– kirkjan og baráttan fyrir jafnrétti kynjanna
8. mars er ár hvert helgaður konum út um allan heim og réttindum þeirra. Í rúmlega hundrað ár hafa stofnanir, félagasamtök og kirkjur notað þennan dag til þess að draga athyglina að framlagi kvenna til samfélagsins og varpa ljósi á þætti sem hindra fullt jafnrétti kynjanna á ólíkum sviðum. Í ár er yfirskrift alþjóðlegs baráttudags kvenna Jafn réttur, jöfn tækifæri, jafnar framfarir.
Gef oss í dag vort daglegt brauð
Hvað þýðir þessi yfirskrift í samhengi kirkjunnar og stöðu kvenna? Á vettvangi Lútherska heimssambandsins er í ár unnið með bænina Gef oss í dag vort daglegt brauð, sem verður þema heimsþingsins í Þýskalandi í júlí næstkomandi. Daglegt brauð vísar til nærandi og lífgefandi þátta sem er öllum mönnum nauðsynlegir, á líkamlegu sem andlegu sviði. Bænin sem Jesús kenndi okkur minnir á að þessi gæði eru öllum ætluð, körlum sem konum. Við erum líka minnt á að enn skortir mikið upp á að konur og karlar njóti sömu gæða, í kirkjunni sem í samfélaginu almennt.
Í samhengi kirkjunnar sjáum við að í mörgum löndum eru raddir og lífsreynsla kvenna ekki tekin alvarlega og ekki kallað eftir þjónustu þeirra og leiðsögn. Þess konar iðkan er ögrað af skilningi biblíunnar á leiðtogahlutverkinu og prestsdómi trúaðra. Ef daglegt brauð stendur ekki öllum til boða, heldur bara sumum, líður trúverðugleiki, þjónusta og boðun kirkjunnar.
Lútherska heimssambandið
Í sögu Lútherska heimssambandsins hefur margt breyst hvað þetta varðar. Þegar sambandið var stofnað í Lundi í Svíþjóð árið 1947, voru konur aðeins 3% af þátttakendum á þinginu. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og markvisst samtal farið fram um hlutverk kvenna í þjónustu kirkjunnar á sóknar-, svæðis- og landsvísu. Árangurinn af því má meðal annars sjá að hlutur kvenna í stjórnum og ráðum Lútherska heimssambandsins hefur breyst og batnað á þeim tíma sem liðinn er.
Í dag samþykkja um 75% af þeim 140 kirkjum sem tilheyra Lútherska heimssambandinu prestsvígslu kvenna. Í þessum kirkjum þjóna konur sem leiðtogar og á heimsþinginu í ár verður helmingur þátttakenda konur. Staða kynjanna er vitaskuld ekki bara mál sem snertir konur einar – staða kvenna í kirkjunni snertir skilning okkar á því hvað það er að vera kirkja sem boðar og þjónar.
Enn höfum við ekki gert það sem í okkar valdi stendur þannig að jafn réttur, jöfn tækifæri og jafnar framfarir náist. Þannig stendur baráttann ennþá yfir, í okkar eigin kirkju og systurkirkna sem við eigum samfélag við. Kirkjan er samfélag í trú og þjónustu og í því samhengi biðjum við um daglegt brauð sem nærir líkama og sál og stendur öllum til boða. Sem slíkt samfélag berum við jafnri stöðu karla og kvenna vitni, í samhengi viðræðna kirkjudeilda og trúarbragða.
Boðandi og þjónandi samfélag beinir athygli sinni að þörfum manneskjunnar hvar sem hún er. Nokkur þeirra verkefna sem Lútherska heimssambandið vinnur að einmitt núna snúa að uppsetningu sólarrafhlaðna í Máritaníu, örlánum til kvenna í Bólivíu, fræðslu um umskurn kvenna í Tansaníu og baráttu gegn mansali í Evrópu.
Daglegt brauð handa öllum
Kirkjan vinnur að daglegu brauði handa öllum með því að vera samfélag sem boðar og þjónar. Kirkjan boðar með því að ögra fordómum, hefðum og kerfum sem hindra konur í því að standa jafnfætis körlum í kirkju og samfélagi. Kirkjan þjónar með því að að vera þar sem minnstu systur og bræður Krists eru og mæta líkamlegum, félagslegum og andlegum þörfum þeirra. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna minnir kirkjuna okkar á að enn skortir á að allir eigi daglegt brauð.