Nú fullnaðist brátt sá tími, er hann skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En þeir tóku ekki við honum, því hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það, sögðu þeir: Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?En hann sneri sér við og ávítaði þá og sagði: Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa. Og þeir fóru í annað þorp.
Þegar þeir voru á ferð á veginum, sagði maður nokkur við hann: Ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð. Jesús sagði við hann: Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla. Við annan sagði hann: Fylg þú mér! Sá mælti: Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn. Jesús svaraði: Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki.
Enn annar sagði: Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima. En Jesús sagði við hann: Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki.
Lk. 9.51-62
Hin fornu fræði
Mig langar hér í dag til að byrja með svolítið fræðilegum hætti og útlista í örfáum orðum með hvaða hætti textar ritningarinnar voru lesnir þegar á fyrstu öldum kristninnar.
Strax í upphafi gerðu menn sér grein fyrir því, að til þess að ráða í merkingu hinnar helgu bókar var hægt að lesa texta hennar með ýmsum hætti.
Textarnir gátu ráðið yfir margvíslegri merkingu. Merking þeirra gat verið bókstafleg, en hún gat einnig verið siðferðileg eða andleg, eða jafnvel allegórísk.
Til að útskýra þetta aðeins betur er gott að taka dæmi af nafni borgarinnar Jerúsalem, en borgin Jerúsalem kemur einmitt fyrir í guðspjallstexta okkar hér í dag.
Nafnið Jerúsalem getur í samhengi Biblíunnar haft bókstaflega merkingu, og getur þannig vísað til borgar í landi fyrir botni Miðjarðarhafs.
Það getur einnig búið yfir allegórískri merkingu, og sem slíkt t.d. staðið sem tákn fyrir kirkju kristinna manna í heiminum.
Í þriðja lagi getur nafn borgarinnar Jerúsalem svo haft siðferðilega skírskotun og þannig vísað til hinnar dygðum prýddu sálar sérhvers þess manns, sem í hjarta sínu þráir eilífan frið.
Í fjórða og síðasta lagi getur nafn borgarinnar haft andlega merkingu og þannig vísað til hinna himnesku heimkynna okkar mannanna, en það er einmitt sú merking – hin andlega merking - sem ég held að við verðum að leggja í nafn borgarinnar í texta dagsins. Eftirsjá og þrá
Í guðspjallstexta Lúkasar er verið að beina þeirri spurningu til okkar hversu reiðubúin við raunverulega teljum okkur vera til að gera Jesúm Krist að leiðtoga lífsins.
Í upphafi textans er okkur sagt að Jesús beini augum upp til borgarinnar Jerúsalem, staðráðinn í að fara þangað og í lok textans er okkur bent á, að hver sá sem líti aftur á vegferðinni með honum sé í rauninni óhæfur í ríki Guðs. Með þessari ábendingu um að ekki megi líta aftur má segja að verið sé að kalla fram hugrenningartengsl við hina þekktu frásögn 1. Mósebókar um borgirnar Sódómu og Gómorru, en til þess að komast lifandi frá borgunum þeim og spillingu þeirra mátti ekki fyrir nokkurn mun líta aftur. Eins og við hins vegar munum úr frásögn Biblíunnar varð eiginkona Lots ekki við því og leit aftur og varð fyrir vikið að saltstöppli.
Það má því segja, að í texta okkar hér í dag kallist þessar borgir á, ef svo má að orði komast; Jerúsalem annars vegar og borgirnar Sódóma og Gómorra hins vegar og boðskapurinn er sá, að sá sem ætlar sér að öðlast vaxtartakmark kristsfyllingarinnar má ekki fyrir nokkurn mun ala með sér eftirsjá eða þrá í brjósti eftir öllu því veraldlega sem hann þegar hefur kosið að snúa baki við.
Sódóma og Gómorra standa sem endranær sem táknmyndir fyrir hið veraldlega og siðspillta, en borgin Jerúsalem er hin himneska háborg, sem á fjallinu stendur og fær ekki dulist, og felur í sér allt hið sanna og fagra og fullkomna, og sem í rauninni er vaxtartakmark okkar allra.
Ekkert fjötrar þann sem frelsar
Um leið og guðspjall dagsins varar okkur við því að líta aftur og velta vöngum yfir öllu því sem hægt er að njóta af lystisemdum heimsins ef Kristur er ekki gerður að leiðtoga lífsins, þá minnir það okkur á það, hversu mikils er krafist af okkur á göngunni með honum og að ákvörðun um slíkt getur aldrei verið léttúðug. Í því sambandi er talað um Mannssoninn, sem hvergi á höfði sínu að að halla.
Nú um stundir þegar einstaka fréttamaður og þýðandi á öldum ljósvakans grípur til þessa orðalags er látið nægja að tala um að “eiga höfði að halla”, en auðvitað er rétt að segja, að “eiga höfði að að halla”, því höfðinu er ekki bara hallað, heldur er því hallað að einhverju og felur í sér þá merkingu að eiga sér griðastað.
Mannssonurinn, sem er sá titill sem Jesús notar um sjálfan sig í guðspjöllunum, á sér með öðrum orðum engan griðastað - engan samastað - því vettvangur hans er veröldin öll.
Refir eiga sér hins vegar greni og fuglar himinsins gera sér hreiður, en mannssonurinn njörvar sig ekki niður á neinn hátt, hvorki landfræðilega né hugmyndafræðilega. Hann er ekki bundinn af neinu sem getur heft hann, því hann er frjáls og er kominn til að frelsa. Heimili hans er því heimurinn allur og móðir hans, systir og bræður, eru þeir menn sem í einlægni leitast við að gera vilja Guðs að vilja sínum.
Krishnamurti hinn indverski, sem menn víða um lönd á fyrri hluta síðustu aldar trúðu að væri langþráður mannkynslausnari í heiminn kominn, var eitt sinn að því spurður hvar hann teldi heimili sitt vera, því þar sem hann færi svo mikið stað úr stað og væri sífellt á ferð og flugi gæti hann tæpast sagt að hann ætti einhversstaðar heima. Og svarið sem Krishnamurti gaf var á þá leið, að þar sem hann gæti orðið að liði og lagt sitt af mörkum, þar ætti hann heima, og þetta er svar sem við getum svo mætavel skilið því við finnum í hjarta okkar að okkur er eins farið. Þar sem kraftar okkar koma að gagni, og hæfileikar okkar og gáfur nýtast í þágu hvers annars, þar finnum við okkur venjulega best og vitum að þar eigum við fyrst og fremst heima.
Að halda dauðahaldi í heiminn
Það er hins vegar ekki alltaf á þennan hátt sem við högum lífi okkar því við sækjumst svo oft eftir því að skapa sjálfum okkur öryggi, eins og það er kallað, en öryggi teljum við iðulega fyrst og fremst felast í því að eiga okkur fasta búsetu og fjölskyldu, og hafa atvinnu, sem og því að búa við ákveðin veraldleg gæði. Við eigum því sannarlega auðvelt með að setja okkur í spor þeirra sem í guðspjallinu heyra kall Krists um að fylgja honum eftir, en í stað þess að fylgja honum eftir orðalaust, þá beiðist einn þess að fá að fara og jarða föður sinn, en annar biður leyfis um að fá að kveðja fólkið sitt.
Ég hugsa að það sé líkt á komið með okkur mörgum og þessum persónum guðspjallsins, því það er alltaf eitthvað sem við teljum okkur fyrst þurfa að inna af hendi áður en við teljum okkur geta fylgt eftir þeirri köllun sem í brjóstinu býr.
Við viljum fyrst klára að mennta okkur, byggja okkur hús og ala börn okkar upp, áður en við teljum okkur reiðubúin til að fylgja því sem við teljum vera æðst alls. Því má eiginlega segja, að við séum í þeim sporum að hafa fundið perluna dýru, en erum ekki að sama skapi reiðubúin til að láta neitt af hendi til að eignast hana.
Sú er hins vegar krafan sem Kristur gerir til okkar.
Það má því í mörgu tilliti um okkur segja, að við höldum dauðahaldi í heiminn og byggjum líf okkar að mörgu leyti upp í kringum væntingar og þrár til hans.
Við þurfum hins vegar að verða okkur betur meðvituð um það, að heimurinn mun aldrei verða þess megnugur að uppfylla langanir okkar og þrár, og vita megum við að veraldleg velgengni er oft og tíðum tálsýnin ein og hjómið eitt, sem á einu augabragði verður fyrr eða síðar frá okkur tekin.
Krákur og kjötbitar
Við skulum því vera minnug þeirra orða Krists, að ríki hans er ekki af þessum heimi.
Þó kristin kirkja hafi á öllum öldum reynt að hafa áhrif á hina veraldlegu skipan mála – reynt að vinna að félagslegu réttlæti og samfélagslegri ábyrgð sérhvers manns – þá hefur hún einnig verið sér meðvituð um það, að sá heimur, sem við alla jafna skynjum og lítum á sem umgjörð alls okkar lífs er einungis brot af þeim djúpa og mikla veruleika sem umlykur okkur á bak og brjóst.
Til þess að ná að skynja þennan raunveruleika þá þurfum við að ná að haga lífi okkar á þann veg, að heimurinn og allar lystisemdir hans nái ekki slíkum tökum á okkur, að hann fylli öll okkar vit og komi þannig í veg fyrir að við skynjum lífið og tilveruna eins og hún raunverulega er.
Í fornri frásögn segir frá kráku nokkurri sem flaug upp í himinninn eftir að hafa náð í góðan kjötbita. Ekki hafði krákan flogið hátt þegar hátt í 20 krákur komu æðandi að sem hrægammar og reyndu allt hvað af tók að ná kjötbitanum af henni með því að ráðast linnulaust að henni. Að lokum sá krákan sér ekki annað fært en að sleppa kjötbitanum og láta hann falla til jarðar og óðara steyptu allar hinar krákurnar sér skrækjandi á eftir honum.
Krákunni varð þá að orði. “Ég tapaði kjötbitanum en öðlaðist í staðinn þennan friðsæla himinn.”
Þessi mjög svo heimspekilega afstaða krákunnar minnir okkur einnig á afstöðu mannsins, sem missti heimili sitt í eldsvoða, en sagði að í staðinn hefði sér hlotnast óhindrað útsýni bæði til tunglsins og stjarnanna.
“Hverfi mér allt nema tilveran þín”
Kannski er svo komið fyrir okkur mörgum, að við sjáum ekki lengur það sem mestu máli skiptir í lífinu því við erum svo upptekin við að ná öllum þeim veraldlegu markmiðum sem bæði við höfum sett okkur, sem og það samfélag sem við lifum í. Boðskapur Krists til okkar í guðspjalli dagsins er hins vegar alveg skýlaus: Ef við ætlum okkur að fylgja honum eftir og komast þannig í snertingu við okkar himnesku heimkynni, þá verðum við að gera það að takmarki okkar sem andlegt er og orðum efra, og það án þess að í brjósti okkar megi finna eftirsjá eftir því sem veraldlegt er.
Hugsun af þessu tagi, þar sem hinu veraldlega er hafnað, en áhersla lögð á umlykjandi verund Guðs, má t.d. sjá í sálmi sem sr. Heimir heitinn Steinsson íslenskaði, en þar segir:
Herra og Guð, ver þú heilsulind mín; hverfi mér allt nema tilveran þín. Hugsun mín daglangt og draumur um nótt dvelji við auglit þitt kyrrsælt og hljótt. Auðlegð mér gest ei né innantómt hrós; arfleifð þín, Guð, sé mér tærasta ljós. Þú, og þú einn gef mér innheim þinn sjá, alfaðir huldi mín leyndasta þrá.
Þarna biður skáldið þess, að allt hverfi honum sjónum nema tilvera Guðs, og undirstrikar það, að því geðjist hvorki auðlegð né innantómt hrós. Það hafnar með öðrum orðum hinu veraldlega, en lætur þess í stað þá þrá, að það fái að dvelja við innheima Guðs, þ.e. þann veruleika sem að baki allri sköpuninni býr.
Guð gefi okkur öllum að mega ala slíka þrá í brjósti á vegferðinni í gegnum lífið, svo hið veraldlega verði ekki til þess að afvegaleiða okkur og blekkja.