Þegar barn er fært til skírnar minnumst við frásagnar Markúsarguðspjalls sem segir frá því þegar foreldrar komu með börn sín til Jesú til að þiggja blessun hans en lærisveinarnir mannlegu, misskildu hlutverk sitt, héldu að Jesús hefði ekki tíma til að “kjá” framan í börn og ráku þau snyrtilega í burtu. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann sagði við þá “ Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.” (Mark.10.13-16)
Hvað segir þessi frásögn okkur? Hún segir svo ótrúlega margt um Guð. Hún segir okkur það að Guð forgangsraðar aldrei fólki, að Guð á ekki bara erindi við “málsmetandi” aðila samfélagsins sem geta hugsað afstætt og sett kenningar í samhengi. Frásögnin undirstrikar erindi Guðs, að hann er ekki að leita að guðfræðingum til starfa heldur annars vegar opnum hjörtum og hins vegar týndum sálum, manneskjum sem eru tilbúnar að deila trú sinni en líka manneskjum sem þrá hlutdeild í trú annarra. Þessar manneskjur leitast heilagur andi við að leiða saman og þannig stækkar kirkjan og dafnar og siglir þrátt fyrir mótbárur tíðarandans .
En þessi frásögn sem oft er nefnd barnaguðspjallið er líka mikilvæg skilaboð til allra uppalenda því hún mótmælir þeirri afstöðu sem heyrðist tíðum á “góðæris” ferlinum, að samvera foreldra og barna snerist ekki um magn, heldur gæði. Dálítíð skondið þar sem allt annað var metið í magni á kostnað gæða, vinna, arður og jafnvel afþreying. Jesús myndi aldrei ráðleggja neinu foreldri að ástunda uppeldi eins og líkamsrækt, við eigum að veita börnunum okkar tíma og sá tími á að mestu að einkennast af áreynslulausri samveru en ekki skipulagðri dagskrá. Hugmyndin um gæði umfram magn í mannlegum samskiptum einkennist í raun af ákveðnum hroka gagnvart lífinu sem í eðli sínu er gjöf og tíminn sem hluti þess gjafar býr í hverjum andardrætti. Meira munum við aldrei vita.
Æskulýðsstarf kirkjunnar er unnið samkvæmt boðun Jesú Krist, í því felst einmitt sú guðlega afstaða að veita ungmennum þann tíma og athygli sem þau þarfnast. Það er eitt af meginmarkmiðum starfsins, í kirkjum landsins starfar hæfileikaríkt hugsjónafólk sem leggur ekki áherslu á flugeldasýningar í hverri samveru, heldur innihaldsrík samskipti þar sem börnin upplifa sig fá athygli, uppörvun og skjól.
Í dag sunnudaginn 7.mars fögnum við því mannbætandi starfi sem kirkjan vinnur með æsku landsins, í flestum kirkjum munu börn og unglingar bera uppi helgihald dagsins og ef einhver heldur að kirkjan sé barn síns tíma ætti sá hinn sami að gera sér ferð í auglýsta guðsþjónustu og sjá með eigin augum að það eru börnin sem eiga tíma kirkjunnar.