Veðragnýr fjármálakreppunnar skelfir margan, sem óttast að grunnstoðirnar séu að bresta. Angist og kvíði er hlutskipti margra um þessar mundir. Ljóst er að þröngt getur orðið í búi hjá einstaklingum og fjölskyldum á næstu mánuðum. Við slíka erfiðleika reynir á samstöðu og umhyggju allra. Í guðspjöllunum talar Jesús um „angist þjóða, ráðlausra við dunur hafs og brimgný” – og það lýsir ástandinu þessa síðustu daga. Hvað mun standast flóðbylgju kreppunnar? Guð einn veit. Líf okkar er í hendi hans og hann þekkir og skilur áhyggjur okkar og vanda. „Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar,“ segir Jesús, „yðar himneski faðir veit.“ Og Pétur postuli hvetur okkur til að varpa öllum áhyggjum okkar á Drottin, því hann ber umhyggju fyrir okkur. Áhyggjur okkar ber umhyggja hans. Í þeim faðmi er okkur óhætt.
„Varla hræðist sá veðraský sem vorið í fjarska eygir.“ segir Davíð skáld frá Fagraskógi. Jesús hvetur til þess að þegar angistin sest að við gnýinn og dunurnar þegar undirstöðurnar bifast, þá skulum við lyfta höfðum okkar í von „því lausn yðar er í nánd.“ Framundan er vorið handan allra vetrarveðra. Því megum við treysta. Við megum reiða okkur á návist Guðs og atbeina góðra manna. Guð er að verki og þar er engin lausafjárþurrð. Nægtir náðar hans standa öllum til boða. Og hvert og eitt getum við rétt öðrum hjálparhönd og hlýjan hug umhyggju og kærleika.
Kreppa er líka tækifæri, oft er minnt á það. Nú fá ríki heims og fjármálastofnanir og einstaklingar tækifæri til að endurskipuleggja sig með visku hagsýni og hófsemi og umhyggju að leiðarljósi.
Tungumál óttans hefur verið yfirgnæfandi undanfarið. Nú skulum við tala tungumál umhyggjunnar og sýna umhyggju um lífið, um jörðina, um hið viðkvæma og brothætta líf, börnin, þá sjúku, og hin öldruðu. Og við skulum beina athygli að auðlegðinni og verðmætunum sem eilíf eru og aldrei falla í gildi. Það er svo ótal margt að gleðjast yfir og þakka í okkar góða samfélagi. Við höfum sem þjóð áður glímt við hamfarir og hörmungar. Aldrei höfum við verið betur stödd til að takast á við afleiðingar og vinna okkur úr vanda.
Ég beini þeim tilmælum til presta og djákna Þjóðkirkjunnar að vera vakandi fyrir þessum vanda og hvernig hann hefur áhrif á andlega líðan fólks sem lendir í efnahagslegum þrengingum. Jafnframt hvet ég söfnuði landsins til að bregðast við með þeim andlega stuðningi og sálgæslu sem er á þeirra færi, að opna kirkjurnar til samverustunda og fyrirbæna, minna á kyrrðarstundir sem víða eru í kirkjum landsins á virkum dögum sem og annað helgihald.
Ég þakka þeim mörgu sem leggja sig fram um að liðsinna fólki í erfiðleikum, þar má minna á Hjálparstarf kirkjunnar, Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, þar sem unnið er mikið og óeigingjarnt starf, sem og á vegum hinna fjölmörgu líknarsamtaka í landinu. Guð blessi það allt. Ég hvet sóknir og söfnuði til samstarfs við félagslegar stofnanir og þjónustu af ýmsum toga sem hefur með velferð fólks að gera. Guð vors lands láti ljós sitt og anda leiða og blessa okkur öll.