Sveitakirkjan mín

Sveitakirkjan mín

Hvers vegna er kirkjan 100 árum á eftir tímanum þegar kemur að því að ávarpa fólkið sitt? Hvers vegna gengur þjóðkirkjunni eins illa og raun ber vitni að jafna þjónustubyrðinni milli landsbyggðar og höfuðborgar?
fullname - andlitsmynd Kristín Þórunn Tómasdóttir
21. nóvember 2010

Haukadalskirkja

„Starf og þjónusta kirkjunnar nær til landsmanna allra til ystu nesja og innstu dala,“ sagði biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson við setningu kirkjuþings sem nú er að ljúka.

Þinginu sjálfu hugnuðust þessi orð svo vel að þau standa í upphafi þingsályktunar um skýrslu kirkjuráðs, en afgreiðslan á þeirri skýrslu er helsta svar löggjafarsamkundu þjóðkirkjunnar við skýrslu um það sem hæst ber í umsvifum biskups Íslands, biskupsstofu og kirkjuráðs – sem er einskonar framkvæmdavald þjóðkirkjunnar.

Mig langar að staldra aðeins við þessa krúttlegu og rómantísku mynd sem dregin er upp af þjóðinni í orðum biskups og kirkjuþings. Hvar er hina íslensku þjóð að finna, samkvæmt henni? Jú, út við ystu nes og inn í innstu dölum. Þar unir hún sér grandvör, farsæl, fróð og frjáls við ysta haf.

Með fullri virðingu fyrir fólkinu okkar sem stendur vaktina á annesjum um allt land og upp við hálendið, þá birtist mér þessi mynd kirkjunnar af Íslendingum sem töluverð tímaskekkja. Langstærsti hópur fólks býr í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu - við stræti og torg, stíga og götur, umferðaræðar og gangstéttir, hjólabrautir og botnlanga. Þetta er fólk sem keyrir til vinnu hvern dag, labbar eða tekur strætó, á rætur sínar og mótun í borgarmenningunni og lífinu þar.

Hvers vegna er kirkjan 100 árum á eftir tímanum þegar kemur að því að ávarpa fólkið sitt? Hvers vegna gengur þjóðkirkjunni eins illa og raun ber vitni að jafna þjónustubyrðinni milli landsbyggðar og höfuðborgar? Af hverju eru ennþá sóknir í Reykjavík og nágrenni sem eiga að þjónusta þúsundir með einn prest innanborðs – á meðan urmull sveitapresta hafa skipun til að þjónusta nokkur hundruð sóknarbörn í grösugum, þéttbýlum og samgönguvænum sveitum?

Ef skipta ætti prestsembættunum jafnt niður á meðlimi þjóðkirkjunnar myndu 30-40 prestar bætast við höfuðborgarsvæðið af landsbyggðinni. Við tölum gjarnan um að kirkjan sé fólkið – nú ríður svolítið á að sýna það í verki og láta söfnuðum á höfuðborgarsvæðinu þessa þjónustu í té.

Því miður skortir töluvert upp á að veruleiki borgarsamfélagsins í samtímanum sé viðurkenndur af þjóðkirkjuyfirvöldum. Þar gildi einu hvort horft sé til myndmáls og stemningar sem vakin er til lífs með því að gera útnesjafólk og afdalabændur að höfuðviðtakendum skilaboða kirkjunnar eða til niðurskurðartillagna kirkjuráðs og kirkjuþings.

Þjóðkirkjan er sveitakirkja.