Eins og hindin þráir vatnslindir þráir sál mín þig, ó Guð. Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði Þessi orð Gamla testamentisins lýsa þúsund ára þrá manneskjunnar eftir nærveru Guðs. Þekkir þú þennan þorsta? Ég þekki hann. Þessi líking af hindinni sem þráir vatnslindina er myndræn en um leið nær hún inn á dýpi sálarinnar, það er verið að tala um andlegan þorsta. Við erum minnt á að andinn og líkaminn eru ekki aðskilin. Andinn er ekki æðri líkamanum eins og við gætum þó auðveldlega haldið við lestur ýmissa fagurbókmennta sem og fornrar og nýrrar speki. Okkar samtími hefur verið sakaður um hið gagnstæða, að dýrka líkamann og setja í öndvegi, á kostnað sálarinnar eða andans. Allar slíkar öfgvar á hvorn veginn sem er hafna í öngstræti. Eitt af því sem mér fellur svo vel við boðskap biblíunnar bæði í gamla og nýja testamentinu er áherslan á manneskjuna sem heild, líkama, sál og anda. „Mig þyrstir“ er ein af síðustu setningum Jesú. „Sál mína þyrstir eftir hinum lifanda Guði“segir sálmaskáld Davíðssálma einhverjum hundruðum ára fyrr. Samvinna líkama og sálar. Samvinna, samábyrgð, samlíðan, samviska. Páll postuli kemur inn á þessa hluti í bréfi sínu til Rómverja í pistli dagsins. Hann hvetur okkur til að bjóða okkur sjálf fram sem lifandi fórn. Við eigum að umbreytast nýju hugarfari. Gæti Páll verið að skrifa okkur bréf, íslenskri þjóð, eftir Hrun? Við þurfum nýtt hugarfar, hvorki meira né minna. Hver er svo vilji Guðs í þeim efnum? Stórt spurt, en við skulum samt spyrja, hver er vilji Guðs? Það stendur ekki á svari Páls postula: vilji Guðs: hið góða, fagra og fullkomna. Það eru háleit markmið en það eru markmið sem við eigum að stefna að. Við eigum að stefna að hinu góða, fagra og fullkomna! Er það ekki magnað hvernig þessir eldgömlu textar tala beint inn í okkar aðstæður. Það er fátt nýtt undir sólinni. Hvernig stefnum við að hinu góða, fagra og fullkomna? Við fáum leiðbeiningar áfram. Það á enginn að hugsa hærra um sjálfan sig en hugsa ber... Við eigum að vinna saman. Við höfum á einum líkama marga limi sem ekki hafa allir sama starfa. Líkingin af kirkjunni sem líkama er svo falleg. Við búum öll í einum slíkum og finnum að ef einhver hluti líkamans er óvirkur eða vansæll þá fer allt jafnvægið úr skorðum. Það sama á við í kirkjunni, þegar við erum farin að vinna gegn hvert öðru þá fer illa. Það má þó ekki skiljast sem svo að við þolum ekki átök eða gagnrýni, markmiðið þarf einfaldlega að vera skýrt, við eigum að stefna að heilbrigði, hinu góða fagar og fullkomna. Í upphafi árs liggja væntingar í loftinu. Jónin hafa kvatt, hversdagurinn tekið við og nokkuð langt í næsta „rauða“ dag dagatalsins. Tregi vegna þess að hátíðin er að baki, en um leið finna mörg okkur ákveðinn létti í rútínu og festu hversdagsins. Það eru ekki alltaf jólin og hjá sumum voru engin jól þetta árið. Sorg, áföll, víma áfengis eða fíkniefna er meðal þess sem hindraði komu jólanna hjá einstaklingum og fjölskyldum þetta árið eins og öll hin árin. Sem kirkja berum við ábyrgð á systkinum okkar sem eiga um sárt að binda. Sem samfélag sem kennir sig við jöfnuð og réttlæti berum við ábyrgð. Það stefnir í kosningu í stór embætti á þessu ári. Það er ljóst að í kirkjunni verður kosinn nýr Biskup Íslands og vígslubiskup að Hólum. Margir túlkuðu orð forseta lýðveldisins með þeim hætti að einnig þar yrðu vistaskipti á árinu. Það skiptir miklu máli að vel takist til að velja fólk til þessara þjónustu. Kröfurnar eru miklar, líklega svo miklar að engin manneskja er fær um að uppfylla þær. Við þurfum fólk sem nær góðu sambandi við þjóðina sem treystir þeim til verksins. Fólk sem er kjarkmikið og fært um að hlusta og skilja. Við þurfum biskup og forseta með gott hjartalag. Foresta lýðveldisns fá allir að kjósa sem náð hafa tilskyldum aldri, 18 ára. Ég finn aukna ábyrgð í vali á Biskupi Íslands þar sem einungis lítið brot þjóðkirkjufólks hefur atkvæðisrétt. Þá er ég loksins komin að guðspjalli dagsins. Þar segir frá árlegri ferð Jesú með þeim Maríu og Jósef til Jerúsalem. Páskahátíðinni var að ljúka en þau höfðu dvalið þar um hátíðina. Eftir mikla leit foreldranna sem að 12 ára syni sínum þegar heim skyldi haldið töldu þau víst að hann hafi farið með vinafólki sem þegar hafði lagt af stað heim. Það var ekki hægt að senda SMS í þá daga. Þau komust að því eftir að hafa gengið dagleið að Jesús var ekki með þeim og snéru þegar við til borgarinnar. Það tók þau heila þrjá daga að finna hann. Það er auvelt að setja sig í spor örvæntingarfullra foreldranna. Þau fundu hann loks í helgidómnum þar sem hann hafði vakið mikla afhygli fyrir skilning sinn og andsvör hjá hinum háu herrum sem kölluðust lærifeður. Skiljanlega var María höstug þegar hún spurði hví hann gerði þeim þetta, þau hefðu leitað hans harmþrungin. Hann virtist undrandi og spurði á móti hvort þau vissu ekki að honum bæri að vera í húsi föður síns. Þau skildu það ekki en María geymdi þetta í hjarta sér. Merkileg þessi frásögn. Við lesum um boðun Maríu þega engill birtist henni með þau tíðindi að hún yrði þunguð og það væri sonur Guðs sem hún bæri undir belti. Við þekkjum fæðingarfrásögnina ljúfsáru þegar hreysi breyttist í höll og englarnir sungu á Betlehemsvöllum. Við þekkjum Fjallræðuna, frásögn af kraftaverkum, dæmisögur. Síðasta kvöldmáltíðin er okkur kunn, krossdauðinn, upprisan og uppstingingin. En það er þessi eina frásögn á milli fæðingar og fullorðinsára. Hún rennir frekari stoðum undir að Jesús var ekki venjulegur maður. Hann hegðar sér ekki eins og venjulegur tólf ára drengur, hann var það heldur ekki. Hann er fyrirmynd okkar að hinu góða fagra og fullkomna. Þegar ég er að hugsa hvernig biskup ég vilji kemst ég að því að kröfur mínar eru óraunhæfar, helst vildi ég manneskju á biskupsstól sem væri góð fögur og fullkomin eins og Jesús sjálfur. Ég veit ég þarf að slá af kröfunum, en ég vil sjá manneskju sem leitast eftir að lifa í trú og sannleika. Óttast ekki að leita ráða og aðstoðar, gerir sér grein fyrir takmörkunum sínum og leitast við að uppfylla það sem á vantar hjá góðu samstarfsfólki og með því að rækta trú sína í bæn, boðun og þjónustu. Til þess að fylla í myndina af líkamanum þarf að spyrja og hlusta, leita fanga sem víðast. Hjá verkafólki og ráðherrum, kennurum og læknum, öryrkjum og vísindamönnum, börnum og verslunarfólki, listafólki og eldri borgurum. Guð gefi okkur kjark og vit til þess að vinna saman að betra samfélagi sem miðar að hinu góða, fagra og fullkomna.