Eftir dásamlega páskahátíð kemur síðasti vetradagur og sumar heilsar með fuglasöng og björtum nóttum. Á síðasta vetrardegi ók ég með nokkrum vinum um Skagafjörð. Sólin var að hallast í hávestri og himininn skartaði sínu fegursta í öllum regnbogans rauðu litum. Okkur sem í bílnum voru var tíðrætt um páskahátíðina og hversu mikilvæg hún væri í lífi fólks. Ein konan sem í bílnum var sagðist ekki skilja fólk sem ekki færi í kirkju á páskum. “Það er nauðsynlegt öllum að fá að heyra um kærleika Krists” sagði hún “við fáum svo mikinn frið í hjartað við að íhuga allan þann kærleika sem Kristur sýndi okkur.”
Við hin sem í bílnum vorum sátum hljóð og hugsuðum um hve sterkt það er nú þegar fólk þorir að játa trú sína upphátt fyrir framan fjölda fólks. Trúin á ekki að vera einkamál. Við eigum að þora að segja hvers virði trúin er okkur og hvaða áhrif hún hefur í lífi okkar. Í vikunni fyrir páska las ég eina af bókum Gamla Testamentisins sem heitir Jobsbók. Í þeirri bók er glímt við spurninguna um þjáninguna og tilgang hennar. Ég ætla ekki að rekja efni bókarinnar, en hvet alla sem eiga Biblíuna að kynna sér inntak hennar. Í einum af lokaköflum bókarinnar segir Guð við Job: “Hefurðu komið að forðabúri snævarins og séð geymslur haglsins, sem ég geymi til þrengingartíma? Hvar er vegurinn þangað sem ljósinu er dreift og austanvinduirnn tvístrast um jörðina? Hver gerði göng fyrir regnskúrina og veg fyrir eldingarnar svo rigni yfir óbyggt land yfir eyðimörkina þar sem enginn býr og mettar auðn og eyðilönd og lætur grængresi spretta?
Hnýtir þú strengi sjöstjörnunnar eða leysir þú fjötra Óríons? Veistu hvenær steingeitur bera, fylgistu með fæðingarhríðum hinda? Gafstu hestinum afl, klæddirðu makka hans faxi, læturðu hann stökkva eins og engisprettu? Er það fyrir þína visku sem fálkinn flýgur upp og þenur vængina til suðurs? Hefur örninn sig til flugs eftir þinni skipun og gerir sér hreiður hátt uppi?
Á þennan veg heldur Guð áfram að tala við Job og gerir honum smáma saman grein fyrir því að enginn getur lifað án Guðs. Enginn er óháður honum, ekki dýrin, ekki jurtirnar og allra síst við mannfólkið, sem höfum svo mörg snúið baki við honum og komum ekki einu sinni til kirkju á páskum, þegar við fögnum því að Guðs sonur sigraði dauðann og opnaði okkur leið inn í himininn þegar við ljúkum ævigöngu okkar hér á jörðu.
Enn á ný sýnir Guð okkur það að við getum treyst honum. Enn á ný hafa bjartar nætur tekið við af dimmum dögum skammdegisins og enn á ný hafa farfuglarnir ratað á heimaslóðir til að gleðja okkur í birtu daganna.
Munum eftir skapara okkar á þessum vordögum. Munum eftir frelsara okkar á gleðidögum páskanna. Munum eftir hinum heilaga anda sem vekur okkar til trúar á þann sem öllu ræður.
Gleðilegt sumar.