Eru allir heilagir?

Eru allir heilagir?

Hverjir eru heilagir? Hvaða allir eru þetta sem eru heilagir? Þetta eru spurningar sem við skulum velta aðeins fyrir okkur í dag, í ljósi þess að nú er messan einmitt kölluð Allra heilagra messa. Á þessum sunnudegi má segja að við minnumst fornra messudaga frá fyrri sið. Flestir dýrlingar eiga sinn sérstaka minningardag og víða innan […]
fullname - andlitsmynd Eiríkur Jóhannsson
05. nóvember 2017
Flokkar

Flutt 5. nóvember 2017 í Háteigskirkju

Hverjir eru heilagir? Hvaða allir eru þetta sem eru heilagir? Þetta eru spurningar sem við skulum velta aðeins fyrir okkur í dag, í ljósi þess að nú er messan einmitt kölluð Allra heilagra messa.
Á þessum sunnudegi má segja að við minnumst fornra messudaga frá fyrri sið. Flestir dýrlingar eiga sinn sérstaka minningardag og víða innan hinnar rómversk kaþólsku kirkju er mikið gert úr þeim sérstaklega ef viðkomandi kirkja er helguð tilteknum dýrlingi, stundum fleiri en einum. Þá er stundum farið í mikla prósessíu út úr kirkjunni gjarnan með heilög skrín sem geyma jarðneskar leyfar viðkomandi. Þó voru líka til dýrlingar og helgir menn og konur sem ekki áttu sinn sérstaka minningardag og þess vegna var þessi messa, allra heilagra messa þar sem þeirra allra var minnst. Sömuleiðis var einnig til önnur messa sem sungin var daginn eftir og það var allra sálna messa og þá var minnst þeirra sem látnir voru. Í okkar hefð hefur sú áhersla orðið ríkjandi að þessi messudagur leggi áherslu á minningu látinna ástvina.
Þegar við lítum á lestra þessa sunnudags þá má segja að þar sé margt fleira að sjá en það sem hér hefur verið á minnst. Eru hér einhver tengsl á milli?
Fyrri ritningarlesturinn segir frá því síðasta sem hinn mikli leiðtogi Ísraelsmanna Móse mælti til þjóðar sinna. Þar sem þau voru nú stödd á mörkum þess lands sem Drottinn hafði heitið þjóð sinni öldum fyrr og þau síðan tapað frá sér, farið í leiðangur til fjarlægs lands þar sem betri lífsgæði voru í boði og höfðu fyrir vikið tapað frá sér því sem þeim var dýrmætast. Gylliboð um betri kjör höfðu þannig á vissan hátt leitt næstu kynslóðir á endanum í ánauð. Má ekki sjá í þessu viss tengsl við umræður undanfarinna áratuga hér á landi um virkjanir og stóriðju?
Á hinni löngu eyðimerkurgöngu var margt sem á gekk og lýður Guðs var ekki alltaf sáttur. Þeim fannst sem Guð hafi ekki staðist væntingar þeirra, hann hafi ekki verndað þau og þau höfðu ekki fengið nægilegt að borða og margir höfðu dáið. Þegar Móse brá sér burt þá ákváðu þau að hafna honum og taka að dýrka annan guð sem betri væri til áheita, lögðu saman í púkk af skarti sínu og steyptu sér gullkálf. Við sjáum þessa mörg dæmi einmitt í dag að fólk snýr baki við Guði. Hann hefur ekki staðist væntingar. Hann hefur ekki tekið mig og mína út fyrir sviga í lögmálum náttúrunnar og verndað ásvin gegn slysi eða banvænum sjúkdómi. Ég ætla að smíða minn eigin Guð eða hafa engan.
Sjálfum var Móse ekki leyft að lifa þann draum að komast inn í fyrirheitna landið, hann dó þarna og arftaki hans fékk það verkefni að nema landið að nýju. Sannast þar það sem skáldið kveður að: „fæstir njóta eldana sem fyrstir kveikja þá“. En hvað er það sem Móse segir? Hann talar um Drottinn, hann er þar mitt á meðal þeirra þúsunda heilagra með ljós sitt sem lýsir og sína máttugu hönd sem verndar. Þessar þúsundir, eru það ekki lýður Guðs, fólkið sem hann hefur skapað með hendi sinni og vill vernda?
Pistillinn kemur að þessu sinni úr hinni stórfenglegu bók sem kölluð hefur verið Opinberunarbók Jóhannesar. Bók sem á margan hátt er torskilin en er engu að síður full af leiftrandi myndum og táknum, þeirri draumsýn að guðsríkið muni að endingu koma með krafti. Hvernig verður umhorfs þá? Það veit auðvitað enginn. Guðsríkishugmyndir og boðskapur er raunar miðlægur í boðun Jesú Krists sem stöðugt viðheldur þeirri spennu að það er þegar komið með honum en bíður þess þó að ná fullkomnun sinni og um leið er það í senn þessa heims og hins næsta. Og hvernig er þá umhorfs í guðsríkinu? Má ekki segja að í þessum texta sé þar flestu því sem við þekkjum og tökum sem gefnu, snúið á hvolf. Í hásætinu situr tákn varnarleysisins lambið, lambið sem tekið er og því fórnað, því er slátrað og blóð þess rennur, hið rauða blóð hreinsar, ekki nóg með það, það hvítþvær svo skikkjurnar verða skjannahvítar. -Hinn rauði vökvi altarissakramentisins er þetta hreinsunarefni er slær striki yfir allar syndir og leiðir að vatnslindum lífsins.
Í þessu guðsríki er allt að finna sem við teljum mest um vert. Allir hafa nægtir og þar er engin sorg. Því Guð hefur sjálfur gengið um og huggað.
Þannig er guðsríkið draumsýn, hugsjón og þar með drifkraftur þeirra sem trúa og vilja sjá betri heim, meira réttlæti, meiri frið, meiri kærleika. Það hefur alla tíð verið langt í land.
Hinir heilögu sem þarna ganga um í mjallahvítum skikkjum eru þeir sem gengið hafa í gegnum miklar þrengingar hafa margt þurft að þola en eru nú komnir í skjól.
En hverjir eru þá heilagir? Oft má sjá þess merki að menn telji að þar sé um að ræða valinn hóp einhvers konar úrvalslið sem vegna verðleika sinna fái úthlutað takmörkuðum gæðum, eins konar verðlaunum fyrir vel unnin störf. En er það rétt ályktun? Við sáum í guðspjalli síðasta sunnudags að Jesús segir við þá sem töldu sig í úrvalshópnum að jafnvel þau sem tilheyrðu þeim minnst metnu í samfélaginu væru nær guðsríkinu en þeir.
Þannig hefur það verið viðhorf kristinnar boðunar að allir hafi syndgað og skorti guðs dýrð. Miskunn guðs og fyrirgefning standi hins vegar öllum til boða. Þessi niðurstaða hefur til dæmis leitt til þeirrar hugsunar sem verið hefur ríkjandi meðal norrænna þjóða undanfarið, að refsingar eigi ekki að hugsa sem hefnd fyrir þau illvirki sem unnin hafi verið heldur séu þær leið til að láta fólk horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna og um leið að gefa þeim tækifæri til að bæta sjálfa sig og líf sitt. Þegar þau síðan hafi afplánað dóm sinn gangi þau aftur frjáls út í lífið. Nú um stundir virðist þessi kristna hugsjón um betri heim og betrun, vera mjög á undanhaldi og háværar kröfur eru uppi um harða dóma og algera útilokun þeirra sem drýgja glæpi. Og hverra er sökin? Það er alþekkt staðreynd að stór hluti þess fólks sem fremur óhæfuverk hefur sjálft verið fórnarlömb ofbeldis, þau hafa gjarnan í uppvexti sínum verið svipt rétti til lífs í öryggi og umhyggju. Við mættum hugsa til þess að jafnvel hinn versti ódæðismaður var eitt sinn saklaust barn í faðmi móður sinnar. Auðvitað er þetta ekki algilt en alla vega er víst að hatur hefnigirni og harka mun ekki leiða af sér betri heim.
Guðspjall dagsins er myndrænt og í raun auðskilið en um leið er það erfitt. Það er erfitt vegna þess að það beinir sjónum sínum að okkur, að mér og þér það gerir kröfur, það áminnir. Hvar er hönd Guðs að verki í samfélagi okkar?
Þér eruð salt jarðar, hið hvíta salt sem ver mikilvæga næringu gegn skemmdum. Um aldir seldu íslendingar saltaðan fisk til heitra landa. Mikilvægan próteingjafa, vöru sem ekki skemmdist jafnvel þótt engin kæling væri til staðar. Sömuleiðis er saltið einstakt fyrirbæri, það er ekki hægt að styrkja það með neinu öðru og það eru heldur engar eftirlíkingar til af því. Þannig að það er góð spurning hjá Jesú, ef saltið dofnar með hverju á þá að selta það?
Þessu er fram haldið með annarri líkingu sem þó er kunnugleg. Þér eruð ljós heimsins. Við sáum líkingamálið í fyrri ritningarlestrinum um ljósið sem fylgir Guði og sömuleiðis munum við eftir upphafsorðum Jóhannesarguðspjalls þar sem segir um Jesús að hið sanna ljós hafi komið í heiminn.
Þegar sjónvarpið kom fyrst hingað til lands þá voru settar upp endurvarpsstöðvar á heiðum og fjöllum til að varpa merkinu um landið allt. Oft gerðist það amk. þar sem ég ólst upp að þessar endurvarpsstöðvar biluðu í vondum veðrum og þá var ekkert á skjánum nema hvít hríð, rétt eins og gjarnan var á sama tíma fyrir utan gluggann.
Í þessu samhengi hér má segja að Jesús sé sjálfur ljósið en við sem höfum meðtekið boðskap hans séum endurvarpsstöðvar þess ljóss. Ef við hvolfum skál yfir logandi ljós þá getur enginn notið birtu þess ljóss. Þannig er Jesús að leggja fyrir okkur mikilvæga spurningu sem við þurfum að spyrja okkur sjálf. Þið hafið þegið mikið dýrmæti, hvað gerið þið við það? Spyr Jesús. Einn útbreiddasti misskilningur sem er að finna hér um slóðir um trú er sá að trú sé einkamál. Þess vegna skipti það engu máli og eigi hvergi að koma fram af hálfu stjórnvalda eða vera um það getið í lagamáli. Kristin trú og raunar flest önnur trúarbrögð eru samfélagstrú. Boðskapur Jesú miðar allur að því að einstaklingurinn sé hluti af samfélagi og trúarafstaða hans móti viðhorf hans til annars fólks. Hver er náungi minn? Þetta er ein grundvallarspurningin í kristinni trú. Þess vegna hlýtur það alltaf að verða á endanum pólitísk spurning hvort kristin trú sé lögð til grundvallar lagagerð og stjórnarskrá eða ekki. Hver er mannskilningurinn sem gengið er út frá? Er það hrein einstaklingshyggja eða samfélagsleg ábyrgð. Hver og einn einasti kristinn maður er kallaður til að gera upp við sig hvernig hann velur að mæta öðru fólki, hvort hann hefur kjark til að standa við sannfæringu sína og auðsýna umhyggju og miskunsemi og fara ekki í manngreinarálit, að vera raunverulega salt og ljós í því umhverfi sem hann lifir og hrærist í. Að halda á lofti þessum viðhorfum jafnvel þótt það geti þýtt holskeflu hatursfullra illmæla. Er það ekki áhyggjuefni hversu mikil reiði er víða í okkar samfélagi reiði sem oftast nær sprettur af ótta og skilningsleysi. Nái hún að grassera þá getur mikil hætta verið á ferðum. Hvernig ætla hin trúarlega og siðferðislega hlutlausu stjórnvöld að mæta þeim vanda? Hvað með vaxandi skeytingarleysi? Er hver sjálfum sér næstur? Er afstæðishyggja hið nýja siðaboð, að tilgangurinn helgi meðalið. Það sem sagt má stela ef sá sem stolið er af er reynist sjálfur vera þjófur. Hvað viljum við sjá, skýra mynd eða hvíta hríð?
Við erum hér öll í samfélagi heilagra á himni á jörðu, helguð af skapandi hönd almáttugs Guðs. Við ölum með okkur draum um betri heim þegar Guðsríkið verður komið með krafti, rétt eins og það er þegar komið handan landamæra dauðans. Þar er hvorki sekt að finna, dauða né sorg. Þar lýsir hið eilífa ljós yfir sviðið, ljós sem lífgar og glæðir.
Við erum kölluð til að miðla broti af þessu ljósi manna á meðal, ljósi sem vekur og viðheldur kærleika, miskunnsemi og fyrirgefningu.
Græðandi lyfjum á sjúka sál samfélags.