Þannig hljóðar hvatning SAMAN hópsins til foreldra og barna sumarið 2009. Að hanga saman getur gert kraftaverk, því eins og rannsóknir hafa sýnt þá er samvera foreldra og barna ein besta forvörnin.
Samveran getur falist í mörgu, til dæmis því að fara saman í sund eða útilegu, spjalla saman, hlaupa, flatmaga í sólinni, elda, dansa, hlæja og borða saman. Að borða saman er einmitt eitt af því sem bæði börn og foreldrar hafa væntingar um og hefur það komið fram í mörgum rannsóknum.
Niðurstöður vinnu Rannsóknar og greiningar á líðan barna sem unnin hefur verið um árabil hefur leitt í ljós þann vilja barna að vera enn meira með foreldrum sínum. Á forvarnardegi forseta Íslands kom það skýrt fram í máli ungmenna að þau vilja verja tíma sínum með foreldrunum, við matarborðið og í frítíma sínum. Nákvæmlega það sama kom í ljós þegar foreldrar voru spurðir, þeir vilja meiri tíma með börnum sínum. Þannig tóna raddir foreldra og barna saman, en það er á ábyrgð foreldranna að gefa sér tíma og skipuleggja heimilislífið þannig að þessi markmið náist. Það hefur sýnt sig að sumarið er áhættutími fyrir marga. Þá virðast margir unglingar byrja að fikta við áfengi og annað því tengt. Þess vegna hefur SAMAN hópurinn lagt áherslu á að koma sínum skilaboðum á framfæri yfir sumartímann.
Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er ljóst að ríki og sveitarfélög, einstaklingar og fyrirtæki þurfa að draga úr útgjöldum og minnka kostnað. Öll þurfum við í sameiningu að leita leiða til að mæta efnahagsástandinu á sem uppbyggilegasta máta. Í því gegna foreldrar lykilhlutverki gagnvart börnum sínum.
Til að koma í veg fyrir að börn og unglingar séu í reiðuleysi og hafi lítið fyrir stafni í sumar viljum við hvetja foreldra til dáða í sínu mikilvæga hlutverki. Íslensk náttúra er stórbrotin og áhugaverður vettvangur útivistar og upplifunar, íslenskt mannlíf einkennist oft af samkennd og því að við erum öll á sama báti. Höngum saman í sumar okkur til ánægju, börnum okkar til gæfu og samfélaginu til heilla.
Gleðilegt sumar! F.h. SAMAN hópsins
Arnfríður S. Valdimarsdóttir Verkefnastjóri ÍTR Marta Kristín Hreiðarsdóttir Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu Þorvaldur Víðisson Miðborgarprestur Dómkirkjunnar