Láttu Guðs hönd þig leiða hér, lífsreglu halt þá bestu: Blessuð hans orð, sem boðast þér, í brjósti og hjarta festu.
Á brú yfir hraðbraut í Evrópu standa þessi orð: BÚÐU ÞIG UNDIR AÐ MÆTA GUÐI ÞÍNUM. Og þar undir hefur einhver snillingurinn bætt við: - Hálstau krafist.
Á hraðbraut lífsins er betra að vera við öllu búinn - einnig því að mæta Guði! Hvernig við búum okkur undir það mót er svo spurning - með því að setja okkur í sparistellingarnar - setja upp hálstauið - eða koma til dyranna eins og við erum klædd?
Til að svara því er fyrst að skoða hver hann er þessi Guð, sem nokkuð víst er að verður á vegi okkar fyrr eða síðar. Lexían, lesturinn úr Jesaja, lýsir honum næsta vel: Guð er mikill og máttugur höfundur lífsins. Við erum eins og stjörnurnar, sem hann hefur skapað, leitt út og kallað með nafni, hverja og eina - og þeim verður einskis vant.
Fyrst Guð annast svo um stjörnurnar, tilfinningalausar grjóthrúgur úti í geimnum, skyldi hann þá ekki láta sér annt um okkur? heldur spámaðurinn áfram. Jú, hinn mikli og máttugi Guð á ást afgangs handa þér og handa mér. Í honum er lífskrafturinn fólginn, hann þreytist ekki og lýist ekki, heldur gefur af sér, líf af lífi.
Pistillinn, lesturinn úr fyrsta Jóhannesarbréfi, segir þetta svona: Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir alla hluti. Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir alla hluti. Þetta merkir að Guð er ekki háður okkur, skoðunum okkar, sjálfsmynd okkar. Hann er meiri.
Og í guðspjallinu er okkur sagt að heimili Guðs rúmi okkur öll: Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Það þýðir einfaldlega að faðmur Guðs er ekki of lítill fyrir öll hans börn.
Annað sem við skulum taka eftir í guðspjallinu eru mjög merkileg orð sem Jesús segir um Guð og hver hann sé. Hann segir: Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn... Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn... Ég er í föðurnum og faðirinn í mér...
Þetta er mjög merkilegt. Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Sonurinn, Jesús, sýnir okkur föðurinn. Þetta er það sem greinir okkur kristið fólk frá trúarbrögðum heimsins: Við trúum því að Jesús sé Guð.
Flest trúarbrögð kenna um Guð. Margt getum við verið sammála um, s.s. mikilvægi þess að trúa, að rækta trú sína og fylgja þeim siðrænu skyldum sem trúin framkallar. Að því leyti getum við átt samstarf, að eflingu trúar almennt, burt frá trúleysinu, sem oft fylgir siðleysi og óvirðing við grundvallargildi mannlegs lífs.
Í mars sl. vann ég með góðu fólki að tilurð málþings um siði í tengslum við andlát og útför í ólíkum trúarbrögðum. Það var sérstakt að vinna að þessu verkefni með fólki úr mörgum áttum og sýndi mér fram á mikilvægi þess að við tölum saman um margvíslega trú okkar af virðingu og í kærleika.
En það minnti mig líka á hversu þýðingarmikið það er að við höldum okkar séreinkennum, tölum ekki bara um guð almennt og með litlum staf, heldur munum hver okkar Guð er. Hann er sá sem Jesús Kristur birtir.
Heyrst hefur að kristið fólk í fjölbragðasamfélögum sé hætt að tala um Jesúm, krossinn og upprisuna af ótta við að styggja hina. Hversu langt eigum við að ganga í umburðarlyndinu? Gleymum við Jesú er kristnin glötuð.
Því að Jesús Kristur gefur okkur mynd hins máttuga Guðs, hreina og klára. Þegar við lesum um Jesú erum við að fræðast um Guð. Þegar við biðjum til Jesú erum við að bera bón okkar fyrir Guð. Þegar við á innlifunarstundum finnum nálægð Jesú er það Guð sjálfur sem birtist okkar innri augum.
Fólk spyr oft: Hvernig get ég þekkt Guð, sem ég fæ ekki séð? Hvernig get ég heyrt orð hans, hvernig svarar hann? Jú, með því að hlusta eftir orðum og atferli Jesú, sem Biblían greinir frá. Þar er Guð sjálfan að finna. Þar talar Guð.
Það þýðir því lítið að kvarta yfir óþekkjanlegum Guði og nenna síðan ekki að fletta upp í bókinni um hann. Við hér á klakanum erum án afsökunar. Við kunnum nánast öll að lesa - og flest að hlusta, þar sem Biblían fæst einnig á hljóðbókum - og við höfum öll aðgang að Biblíunni, a.m.k. Nýja testamentinu og Sálmunum, sem Gídeonfélagið dreifir ókeypis. Þar sjáum við Guð og heyrum í honum.
Og hvernig er þá þessi Jesús, sem birtir okkur Guð? Hvernig Guð fundu lærisveinarnir í Meistara sínum? Jú, kröftugan lækni, máttugan fyrirbiðjanda, og mikilhæfa fyrirmynd, en líka umhyggjusaman félaga, ástúðarfullan vin og fyrirgefandi nærveru.
Þannig er Guð - og svo margt, margt fleira. Eitt af því sem einnig skiptir máli fyrir umfjöllun dagsins er að í lexíunni er hann nefndur eilífur Guð. Eílífur Guð. Hvað merkir það? Eilífðin er ekki óendanlegur tími eftir okkar skynjun, heldur önnur vídd, handan hinnar fjórðu (sem er tíminn). Eílífðin liggur í eðli Guðs, innan þeirrar víddar, sem vera hans er (sbr. Sálm. 90.2, Jes. 57.15, Gen. 21.33). Hún er ekki bara eitthvað sem við eigum í vændum - áfangastaður hraðbrautarinnar - heldur lífið hér og nú, lífið á veginum, í sannleika og kærleika.
Sjálfsskilgreining Guðs í Ex. 3.14: Ég er sá, sem ég er, sýnir þetta öðru betur. Guð er. Alltaf. Hann breytist ekki í tímans rás, þar sem tíminn er aðeins hluti af sköpunarverki hans. Að Guð skuli vera handan tímans, en þó Herra hans, ætti að vera streitufylltu fólki nokkur léttir. Tíminn er ekki allt.
Traustið til Herra tímans skiptir hins vegar öllu - þannig og aðeins þannig er hægt að sigrast á þverstæðu verkefnahrúgunnar og tímans. Er þetta ekki draumur hverrar athafnamanneskju, að "fá nýjan kraft, fljúga upp á vængjum sem ernir, hlaupa og lýjast ekki , ganga og þreytast ekki?", eins og segir í hinum velþekktu orðum Jesaja?
Einmitt þarna er galdurinn fólginn: Í dæmi arnarins. Hann rennir sér upp til hæstu hæða og lætur sig líða áfram með loftstreyminu. Í þætti um stress, sem var í sjónvarpinu nýlega, kom að það er afstaðan til verkefnanna, sem ræður úrslitum, ekki magn eða mikilvægi þeirra. Grundvallar lífstraust gerir gæfumuninn. Guð er mikill. Miklum Guð, ekki aðstæðurnar.
Og þá erum við komin að upphafs spurningunni. Hvernig búum við okkur undir að mæta þessum Guði? - Guði sem er mikill og máttugur, meiri en við, meiri en tíminn, traustsins verður. Hvers er krafist af okkur á þegar við göngum áfram veginn, veg sannleika og lífs, í átt til sannleika og lífs?
Mér sýnist svarið gefið í textum dagsins. Í lexíunni segir að við eigum að vona á Drottin, í pistlinum að við skulum hafa djörfung til Guðs og halda boðorð hans um trú á Jesú og elsku til náungans. Þetta er hálsbindið sem við þurfum að setja upp, ef svo má að orði komast, TRÚIN, VONIN OG KÆRLEIKURINN. Og Jesús segir: Hjarta yðar skelftst ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í trú á Guð, sem er herra tímans, þurfum við ekkert að óttast. Jesús Kristur sýnir okkur að Guð er traustur grundvöllur lífsins, vegurinn, sannleikurinn og lífið.
Tökum eftir því að sögninni pistein, að trúa, fylgir orðið eis (eis ton qeon kai eis eme pisteuete). Bókstaflega merkir þetta orð "inn í" eða "til", og er oft notað landfræðilega. Þetta gerir að mikil hreyfing felst í þessu orðasambandi - trúin er ekki óvirkt hugarástand, heldur umbreyting, skref frá einum stað til annars, ganga inn í nýja vídd, vídd eilífðarinnar. Þannig getur trúin aldrei staðið í stað, hún er í eðli sínu framsækin, ferð í átt til föðurins, hönd í hönd við soninn.
Já, þú sem ert á hraðbraut lífsins: BÚÐU ÞIG UNDIR AÐ MÆTA GUÐI ÞÍNUM. - Í trú, í von og í kærleika.