„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá“ segir í Hebreabréfinu 11. kafla.
Ég var stödd í klaustri í sumar með mágkonu minni, Hildi Eir Bolladóttur og 6 ungleiðtogum úr kirkjustarfi Akureyrarkirkju. Við ákváðum að heimsækja Taize í Frakklandi en það er samfélag bræðra sem koma alls staðar að úr heiminum, bæði kaþólskir og mótmælendendatrúar, um 100 talsins. Reglan var stofnuð árið 1940 af bróður Roger en hann fann þennan fallega stað í Frakklandi og settist þar að, stofnaði regluna, síðar var tekin sú ákvörðun að opna staðinn ungu fólki og koma þangað núna vikulega yfir sumartímann þúsundir ungmenna til að dvelja á staðnum, vinna sjálfboðastörf og eiga saman samfélag.
Samfélagið er algjörlega sjálfbært, þeir þiggja enga styrki, hvorki frá einstaklingum, trúarstofnunum eða fyrirtækjum. Einn bróðir sagði okkur að ef þeir gerðu það, þá væru þeir ekki frjálsir að því að reka samfélagið eins og þeir vilja og hafa lagt upp með, heldur væri sá möguleiki fyrir hendi að hægt væri að fara gera kröfur um að þeir breyti út af hugsjón sinn ef að þeir eru fjárhagslega háðir einhverri stærri stofnun.
Í þetta samfélag eru allir velkomnir, sama hvaðan fólk kemur og það er ekki spurt að því hver þú ert, hverra manna þú ert eða hvaða stöðu þú gegnir. Það var meira segja mælt með því að fyrstu dagana að fullorðna fólkið sem var þarna samankomið, segði ekki hvaða stöðu það gegnir í lífinu, hvort þau væru t.d. vígðir þjónar eða leikmenn í umræðuhópum, vegna þess að um leið og þú ert búin að segja hver staðan þín er eða til dæmis úr hvaða trúfélagi þú kemur, þá fer fólk ósjálfrátt að staðsetja þig, gera ákveðnar væntingar til þín eða fyllist fordómum eftir því þá hvar það er sjálft staðsett í lífinu. Í þetta samfélag, Taize samfélagið gengur þú inn á eigin forsendum, nánast nafnlaus og getur þannig myndað tengsl eða fengið frið, verið í þögn ef þú kýst svo, alveg óáreitt/ur. Fyrir því er borin ákveðin virðing og umburðalyndi.
Það er ákveðin hvíld fólgin í því að ganga inn í svona samfélag, þar sem engin veit hver þú ert og hvaðan þú kemur. Þú ert bara ein eða einn af mörgum sem eru komin saman til að dvelja og hvíla í og undir sama markmiðinu sem er trúin á Jesú Krist.
Ef við skoðum frumkristnina þá er hún alltaf fullkomlega samfélagsleg. Trúin myndaðist og birtist í samfélagi fólks og í gegnum mannleg tengsl, samtal og samhjálp. Þegar fólk kom saman til að heyra um Jesú, biðja saman og/eða borða saman, þá varð trúin til. Síðar hefur þróunin orðið sú að trúin hefur færst frá opinbera sviðinu og sífellt meira inn á einkasviðið og orðin persónuleg og stundum jafnvel feimnismál.
Þó má segja að við sjáum enn þann dag í dag samfélagslega trú birtast í mörgum myndum og þá er það einna helst í samhjálpinni þegar eitthvað bjátar á. Þegar erfiðleikar steðja að, þegar náunginn finnur fyrir þörf til að láta eitthvað af hendi rakna, leggja til aðstoð í göngur þegar veðrið virðist ætla að leika menn og málleysingja grátt, það er bankað á dyr þegar sorgin hefur kvatt dyra, hlýlegt bros og öxl til að gráta á þegar lífið er erfitt og öll sund virðast lokuð.
Sorg, efi og vantrú á sér nefnlega líf samhliða trúnni. Það getur engin trúað nema finna um leið fyrir takmörkunum eigin trúar. Og samt er það oft þannig að það þarf bara örlítinn neista, vonaneista til að við fáum haldið áfram veginn, fetað grýttar brautir.
„Trúin er nefnilega fullvissa um það sem menn vona“.
Ljóðskáldið Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson yrkir svona í ljóðinu „Bænhús“
Undir lágu þakinu Auðvelt að lúta höfði Leiða hugann að því Sem er í hjartanu Gleymdar eru árstíðir Gjafmilld stundarkyrrð Í brjósti sú von Að bæn mín verði heyrð Undir grösugri þekju Er Guð svo nálægur.
Ég var stödd á flugvellinum Paris Charles de Gaulle snemma að morgni, nýlent eftir næturflug, á leið í áðurnefnda ferð. Úti var 35 stiga hiti, sól og tilhlökkun í brjósti yfir ferðinni sem nú var hafin. Ungmennin sem voru með, voru glöð en allir frekar þreyttir eins og eðlilegt er eftir miklar vökur og ferðalag. Ég stóð við færibandið þar sem farangurinn kemur út úr vélinni og beið. Allir fengu sínar töskur og allt virtist ganga upp, síðan er mér litið upp á tölvuskjá fyrir ofan bandið og sé að þar birtist textinn að lokið sé afhendingu á farangri. Ég fann hvernig blóðið fraus í æðunum á mér og angistartilfnningin helltist yfir mig. Taskan mín hafði ekki skilað sér út úr vélinni. Fyrst fann ég fyrir vantrú, að þetta gæti ekki verið staðan. Ég var á leið beint úr úr París með hraðlest á stað þar sem er ekki einu sinni verslun. Það var sunnudagur og á sunnudögum er allt lokað ólíkt því sem þekkist hér á landi þar sem mesta tískan er að bjóða upp á opnunartíma allan sólarhringinn, meira segja var hægt að versla skóladót um daginn um miðja nótt í Reykjavík um daginn en það er önnur saga.
Þetta er ekki allt, því ég var ekki á leið inn á 5 stjörnu hótel í Taize, heldur að fara að gista í tjaldi og í töskunni var tjalddýnan, svefnpokinn, linsurnar mínar, aukaföt, snyrtidót og allt sem ég þurfti á að halda eins og gefur að skilja þegar lagt er upp í svona langferð. Ég stóð í smá stund, raðaði mér saman enda ekkert annað í boði, fór að þjónustuborði, tilkynnti þetta, hélt svo út í rútu og beint á lestarstöðina í París. Þar var eins og áður sagði allt lokað og eina sem ég gat gert var að halda út úr París, með ekki neitt, upp á von og óvon að þetta myndi einhvern veginn reddast.
Það er svo merkilegt að jafnvel í þeirri stöðu, þegar maður fyllist fullkominni angist, finnur sig allt í einu gjörsamlega upp á aðra komin, myndast um leið von um það að maður muni mæta einhverjum sem getur rétt hjálparhönd eða aðstoðað mann við að koma sér út úr ógöngunum. Nú er ég ekki að segja það að þessi reynsla mín sé á pari við það erfiðasta sem manneskjan getur þurft að takast á við í þessu lífi, það væri fullkomlega ónæmt af mér að halda því fram, en þessi reynsla var ákveðin lærdómur fyrir mig, þar sem að um stundakorn upplifði ég fullkomið bjargarleysi og vanmátt, ég meira segja upplifði eins og lítið barn heimþrá og löngun til að vera ekki stödd í þessum aðstæðum og ósk um að geta bara lokað augunum og vaknað heima í rúminu mínu, með fólkinu mínu, eins og þetta hefði aldrei gerst.
En, ég gat það ekki, mér varð ekki ósk minni og ég varð bara að halda áfram. Það var ekkert annað í stöðunni og í þeirri stöðu myndaðist vonarneisti. Uppgjöf nærir nefnilega vonleysi, það að rísa upp og halda áfram nærir vonina.
Það er það sem samfélag trúar gerir einnig. Þegar ég kom til Taize með ekkert nema fötin sem ég stóð í, þá smátt og smátt leystist úr þessum aðstæðum. Í stað þess að þurfa að sofa í tjaldi, hafði mér og Hildi, verið úthlutað án þess að við vissum af því, kofi til að sofa í, þar voru rúm, þannig að ég þurfti ekki að sofa á jörðinni. Ég tjáði einum bróður sem tók á móti okkur, þessa hrakfarir mínar. Kortéri seinna, kom hann með teppi og lak til að sofa með, nýjan tannbursta, tannkrem, sjampó og handklæði. Ég get sagt ykkur það að þessi útrétta hjálparhönd, fékk mig næstum því til að fara að gráta af gleði. Aldrei hafa mér þótt þessir sjálfsögðu hlutir svona eins og tannkrem og tannbursti jafn stórkostlegir ásýndum. Yfir mig færðist ákveðin ró og friður og ég vissi þarna að þetta myndi fara vel. Ég komst reyndar ekki til að versla nýja hluti fyrir en á fimmta degi, var þá búin að vera í sömu fötunum í 4 daga, í tæplega 40 stiga hita og hafði þvegið bolinn minn og nærföt í vaski á kvöldin og taskan skilaði sér á 9. degi, þá var ég komin á hótel í París og þurfti ekki lengur á tjalddýnunni að halda eða svefnpokanum. En þetta gekk og úr aðstæðunum leystist, þrátt fyrir að við fyrstu sýn hafi staðan virst fullkomlega ómöguleg.
Kærleikur Guðs til okkar mannanna birtist í útréttri hönd náungans til þín þegar þú ert vanmáttugur, þegar þú átt síst von á því og öll sund virðast lokið, þá opnast dyr. Það er samfélagslegt eðli trúarinnar, það er þetta að þú ert aldrei einn/ein á ferð. Það er birtingarmynd kærleikans hér á jörð og um leið sú hugsun/tilfinning að Guð hafi aldrei yfirghefið okkur og gangi með okkur alltaf.
Aðalsteinn Ásberg yrkir í öðru ljóði sem ber heitið „Vitneskja“:
Hvernig get ég verið sannfærður Alla daga, allar nætur Um að þú sért upprisinn Munað orð þín á krossinum Skilið merkinguna til fulls Ég geng fram hjá tómri gröfinni Og undrast manna mest. Í sömu andrá ertu kominn Máttug hönd þín á herðum mér Og þótt ég sjái þig ekki berum augum Koma orðin óhikað fram á varir mínar: „Herra þú hefur aldrei yfirgefið mig“.
Guðspjall dagsins, segir frá því þegar Jesús hjálpar manni sem hefur verið veikur í 38 ár út í laugina Betseda. En sú var trúin að engill Drottins færi öðru hverju út í laugina og hrærði vatnið og sá sem náði fyrstur að fara út í vatnið yrði heill. Við laugina sat fjöldi fólks, sjúkir og blindir og biðu þess að verða fyrstir út í. Þessi umræddi maður sem sat þarna hafði setið við laugina lengi og engin til staðar til að aðstoða hann út í þegar vatnið fór að hrærast.
Jesús sér manninn og gengur til hans og spyr: Viltu verða heill. Jesús mælir síðan við hann þessi orð: Stattu upp, tak rekkju þína og gakk, maðurinn stendur upp og gengur af stað með rekkjuna undir hönd.
Jesús sér manninn, þegar enginn annar sér hann, hann réttir honum hjálparhönd þegar engin önnur hönd er til staðar, hann vinnur miskunnarverk á degi sem ekkert miskunnarverk mátti vinna. Hann birtist í aðstæðum sem virðast ómögulegar, þegar öll sund eru lokuð, þegar vonleysið virðist algjört, þá kemur hann og vinnur kærleiksverk og maðurinn stendur upp og er heill.
Samfélag trúaðra á að virka á þennan hátt. Þetta er frummyndin af kristnu samfélagi, samfélag sem spyr ekki hver þú ert eða hvaðan þú kemur. Samfélag sem hirðir um manneskjuna fyrst og fremst og spyr eftir á. Samfélag sem sér! „Hver er náungi minn“? spyr lögfróði maðurinn í sögunni um miskunnsama samverjann. Náungi þinn er hver sú manneskja sem þú mætir á lífsleiðinni og allar hennar aðstæður, bæði stórar og smáar skipta máli. Við eigum að láta okkur annað fólk varða, það var það sem Jesús gerði, hann lét sig manneskjuna varða og spurði: Viltu verða heil/heill.
Annríki hversdagsins á ekki að koma í veg fyrir að við sýnum hvort öðru vinarþel og kærleika. Vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft, þá er það, það mikilvægasta sem við skiljum eftir okkur þegar að ævikvöldið er á enda, það að hafa verið í góðum mannlegum tengslum. Að hafa lagt vel inn í gleðibankann, að hafa sýnt fólki áhuga og ræktað tengslin við okkar nánustu. Mannleg tengsl eru það dýrmætasta sem við eignumst. Mannleg tengsl geta mótað trú, nært von og gefið kærleika. En eins og segir í vel þekktum texta Biblíunnar: En nú varir trú, von og kærleikur en þeirra er kærleikurinn mestur.
Læt Aðalstein Ásberg eiga lokaorðin hér í dag með ljóðinu „Huggari, græðari, lausnari“:
Þrátt fyrir annríkið Efasemdirnar Og þær stundir Sem við lifum Án þess að finna Fyrir miskunn og náð Ertu samt hér Huggari, græðari, lausnari Að líta eftir mér.
Þrátt fyrir óhófið Yfirsjónirnar Og þá vegi Sem við rötum Ráðvillt, herjandi Blinduð af heift Ertu samt hér Huggari, græðari, lausnari Og gætir að mér
Skilning og auðmýkt Umburðalyndi Ást og fegurð Allt sem sprettur Upp og dafnar Orðin kviku Í huga mér Huggari, græðari, lausnari Þakka ég þér.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir, alda amen.