Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Kristið fólk á jörð var snemma á fótum á þessum morgni. Um allan hinn kristna heim kemur fólk saman í árdagsbirtu páskamorguns og fagnar mesta undri allra undra. Gleðin er margföld. Það er gleðin yfir undri páskanna, gleðin yfir lífinu og gleðin yfir því að vera hluti af þessum stóra söfnuði Krists um alla jörð, og með öllum þeim sem eitt sinn voru á þessari jörð.
Hann sem deyddur var á krossi á föstudaginn langa, tekinn niður af krossinum áður en dagur var allur og lagður í gröf, var þar ekki í morgun. Hann hafði sigrað dauðann. Hann hafði brotið á bak aftur það vald sem sérhver maður verður að lúta. Hinn líflausi líkami sem lagður var í gröf, hefur fengið lífið aftur. Það var ekki annar Kristur og annar líkami sem birtist konunum og lærisveinunum, heldur hinn sami. Leggðu hönd þína í síðusárið sagði Drottinn við Tómas, og hendurnar sem hann lyfti yfir þau sen hann blessaði þar voru gegnumstungnar. Samt hafði líkami hans öðlast himneska tilveru sem var frábrugðin hinni jarðnesku og fullkomnari henni.
Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. Frammi fyrir undri páskanna, undrast önd og hugur og munnurinn hljóðnar, rökhugsun og skynsemi verður óstyrk og ráðvillt, frumlegar ræður og útleggingar verða heimskulegar, aðeins bljúgur hugur og barnsleg trú sem tekur undir hinn eilífa lofsöng himnanna um hann sem deyr og lifir þó, kann að bregðast við sem ber.
Kæri söfnuður, engan skyldi undra þótt þeim fækki sem lúta vilja hinum hulda veruleika páskanna í heimi sem setur traust sitt allt á eigið afl, eða afl peninganna og valdamanna. Fyrir þeim sumum er trúin og kirkjan þar að auki ógn vegna þess að yfir henni munu þau aldrei geta ráðið, því að farsæld hennar er Guð en ekki menn. En hæðnishróp þeirra og hrækingar kunna að vaxa vegna þeirra sem ekki láta hrekjast af þeim grunni sem lagður er, og ekkert fær haggað, því hann er rótfestur í sköpun heimsins sem ekki er mannanna verk heldur Guðs. Og sjónaukar mannanna, hversu langt sem þeir kunna að greina í alheimi munu aldrei sjá Guð.
Við fórum snemma á fætur í morgun til þess að koma saman og minnast þessa atburðar með allri kirkjunni, lúta þessum leyndardómi og mæta Jesú sjálfum í orði hans. Og aldrei höfum við verið jafn fá hér í Þingvallakirkju við sólarupprás eins og í morgun. Enda veðrið ekki gott og dagur reis snemma. En við vorum hér. Eitt og eitt, en þó ein heild. Eitt og eitt með ólíkar spurningar og ólík svör, ólíkar þrár og ólíkar vonir, og þó eitt, þó ein heild, einn hópur sem sem Jesús kallar á og sem bregst við. Jesús ávarpar söfnuðinn við gröfina eins og hann ávarpaði Maríu. Sumir þekkja hann strax. Aðrir alls ekki.
Að þekkja Jesú. Að baki þeim orðum liggur leyndardómur páskanna. Hann er ekki sá einn að látinn lifir. Að sá sem lagður var í mold er ekki þar heldur heima hjá Guði. Hann er sá að Jesús lifir eins og þú og að þú getur kynnst honum til að þekkja hann eins og bróður þinn.
Sigur hans yfir dauðanum vottar ekki aðeins fyrirætlun Guðs um eilíft líf, heldur breytir öllum forsendum lífsins nú og hér. Dauðinn, í hverri þeirri mynd sem við mætum honum og með hverjum þeim hætti sem hann gerir vart við sig, er aðeins endurskin þess sem þegar hefur tapað. Það er ekki aðeins huggun þeim sem hafa misst, heldur styrkur þeirra sem berjast fyrir lífinu, og með lífinu og elska það , eins og lífgjafann sjálfan.
En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. (Matt.28.)
Fyrirheit hins upprisna Drottins um að hann fari á undan til Galileu og þar muni hann hitta postulana ellefu, iniheldur þessa umhugsunarverðu línu: En sumir voru í vafa.
Jóhannesarguðspjalli segir frá því að þegar lærisveinarnir komu saman að kveldi upprisudagsins kom Jesús og sagði við þá: „Friður sé með yður!“ Og hann sýndi þeim hendur sínar og síðu. En Tómas var ekki með þeim. Og þegar hann frétti þetta sagð hann „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“ Tómas hélt að hann þyrfti að þreifa á til að trúa. María Magdalena var úti fyrir gröfinni á páskamorgunn, sá Jesús og hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn. Með öðrum orðum: Hún trúði ekki sínum eigin augum. Konurnar sem gengu inn í gröfina og heyrðu engilinn segja þeim að Jesús væri upprisinn, trúðu því alveg efalaust og hlupu strax af stað til að segja frá (þó að reyndar sum guðspjöllin segi að þær hafi ekki þorað að segja neitt.) Jesús er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn! Gröfin er tóm! En lærisveinarnir trúðu því ekki. Ekki fyrst í stað. Ritningin tekur fullt tillit til þeirra sem efast og reiknar með því að það séu alveg eðlileg viðbrögð. Enda er efinn sjálfsagður og eðlilegur förunautur trúarinnar. Það má jafnvel kalla hann ráðhollan vin því að hann getur hjálpað til við að greina kjarnann frá hisminu. En það er samt ekki það sem hér er aðalatriðið, heldur hitt að trúin á Guð er ekki blindur og ófrjáls átrúnaður, eða þvinguð játning trúar. Trúin á Guð og einkason hans Jesú Krist er ekki bara trú heldur tileinkun á lífsskoðun og kristnu gildismati. Þetta er trú sem er stöðugt samtal við Guð og jafnvel glíma við hann um leið og hún er einlæg hlýðni við vilja hans eins og hann birtist í því samtali. En efinn segir hjartanu: Þó að ég þori að trúa því að Kristur sé upprisinn, sé ég ekki hvaða áhrif það ætti að hafa í lífi annarra, eða í mínu eigin. Konurnar þorðu ekki að trúa fyrr en þær sáu gröfina tóma og heyrðu raust engilsins.Tómas efast um vitnisburð félaga sinna, lærisveinanna, þegar þeir segja: Við höfum séð Drottinn. Postuli efast og glímir við trúna. Trú og efi, trú og trúarefi. Það eru tviburar í innri spennu. Efinn í trúarlífinu hefur jákvæða eiginleika. Efinn getur sannarlega valdið vonbrigðum, en hann getur líka sýnt okkur blekkingar sem við höldum fast í, og fjarlægt draumsýnir. Hann tekur frá okkur ímyndanirnar, frelsar okkur frá sjálfsblekkingu og sjálfsánægju til sjálfsvitundar, sem styrkir trúna. Efinn er ekki óvinur trúarinnar heldur miklu fremur verndari hennar. Efinn verndar frá því að leggja trúna á of fljótvirkar lausnir. Hann verndar frá því að rugla saman ónýtum rökum og gildum rökum. Og hann verndar mann frá því að taka of mikið uppí sig , því að hann veit að á bak við það er oftar en ekki verið að reyna að fela eitthvað. Við sem trúum eigum þess vegna að bjóða efann velkominn sem félaga, þó við látum honum ekki eftir allt sviðið. Hann minnir okkur á með hverju við störfum, hvað við notum þegar við tölum um trúna, við Guð. Hann minnir okkur á að loka okkur ekki af eins og lærisveinarnir gerðu, bak við læstar dyr. Góður efi er alltaf betri er syfjulegt afskiptaleysi. Sá sem efast er í djúpum sálar sinnar að leita að sannleikanum, að leita Guðs. Efinn táknar í raun ekkert annað en að mér er ekki sama um Guð og um trúna. Mér er ekki sama um það hvernig ég hugsa um Guð og hvort ég hugsa um hann. Og það er stór vitnisburður fyrir hinn upprisna Drottin Jesú Krist. Þannig er hann lifandi í okkur.
Þið leitið að Jesú frá Nasaret hinum krossfesta. Hann er upprisinn , hann er ekki hér. (Mark.16.6) Þetta sagði sendiboðinn sem stóð inni í gröfinni, skrýddur ljósi, við konurnar úti fyrir. Boðskapur guðspjallsins og engilsins er þessi: Jesús sem sannarlega er persóna í gamalli sögu, er samt einmitt ekki persóna í gamalli sögu, heldur lifir hann í persónulegri nálægð. Hann gengur sem lifandi leiðtogi á undan okkur og kallar okkur til að fylgja hinum lifandi eftir og finna veg lífsins. Svo að ekki bara ég og þú megum stíga í gegnum gröfina eins og í gegnum dyr inn til Guðríkisins , heldur að öll sköpun Guðs rísi upp og verði ný og heil og hrein. Því að sigur baráttunnar á krossinum á födudaginn langa fullkomnast í upprisunni.
Í lok Jóhannesarpassíu Bachs setur tenórinn fram stóra spurningu til þeirra sem á hlýða : Þú hjarta mitt, úr því að veröld öll kvelst í Jesú kvöl, sólin klæðist sorgarklæðum , fortjaldið rifnar og björgin brotna, jörðin bifast og grafirnar opnast af því að þau líta dauða skapara síns, hvað ætlar þú þá að gera þar sem þú ert?
Svar. Ég ætla út að gröfinni og fagna upprisunni!
Dýrð Sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.