Þegar rölt er um Vesturbæinn mega ferðalangar eiga von á að ganga fram á barnahóp sem safnar fyrir bágstadda í Úkraínu. Fyrir fáum mánuðum hefði það þótt harla undarlegt uppátæki en nú veit hvert mannsbarn af hörmungunum sem dynja á íbúum þess lands. Börnin fylgjast með fréttunum og þau leggja sitt af mörkum til að draga úr þjáningum.
Þrengingar kalla fram leiðtoga
Ráðamenn á Vesturlöndum eiga ekki mörg betri ráð. Kunnugir segja að vart megi finna dæmi þess í seinni tíð að efnahagsaðgerðir eins og þær sem er gripið til, skili þeim árangri að fá ofbeldismenn til að slíðra sverðin. Apartheit í S-Afríku er líklega undantekningin frá reglunni í þeim efnum. Annars staðar má reikna með því að valdhafar eigi nægar birgðir til að geta lifað í vellystingum á meðan almenningur finnur fyrir afleiðingum aðgerða á eigin skinni. Í samfélögum sem eru undir oki einræðis hefur fólkið sáralítið að segja um það hverjir stjórna og hvernig.
Eitt er það sem einkennir átakatíma og þrengingar. Slíkir dagar geta dregið fram leiðtoga. Hugleiðum nöfn þessara stóru einstaklinga sögunnar sem veittu forystu og koma upp í hugann. Risu þau upp á tímum velsældar og öryggis? Nei, því var einmitt þveröfugt farið. Tilefni friðsamlegra mótmæla manna á borð við Martin Luthers King og Mahatma Gandhi var skelfilegt misrétti og kúgun.
Á tímum kalda stríðsins þekkti hvert mannsbarn nöfn þjóðarleiðtoga heimsins enda var þar tekist á um grundvallarþætti í mannlegu samfélagi og meiri hagsmuni en dæmi eru um í mannkynssögunni. Þeir hittust reglulega og leituðu leiða til að koma í veg fyrir kjarnorkustríð. Já og við fylgdumst grannt með samningaviðræðum.
Stundum koma þessir leiðtogar úr óvenjulegum áttum. Margir litu svo á að framboð Zelenskýs sem hálfgert grín á sínum tíma en nú berst hann af með lífi sínu fyrir frelsi og tilvist þjóðar. Já, átökin draga fram leiðtogann og þessi fyrrum skemmtikraftur er nú andlit mannúðar og hugrekkis andspænis ógninni.
Flestir gera ekki neitt
Það er þó fjarri því sjálfgefið að ófriðartímar kalli fram slíka einstakilnga. Ég hugsa ég oft til þess hversu ólík viðbrögð fólks geta verið þegar á reynir. Sagnfræðingar hafa bent á að fólkið sem bjó undir oki nasismans í Þýskalandi hafi brugðist við með afar mismunandi hætti. Aðeins lítið brot vogaði sér að berjast gegn yfirvöldum nú eða skaut skjólshúsi yfir gyðinga aðra hópa sem voru hundeltir.
Furðustór hópur fólks gekk til liðs við ofbeldisöflin. En langflestir aðhöfðust ekkert. Það liggur í mannlegu eðli, segja þeir sem til þekkja. Þegar hætta stafar að þá er okkur eðlislægt að reyna falla inn í fjöldann. Við gætum þess að höfuð okkar standi ekki upp úr.
Já, ég hugsa stundum til þess hver mín viðbrögð hefðu orðið við þær aðstæður. Hefði ég skipað sveit hins agnarsmáa minnihluta sem lagði líf sitt og fjölskyldu sinnar í hættu til að berjast fyrir lífi fólks og réttindum? Gæti það hugsast að ég hefði látið blekkjast af hatursáróðri og tekið þátt í voðaverkum? Eða hefði ég gert eins og langflestir hinir, látið hökuna síga niður í bringu og haldið mig til hlés meðan eldarnir brunnu? Þykist ég vera betri og merkilegri en allir hinir?
Lykilsaga
Ég túlka guðspjallið sem hér var lesið í þessu ljósi. Frásagnir Biblíunnar eru lykilsögur. Þær vísa út fyrir sig. Þar þarf ekki nauðsynlega allt að vera eins og það hljóðar samkvæmt bókstafnum.
Þannig er freistandi að líta á mannfjöldann í eyðimörkinni sem tákn um eitthvað annað og meira en þennan tiltekna hóp fólks. Er þetta lýsing á þrengingum almennt og viðbrögðum við þeim?
Fólkið er matarþurfi og það stefnir í upplausn ef marka má samtöl Jesú og lærisveinanna. Sagan kallast á við þekkt minni úr þeim frásögnum sem Gyðingar þekktu svo vel – til dæmis þegar Móses leiddi fólkið í gegnum eyðimörkina, eins og lesið var um í lexíu dagsins. Og í pistlinum sem skrifaður er til kristins safnaðar sem þurfti að þola ofsóknir segir postulinn:
„Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina.“ Hér er greinlega kveðið við sama tón. Mótlætið getur dregið fram leiðtoga. Þessi saga fjallar einmitt um leiðtoga. Þar erum við ekki að tala um Krist sem er þó í meginhlutverki.
Áður hafði hann spurt lærisveinana hvað væri til ráða. Hann spyr: Hvað ætlið þið nú að gera? Boltinn er hjá ykkur. Er einhver í ykkar hópi sem getur mætt þörf þessa fólks? Hver ykkar vill stíga fram?
Og inn í þær aðstæður gengur þessi piltur með nestið sitt. Nafn hans er hvergi nefnt en við fáum að vita að hann hafði fimm byggbrauð og tvo fiska.
Töluspeki
Til gamans má benda á að fræðimenn hafa löngum bent á að tölurnar í Biblíunni merkja annað en þær gera í daglegu tali fólks.
Einn er guðleg tala, deilir aðeins með sjálfri sér. Hún táknar eininguna innan heilagrar þrenningar, faðir, sonur og heilagur andi. Tveir stendur fyrir samfélag, í hjónabandi eða milli manns og Guðs. Þrír og sjö standa fyrir fullkomun. Jesús reis upp á þriðja degi og baðst fyrir í þrígang í Getsamane nóttina sem hann var framseldur. Guð hvíldi sig á sjöunda degi og þá var það fullkomnað. Fimm stendur fyrir náð Guðs.
Mósebækurnar eru fimm og Davíðssálmar skiptast í fimm hluta. Tólf er fullkomin tala og vísar til einhvers sem Guð hefur sett á laggirnar. Ættkvíslir Ísraels voru tólf og það voru postularnir einnig. Fjörutíu táknar tímabil prófunar, árin sem Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni eða dagarnir sem Jesús fastaði á sömu slóðum.
Frásögn af leiðtoga
Hvað merkir þá fjöldi þessara matvæla sem breyttu öllu? Vísast tengist það þessum hugleiðingum en hér er líka horft til framtíðar þegar Jesús borðaði síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinum. Frásögnin af því þegar Jesús mettar fjöldann er frásögn af leiðtoga. Því hann birtist sannarlega í sögunni. En leiðtogi þessi er frábrugðinn þessu stóra og áhrifaríka fólki sem við lesum um í sögubókunum.
Í framhaldinu verður kraftaverkið – fjöldinn fær fyllingu sína og afgangurinn er ríkulegur. Saga hans kallast á við börnin sem setjast niður við húsveggi hér í Vesturbænum og víðar og safna aurum sem þau leggja svo fram til aðstoðar flóttafólki frá Úkraínu.
Hvað finnst ykkur um myndina, af hinum óþekkta unga manni sem leiðtoga?
Í Biblíunni fáum við þau skilaboð að hvert og eitt okkar hafi það hlutverk að bæta heiminn. Við gerum það ekki með því að sanka að okkur völdum, auð eða athygli – sem margir tengja jú við leiðtoga, heldur með þjónustu. Með því að þjóna náunganum uppfyllum við hina sönnu köllun okkar í lífinu.
Þegar Jesús talaði um leiðtoga þá horfði hann ekki upp á hallir og stórmenni sem þar bjuggu. Nei hann leit nær jörðinni og sagði að við ættum að vera eins og barnið sem gengur fram í einlægni sinni. Rétt eins og það sem fjallað er um hér. Jesús lýsir því frekar með þessum orðum:
Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar.
Einu gildir þótt við þekkjum ekki nafn piltsins eða þótt hann hafi ekki öðlast völd og frama. Hann breytti aðstæðunum – lagði sitt fram til Krists og framhaldið þekkjum við. Og enn í dag lesum við um dáð hans sem breytti svo miklu.
Hvar eru leiðtogarnir, nú þegar við þurfum mest á þeim að halda? Eru þeir nær en okkur grunar? Leggjum eyrun við boðskap Krists. Leggjum okkar af mörkum, leggjum það í hendur Krists og hver veit nema að okkar litla framlag geti unnið kraftaverk eins og frásögn Guðspjallsins greinir frá.
Sýningarlok
Við getum talað um þrengingar í ýmsu samhengi. Hér á torginu í safnaðarheimili hafa hangið uppi verk Hallgríms Helgasonar þar sem hann horfist í augu við þann harm þegar Helgi Hallgrímsson fjölskyldufaðirinn lá banaleguna og andaðist svo. „Það þarf að kenna fólki að deyja“ sagði hinn deyjandi maður þegar hann ferðaðist á milli tilverustiga. Sýningin dregur heiti sitt af þeirri yfirlýsingu.
Listamaðurinn túlkar þessa atburði á áhrifaríkan hátt og sýnir meðal annar hvernig samfélagið, fjölskyldan var í ákveðinni upplausn við þessar aðstæður.
Ég hugsa oft með mér hversu mikilvægt hlutverk þess er sem miðlar kenndum og skoðunum í gegnum farveg listarinnar. Á tímum þar sem fólk forðast að predika eins og gjarnan er sagt vilja sjónarmið stundum drukkna í hafsjó alls kyns fyrirvara svo ekkert stendur eftir. Víst er lítið gagn að slíku moði. En listamaðurinn getur sagt óhikað hvað í brjósti hans býr og þar sem einlægnin er ósvikin hafa þau verk sem mest ögra afstöðu okkar og hugmyndum jafnvel mest gildi því þau fá okkur til að líta heiminn og okkur sjálf öðrum augum.
Boðskapur dagsins í kirkjunni er einmitt sá að við hlúum að þeirri einlægni sem hefur fylgt okkur allt frá frumbernsku. „Verið eins og barnið“ segir Kristur þegar lærisveinar hans spyrja hann hver er æðstur. Og í sögunni er það einmitt barnið sem stígur fram og breytir öllu. Á gangstéttunum er boðskapur barnanna sem selja leikföngin sín okkur hugleiðing um birtuna sem býr í mannsálinni.