Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í dag hefjum við formlega undirbúninginn fermingarinnar næsta vor. Hluti af undirbúningnum fer fram í fræðslunni sem byrjar núna í vikunni og hluti fer fram í ferðalaginu í Vatnaskóg þar sem fræðsla, upplifun og leikur gegna stóru hlutverki. En einn mikilvægasti hluti fermingarundirbúningsins er að koma saman í guðsþjónustunni, eins og við erum að gera núna.
Í fermingarundirbúningnum eiga börnin að koma í tíu messur eða guðsþjónustur. Er það ekki soldið mikið?! Mig langar til að ræða aðeins um það hvers vegna við leggjum svona mikla áherslu á kirkjusóknina í vetur. Og í þeim tilgangi langar mig að við hugsum um söguna sem við heyrðum áðan í guðspjallinu, söguna um systurnar Mörtu og Maríu.
Fyrst langar mig að gera smá könnun. Hvað eiga margir hér inni systkin? Og þið sem réttuð upp hönd, megið svara því fyrir ykkur, hvort einhvern tímann hafi ykkur verið falið verkefni til að vinna með bróður eða systur - en setið síðan EIN uppi með verkefnið af því að systkinið fór að gera eitthvað allt annað. Kannist þið við þetta? Já, ábyrgu börnin kannast við það!
Sagan um Mörtu og Maríu er nákvæmlega um þessar aðstæður. Þær eru að taka á móti mikilvægum og kærum gesti, þær vita að það þarf að gera ákveðna hluti, því þetta undirbýr sig ekki sjálft!
Og hvað gerist - við sjáum myndina af því að Marta, ábyrga systirin, sem var kannski eldri er EIN á þönum við að gera það sem þarf í tengslum við gestakomuna, á meðan María, situr og tjillar með Jesú.
Hvernig haldið þið að Mörtu hafi liðið? Marta er skiljanlega sár - og þegar manni sárnar verður maður fullur af réttlætiskennd og vill að ranglætið sé leiðrétt hið snarasta! Maður vill að systkynið verði látið standa við sinn hlut, og helst skammað rækilega fyrir vanræksluna.
Það væri lang best.
Er einhver hérna sem horfir á Finnboga og Felix? Það er rauður þráður í þeim þáttum að systir þeirra Finnboga og Felixar er á nálum yfir því að geta klagað þá í mömmuna, af því að þeir eru að gera eitthvað sem þeir eiga alls ekki vera að gera. Finnbogi og Felix eru MJÖG uppátækjasamir og stórtækir í leiknum sínum - en hafa iðulega heppnina með sér því þegar stóru systur hefur loksins tekist að ná athygli mömmunar og iðar í skinninu yfir að heyra hana skamma strákana - verður henni aldrei að ósk sinni því allt sem mamman sér eru bara tveir litlir englar sem leika sér með dótið sitt og gæludýrið, hann Pésa breiðnef.
Það er eiginlega það sama sem gerist í sögunni um Mörtu og Maríu. Marta er sár af því henni finnst að systir hennar láti hana eina um að gera það sem þarf að gera og hún snýr sér að Jesú og segir við hann:
Er þér alveg sama þótt systir mín láti mig eina um að gera allt hérna? Segðu henni að hjálpa mér!
En þá segir Jesús þetta áhugaverða. „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“
María valdi góða hlutskiptið.
Hvað þýðir það? Einhverjar uppástungur?
Við getum litið á Mörtu og Maríu sem tvær ólíkar týpur, sem standa fyrir það sem við getum valið að gera. Önnur, hún Marta, stendur fyrir það að gera hlutina, bregðast við áreiti, redda málunum, halda sér soldið uppteknum, halda öllu gangandi.
Hin, hún María, stendur fyrir að draga sig út úr skarkalanum, leggja frá sér verkefnin, njóta stundarinnar, upplifa samfélag með annarri manneskju, sjá hvað skiptir máli.
Og ef við horfum svona á söguna um Mörtu og Maríu, skiljum við að Jesús er að benda á að leiðin hennar Maríu er góð. Það er gott að vera ekki alltaf með rakettu í rassinum og eins og útspýtt hundskinn út um allar trissur. Það er gott að taka frá tíma til að upplifa ró og íhuga það sem er mikilvægt í lífinu.
Og messan er svolítið þannig. Með því að koma í kirkjuna á sunnudögum, er það eins og að leggja frá sér verkin sem taka allan tímann venjulega, slökkva á símunum og öllu hinu dótinu sem við notum svo mikið, og upplifa samfélag með öðru fólki og Guði.
Þegar við komum í kirkjuna á sunnudögum er það eins og að setjast við fætur Jesú og hlýða á það sem hann vill segja okkur. Alveg eins og María. Messan er afdrep til að finna frið og ró. Í kringum sig og innan í sér.
Og þess vegna er svona mikilvægt að þið komið í kirkjuna í vetur. Og ég er viss um að þau sem gera það og finna þennan frið í kringum sig og innan í sér upplifa eitthvað alveg sérstakt. Og mig langar svo að þið takið þennan frið með ykkur heim og með ykkur út í lífið, líka þegar fermingin er búin.
Það sem maður temur sér á unga aldri, hefur oft mikil áhrif á hvernig lífið verður. Þess vegna er svona mikil áhersla lögð á að unglingar lifi heilbrigðu lífi, noti ekki tóbak og önnur vímuefni, hreyfi sig, stundi heilbrigt félagslíf og eigi örugg náin tengsl.
Það er hluti af heilbrigðu lífi að geta stigið út úr skarkalanum og hlustað á það sem er mikilvægt. Það er eins mikilvægt að rækta og næra trúna sína og andlegt heilbrigði, eins og líkamann og félagstengslin. Þetta gerum við í kirkjunni og ykkur er boðið að vera hluti af því - í vetur og alltaf.
Á eftir fá öll fermingarbörnin Kirkjulykilinn sem er messubókin okkar í vetur. Þetta er aðalbókin okkar í fermingarfræðslunni og þið skuluð passa hana vel og koma alltaf með hana í kirkjuna. Í bókinni eru útskýringar á því sem fer fram í messunni og við eigum eftir að tala mikið um hvers vegna við gerum eins og við gerum og hvers vegna til dæmis prestarnir eru klæddir eins og þeir eru.
Í Kirkjulyklinum eru verkefni sem eiga hjálpa til við að tengja við það sem fer fram í kirkjunni. Verkefnin byrja á bls 10 og hver messa fær 1 verkefni. Þau eru ólík en ganga öll út á að við fylgjumst vel með, hlustum, horfum, spyrjum og skynjum.
Við skulum fara leiðina hennar Maríu í vetur og þiggja boðið um að setjast við fætur Jesú og hlýða á boðskap hans um sigur hins góða á jörðinni, sigur kærleikans og ástarinnar, og frelsið sem manneskjan eignast fyrir ást Guðs.
Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.