Gleðilega hátíð, - hvítasunnan er ein af þremur stórhátíðum kristninnar. Hátíð heilags anda, hátíð kirkjunnar, afmælishátíð kirkjunnar, en það var einmitt á hvítasunnu, 50 dögum eftir páska, sem hvítasunnuundrið gerðist, heilagur andi kom yfir lærisveinana og kirkjan varð til, og það sem einkenndi daginn var að allir skyldu fagnaðarerindið, Guðs Orðið.Lengi áður en þetta gerðist, þá héldu Ísraelsmenn upp á hvítasunnuna sem hátíð orðsins, þ.e. þeir minntust þess þegar Móse fékk boðorðin 10, lögmálstöflurnar uppi á Sínaífjalli.
"Fagnið þér himnar, því að Drottinn hefur því til vegar komið, látið gleðilátum, þér undirdjúp jarðarinnar... - því að ég hefi skapað... " - þannig segir m.a. í textum dagsins. - Ég hefi skapað!
Í fyrstu orðum Biblíunnar segir: "Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð. Jörðin var auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum."
* * *
... og andi Guðs sveif yfir vötnunum!
Hin heilaga þrenning kom strax til sögunnar. Á meðan allt var að verða til, þá var Heilagur andi að störfum, "hann sveif yfir vötnunum", til hvers?, - jú, til að blessa, til þess að gefa líf. Lífið kviknaði í vötnunum!
Það hefur oft verið deilt um sköpunarsögur Biblíunnar og þróunarkenningarnar vísindamannanna. Enn í dag heyrast raddir þess eðlis að þetta tvennt sé ósættanlegt. Því fer fjarri, þetta fer vel saman. Sköpunarsögur Biblíunnar, en þær eru tvær í fyrsta kafla 1. Mósebókar og sköpunarstefin í Saltaranum og víða í Gamlatestamentinu eru fyrst og fremst ljóð. Þessir textar eru ekki náttúrufræði heldur guðfræði, sálmar, ljóð um hið skapaða, ljóð um fegurðina, ort og skrifað í undrun og þakklæti til Guðs fyrir allt sem Guð hefur gefið.
Vísindin eru að gera marga góða hluti og enn er verið að rannsaka upphaf lífsins á jörðinni. Í því sambandi koma iðulega fram nýjar og spennandi kenningar og tilgátur, og það er gott. Ábyrgð vísindamannsins er líka mikil.
En sköpunartrúin byggist á því að á bak við allt líf, á bak við allt sem er, sé Guð. Það er svo margt í sögunni, í reynsluheimi mannkynsins, í heimspekinni, guðfræðinni, vísindunum, sem styður það, að þekking og trú geta farið saman, átt uppbyggilegt samtal.
... og andi Guðs sveif yfir vötnunum! Mér finnst gott að mega trúa þessu, hvíla í því, að á bak við allt líf á þessari jörð, já alla sköpunina, lífríkið, sé helgur vilji, góður Guð, sem elskar sköpun sína, sem hefur gefið okkur hlut í þessu öllu með sér, og meira en það falið okkur ábyrgð, hvatt okkur til dáða, að njóta sköpunarverksins og nýta það til góðs, vera samverkamenn Guðs í hinu góða verki.
Hugsið ykkur þessa litlu jörð, sem er í rauninni ekki nema eins og sandkorn í alheiminum, því hann er stærri en við getum skilið, óendanlega stór. Við þekkjum svolítið okkar vetrarbraut, þekkjum jafnvel störnumerki og einstaka stjörnur, en nú segja okkur stjörnufræðingar að vetrarbrautirnar séu fleiri en 200 milljarðar. Stærðir sem venjulegt fólk nær ekki að átta sig á. Í þessari stjörnumergð er jörðin, eins falleg og hún nú er, okkur gefin til þess að nýta hana til þess að lifa á henni í sátt og samlyndi.
En það er ekki alveg það sem er að gerast, við erum ekki að koma okkur saman á þessari plánetu, þessu fleyi, "geimskipinu" JÖRÐ.
Svo ég noti líkingu, þá erum við mennirnir í rauninni á fullri ferð með að bora gat á botninn á skipinu okkar, - kasta áttavitanum fyrir borð. Við ætlum sjálf að græja alla hluti, - við ætlum fyrst og fremst að fara okkar leið, og helst græða á öllu sem við komum við, græða á öllu sem við komumst yfir, hvaða afleiðingar sem það kann að hafa í för með sér.
* * *
Í þessu sambandi las ég um daginn í bók eftir Martin Lönnebo biskup. Þar notar hann nýtt nafn á manneskjur nútímans. Við þekkjum hugtakið homo sapiens, þ.e. hina viti bornu manneskju, en Lönnebo spyr hvort við séum að verða homo ekonomikus eða homo animalus. Manneskja sem leggur alla áhersluna á hið fjárhagslega, efnislega, jafnvel dýrslega.
Lengi hefur verið varað við því hvernig við förum með náttúruna, og ljóst er að við erum á góðri leið með að eyðileggja jörðina, lífríkið, lífsmöguleikana. Ég man að dr. Sigurbjörn Einarsson biskup sagði í ræðu fyrir margt löngu, að það mætti líkja ástandinu í heiminum á hinu vistfræðilega sviði við járnbrautarlest sem er á fleygiferð, það blikka rauð neyðarljós, það er mikil hætta á ferðum, en það virðist enginn kunna á bremsurnar.
Manneskjan er sköpun Guðs, hún er og ætti að vera það sem við gætum kallað homo spiritus, andleg, ábyrg, - einstaklingar sem leiða fram hin góðu gildi mannlífsins í auðmýkt, kærleika og gleði.
Okkur hafa verið gefnir vegvísar, áttavitar, sem gott er að fara eftir, vegvísar sem eru í fullu gildi.
Við kristið fólk trúum því og treystum að Guð hafi vitjað okkar mannanna í Jesú Kristi, eins og segir svo vel í guðspjalli dagsins: Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Þetta vers kunna margir, eitt af orðum ritningarinnar sem flest kristið fólk hefur lært utanbókar. - Jesús Kristur vísar veginn.
* * *
- Þegar Jóhann skírari stóð út í ánni Jórdan og skírði Jesú, þá "... sveif andi Guðs yfir vötnunum", og rödd af himni sagði: Þessi er minn elskaði sonur sem ég hefi velþóknun á.
Þegar ég og þú lágum umlukt vatni í móðurkvið, þá sveif andi Guðs yfir þeim vötnum til þess að gefa líf, - og þegar skírnarvatnið rann um höfuð okkar, þá var heilagur andi þar til að endurfæða, til að gefa líf, mennsku, von um eilíft líf. Þessi sami andi, sannleikans og kærleikans andi er hér í dag til þess að fylla okkur friði, til þess að hugga, til þess að fyrirgefa, upplýsa. Heilagt sakramenti er okkur gefið til þess að við fáum á sjáanlegan og áþreifanlegan hátt að meðtaka blessun himinsins. Hinn uppristni Kristur er í með og undir brauðinu og víninu.
"Maðurinn lifir ekki á einu saman brauði, heldur hverju því Orði sem fram gengur af Guðs munni", sagði Jesús við freistarann forðum, - m.ö.o. við deyjum af einu saman brauðinu. Hin heilnæma fæða að mati Jesú Krists er bland af hinu efnislega brauði, sem stendur fyrir allt sem við þurfum til að halda líkamanum við og hinu lifandi brauði, Orðinu, blessuninni, hinu andlega lífi.
Samkvæmt kristinni kenningu, þá erum við sköpuð til samfélags við Guð, við erum sköpuð í Guðs mynd til þess að hjálpast að í kærleika. Guðs heilaga orð varð hold á jörð til þess að gefa líf, andlegt líf. Guðs orðið, blessun himinsins á að holdgast í gjörðum okkar, verkum okkar, samskiptum okkar, en til þess þurfum við að vera tengd.
Við sem notum tölvur, vitum hvað það er nauðsynlegt að vera tengdur, dagurinn verður nánast ónýtur ef við höfum ekki nettenginguna í lagi.
Tengingin við Guð er okkur gefin í bæninni, Guðs orðinu, samfélagi kirkjunnar, í sakramentunum, í kærleiksþjónustunni við náungann. Við höfum greiðan aðgang að þessu öllu. Köllun kirkjunnar er sú sama í dag og í gær og um aldir, að taka á móti Guðs orðinu, blessuninni t.d. í heilagri messu, en fara svo út í veröldina til að þjóna í anda Krists, taka fullan þátt í þjóðfélaginu, ekki endilega til þess að það verði kirkjulegra, heldur fyrst og fremst manneskjulegra, sannara, réttlátara, friðsamlegra.
"... og andi Guðs sveif yfir vötnunum". Leyfum Heilögum anda Guðs að umlykja okkur á þessari hvítasunnu, já alla daga lífs okkar, þannig að við skiljum Orðið, sjáum skýrar, já sjáum í auknum mæli Krist í náunga okkar, í verkefnunum miklu og mörgu, sem þarf að takast á við og vinna í - mannkyninu og sköpunarverkinu til bjargar. Til þess hjálpi okkur góður Guð.
Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.