétti sínum til að vera ríkjandi á hinu opinbera sviði samfélagsins.

Þegar okkur tekst þetta ekki að hafa nauðsynlegt aðhald og þolendur horfa upp á það að ekki sé tekið á málum þeirra af staðfestu, þá situr þolandinn uppi með þá tilfinningu að samfélagið sé að bregðast og réttlætið sé fjarri. Sú predikun hljómar oftar en ekki að til að losna undan ofbeldi sé best að fyrirgefa sem allra fyrst til þess að öðlast frelsi frá gerandanum og ofbeldinu, til þess að hægt sé að finna frið í á sálu sinni.

Oftar en ekki er niðurstaðan önnur, einstaklingar sem brotið er á kynferðislega eyða oft árum og áratugum í sjálfskaðandi hegðunarmynstri sem gripið er til í þeim tilgangi að lifa ofbeldið af, vegna þess að þolendur eiga erfitt með að deila slíku mynstri með öðrum vegna ofbeldisins sem þeir hafa orðið fyrir. Skömmin er of mikil og til þess að losna við hana þarf traust og samfélagið þarf að skapa þetta traust.
Án þess verður engin heilun í lífi þolandans.

Þegar einstaklingur verður fyrir ofbeldi af þessu tagi og úrræðin fá handa honum þá óhjákvæmilega verður hann einmana og einangruð manneskja, sem er hrædd og í áfalli og gerir það sem hún þarf til að lifa af.
Í því ástandi býr hún til mynstur sem hjálpar henni að lifa af og það mynstur er til þess fallið að brjóta niður fremur en að byggja upp.

Það er mannlegt að upplifa vanmátt þegar við stöndum frammi fyrir einstaklingum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hvað getum við sagt, hvernig getum við stutt við og þá er tilfinningin oft þessi að fyrirgefning sé sú leið til að losna undan þjáningunni? Við kunnum að telja okkur trú um að bati geti ekki orðið nema fyrirgefning fylgi í kjölfarið.

Og hvað með hina samfélgslegu fyrirgefningu þegar þolendur eru ekki á þeim stað að geta fyrirgefið og eru að reyna í vanmætti sínum að lifa af og vekja athygli á því sem þeir hafa orðið fyrir, þegar þeir taka þá áhættu að treysta öðrum fyrir leyndamálinu, fyrir ofbeldinu með þá von í brjósti að tekið verði við því og eitthvað gert, að gripið verði til aðgerða og varna og við reynumst þannig traustsins verð?

Viðbrögðin eru oftar er ekki þau að valdið safnar sér saman og verndar sig, reynir að þagga niður, jafnvel heyrist talað um skammarmiðuð samskipti og að umfjöllunin eigi ekki heima á öldum ljósvakans.

Valdið er hluti af menningunni og menningin verndar valdið. Í því ástandi þjást þolendur, því sérhver þolandi ofbeldis þarf málsvara sem stígur fram og er rödd hans og skjól. Málsvari sem trúir því sem sagt er og tekur ákvörðun innra með sér að líða ekki ofbeldi hvorki í fortíð, nútíð eða framtíð.

Getur samfélag fólks ákveðið fyrir hönd þolenda að fyrirgefa kynferðisbrot?

Getur verið að með því séum við að smætta þessi brot, sætta okkur við, jú þetta verður alltaf hluti af menningunni, á hverjum tíma sé bara til fólk sem beiti ofbeldi, ræðst á líkama og líf annarra.
Þar sem samfélagið er síðan þegar búið að fyrirgefa glæpinn, þá þarf iðrun, yfirbót og ábyrgð ekki að eiga sér stað í sálarlífi gerandans. Það er búið að létta af honum byrðinni.

Við skulum átta okkur á því að fyrirgefning á sér alltaf stað úr valdastöðu, frá valdaaðila í garð þess sem valdaminni er eða á grundvelli jafningjasamskipta. Þolandi er aldrei í valdastöðu gagnvart geranda sínum. Gerandi hefur með því að beita ofbeldi sett sig þannig í valdastöðu gagnvart þolandanum að staðan verði aldrei jöfn.

Hvar kemst þá fyrirgefningin fyrir og hvernig læknum við það sem hefur verið brotið?

Í fyrsta lagi þá verðum við sem samfélag að hætta að hlífa okkur sjálfum við þjáningunni sem þetta brot felur í sér og gera samfélgssáttmála þess efnis að standa ávallt með þeim sem brotið er á og við verðum að þola umræðuna um þessi mál, sem verða að vera rædd á yfirvegaðan og faglegan hátt.

Í öðru lagi hættum við að beita fyrirgefningarhugtakinu nema í þeim tilfellum að þolandi ofbeldisins sé kominn á þann stað að ræða það sjálfur. Það er ekki fyrr en þá fyrst sem við getum fyrirgefið líka.

Í þriðja lagi verðum við að búa þannig um hnútana að þolandi sjái réttarkerfið vinna með sér, samfélagsumræðuna hætta að vernda valdið og taka sér stöðu með þolandanum. Við sköpum umhverfi trausts og hluttekningar og öryggi sem auðveldar fólki að koma fram og lýsa ofbeldinu og hefja ferli í átt að bata og betra lífi.

Í fjórða lagi þarf raunverulega og algjöra iðrun af hendi gerenda. Við þurfum að skapa umhverfi og úrræði sem kalla gerendur til persónulegrar iðrunar og ábyrgðar þar sem við gerum þeim það ljóst að við líðum ekki þessi brot en viðurkennum iðrun og raunverulega viðleitni til betrunar. Við gerum þeim kleift að lifa sem manneskjur með eins mikilli reisn og unnt er eftir brot sín en drögum samfélagsleg mörk við hið opinbera svið og embætti. Endurreisn gerandans er fólgin í aðstoð við að sjá afleiðingar ofbeldisins og brotanna því það er þar sem yfirbótin hefst og ný stefna er tekin.

Í fimmta og síðasta lagi, og kannski það sem er mikilvægast, þarf þolandinn að finna frið til að geta fyrirgefið sjálfum sér. Það er stærsta og mikilvægasta fyrirgefningin. Bataferli og stuðningur þarf að miðast við það að þolandinn finni og sjái að hann gerði ekkert með sinni veru til að verðskulda ofbeldið. Og að hann átti sig á því að það var ekkert í hans fari sem olli því að ofbeldi var beitt, ekki í klæðaburði né uppeldi né neinu öðru. Ákvörðun er alltaf gerandans að beita ofbeldi, meðvitað og af ásetningi. Það er gerandans að bera skömmina, hans er að átta sig á því að þegar slíku ofbeldi er beitt, þá fyrirgerir hann ákveðnum rétti, hann hefur farið yfir ákveðin samfélagsleg mörk sem eru og verða aldrei liðin.

Jafnvel þegar þolandi er ekki kominn á þann stað að gefa fyrirgefið, getur hann engu að síður öðlast visst frelsi við það að losa sig við byrðina og leyfa æðri mætti að taka við.

Við getum látið hverjum degi nægja sína þjáningu, litið til fugla himinsins og skoðað liljur vallarins, við getum lagt byrði okkar í hendur Guðs sem fyrirgefur fyrir okkur og fyrirgefur okkur þegar við getum það ekki sjálf. Jesús Kristur á krossinum bað Guð að fyrirgefa þeim sem vissu ekki hvað þeir gerðu, hann gerði það ekki sjálfur, heldur lagði þá byrði í hendur Guðs. Þeim Guði sem gleymir ekki þolendum, gleymir ekki hinu smæsta og varnarlausa, viðurkennir ekki ofbeldi og stendur gegn valdi í öllum myndum þess. Guð hefur rist hvert og eitt okkar í lófa sína og reist sína múra í kringum okkur.

Guð sem grætur með sköpun sinni og yfir misgjörðum hennar en endurreisir okkur þegar við tökum samfélagslega ábyrgð byggða á trausti og trúverðugleika og stöndum gegn ofbeldi í fjölbreyttum myndum þess.

Amen.