Tveggja turna tal

Tveggja turna tal

Friðurinn sem Jesús lofar að gefa okkur kemur þar sem konur og menn fá að tala sínu máli. Sá friður óttast ekki sérkenni náungans, þjóðerni, litarhátt, þjóðfélagsstöðu, fátækt, ríkdæmi eða trúarjátningu. Hann byggir á því að þú og ég höfum fengið gjöf heilags anda, sjáum hlutina frá sjónarhóli sem er hærri en hlaðvarpi eigingirni og ótta.
fullname - andlitsmynd Carlos Ari Ferrer
04. júní 2006
Flokkar

Sagan segir að tröllskessan Kolfreyja hafi komið að prestinum á Kolfreyjustað á Fáskrúðsfirði þar sem hann var úti á túni, innan við bæinn. Prestur hljóp til kirkju með skessuna á hælum sér. Gjá var á vegi þeirra, allbreið, og stökk prestur yfir hana. Heitir hún nú Prestagjá. Prestur náði til kirkju á undan skessunni og hringdi kirkjuklukkum. Við það hrökk skessan frá og hefur ekki sést til hennar síðan.

Kirkjuturninn talar sínu máli og í þjóðtrúnni er mál hans kröftugt, það vinnur á illum vættum og jafnvel Kölski verður að víkja, þegar klukkurnar kalla okkur til helgra tíða. Sums staðar minnir kirkjuturninn okkur á það að tíminn flýgur, að lífið er hverfult og hver stund er Guðs gjöf. Í slíkum turnum eru þá klukkur sem slá allt að fjórum sinnum á klukkustund auk þess að kalla kirkjugesti til guðsþjónustu.

Ekki eru allir hrifnir af slíku klukkuspili. Ég minnist svefnlausra nótta í ókunnu rúmi í ókunnri borg, þar sem klukkurnar hringja dag og nótt. Þær geta haldið fyrir manni vöku með slætti sínum, þessar elskur. Sumt fólk heyrir í kirkjuklukkunni kall trúarinnar, sem það hefur hafnað. Vissulega getur kirkjuklukkan minnt á þá tíma þegar ein trú var leyfð á hverjum stað og trúfrelsi var ekkert. Trúartáknin geta hrokkið frá tilgangi sínum og boðað böl í stað heillar.

Mig langar að beina athyglinni að eldri sögu í eitt augnablik. Sagan tengist Hvítasunnunni og fjallar um það þegar Guð steig niður af himnum og heimsótti mannfólkið.

"Öll jörðin hafði eitt tungumál og ein og sömu orð … og þau sögðu: Gott og vel, vér skulum byggja oss borg og turn, sem nái til himins, og gjörum oss minnismerki, svo að vér tvístrumst ekki um alla jörðina.

Þá steig Drottinn niður til þess að sjá borgina og turninn, sem mannanna börn voru að byggja. Og Drottinn mælti: Sjá, þau eru ein þjóð og hafa öll sama tungumál, og þetta er hið fyrsta fyrirtæki þeirra. Og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þau taka sér fyrir hendur að gjöra. Gott og vel, stígum niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar annars mál. Og Drottinn tvístraði þeim þaðan út um alla jörðina, svo að þau urðu af að láta að byggja borgina. Þess vegna heitir hún Babel, því að þar ruglaði Drottinn tungumál allrar jarðarinnar, og þaðan tvístraði hann þeim um alla jörðina." (Gen. 11, 1-9)

Tvennt er rétt að athuga þegar við lesum þessa sögu. Nafnið "Babel" er nafn stórveldisins sem var öflugast þegar sagan um Babelsturninn var skráð í letur. Babýloníumenn kunnu þá list að undiroka þjóðir sem urðu á vegi hennar og refsuðu grimmilega fyrir öll drottinssvik. Ef við lesum fyrstu ellefu kafla Biblíunnar í samhengi, sjáum við hvert það leiðir, þegar eigingirni fólks er gefinn laus taumur. Þessar setningar ókunnugs trúmanns segja allt sem þarf: "Er Drottinn sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga, þá iðraðist Drottinn þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu." (Gen. 6, 5-6)

Hvort söguritara sárnaði yfirgangur stórveldisins eða illska mannanna læt ég liggja milli hluta. Nóg er að við heyrum tvo turna kallast á í kirkjunni okkar í dag. Hvor fyrir sig talar sínu máli. Babelsturninn kallar mannkyn til mannlegrar útrásar. Kirkjuturninn kallar okkur til Guðs friðar.

Undur Hvítasunnunnar

Rifjum upp það sem stendur uppúr í textum Hvítasunnunnar: Guð "úthellir anda [sínum) yfir allt hold" (Jóel 3,1). Menn, konur, börn, gamalmenni, þrælar og frjálsir fá að finna hvað Guði liggur á hjarta. Andi Guðs verður andi þeirra. Eða með orðum annars spámanns: "Ég mun leggja yður anda minn í brjóst ... að þér hlýðið boðorðum mínum, ... til þess að þér lifnið við" (Esek. 36,27 og 37,14).

Lærisveinahópurinn, kirkjan talar öllum heimsins tungumálum, áheyrendur um allan heim segja: "Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs." (Post. 2,11) Þar sem mörg tungumál eru töluð, kemur skilningur í stað skilningsleysisins sem ríkti allt frá Babelsturni. Og síðast en ekki síst, orðin sem Jóhannesarguðspjall leggur Jesú í munn og eru úr guðspjalli dagsins:

"Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki, varðveitir ekki mín orð ... hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist."  (Jóh. 14, 23nn)

Hvítasunnan er hátíð nýs sáttmála þar sem okkur er gefin innsýn í hjartalag Guðs. Þessi sáttmáli er gefinn öllu mannkyni, ekki fáeinum útvöldum, öllum, óháð þjóðfélagsstöðu, kyni, kynhneigð, aldri eða nokkru öðru sem aðgreinir okkur. Og loks hefur þessi gjöf, þessi sáttmáli ákveðið markmið: Friður, ekki að hætti Babels, Rómar eða BNA. Friður, ekki á grunni yfirburða nokkurrar þjóðar eða nokkurs manns. Friður, án skelfingar og án hræðslu.

Tungan sem getur sundrað okkur og magnað tortryggni, skilningsleysi og ófrið milli menningaheima verður verkfæri Guðs til friðar. Friður sem byggir ekki á grunni hervalds, máttar eða meirihluta. Friðurinn byggir á samningi sem Guð gerir við okkur. Í stað þess að allir töluðu sama máli, í stað þess að allir yrðu eins, talar Guð til okkar á okkar eigin tungu. Ekki sem himnaguð, ekki sem þrumuraust af fjalli. Heldur með orðum manna og kvenna sem hann fyllti af anda sínum. Samningur Guðs leyfir okkur að vera við sjálf en gefur okkur hlutdeild í hjartalagi hans og anda.

Sáttmáli sem sameinar

Ætli Íslendingum virðist auðvelt að líta svo á að þjóðareiningin og þjóðartrúin séu einföld mál? Við lítum til okkar eigin uppruna og horfum til dagsins í dag og fátt virðist hafa breyst á þúsund árum kristni.

Í Kristnisögu segir að til þess að heiðnir og kristnir steyptu landinu ekki í ófriðarbál, skar Þorgeir Ljósvetningagoði svo úr málum "at hvárirtveggja hafi nökkurt til síns máls, en vér höfum allir ein lög ok einn sið, því at þat mun satt vera: Ef vér slítum lögin, þá slítum vér friðinn."

Þessi sáttmáli sem kristni okkar og Þjóðkirkja stendur á fól í sér ákveðið umburðarlyndi í garð þeirra sem heiðnir voru, "menn skyldu blóta á laun, ef vildi, en varða fjörbaugsgarði, ef váttum kæmi við." Ætla mætti að þar með væri öllum gert hæfilega mikið rúm, en næsta setning tekur af öll tvímæli: "Sú heiðni var af tekin nökkurrum vetrum síðar." Einni þjóð fylgdu ein lög og ein trú í þessu landi. Frávik voru ekki liðin til lengdar.

Við þurfum ekki að leita lengi í nágrenni okkar til þess að sjá að draumurinn um eina þjóð í landinu er ekki lengur mögulegur - eða æskilegur. Presturinn sem hér prédikar er af erlendu bergi brotinn, nágrannar ykkar sem hér sitjið eru víðsvegar að. Sumir kristnir, aðrir ekki. Sumir landar okkar hafa  auk þess snúið sér frá kristni og tekið upp aðrar lífsskoðanir og trúarbrögð.

Það er mér fagnaðarefni. Hafi mér eitthvað lærst á mannkynssögunni, þá er það að trúarbrögð getur hæglega orðið að hugmyndafræði stórveldis, hvort heldur sem sameiningarafl hins "heilaga rómverska keisaraveldis", grunnur að heilögu ríki að hætti Íslams eða sem trúarbrögð smáþjóðar, sem þolir ekki að nokkur skeri sig úr fjöldanum. Hver þorir að vera öðruvísi, en "litla Gunna og litli Jón"?

Enginn friður lifir til lengdar á kröfunni að allir verði að vera eins. Slíkur grunnur friðar, laga og réttar skapar lítið annað en kyrrð, þar sem menn óttast nágranna sína, ef ske kynni að þeir kærðu mann fyrir dómstólum hinna rétttrúuðu. Leiðin frá kirkjuturni til Babelsturns er styttri en mann skyldi gruna.

Friðurinn sem guðspjall Hvítasunnunnar boðar er annars konar. Hann kemur þar sem konur og menn fá að tala sínu máli. Sá friður óttast ekki sérkenni náungans, þjóðerni, litarhátt, þjóðfélagsstöðu, fátækt, ríkdæmi eða trúarjátningu. Hann byggir á því að þú og ég höfum þegið gjöf heilags anda, sjáum hlutina frá sjónarhóli sem er hærri en hlaðvarpi eigingirni og ótta.

Bestu birtingarmynd þess friðar sem textar Hvítasunnunnar boða, sé ég þar sem fólk virðir mannréttindi annars fólks og játar jafna virðingu þess fyrir mönnum. Ég horfi til baráttu blökkumannanna Nelson Mandela og Martin Luther King, beggja vegna Atlantshafs. Ég horfi til Dalai Lama og Mahatma Gandi, hvorugur er kristinn. Þau eru fleiri, systkini okkar sem sýna okkur að við getum risið ofar þröngum mörkum trúar, þjóðernis og stöðu til þess að stofna til friðar, en mál er að rödd mín þagni og rödd þín heyrist.

Því að Hvítasunnan er hátíðin, þar sem þú mátt sækja þér kraft til að boða frið Guðs og réttlæti meðal fólks. Fyrirheiti texta dagsins er þetta:

Andi Guðs er þér gefinn og þú mátt leyfa okkur að eiga hlutdeild í öllu því sem Guð leggur þér á hjarta.

Prédikunin var flutt í Kálfatjarnarkirkju.