Framtíðarlandið

Framtíðarlandið

Og lykilinn er ekki að finna í Google, og þú ferð erindisleysu ef þú hyggst finna hann í grafhvelfingum eða fornum handritum. Sannleikann leiðir sjálfur Guð í ljós er hann birtir sjálfan sig og vilja sinn og áform í Jesú Kristi. Það er grunnforsenda kristinnar trúar. Vísindin skilgreina en trúin túlkar.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
23. júní 2006
Flokkar

Nú kom sá tími, að Elísabet skyldi verða léttari, og ól hún son. Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni, og samfögnuðu henni.

Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn, og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum.Þá mælti móðir hans: Eigi skal hann svo heita, heldur Jóhannes.

En þeir sögðu við hana: Enginn er í ætt þinni, sem heitir því nafni. Bentu þeir þá föður hans, að hann léti þá vita, hvað sveinninn skyldi heita.

Hann bað um spjald og reit: Jóhannes er nafn hans, og urðu þeir allir undrandi. Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga, og hann fór að tala og lofaði Guð. En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: Hvað mun barn þetta verða? Því að hönd Drottins var með honum.

En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift: (...) Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra. Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg.

En sveinninn óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags, er hann skyldi koma fram fyrir Ísrael. Lúk.1.57-80

Við heyrðum sögu hér áðan, guðspjall Jónsmessunnar er saga af fæðingu barns. Biblían segir okkur margar hliðstæðar sögur. Sögur um fæðingu barna sem áttu það sameiginlegt að benda okkur á að lífsferð okkar er æðra gildis. Þegar sól rís hæst og sólargangur er lengstur þá beinir kristin kirkja athygli okkar að Jóhannesi skírara. Líf hans var helgað því að boða komu Jesú Krists, hans sem er sólnanna sól, og sagði um sjálfan sig: “Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.” Allar sögur Biblíunnar eru reyndar sagðar til að benda á Hann. Jesús Kristur, er lykillinn að hinni helgu bók, sögu hennar og boðskap. Og hann er lykillinn sem lýkur upp ráðgátum lífs og heims. Hann varpar birtu sinni yfir lífsferð manns og örlög öll og lýkur upp sýn til þess framtíðarlands þar sem allt er orðið nýtt.

Guð er uppspretta alls lífs. Fegurð Guðs og dýrð glitrar í hjarnbreiðu jökulsins, Guðs andi hvíslar í laufi og stör, í niði ánna og söng fuglanna og í bliki barnsaugans. Allt ber skapara sínum vitni, augljóst þeim augum sem sjá og eyrum sem heyra. Veistu það að í hverjum snjókristalli, - og hvað margir skyldu þeir nú vera sem mynda glæstan hjálm Snæfellsjökuls, sem glitrað hefur svo fagurleg í kvöldsólinni undanfarið? –Veistu að hver einasti snjókristall myndar fangamark Krists? Og í hverju auga sóleyjarinnar á blettinum má sjá merki hans. Guð hefur merkt sér snjó og sóley, sumar og vetur, líf og dauða, allt ber vitni um skaparann. Allt er gott, lífið er í föstum skorðum, af því að það er skapað af góðum Guði. Þetta veit trúin, og treystir. Þetta vissi Sakaría og Elísabet. Og þetta kenndu þau Jóhannesi, syni sínum. Síðan eru liðnar þúsaldir tvær. Og það er margt sem við vitum betur en þau, íslenskt grunnskólabarn hefur meiri þekkingu og upplýsingar við fingurgómana en gjörvöll heimsbyggðin hafði þá. Þó er ég ekki viss um að við vitum neitt meira um það sem máli skiptir. Við með alla okkar þekkingu og alla okkar tækni og öll okkar vísindi.

Iðulega er því haldið fram að vísindin hafi útrýmt Guði. Vísindin leitast við að varpa ljósi á hvernig heimurinn varð til, og það þarf ekki að stangast á við trúna, ráðgáturnar eru fremur til að undrast og gleðjast yfir, leyndardómur til að virða og lúta fremur en vandamál til að glíma við og leysa. Með allri virðingu fyrir raunvísindunum - raunvísindi nútímans eru mesta andlega afrek okkar daga og hafa bætt líf og kjör umtalsvert Guði sé lof fyrir þau – þá mun sannleikurinn um tilgang sköpunarinnar og eilíft gildi lífsins aldrei verða í ljós leiddur með smásjám eða stjörnukíkjum, efnagreiningum og ekki einu sinni skoðanakönnunum og rannsóknum félagsvísindanna. Og lykilinn er ekki að finna í Google, og þú ferð erindisleysu ef þú hyggst finna hann í grafhvelfingum eða fornum handritum. Sannleikann leiðir sjálfur Guð í ljós er hann birtir sjálfan sig og vilja sinn og áform í Jesú Kristi. Það er grunnforsenda kristinnar trúar. Vísindin skilgreina en trúin túlkar. Vísindin afla þekkingar, sem er vald, en trúin veitir manninum visku sem er stjórn. Vísindin vinna með staðreyndir, en trúin með gildi. Hvort tveggja þarf að haldast í hendur ef vel á að fara.

Það er alveg áreiðanlegt að blind tæknitrúin og skefjalaus vísindahyggjan sem afskrifar Guð og þykist í hroka og sjálfumgleði afsanna tilvist hans, ógnar lífi og heill jarðar. "Hvar er viskan sem við töpuðum í þekkingu? Hvar er þekkingin sem við glötuðum í upplýsingum?" segir enska skáldið TS Eliot.

Og það er líka satt sem eitt sinn var sagt, að sá sem ekki trúir á Guð trúir ekki engu, hann trúir öllu! - Í fyrra gerðist það á bresku síðdegisblaði að umsjónarmaður stjörnuspárinnar mætti ekki til vinnu, og ritstjórinn fól nýbyrjuðum blaðamanni að skrifa stjörnuspá morgundagsins. Hann gerði sér til skemmtunar að skrifa undir einu stjörnumerkinu: “Allar sorgir liðinna ára munu virðast léttvægar á móti því sem þú munt verða fyrir í dag.” Hann var rekinn þegar skiptiborð blaðsins brann yfir þegar skelfingu lostnir lesendur reyndu að ná sambandi við hann.

Sagt er að sveinninn Jesús hafi vaxið að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum. Þess sama óskum við öllum börnum til handa. Og mannkyni, landi okkar og lýð. Vöxturinn einn virðist oft vera eina markmiðið, með hærri tölur, meiri gróða, stærri mannvirki, öflugri tæki, hraðvirkari samskipti, en manneskjan situr eftir, sálin situr eftir. Viskan og náðin þurfa að haldast í hendur við vöxt og þroska.

Við þráum framtíðarland, við þráum að endurheimta Paradís. Guðsþjónusta kirkjunnar er viðleitni til að bregða upp mynd framtíðarlandsins, messan er Paradísarheimt, þrá eftir ummyndun, upprisu, endursköpun. Þrá til hans sem kemur með lækning, ljós og líf, nýjan himinn og nýja jörð þar sem réttlætið býr. Guðsþjónustan er viðleitni til að endurheimta undrunina yfir leyndardómum lífsins, endurheimta undrunina og lotninguna yfir fegurð sköpunarverksins, gleðina yfir mannlegu samneyti, fögnuðinn yfir því að vera fyrir augliti Guðs, komin heim að borðinu heima, borðinu sem hann reiðir fram fyrir börnin sín, og þar sem allir eru jafnir og allir eru eitt. Guðsþjónustan er þjálfun fyrir eilífðina, og æfing í visku og þekkingu, að leitast við að gera vilja Guðs, sem er hið góða, fagra og fullkomna. Góðu fréttirnar, fagnaðarerindið um Jesú Krist, frelsarann krossfesta og upprisna er lykillinn að leyndardómum lífs og tilveru. Hann sem fæddist í Betlehem og flutti fjallræðuna og dó á krossinum, hann birtir Guð. Hann sýnir aflið æðsta í alheimsgeimi og innst í þinni sál. Sýnir hver gæfuleiðin er í lífinu. Upphaf lífsins, mark og mið er hjá honum.

Hér erum við, í undraveröld miðsumarnætur. Til okkar berst boðið frá Guði: Að dögunin er í nánd, dagrenning með nóttlausa voraldarveröld þar sem Drottinn hefur leyst viðjar allar, læknað öll þín mein, þerrað öll tár, nema gleðitárin og feginleikans. Höfum við heyrt, höfum við skilið? Við skulum þakka, við skulum syngja og við skulum fagna og við skulum láta líf okkar og viðmót bera því vitni að við trúum, vonum og elskum í frelsarans Jesú nafni.