Ég las nýverið í Morgunblaðinu viðtal við konu að nafni Ragna Benedikta Garðarsdóttir. Hún er doktor í félagssálfræði. Doktorsritgerð hennar fjallar um samband efnishyggju og hamingju. Niðurstöður rannsóknar hennar í þeim efnum eru mjög athyglisverðar. Hún segir í viðtalinu: „Efnishyggja er ákveðið gildismat, eða hugsanaferli, sem getur valdið minni hamingju hjá fólki. Það er því bein fylgni milli efnishyggju og óhamingju.“
Í ljósi þeirra tíma sem við nú lifum á, þar sem leit fólks að hamingjunni er svo áberandi en nánast öll umræðan snýst um efnisleg gæði, þá er þessi niðurstaða verulega sláandi.
Það vakti sérstaka athygli mína, þegar við hjónin heimsóttum eyjuna Balí í Indonesíu fyrir allmörgum árum, hve fólkið þar var glaðsinna og augljóslega hamingjusamt upp til hópa. Þó er þar ríkjandi almenn fátækt á okkar mælikvarða. Ég átti tal við ungan mann, sem vann við þjónustustörf á hótelinu sem við dvöldum á. Það kom í ljós að hann hafði lokið verslunarskólaprófi og eftir það ráðið sig til starfa hjá hótelkeðjunni sem rak viðkomandi hótel.
Það var eins og flest önnur fyrirtæki á eyjunni í eigu auðhrings, en slík fyrirtæki maka þar krókinn með auðsveipu og ódýru vinnuafli. Ég spurði þennan unga mann hvort hann ætti ekki kost á vellaunuðu starfi með sitt góða próf og augljósa hæfileika í mannlegum samskiptum. Hann tjáði mér að þetta starf væri það besta sem hann hefði getað fundið og að hann væri glaður í þeirri hugsun að það mundi ekki taka sig nema þrjú ár að vinna fyrir skellinöðru. Skellinöðrur eru helsta samgöngutækið á eyjunni. Hann virtist ekki sjá ofsjónum yfir efnalegri velgengni annarra eða bera öfundarhug til neins í því sambandi. Hann undi glaður við sitt, klæddist ódýrum en smekklegum fötum, var elskulegur og kurteis í allri framkomu og átti góða og kærleiksríka fjölskyldu að eigin sögn.. Hann taldi sig augljóslega hamingjumann.
Hann var hindúi þessi drengur eins og flestir þar um slóðir. Síðan hef ég oft hugsað til hans. Ég hef tekið hann sem dæmi um þá misnotkun sem voldugir fjáraflamenn beita lítilmagna þróunarlandanna oft og einatt. En í huga mér er hann þó umfram allt aðdáunarverður fulltrúi þess hugarfars sem Jesús lagði svo ríka áherslu á við fylgjendur sína, - hugarfars sem heimurinn þarf umfram allt á að halda, ekki síst um þessar mundir.
Er það ekki makalaust að við, kristnir menn Vesturlanda, skulum sífellt leita hamingjunnar þar sem hana er ekki að finna? Vitum við ekki að: “Betra en veraldarinnar gull er heilsa og þróttur og glaðvært geð betra en ómælanlegur auður”? (Sírak 30.15)