Ég ætla að kenna þér boðorð sem getur breytt lífinu þínu. Boðorð sem er einfalt og stutt svo allir geta munað það og hefur umbreytandi áhrif í lífinu. Það er svona:
„Þú skalt ekki eiga óvini og ekki eignast óvini.“
Hvers vegna?
Mig langar að skýra það með sögu. Ég sat einu sinni með góðum vini og hann sagði: Það er hættulegt að eignast óvin vegna þess að smátt og smátt getur hann tekið yfir lífið þitt og þú ferð að líkjast óvini þínum. Þú verður óvinurinn. Og það viltu ekki.
„Þú skalt ekki eiga óvini og ekki eignast óvini.“
Boðorð og vanar
Hvernig beitum við svona boðorði? Hvernig tökum við það í notkun í eigin lífi? Ein leið felst í því að innlima það í vana og venjur daglegs lífs.
Til að geta það þurfum við að skilja hvernig vanar virka.
Og nú fáið þið að læra smá aðferðafræði. Charles Duhigg er rithöfundur sem hefur skrifað mikið um vana og venjur. Um það hvernig við dettum inn í rútínu og gerum það sama aftur og aftur og aftur og aftur. Jafnvel án þess að hugsa. Og Duhigg segir að til séu lykilvanar, lífsvenjurnar skipta ekki smá máli heldur öllu mál og velta þungu hlassi þegar þeim er breytt. Ég held að þetta boðorð sem við getum kallað óvinaboðorðið geti verið slíkur vani. Að það geti ekki aðeins umbreytt lífi einstaklings heldur jafnvel heils samfélagsins.
Hvernig gerist þetta?
Vanar eða venjur eru samsettir úr þremur þáttum:
- Fyrst er kveikja: Það sem kveikir í okkur og kemur vanaferlinu eða rútínunni af stað.
- Svo er innihald eða rútínan sjálf: Það sem við gerum.
- Loks eru það verðlaun: Það sem við fáum út úr þessu.
Tökum dæmi – innblásið af Duhigg: þegar ég skrifa prédikun finnst mér gott að fá mér kaffibolla og vil gjarnan borða eitthvað sætt. Af því ég prédika reglulega og vil undirbúa prédikanirnar vel þá rölti ég næstum daglega út á kaffihús og fæ mér bolla og köku á hverjum degi. Og ég þyngist bara. Ég gæti brugðist við með því að skrifa sjálfum mér skilaboð á gulan miða og líma á tölvuskjáinn: Engar kökur!
En samt er eins og ég ráði ekki alveg við mig, ég stend upp frá tölvunni nokkurn veginn á sama tíma, rölti á kaffihúsið, panta kaffi og þegar ég er að panta það ákveð ég að kippa einni köku með … dag eftir dag. Og mér líður mjög vel meðan ég er að borða kökuna en sit svo uppi með samviskubitið eftir á.
Til að skilja vanann þurfum við að greina innihaldið, spyrja hvað kveikir á honum og hvað við fáum út úr þessu. Það kallar á greiningarvinnu sem felst í því að fylgjast rækilega með eigin líðan og atferli. Þangað til borðum við bara kökur.
Óvinir og vanar
Ef við heimfærum þetta módel um vanana upp á hugsunina um óvini þá gæti útkoman verið þessi:
- Kveikja: Ég mæti manneskju sem kemur illa fram við mig eða aðra, stendur kannski fyrir önnur gildi en ég.
- Innihald: Ég bregst við með því að setja mig í stellingar sem skapa fjarlægð, fordæma jafnvel viðkomandi, skilgreina hann eða hana sem HINN aðilann sem er öðruvísi en ég. Bý til hópana: VIÐ og ÞAU.
- Verðlaun: Ég styrkist í eigin afstöðu og styrki sjálfsmyndina. Ég er góður og mitt fólk líka, aðrir ekki.
Eina leiðin til að breyta vana er að skipta innihaldinu út.
Hvað gerist ef við skiptum innihaldinu út og reynum að lifa eftir boðorðinu um að eignast ekki óvini? Bregðumst ekki við með því að búa til fjarlægð heldur sjáum samhljóm milli okkar og annarra? Ekki til að samþykkja heldur til að skapa nánd. Þá verða ekki til hóparnir VIÐ og ÞAU heldur bara VIÐ og afstaðan sem kemur út úr því er ekki er sú að við lítum á allt fólk sem gott – eða mögulega gott.
Þetta þýðir ekki að við eigum að láta allt yfir okkur ganga. Þetta er ekki ákall um meðvirkni með þeim sem ganga fram í rugli eða ofbeldi og skapa vanlíðan hjá fólki. Þetta er hins vegar íhugun um þær kröfur sem eru gerðar til okkar sem kristins samfélags, kristinnar kirkju. Og ég held að ein af þeim sé að við eigum ekki að ala á sundrungu, hatri og óvináttu. Þið munið kannski eftir þessu sem Jesús sagði um að við ættum að elska óvininn, iðka náungakærleika og það allt.
Hart hjarta eða mjúkt
Þetta má líka orða með öðrum hætti: að eignast óvini og ala á óvináttu er að herða hjarta sitt. Slíkt hjarta verður fyrst sigggróið og steingervist svo. Að rækta vináttu og ala á kærleika milli fólks er að mýkja hjörtun, brjóta steininn, raspa burt siggið og mýkja hjartað úr holdi.
Út frá því getum við sagt að kærleikurinn sé mýkingarefni hjartans og mjúk hjörtu eru byggingarefni góðs samfélags, í kirkjunni og annars staðar.
Ezekíel spámaður skrifaði og við lásum hér áðan:
Þá mun ég gefa þeim eindrægt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun fjarlægja steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta úr holdi svo að þeir fylgi lögum mínum og haldi reglur mínar og framfylgi þeim. Þá skulu þeir verða mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.
Þvílík skilaboð til kirkjunnar á afmælisdegi hennar.
Sigg, tröll og mýkingarefni
Ekki eiga óvini. Ekki eignast óvini. Hvers vegna? Vegna þess að smátt og smátt ferðu að líkjast þeim. Og það viltu ekki. Að eignast óvini er að herða hjartað. Hert hjarta er fyrst eins og sigg Svo verður það að steini eins og tröll við sólarupprás.
Hvers vegna lesum við þennan texta á öðrum hvítasunnudegi? Kannski til að minna okkur á hvers konar hópur, samfélag, veruleiki kirkjan á að vera: Hún á ekki að vera staður óvinafagnaður, ekki staður steinhjartanna.
Kannski er þetta ekki alveg nógu nákvæmt. Því kirkjan er auðvitað allra. Það eru allir velkomnir. Bara nákvæmlega eins og þeir eru. En hér ræktum við ekki steinhjörtu. Nærum ekki vanlíðan. Þvert á móti er það köllun okkar að mýkja. Rækta hjörtu af holdi.
Hver eru lögmál hjartans af holdi? Náungakærleikurinn. Umhyggjan. Að leyfa öðrum að njóta vafans. Ekki síst þeim sem minna mega sín. Við erum kölluð til þess. Að líta ekki undan ljótleikanum heldur mæta honum með höndum til góðra verka. Að sjá og draga fram fegurðina í mannlífinu.
Það er köllun kirkjunnar. Það er þín köllun.
Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.