Um daginn heyrði ég það fullyrt að Jesús Kristur birtist hverri kynslóð með þeim hætti sem hún þarfnaðist. Að hver tíð horfi á Jesú í ljósi síns nútíma, sinna aðstæðna, og dragi af honum þær myndir sem þurfi til að fá heiðarlegt sjónarhorn á ríkjandi aðstæður. Mér þótti þetta viturlega mælt.
Hvað einkennir okkar tíð, okkar nútíma? Hvaða mynd skyldi það vera af Jesú sem mestu varðar í dag? Ég held að þegar sögubækur verði skráðar eftir hundrað ár þá muni okkar tíð rannsökuð í ljósi allra þeirra vona sem okkar kynslóð sá deyja. Það er ljótt að segja svona, en ég held að það sé satt. Við erum kynslóð hinna dauðu vona.
Við erum kynslóðin sem vonaði á tæknina. Kynslóðin sem trúði því að heimurinn gengi eftir vissum lögmálum og þau sem lærðu að leika við þessi lögmál,- leika á þau og með þau, - að þau yrðu mjög glöð og fjarska sæl. Við erum kynslóðin sem trúði á markaðslausnir og tæknilausnir og heildarlausnir á öllum sviðum tilverunnar.
Svo höfum við líka trúað á dugnað og heppni. En við höfum ekki trúað svo mikið á skynsemi eða siðferði og alls ekki á neinn guð. Við höfum tekið því sem gefnu að fólk fengi það sem það ætti skilið, ýmist fyrir dugnað sinn eða bara af heppni. Þess vegna höfum við trúað því að samkeppni leysti flestan vanda og ef sem flestir kepptu á sem flestum sviðum yrði allt svo vel heppnað hjá okkur.
Við erum líka kynslóð sem trúði að til væri gott raunsætt vald sem vildi að öllum gengi vel þótt stundum þyrfti þetta vald að heyja dýrkeyptar orrustur og stríð með brambolti eða setja í gang óskiljanlegar atburðarásir með viðskiptafléttum og peningastreymi með miklu fleiri núllum en hægt væri að skilja. Við vonuðum að til væru réttlát, óhjákvæmileg stríð hins föðurlega og raungóða valds sem alltaf græðir og vill að allir græði með sér.
En þetta hefur nú bara allt saman reynst vera tóm vitleysa. Markaðs- og tæknilausnir eru stundum þægilegar en þær færa ekki gleði eða sælu. Dugnaður, heppni og samkeppni eru ekki alltaf réttustu svörin við lífsgátunni og stóra alltumlykjandi föðurvaldið sem veit betur, - það veit ekki betur. Ítrekað höfum við orðið fyrir vonbrigðum með allt sem við héldum fyrir satt. Og vonbrigði okkar eru svo sár og við erum svo leið á þeim að einmitt núna eru þið öll farin að vona að ég fari ekki að tala um vissa hluti… og ég ætla ekki að gera það. Ég ætla að hlífa okkur við því. Við erum svikin kynslóð, svikakynslóð.
Í því samhengi er magnað að virða fyrir sér Jesú frá Nasaret. Ekki bara á föstudeginum langa heldur líka þar sem hann liggur í jötunni nýfæddur og valdið sem veit ekki betur er að brugga honum launráð. Barnamorðin í Betlehem eru fyrstu stóru svikin í þeirri sögu. Nei! Heimskulegar ákvarðanir í skattheimtu sem gerðu það að verkum að ungir foreldrar voru komnir á þvæling þegar þau áttu að vera heima að fæða, - það voru fyrstu svikin. Svo komu barnamorðin.
Mögnuð er líka frásögnin í fimmta kafla Jóhannesarguðspjalls þegar Jesús sér mann sem hafði verið sjúkur í 38 ár og læknar hann. Við tekur atburðarás sem endar með því að hinn læknaði bendir óvinum Jesú á hann og Jóhannes skrifar: „Nú sóttu þeir enn fastar að taka hann af lífi.“ (Jóh. 5.18) Eftir stendur mynd af manni með endurheimta heilsu en svikult hjarta. Svikult hjarta.
Ég fékk nýju bókina hennar Steinunnar Sigurðardóttur, Jójó, í jólagjöf og las hana um daginn mér til gagns og ánægju. Bókin fjallar einmit um svik í breiðum skilningi. Þegar aðal persóna sögunnar, Martin Montag , rifjar upp fyrstu kynni sín af konunni sinni og minnist þess er hann sá hana og hreifst af henni samstundis, þá segir hann m.a. „Það voru svik við fyrstu sýn.“ Og síðar fær lesandinn innýn í þau svik… Stundum á maður ekkert að bjóða nema svik.
Jóhannes guðspjallamaður segir að Jesús hafi vitað frá upphafi hver sá var sem myndi svíkja hann. (Jóh. 6.64) Og Guðspjöllin öll lýsa milli línanna þeirri einsemd sem Jesús lifði í samfélagi við vini sína, hvernig hann reyndi ítrekað að leiða þeim fyrir sjónir þá þjáningu sem beið hans, að hann yrði deyddur og að á þriðja degi myndi hann upp rísa. En lærisveinarnir voru bara ekki færir um að taka við því; fóru alltaf út í aðra sálma. Pétur tók sig m.a.s. til í eitt skiptið og skammaði Jesú fyrir að segja svona. (Matt. 16.21-22)
Eftir því sem á frásögnina líður vex tilfinning manns fyrir því hve svikinn Jesús er af samfélaginu við vini sinna. Það er eins og þeir læri aldrei neitt, haldi alltaf áfram að metast og hnoðast og misskilji í sífellu það erindi sem Jesús á og er. Þess atburðar er getið í öllum guðspjöllunum nema hjá Jóhannesi er Jesús eitt sinn stóð frammi fyrir getuleysi lærisveinahópsins í samskiptum við fólk að Jesús sagði þessi orð: „Þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? (Matt. 17.17, Mark. 9.19, Lúk. 9.41) Loks situr hann við síðustu kvöldmáltíðina og segir: „Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með ykkur áður en ég líð.“ (Lúk. 22.15) Og m.a.s. þar, m.a.s. við allra síðustu næðisstundina sem Jesús fær í þessum heimi er frá því greint að þeir fóru að metast um það hver þeirra væri talinn mestur. (Lúk. 22.24) Kannske var það þess vegna sem Jesús stóð upp og fór bara að þvo þeim um fæturna. Hann gat ekki breytt þeim, en hann gat elskað þá. Jóhannes hefur svo fallegan formála að síðustu kvöldmáltíðinni þegar hann segir: „Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk.“ (Jóh. 13) Og það er líka Jóhannes sem lýsir fótaþvottinum og þeim samskiptum sem Jesús á við Pétur af því tilefni. Hvernig Pétur fann sig knúinn til að stympast við Jesú og þáði þjónustu hans líkt og nauðugur. „Nú skilur þú ekki það sem ég er að gera,“ útskýrði Jesús, „en seinna muntu skilja það.“ (Jóh. 13.7) Það er mikil viska í því fólgin að svikasögu Péturs við Jesú er lýst í meiri smáatriðum en flestu öðru í guðspjöllunum. Pétur er kletturinn. Pétur er leiðtogi lærisveinahópsins. “Á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína” hafði Jesús sagt um Pétur er hann gaf honum sitt nýja nafn. Áður hafði hann heitið Símon en Jesús nefndi hann Pétur sem merkir klettur. „Á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína” mælti hann og það urðu orð að sönnu. Svik Péturs reyndust ekki stærri en ást frelsarans. Kirkja Krists varð að veruleika og lifir og dafnar um víða veröld í öllum sínum fjölbreytileika og fegurð.
Ég sagði í upphafi að e.t.v. muni sagan meta okkar samtíma sem svikatíð. Við erum svo svikin að við nennum ekki lengur að ræða það. Það hefur svo margt brugðist af því sem við töldum tryggt og sjálfgefið að einmitt þessa daga erum við sem samfélag hér á okkar eyju södd á vonbrigðum. Pakksödd. Sagan af Jesú og öllum þeim brigðum og brestum sem hann mátti þola er ekki sögð að ástæðulausu. Hún er sögð til þess að við getum fundið skjól til að kannast við og þekkja okkur sjálf. Okkar svik. Verstu vonbrigði allra vonbrigða eru þau að vera sjálfur svikari. Og lækningin hefst þegar við hvert og eitt lærum að þekkja okkar eigin svikasögu. Það er leiðin að heilbrigðu lífi að gera sér grein fyrir því hvaða fólk og hvaða málefni maður hefur sjálfur svikið og skaðað. Og mest skaðar maður sjálfan sig. Við heyrðum áðan lýsinguna á svikum Péturs í hallargarði æðsta prestsins. Er Pétur hafði í þrígang neitað því að hann þekkti Jesú segir orðrétt hjá Lúkasi: „Og jafnskjótt sem hann sagði þetta gól hani. Og Drottinn vék sér við og leit til Péturs. Þá minntist Pétur orða Drottins er hann mælti við hann: „Áður en hani galar í dag muntu þrisvar afneita mér.“ Og hann gekk út og grét beisklega.”
- Drottinn vék sér við og leit til Péturs. Hvernig heldur þú að Jesús hafi horft á Pétur? Hvað heldur þú að hafi falist í augnaráði frelsarans er hann snéri sér og horfði yfir eldinn í hallargarðinum og augu þeirra mættust?
„Símon Jóhannesson” sagði Jesús við Pétur er þeir síðar sátu og horfðust í augu yfir kolaeldi við Genesaretvatnið. „Símon!“ Þetta er ein af síðustu frásögnunum af því sem átti sér stað eftir upprisu Jesú áður en hann steig til himna. Jesús ávarpar Pétur með gamla nafninu. Sá Pétur sem þarna sat var búinn að ganga í gegnum hakkavél reynslunnar, ef svo má að orði komast um jafn alvarlegt mál. Þeir sitja við kolaeld eins og þann sem logað hafði í hallargarðinum og horfast í augu. Í þrígang, jafn oft og Péur hafði neitað því að þekkja meistara sinn, spurði Jesús: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?” Jóhannes greinir frá samskiptum þeirra í 21. kafla guðspjallsins og það er magnþrungið er Pétur svarar í þriðja sinn: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“
Það var ekki bara Jesús sem vissi allt í þessu máli. Pétur vissi allt um sitt eigið svikula hjarta. Þegar Martin Montag í sögu Steinunnar Sigurðardóttur horfir í huganum á sinn fyrsta fund með konunni sem hann elskar þá segir hann: „Það voru svik við fyrstu sýn.” Í ljós kemur að þetta heiðarlega innsæi mannsins verður lykillinn að bata hans og lesandinn kveður bókina með von í hjarta.
Þannig er líka sagan af Pétri og þannig má vera sagan mín og þín. Við megum segja eins og Pétur „Drottinn, þú veist allt.” Og í því samhengi. Í beinu samhengi við það allt þekkjandi betur og betur okkar eigið svikula hjarta getum við horft í augu frelsarans yfir kolaeldi reynslunnar og sagt: “Drottinn þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.”
Amen.