Ég ætla að bjóða ykkur í veislu hér í dag. Það er fátt skemmtilegra en að vera boðinn í veislu. Veislur eru hátíðir, þær eru eitthvað sem við gerum til að brjóta upp hversdagsleikann, og í veislum söfnum við í kringum okkur því fólki sem við viljum helst umgangast. Fyrir flest okkar er það fólkið okkar. Fjölskylda og vinir, fólk sem okkur þykir vænt um. Fólkið sem okkur finnst skemmtilegast að vera nálægt, fólkið sem þekkir okkur best, fólkið sem kann að meta okkur. Það er fólkið á gestalistanum. Sumar veislur eru öðruvísi. T.d. VIP partýin sem voru vinsæl hér á árunum fyrir hrun. Þá leit gestalistinn öðruvísi út. Þá var það fræga og fallega fólkið sem komst á gestalistann, eins og Ingó Veðurguð söng um, þar sem hann taldi upp öll frægu nöfnin sem voru á gestalistanum hans. Og það þótti að sjálfsögðu ekkert smá eftirsóknarvert að vera á gestalistanum í flottustu partýunum. Og þeir sem héldu partýin, oft einhver fyrirtæki, sóttust eftir því að sem flestir af ,,stóru nöfnunum” mættu í partý hjá þeim.
Jesú er boðið í veislu. Og í veislum gyðinga á þessum tíma var mjög ákveðið kerfi á því hverjir sætu hvar. Sætið á hægri hönd gestgjafanum var æðsta heiðurssætið, og því nær sem maður sat gestgjafanum, því meiri heiður var manni sýndur. Og að sjálfsögðu var gestalisti. Í þessu tilfelli var Jesús aðal ,,nafnið” á gestalistanum. Allir vildu heyra hvað hann hafði að segja, sumir örugglega af forvitni, aðrir vegna þess að þeir vildu finna höggstað á honum. Og Jesús hafði margt að segja. Fyrst læknaði hann mann, og ögraði þar með öllum viðurkenndum hefðum, því að það var bannað að gera nokkurn skapaðan hlut á hvíldardegi. Maturinn í veislunni hafði meira að segja verið eldaður daginn áður! Svo fór hann að fylgjast með því hvernig gestirnir röðuðu sér til borðs. Og í þessu samfélagi þurfti ekkert að merkja sérstaklega hver átti að sitja hvar, því að allir þekktu sinn stað, allir áttu sinn stað í virðingarröðinni. Það versta sem gat gerst, ef maður var sestur í eitthvað ákveðið sæti, var ef einhver kom sem var ofar í virðingarröðinni, og maður þurfti að gefa eftir sætið sitt. Því að þá var hættan sú að ekkert sæti væri eftir nema allra lengst frá háborðinu.
Það virðist vera okkur mönnunum eðlislægt að raða okkur í ákveðna virðingarröð. Sú röð getur farið eftir ýmsu. T.d. efnahag, menntun, litarhætti, titlum, jafnvel útliti og vaxtarlagi. Vinur minn einn sagði mér frá námskeiði sem hann fór á hjá sálfræðingi nokkrum. Þar voru þátttakendur látnir gera ýmis konar samskiptaæfingar, og m.a. var æfing, þar sem fólk var beðið að raða sér í röð eftir því hvar þeim fannst þau eiga heima í röðinni, fremst eða aftast. Upphófst nú mikið havarí, kapphlaup og jafnvel stympingar, og fólk lagði mismikið á sig til að komast á ,,sinn stað” í röðinni. Sumir nenntu þessu ekki og settu sig strax aftarlega í röðina, um miðbikið var ákveðin ringulreið og nokkrir framarlega ætluðu bara alls ekki að gefa sinn stað eftir fremst í röðinni. Hvar í röðinni heldurðu að þú yrðir?
Ég man líka eftir tilraun sem var gerð í vinsælum sjónvarpsþáttum, sem gengu út á það að hjálpa konum að verða sáttar við líkama sinn. Nokkrum konum var raðað í röð eftir vexti og holdafari. Konan sem var í aðalhlutverki í þættinum var síðan látin meta það hvar hún væri í röðinni, miðað við hinar konurnar. Undantekningarlaust staðsetti konan sig í feitari enda raðarinnar, og yfirleitt taldi hún sig vera feitari og stærri en hún raunverulega var miðað við hinar konurnar. Hvar heldurðu að þú yrðir í þessari röð?
Það hvar við röðum okkur í virðingarröðinni, sama hvernig hún birtist, snýst um sjálfsmynd. Það hvernig við sjáum og skynjum okkur sjálf. Og mjög oft er þessi sjálfsmynd brengluð. Við erum sennilega mörg eins og konurnar sem töldu sig vera feitari en þær eru í raun og veru. Við vanmetum okkur sjálf. Lítum smáum augum á okkur, og gerum fæst ráð fyrir því að komast á gestalista fræga og fallega fólksins. En svo er reyndar líka til fólk sem lítur of stórt á sig. Sem vill troða sér framar í röðinni en það á í raun og veru heima. Fólk sem sækist eftir virðingarstöðu án þess að eiga inni fyrir henni. Kannski erum við líka mörg þannig. Við viljum svo gjarnan fá að vera á gestalistanum. Fá að sitja við háborðið. Njóta virðingar og upphefðar.
Og Jesús virðist líta á það sem sjálfsagðan hlut. Hann hvetur veislugestina ekkert til að breyta uppröðuninni. En hann minnir á að við þurfum að vera auðmjúk þegar kemur að því að bera okkur saman við aðrar manneskjur. Það er fátt verra en að gera tilkall til upphefðar og virðingar sem enginn annar virðist vera tilbúinn að gefa manni. Aftur á móti getur það verið þægileg tilfinning að njóta upphefðar sem maður átti ekki von á.
Ég sagði áðan að ég ætlaði að bjóða ykkur til veislu. Það er nefnilega þannig að messan er veisla. Og ég vil halda því fram að messan sé miklu líkari fjölskylduboði heldur en VIP partýi. Því að í messunni ertu umkringd fólkinu þínu. Fjölskyldunni þinni. Þeim sem standa þér næst. Og þeim sem elska þig og virða þig eins og þú ert. Auðvitað er það þannig í öllum fjölskyldum að einhverjir ættingjarnir eru leiðinlegir, jafnvel óþolandi. En þeir tilheyra samt fjölskyldunni og þú tilheyrir henni líka.
Í kirkjunni gildir ekki gestalisti upphefðar og goggunarraðar. Í kirkjunni gildir ekki gestalisti VIP partýsins. Og við altarið, sem við ætlum að safnast saman við á eftir, er ekkert háborð. Og eina heiðurssætið er Jesús Kristur sem situr við hægri hönd Guðs, eins og við segjum í trúarjátningunni. Því að í altarisgöngunni sitjum við öll við sama borð. Þar komum við saman, þvert á alla virðingarröð, þvert á kyn, aldur, litarhátt, útlit, vaxtarlag eða hvað annað sem við notum í daglega lífinu til að draga fólk í dilka. Í altarisgöngunni verðum við ein fjölskylda. Fjölskylda sem nýtur þess að koma saman, borða saman, gleðjast saman. Í altarisgöngunni mætir Guð okkur, alveg sama hvar við erum í goggunarröðinni. Alveg sama hvað okkur finnst um okkur sjálf. Því að í hans augum erum við fullkomin.
Dýrð sé Guði, sem leyfir okkur að vera börnin hans.