Útvarpsguðsþjónusta í Borgarholtsskóla 18. október 2009 – 19. sun. e. trinitatis.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Lát opnast augu mín, Minn ástvin himnum á, Svo ástarundur þín Mér auðnist skýrt að sjá: Hið fríða foldarskraut, Hinn fagra stjarnaher Á loftsins ljómabraut og ljóssins dýrð hjá þér. Það er engu líkara en þjóðin hafi sofið um skeið eða í það minnsta dormað hálfblind í andlegri leti sinni. Hver man sig ekki sitja við veginn og hlusta á hina halda áfram, ganga fram hjá? Hver kannast ekki við að hafa einhvern tíma fundið sig í depurð yfir því að eiga ekki meira, komast varla fetið, en horfa á hina hlaupa fram úr? Við sem þekkjum okkur þar, tilheyrum stórum hópi fólks, meginþorra þeirra sem byggja þetta land. Við erum manneskjur sem í breyskleika okkar þvældumst eitt augnablik um á röngum stað í leitinni að lífsgæðum, virði og hamingju.
Við sem duttum í gryfjuna og börmuðum okkur yfir að geta ekki gert allt sem hinir gátu gert, sátum við veginn líkt og blindi maðurinn. Þar upplifðum við okkur í vonleysi þrúgandi stéttskiptingar, eða sættum okkur við hana og reyndum að gera okkur glöð með það sem við þó áttum. En í hvert sinn sem hin gengu hjá, minntu þau okkur á að við vorum varla neitt.
Var það ekki einmitt á slíku augnabliki sem við áttuðum okkur á því að við vorum þau sem sátum eftir og að hin böðuðu sig í ljómanum úr aðdáunaraugum okkar? Var það ekki einmitt þá sem við sofnuðum andlegum svefni eða fundum okkur í það minnsta dorma hálfblind þarna við veginn?
Eða vorum við kannski þau sem töldum okkur vita allt, töldum okkur hafa tök á aðstæðum, töldum okkur með réttu spilin á hendi. Þau sem slógum okkur á brjóst með vísubrotinu: ,,Löngum var ég læknir minn, Lögfræðingur, prestur. Smiður kóngur kennarinn, kerra plógur, hestur". Vorum við kannski þau sem horfðu á fólkið við vegkantinn, líkt og lærisveinarnir og undruðust á smæð þeirra? Eða hver man sig ekki hafa staðið í þeim sporum um ævina að vita betur, finna til eigin máttar og telja sig verðugri í baráttunni um lífsgæðin. Þar sem frelsi einstaklingsins og framtak eru hinn sanni lífselixír. Eða var það kannski líka einmitt þar sem við misstum tökin og sofnuðum andlega svefninum?
Svo gerist það, líkt og þruma úr heiðskýru lofti að allt verður að engu. Verðmætamati okkar er snúið á kvolf, gildi okkar breytast og augu okkar opnast á ný. Var þetta allt saman bara plat? Og ef þetta var bara plat hvar er þá minn staður í þessu öllu saman. Hver er ég? Get ég látið aðra segja mér að ég hafi verið skilin eftir af samfélaginu, líkt og blindi maðurinn? Eða læt ég kannski aðra segja mér að ég hafi tekið þátt í að skilja hina eftir líkt og lærisveinarnir voru tilbúnir að gera? Hvort er ég blindi maðurinn í sögunni eða lærisveinninn?
Í Guðspjalli dagsins læknar Jesús blindan mann. Það var góðverk fyrir samfélagið, hann sem hafi verið byrði á öðrum, gat nú unnið fyrir sjálfum sér. Með orði sínu og æði, gaf Jesús honum von sem breytti öllu á augabragði.
Jesús upplifði fyrirlitningu samfélagsins, en þrátt fyrir það var hann tilbúinn að þjóna með hagsmuni þess sama samfélags í huga. Hann hafði aðeins átt leið þarna hjá, var að flýja aðsteðjandi hættu en gaf sér samt tíma til að staldra við hjá blinda manninum. Þannig eigum við ævinlega að grípa tækifærið til að gera góðverk í kringum okkur, jafnvel þegar við erum á ferðinni og okkur finnst við ekki mega vera að því.
Blindi maðurinn sá ekki Jesú, en Jesús sá hann. Hann hafði verið blindur frá fæðingu, hafði aldrei séð ljós eða liti og þarna var hann vanur að sitja í von um matarbita. Það fór því ekki hjá að aðrir sáu blinda manninn einnig, en enginn sá hann með sama hætti og Jesús.
Í augum hinna var hann lítilmagninn sem er fastur í fátæklegri tilveru sinni, en í augum Jesú var hann bara venjulegur maður sem ekki gat séð. Á þessu er mikill munur. Jesú vissi að hann gat veitt sér björg, það þyrfti aðeins að leiðrétta sjónina. Þennan möguleika sáu aðrir ekki og því hafði blindi maðurinn aldrei mætt öðru en vonleysi eða afskiptaleysi í samferðamönnum sínum. Í Jesú mætti hann bæði von og gleði. Hugsið ykkur bara gleði mannsins er hann í fyrsta sinn upplifði sig heilann.
Þannig bendir Guðspjallið okkur á að ef við tökum á móti einhverju frá Jesú, þá er það vegna þess að hann hefur séð okkur af fyrra bragði og hann sér okkur á annan hátt en samferðamenn okkar gera. Hann sér í okkur möguleika, þrátt fyrir vanmátt okkar og smæð og hjálpar okkur að opna augun á ný.
Þannig nálgast Jesús okkur ekki fyrir okkar tilstilli, þegar okkur dettur í hug, heldur fyrir sinn eigin vilja, fyrir Guðs vilja. Guð vill nálægjast okkur, jafnvel þar sem við finnum okkur vonlaus við vegkantinn og blind á allar útgönguleiðir. Eða þar sem við finnum okkur líkt og lærisveinarnir, blind á möguleika kærleikans og tilbúin að dæma aðra.
En þeir sem þarna voru með Jesú í för, voru þeir sömu og höfðu fylgt honum hvert fótmál og hlustuðu mest allra á hann. Þeir voru bestu vinirnir, strákarnir í klíkunni, þeir sem töldu sig hólpna og voru tilbúnir að rökræða um það sín í milli, hver þeirra fengi hásæti við hlið Jesú í himnaríki. Þeirra voru tækifærin, þeir höfðu séð öll kraftaverkin. Þeir höfðu einnig verið vitni að öllu því mótlæti sem Jesú mætti á leið sinni.
Einmitt þess vegna koma spurningar þeirra eins og þruma úr heiðskýru lofti. Höfðu þeir ekkert lært? Þrátt fyrir allt sem Jesús hafði sagt og gert til að undirstrika að öll erum við jöfn fyrir Guði, þá dettur þeim í hug að blindan sé afleiðing synda mannsins eða foreldra hans. Þetta er gryfja sem við megum ekki lenda í. Allt of oft gerum við okkur upptekin af annarra manna sekt og synd. Nær væri að þeir litu í eigin barm, könnuðust við eigin bresti, viðurkenndu þá, iðruðust og bættu síðan fyrir með breyttum háttum. Það að velta sér upp úr annarra manna syndum gerir engum manni gagn.
Það er afar áhugaver að sjá hvernig Jesús bregst við vinum sínum. Hann er ekkert að æsa sig við þá, heldur leiðbeinir í rólegheitum, kennir þeim og notfærir sér aðstæður til að skýra út fyrir þeim hvernig maður verður að hafa séð myrkur til að kunna að greina ljós. Þannig sé ég fyrir mér hvernig Jesús vill einnig mæta okkur. Kannski erum við þar í einhvers konar vanmætti eða bara einfaldlega í andlegri leti á óskilgreyndu gráu svæði í lífinu, hrædd við að taka afstöðu, eða hrædd við að opna augun.
Í verkinu ,,Dauðasyndirnar”sem sýnd var á fjölum Borgarleikhússins og er frjálsleg túlkun á Guðdómlegum gamanleik Dantes, fjalla trúðar um eilífan vanda manneskjunnar - að lifa. Í verkinu fáum við að fylgjast með sögu Dantes í leit hans að Paradís, en til að finna Paradís, verður hann fyrst að ganga í gegnum Helvíti og hreinsunareldinn. Sagan er margbrotin sjálfskoðun sem gefur áhorfandanum færi á að spegla sig í mannlegu eðli og eiginleikum. Á ferðalagi sínu um Helvíti kemst Dantes að því að varla er þverfótað fyrir þeim sem aldrei taka afstöðu, lifa, eða öllu heldur, sofa einhvers konar andlegum svefni, á gráu svæði í lífinu.
Dantes verður fyrir opinberun þegar hann uppgötvar hvernig andlega letin hefur krossfest kærleikann í lífi hans. En til að snúa dæminu við verður hann að elska Guð og að elska náungann eins og sjálfan sig. Þetta vissi Jesús líka og bendir bæði blinda manninum og lærisveinunum á það. Því eðli kærleikans er ekki bara í orði, heldur einnig á borði.
Blindi maðurinn tók áskorun Jesú að fara í laugina Siloam að þvo sér. Hann fékk sjónina og sagði síðan öllum frá sem heyra vildu. Blindi maðurinn hlustaði á Jesú, brást við og líf hans tók algerum stakkaskiptum til hins betra.
Þannig vinnur Guð verkið innra með okkur. Með því að sjá okkur, koma til okkar, gefa okkur vonina og hvetja okkur síðan til verka. Hvenær gerði Guð síðast vart við sig í lífi okkar? Var það þegar við fundum okkur í sporum blinda mannsins? Vorum við tilbúin að fara og þvo augu okkar, eða sitjum við enn þarna við veginn og bíðum? Við skulum ekki bíða lengur, látum Jesú verða okkur hvatning að taka á móti kærleikanum, að rísa upp og gera eitthvað. Eða vorum við kannski þau sem stóðum í sporum lærisveinsins? Tilbúin að benda á alla hina og fría okkur ábyrgð?
Ef við erum blindi maðurinn, megum við vita að án myrkurs er ekkert ljós, að án sársauka er ekkert líf, enginn kærleikur. Að handan við hornið bíður okkar ljósið, við þurfum aðeins að hreinsa augu okkar og opna þau. Ef við hins vegar erum lærisveinarnir sem finna sig í aðgerðarleysi andlegu letinnar, tilbúin að benda á bresti annarra, þá skulum við taka til okkar orð Jesú þegar hann segir við okkur: ,,Komið og vinnum verk þess sem sendi mig á meðan dagur er!”
Lát opnast harðlæst hús Míns hjarta, Drottinn minn, Svo hýsi’ eg hjartans fús Þar helgan anda þinn. Lát friðmál frelsarans Þar föstum bústað ná Og orð og anda hans Mér ætíð búa hjá.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.