Berum höfuðið hátt

Berum höfuðið hátt

Það er sem sé mjög mikilvægt að átta sig á því að opinberunartextana sem tala um hinstu tíma má alls ekki skilja bókstaflegum skilningi heldur tilheyra þeir einfaldlega ákveðinni frásagnar- og boðunarhefð sem þótt vel til þess fallin að leggja áherslu á vonina um grundvallarbreytingar í mannlegu samfélagi og notaði til þess dramatískar myndir af heimsslitum, endalokum þessa tíma og upphafi nýrrar aldar, í samræmi við heimsmynd þess tíma og trú manna almennt varðandi það hvað gæti mögulega gerst þegar hið guðlega var annars vegar.
Mynd

Lexía: Jes 11.1-9; Pistill: Róm 15.4-7, 13; Guðspjall: Lúk 21.25-33

Í ritningartextum dagsins ríkir mikil eftirvænting. Jesaja spámaður sér fyrir sér fæðingu frelsara sem muni líkt og ný og fersk grein spretta af trjástubbi. Við höfum öll séð þegar örmjóar og veiklulegar greinar, enn þá grænar, skjótast upp af rótum trés sem höggvið hefur verið niður. Hinn forni málsháttur „mjór er mikils vísir“ lýsir engu eins vel og einmitt slíkum greinum enda merkir „vísir“ hér frjóangi eða spíra.  Tilkoma frelsarans, sem Jesaja sér fyrir sér, mun hafa réttlæti og frið í för með sér, ekki aðeins í samfélagi manna heldur í sköpuninni allri, einnig á innbyrðis á milli dýrategunda og á milli manna og dýra.

Þessi veruleiki er vitanlega draumsýn sem er fullkomlega óraunsæ: þar verður svart hvítt og hinir síðustu verða fyrstir, þeir, sem minna mega sín, upplifa réttlæti sér til handa, þar sem ljónið mun bíta gras eins og nautið og barn, sem enn er á brjósti, getur óhætt leikið sér við holu snáksins. Í þessum heimi gerir enginn illt og enginn veldur skaða og lífinu er ekki ógnað á nokkurn hátt.

Myndirnar af friðsamlegu samfélagi rándýra og náttúrulegri bráð þeirra eru sérlega áhrifamiklar enda er þeim ætlað að undirstrika hinn algjöra umsnúning á eðli og skipulagi hlutanna eftir að tíð frelsarans gengur í garð. Um leið eru þær táknræn mynd fyrir mannlegt samfélag þar sem sumir vaða uppi eins og organdi ljón og valdaójafnvægi veldur því að einn er í hlutverki rándýrsins en annar í hlutverki bráðarinnar – í yfirfærðri merkingu.  Og eftirvænting spámannsins eftir þessari dýrðartíð er mikil því að væntanlega hafa hinar sögulegu aðstæður, sem urðu kveikjan að textanum, einkennst af hinu gagnstæða í mannlegu samfélagi, ranglæti, ójöfnuði og fátækt. Vonin um friðsamlegt jafnvægi í náttúrunni er þó ekki aðeins táknræns eðlis heldur í hæsta máta bókstafleg því að í náttúrunni hafa vitanlega á öllum tímum verið fólgnar lífsógnandi hættur, hvort sem á formi villidýra eða náttúruhamfara. Í spádómi Jesaja felst því von eftir skjóli fyrir öllu sem ógnar lífsöryggi og afkomu.

Tímarnir hafa breyst mikið síðan texti Jesajabókar var settur niður á bókstranga fyrir kannski 2500 árum en þó mest á síðast liðinni öld. Það sem við köllum nútíma með allri sinni tækni og vísindum og bjargráðum til þess að takast á við óblíð náttúröfl og sjúkdóma er í raun spánýr veruleiki í samhengi veraldarsögunnar, í raun aðeins nýsprottinn kvistur á gömlum stofni. Í dag bíðum við, sem búum í hæfilegri fjarlægð, í eftirvæntingu eftir gosi í Grímsvötnum eins og um skemmtidagskrá sé að ræða en forfeður okkar og -mæður fyrr á öldum hefðu beðið með öndina í hálsinum og kvíðahnút í maganum og það að gefnu tilefni. Skaftáreldar eru stærsta gos á sögulegum tíma, sem rekja má til eldstöðvarinnar í Grímsvötnum, og þeir ógnuðu ekki aðeins lífi og afkomu Íslendinga um gjörvallt land heldur er talið að þeir hafi valdið uppskerubresti um gjörvalla Evrópu vegna móðunnar, þ.e.a.s. hinnar fíngerðu gjósku sem dreifðist upp í lofthjúpinn og hindraði að sólarljósið næði til jarðar. Uppskerubresturinn kveikti síðan samfélagslegan óróa sem að lokum leiddi til frönsku byltingarinnar meðal annars.

Það gerði áhrif móðuharðindanna enn verri en ella hefði verið, að „undanfarandi vetur höfðu verið kaldir og snjóþungir norðanlands“ (Gunnar Karlsson, „Hvaða áhrif höfðu Skaftáreldar á Ísland og íslenskt samfélag?“ Vísindavefurinn, 7. febrúar 2013) og því lítið hey afgangs. Sumarið eftir gosið heyjaðist lítið vegna móðunnar og sums staðar voru hey eitruð af gosösku og þar að auki lá hafís við allt Norðurland svo ekki var hægt að róa til fiskjar. Það má því segja að landið hafi verið á heljarþröm.

Það er einhvers konar viðlíka ástand sem lýst er í guðspjallinu, ástand þar sem „tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum“ og þjóðirnar eru angistarfullar og ráðalausar „við dunur hafs og brimgnýs.“ Textinn er undir áhrifum þeirrar bókmenntahefðar í gyðingdómi og kristni sem kallast opinberunarbókmenntir en Daníelsbók og Opinberunarbók Jóhannesar eru líklega þekktustu rit þeirrar tegundar. Slík rit eiga það sammerkt að spretta úr kreppu eða þrengingum, sem höfundarnir upplifa á sinni tíð, og sem þeir vísa til eins og væri um spádóm að ræða sem guðlegur sendiboði hefur opinberað höfundi eða sögumanni. Þetta stílbragð gerir höfundinum kleift að leggja hinum guðlega sendiboða uppörvunar- eða huggunarboðskap í munn sem kveður á um að brátt muni veður skipast í lofti, hið gamla, þrengingarnar, muni líða undir lok og eitthvað nýtt muni taka við, nýr veruleiki laus við allt það sem íþyngdi og kvaldi áður. Þetta er í raun aðaltilgangur þessa bókmenntaforms og að þessu leyti til hafa því guðspjallstextinn úr Lúkasi og Jesajatextinn svipaðan tilgang enda byggir opinberunarhefðin á slíkum spámannlegum textum. Líkt og Jesaja sér Lúkas fyrir sér að Guðs ríki sé í nánd, sem hann tengir við Mannssoninn, sem er Jesús sjálfur; þess vegna er hann enda sjálfur þess umkominn að opinbera lærisveinum sínum það sem verða mun í frásögn Lúkasar. Þar með fær líka vonarboðskapur hans aukið vægi, boðskapur hans um að mótlætið og erfiðleikarnir sem við upplifum séu eins og tákn um vetrarlok, þegar trén byrja að bruma, og þá vitum við að sumarið er í nánd. Með öðrum orðum: öll él styttir upp um síðir. Einhvern tíma linnir hríðinni og sólin fer að skína aftur.

Það er ekki tilviljun að ritningartextarnir fyrstu sunnudaga kirkjuársins, sunnudagana fyrir jól, eru allir slíkir uppörvunartextar sem vilja vekja von og skapa eftirvæntingu eftir einhverju betra eða eins og Páll ritar í pistlinum: „Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa.“

Á aðventunni og jólunum er náttúran hér á norðurhveli jarðar eins og í hlutverki táknræns leiksviðs fyrir helgileikinn sem ritningartextarnir og helgihald kirkjunnar setur á svið: með hverjum deginum verða sólarstundirnar styttri þar til daginn tekur að lengja á ný eftir vetrarsólstöður 21. desember og textarnir vekja eftirvæntingu um hin dýrðlegu umskipti um leið og þeir bregða upp mynd af alls kyns aðstæðum sem kunna að valda ótta og kvíða. Þegar sólin tekur að hækka á lofti er hins vegar eins og sólin kalli til okkar: Sjáið! Það er alveg að fara að gerast; Frelsarinn er að fara að fæðast. Fæðingarhríðirnar eru hafnar. Og það vill svo til að bæði í Markúsar- og Matteusarguðspjalli kallar Jesú tímann fyrir komu Mannssonarins einmitt upphaf fæðingarhríðanna, þ.e.a.s. fæðingarhríða nýs tíma.

Þrengingar og erfiðleikar eru óhjákvæmilegur fylgifiskur jarðlífsins en þegar við skoðum mannkynssöguna þá sjáum við að krísur reynast líka oft vera upphafið að einhverju nýju og betra. Kreppan sem varð kveikjan að spásögn Lúkasar guðspjallamanns var svo alvarleg og þungbær að í hans huga var endurkoma Krists og koma Guðs ríkisins eina raunhæfa lausnin, svo einkennilega sem það hljómar. Það sem hafði gerst var í fyrsta lagi það að Kristur hafði verið krossfestur nokkrum áratugum fyrr og fylgjendur Krists mættu miklu mótlæti bæði innan rómversks og gyðinglegs samfélags.

En það sem gerir útslagið og veldur því að Lúkas – og reyndar Markús og Matteus einnig – ályktar sem svo að nú séu fæðingarhríðir nýrrar aldar hafnar, var það að Rómverski herinn hafði, að loknu stríði, sem staðið hafði í fjögur ár, lagt Jerúsalem í rúst og jafnað musteri Heródesar við jörðu. Við þessar aðstæður er sú hugmynd útilokuð í huga Lúkasar að kristin trú, hvort sem er sem hluti að gyðingdómi eða ekki, eigi  sér einhverja framtíð í heimi sem er undir ægivaldi hins rómverska heimsveldis. Þvert á móti er einhvers konar nýtt heimstímabil og ný sköpun nærtækasta lausnin í huga Lúkasar en sú hugmynd var reyndar almenn í hinum forna heimi að veraldarsagan gengi í ákveðnum tímabilum sem væru jafnvel fyrirfram ákveðin af forlögunum.

En sagan átti eftir að leiða í ljós að það þurfti ekki heimsslit til þess að rétta hag hinna kristnu safnaða; Lúkas hefði vart trúað því ef honum hefði verið sagt að innan 300 ára yrði kristni orðin ríkistrú í Róm. Þótt heimurinn væri sá sami þá voru tímarnir nýir og vissulega betri fyrir kristna kirkju. En það var ekki tilviljun heldur að hluta til afleiðing af trú og siðum, hegðun og lífsmáta hinna kristnu safnaða í Róm. Því að þrátt fyrir mótlæti og á stundum ofsóknir yfirvalda, þá óx kristnu söfnuðunum stöðugt fiskur um hrygg á fyrstu öldum okkar tímatals. Félagsfræðingurinn Rodney Stark og fleiri fræðimenn hafa gert því skóna að samstaðan og samhygðin, sem rómverskir borgarar urðu vitni að hjá kristnu söfnuðunum, hafi laðað marga að hinum nýju trúarbrögðum. Það hafi ekki síst verið raunin á tímum þegar farsóttir geysuðu og heimildir eru til um að kristnir hafi hjúkrað nágrönnum sínum í slíkum aðstæðum í samræmi við boðið um náungakærleikann, óháð því hvort viðkomandi voru sjálfir kristnir eða ekki. Þetta var í augum margra Rómverja bæði eftirtektarvert og aðdáunarvert – og eftirsóknarvert.

Það er sem sé mjög mikilvægt að átta sig á því að opinberunartextana sem tala um hinstu tíma má alls ekki skilja bókstaflegum skilningi heldur tilheyra þeir einfaldlega ákveðinni frásagnar- og boðunarhefð sem þótt vel til þess fallin að leggja áherslu á vonina um grundvallarbreytingar í mannlegu samfélagi og notaði til þess dramatískar myndir af heimsslitum, endalokum þessa tíma og upphafi nýrrar aldar, í samræmi við heimsmynd þess tíma og trú manna almennt varðandi það hvað gæti mögulega gerst þegar hið guðlega var annars vegar. Söfnuði Lúkasar né öðrum kristnum söfnuðum datt í hug að hætta að lifa lífinu og bíða eftir endalokum heimsins þó svo að stílbragð opinberunarhefðarinnar setti mark sitt á helgirit þeirra. Þvert á móti gerðu þeir sér far um, sem aldrei fyrr, að lifa lífi sem væri Guði þóknanlegt, lífi sem einkenndist af réttlæti og náungakærleika, í samræmi við grundvallarboðskap hinna helgu texta og megintilgang og eiginlegt markmið opinberunartextanna, sem er að uppörva og glæða vonina og hvetja fólk til þess að halda á lofti merki réttlætisins og kærleikans í mótdrægum aðstæðum, verandi fullviss um að ef við stöndum staðföst í réttlætinu og kærleikanum, þá muni lífið ávallt sigra að lokum.

Þetta er einmitt sá lærdómur sem við þurfum að draga af vitnisburði trúarinnar um kærleika Guðs og mátt lífsins og við þurfum að treysta því að í þeim verkefnum, sem við sem mannkyn stöndum frammi fyrir, muni allt með Guðs hjálp verka til góðs. En þá þurfum við líka að fylgja fordæmi frumkirkjunnar og ganga fram í réttlæti og kærleika, ekki bara gagnvart meðbræðrum okkar og -systrum heldur ekki síður náttúrunni sem Frans páfi hefur réttilega bent á að sé einnig „náungi“ okkar. Tökum því orð guðspjallsins til okkar og réttum úr okkur og berum höfuðið hátt og treystum því að okkur takist ávallt að finna tímabæra lausn á þeim vanda sem að steðjar.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Mynd: Hinn hinsti dómur e. Jean Cousin, 1585.