Guðspjall: Matt. 8. 1-13 Lexia: Hab . 3. 17-19 Pistill: Róm 12. 16-21
Jesús er nýbúinn að flytja sína frægu fjallræðu og er á leið niður fjallið þegar hann hittir holdsveikan mann sem segir við hann “Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig” Og Jesús snerti hann og sagði: Ég vil, verð þú hreinn. Og maðurinn varð heill af holdsveikinni.
Í guðspjalli dagsins segir enn fremur frá samskiptum Jesú við hundraðshöfðingja. Hundraðshöfðinginn réð yfir hundrað hermönnum í her Rómverja en þeir voru ekki beint hliðhollir kenningum Jesú frá Nazaret . Þessi hundraðshöfðingi kom samt sem áður til Jesú og sagði honum að sonur sinn lægi lamaður heima fyrir og hann væri áhyggjufullur út af því. Jesús sagði þá strax við hann: Ég kem og lækna hann. Þá sagði hundraðshöfðinn setningu sem lengi var höfð í minnum uns hún var skráð í letur af guðspjallamanninum Matteusi . “Herra, ég er ekki verður að þú gangir undir þak mitt, Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða” Þegar Jesús heyrði þetta þá sagði hann við þá sem á hlýddu.”Sannlega segi ég yður, hvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum i Ísrael. Síðan sagði hann við hundraðshöfðingjann: “Far þú, verði þér sem þú trúir”.
Það er sennilegt að holdsveiki maðurinn og hundraðshöfðinginn hafi hlýtt á málflutning Jesú er hann flutti fjallræðu sína með þeim árangri að orð hans hafi verið sem næring fyrir flöktandi loga trúarinnar sem brann nú sem aldrei fyrr í hjörtum þeirra. Fyrir vikið öðluðust þeir djörfung til að stíga fram og ávarpa Jesú þegar hann átti leið hjá. Gagnteknir af því sem þeir höfðu heyrt og ef til vill einnig séð með eigin augum þá stigu þeir fram á sjónarsviðið.
Holdsveiki maðurinn þurfti vafalaust meira en lítinn kjark til þess því að holdsveikir einstaklingar á þessum tímum voru útskúfaðir úr mannlegu samfélagi og máttu alls ekki umgangast heilbrigt fólk til þess að þeir smituðu það ekki. Þannig hefur holdsveiki maðurinn mátt búa við algjöra einsemd og ævarandi viðskilnað við ættingja en þessi sjúkdómur var dauðadómur á þessum tímum. Þrátt fyrir það bar þessi veiki maður þá von í brjósti að lækning væri ekki óhugsandi og að hann gæti snúið aftur til fjölskyldu sinnar. Hann fór því út á meðal fólks þótt hann mætti það í raun og veru ekki og reyndi sem mest hann gat að ná fundi meistarans frá Nazaret sem að sögn læknaði sjúka.
Hundraðshöfðinginn hins vegar átti mikið undir sér, hann stjórnaði heilli herdeild, vafði hermönnunum um fingur sér þegar því var að skipta en hann átti einnig fjölskyldu sem honum þótti vænt um og var umhugað um. Hann átti veikan son sem var lamaður og lækning var ekki fyrirsjáanleg.
Hundraðshöfðinginn og holdsveiki maðurinn heyrðu hvernig Jesús talaði um guðsríkið svokallaða þar sem hann tók einföld dæmi úr daglegu lífi þeirra með þeim hætti að þeir gerðu sér betur og betur grein fyrir því að guðsríkið var ekki fjarlægt heldur nálægt, eitthvað sem stór hjörtum þeirra nær en þeir hugðu. Þeir afréðu því að opna hjörtu sín fyrir áhrifum þessa einfalda boðskapar um kærleikann sem birtist sem holdgervingur í Jesú frá Nazaret . Þessi maður, Jesús frá Nazaret var kærleikurinn sjálfur, holdi klæddur. Þeir gengu því fram með einlægum hjörtum í öruggu trúartrausti. Þeir vissu að þeir þörfnuðust hjálpar Jesú og gengu því á fund hans. Þeir sáu ekki eftir því og bundust honum tryggðaböndum upp frá því.
Síðasta öld var öld vísinda og framfara á öllum sviðum. Það er stutt síðan við Íslendingar komum út úr moldarkofunum og byggðum mannsæmandi mannabústaði. Eitt hundrað ár eru um þessar mundir liðin frá því að rafvæðingin hófst á Íslandi en í Hafnarfirði voru fyrstu ljósaperurnar tendraðar í þrettán húsum.. Þá gátu menn leigt sér ljósaperu og fært þær til í ljósastæðum eftir því hvar dvalið var í húsunum. Rafmagnseldavélar og ísskápar urðu almenningseign fljótlega eftir seinni heimsstyrjöldina og fljótlega komu frystikisturnar. Um síðustu helgi las ég viðtal við evrópska konu sem hingað kom sem skiptinemi minnir mig laust eftir miðja síðustu öld og hún var þá alveg undrandi yfir bílaeign landsmanna, yfir öllum amerísku drossíunum sem óku um göturnar og hún var alveg forviða yfir öllum rafmagnseldavélunum og ísskápunum sem voru til á heimilum fólks í höfuðborginni. Hún sagði að Íslendingar stæðu framar flestum evrópubúum að þessu leyti á þessum tíma. Við vitum nú að sennilega hefðum við enn verið í moldarkofunum á þessum tíma ef hin svo kallaða Marshall hjálp frá Bandaríkjamönnum hefði ekki komið til að afloknu seinna heimsstríði. Á hinn bóginn erum við Íslendingar þekktir fyrir það að setja heimsmet á sem flestum sviðum miðað við höfðatölu.
Þessi öld sem nú er nýhafin verður öld líftækninnar og gervigreindarinnar. Japanir eru búnir að þróa draumavélina sem senn verður sett á markað. Hún mun geta stjórnað draumförum manna. Þá verður gaman að lifa segja sumir. Kindin Dollý var klónuð eins og frægt er orðið en mér skilst þó að hún hafi ekki lifað mörg mannsár, blessunin. Síðan er vafalaust búið að klóna fleiri dýrategundir, jafnvel af kynkvísl Búkollu. Þá hafa ýmsar jurtategundir verið klónaðar undir því yfirskyni að hægt verði með þessum hætti að brauðfæða mannkynið á auðveldari hátt en áður. Það er gott og blessað ef unnt verður að finna út nýjar leiðir til að brauðfæða mannkynið, einkum þá sem hungrið sverfur að. En út yfir allan þjófabálk tekur þegar mennirnir telja sig geta tekið fram fyrir hendurnar á skaparanum og klónað aðra manneskju m.a. undir því yfirskyni að nýta úr henni líffærin til að bjarga þeim sem þurfa á nýjum líffærum að halda. Ég vona að klónun manneskjunnar verði bönnuð með lögum alls staðar því að hún brýtur gegn öllum viðteknum siðareglum og ekki síst kenningum kirkjunnar um Guð, föður skaparann. Nú um langt skeið hafa mennirnir haldið því fram að þeir geti staðið á eigin fótum og látið sem Kristur sé ekki til. En í ljósi þessara atburða tel ég að mennirnir séu orðnir svo afvegaleiddir að þeir þurfi að snúa við, til Krists og hlusta á hann því að hann lifir mitt á meðal okkar enn í dag þrátt fyrir að við látum stundum sem hann sé ekki til.
Við skulum styðja við bakið á líftækniiðnaðinum sem með leitast við með hátæknirannsóknum sínum að uppgötva tilurð alvarlegra sjúkdóma og búa til lyf við þeim. Við skulum frekar styðja við bakið á þeim sem senda ómönnuð geimför til reikistjörnunnar Mars til að rannsaka yfirborð hennar
Trúin á vísindi og framfarir á sviðum líftækni og gervigreindar er nauðsyn því að annars verður stöðnun á framvindu þekkingarinnar. Ef til vill er unnt að útskýra flest í framfarasögu mannkyns. En þessi trú kemur alls ekki í stað trúar þeirrar sem postularnir báðu Jesú um.
Sú trú kemur frá himnaföðurnum sem gjöf. Aldrei verður skýrt hvað gerist þegar Kristur glæðir trúarneistann sem áður blundaði með holdsveika manninum eða hundraðshöfðingjanum eða okkur nú á 21. öldinni.
Kemur trúin til okkar eða við til hennar? Slíkar hugsanir sækja oft á. Við vitum ekki hvort sólin fær blómið til þess að opna krónu sína eða blómið opnar sig fyrir sólinni eins og vitur maður orðaði það. Enda skiptir það litlu máli. Þannig er einnig með trúna. Aðalatriðið er að hún aukist og eflist svo að við séum hæf til þess að mæta hverju því sem dagurinn kann að færa okkur. Hún eykst ekki eftir því sem við byggjum glæsilegri kirkjur og safnaðarheimili í stærri upphæðum. Trúin verður ekki mæld í krónum. Trúin eykst eftir því sem við færumst nær Jesú líkt og holdsveiki maðurinn og hundraðshöfðinginn gerðu samkvæmt guðspjalli dagsins. Hún eykst eftir því sem við leggjum okkur meira fram um að heyra rödd Krists í síbylju ljósvakamiðlanna. Þar sem hann fyrir okkar munn, kristinna manna, talar um réttlæti í garð sjúkra og aðstandenda á niðurskurðartímum hjá Landsspítala Háskólasjúkrahúsi. En ef að líkum lætur þá mun þjónustan í garð sjúklinga minnka eftir því sem líður á þetta nýbyrjaða ár, einkum á sviði endurhæfingarinnar. Þegar upp verður staðið verður sparnaðurinn lítill því að sjúklingarnir þurfa á aukinni þjónustu að halda þegar líða tekur á aðhaldstímabilið.
“Herra, ég er ekki verður að þú gangir undir þak mitt”, sagði hundraðshöfðinginn. Vissulega getum við tekið undir þessi orð hans en Jesús lítur öðrum augum á mennina en við. Hann spyr ekki um neina ferilskrá. Hann lítur á hjörtu mannanna. Í fæstum tilfellum eru þau svo steinrunnin að hann geti ekki snert við þeim með afgerandi hætti. Heimilin okkar eiga að vera yndislegir griðastaðir fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Börnin okkar eiga rétt á því að finna sig örugg innan veggja heimilanna í landinu. Við eigum að vinna sameiginlega að því með Jesú Kristi að svo geti verið og taka fast og ákveðið á málum þeirra sem vinna börnum mein andlega sem líkamlega. Hvenær sem borðbæn er höfð yfir á heimilinu þar hefur einn matargestur bæst í hópinn. Hvenær sem skilningarvitunum er beint í austur, þangað sem sólin rennur upp, þá rennur Kristur upp fyrir ásjónum okkar og samgleðst þeim sem gleðjast og sýnir samhug sinn í orði og verki þegar harmar sækja að.
Einn er sá griðastaður þar sem návist Krists er hvað sterkust en það kirkjan þín. Kirkjan þin er þessi bygging sem frátekin fyrir Drottinn og allt sem heyrir honum til. Hér upplifum við í senn yndislegar stundir en einnig sorglegar. Hér er sú kennd hvað sterkust að það sé vakað yfir okkur, yfir og allt um kring, eins og segir í bænarorðunum sem við þekkjum. Hér tengjumst við Jesú Kristi tryggðaböndum sem gerði holdsveika manninn heilan og læknaði son hundraðshöfðingjans. Í dag veitir frelsarinn sínum líknandi og læknandi mætti til okkar í því skyni að gera okkur heilbrigð. Við styrkjum þetta samband okkar við hann eftir því sem við komum oftar í kirkju og leggjum okkur fram eftir því að hlusta á orðin hans og leitumst við að stefna eftir þeim í tímans straumi. Megi Guð gefa að þessi bönd megi aldrei rofna. Amen.