Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.Matt. 28. 1-8
I.
Engin gripur gerður af manna höndum hefur verið rannsakaður meira í gegnum aldirnar en líkklæðið frá Tórínó. Dúkurinn er fjórir og hálfur metri á lengd og rúmur metri á breidd og ofinn af líni. Á dúknum er óljós, gulleit eftirmynd af manni, bæði að aftan og framan. Myndin á klæðinu sýnir háan og sterkbyggðan mann með yfirvaraskegg, vangaskegg og axlarsítt hár, skipt í miðju. Hann er nakinn og heldur höndum sínum yfir nárann. Á klæðinu eru einnig gulrauðir blettir sem taldir eru vera blóðblettir og samsvara hinni gulleitu mannsmynd. Margir telja að blóðblettirnir sem koma fram á höndum, fótum og síðu mannsmyndarinnar, eins og eftir krossfestingu, svo og þrútnir andlitsdrættirnir sem bent gætu til mikilla barsmíða eða húðstrýkinga renni stoðum undir þá tilgátu að líkklæðið hafi í eina tíð verið sveipað um líkama Jesú frá Nasaret. Fætur mannsmyndarinnar á klæðinu virðast ekki hafa verið brotnir frekar en fætur Jesú samkvæmt guðspjöllunum. Öll samstofna guðspjöllin, þ.e. Mattheus, Markús og Lúkas nefna að Jósef frá Arimaþíu, vinur Jesú hafi látið greftra hann í gröf sem hann átti frátekna. Jósef fékk leyfi til að taka Jesú niður af krossinum og hann vafði líkama hans inn í líkklæði og lagði hann svo í gröfina.
Deilur um það hvort líkklæðið geymi eftirmynd Jesú Krists eða sé fölsun hafa staðið um aldir og sýnist sitt hverjum, en deilurnar hafa heldur elnað eftir því að vísindunum fleytti fram. Frægð klæðisins jókst mjög í lok 19. Aldar þegar ljósmyndatæknin var fundin upp og mönnum hugkvæmdist að taka svart-hvítar ljósmyndir af klæðinu. Eftirmyndin er ólíkt skýrari á ljósmyndunum heldur en með berum augum og hafa ljósmyndirnar átt drjúgan þátt í vinsældum og tilbeiðslu klæðisins. Líkklæðið frá Tórínó hefur verið rannsakað með hinum aðskiljanlegustu vísindalegu aðferðafræðum, efnafræði, meinafræði og kolefnisaldursgreiningum til últrafjólublárra mynda, frjókornarannsókna, líffærafræðirannsókna og ljósmyndafræði. Engum hefur þó enn tekist að færa sönnur á það hvernig myndin festist á klæðinu. Rannsóknirnar í kringum Tórínóklæðið hafa orðið svo umfangsmiklar í tímans rás að þær eiga sér sitt eigið nafn: sindónólógía, sem þýðir eiginlega líkklæðafræði, því sindonon er gríska orðið sem notað var í Markúsarguðspjalli um líkklæðið sem eftir varð í tómu gröfinni á páskadagsmorgun.
Hvers vegna skiptir líkklæðið í Tórínó fólk svona miklu máli og hvers vegna eru rannsóknirnar svona umdeildar? Hvað er svona merkilegt við línstranga sem hefur eða hefur ekki snert líkama Jesú fyrir tæpum 2000 árum? Og hvað skiptir hann okkur máli, fólkið sem kemur saman til að fagna upprisuhátíð frelsarans á því herrans ári 2011?
Ég á ekkert einfalt svar við þeirri spurningu.
En hún leitar á huga minn nú, þegar páskar hafa gengið í garð og við fögnum sigri lífs yfir dauða.
Getur ekki verið að á öld sem tekur ekkert trúanlegt nema hægt sé að sýna fram á það með empírískum rannsóknum efnafræði, lífffræði og meinafræði, skipti það fólk alveg óendanlega miklu máli að hafa eitthvað sannanlegt í höndunum? Einhvern tímann var mér sagt að nútímamaðurinn hafi misst hæfileikann til mannlýsinga þegar ljósmyndin var fundin upp. Eftir það þurfti ekki orð til að lýsa útliti, fólk framvísaði bara mynd. Við viljum ekki bara orð, heldur mynd með. Og fátt væri meira bitastætt fyrir myndsjúka kynslóð en að eiga ígildi ljósmyndar af Kristi, vita hvernig hann leit út, ef ekki lifandi, þá að minnsta kosti dáinn.
Svo ég hætti nú að nöldra yfir nútímanum eins og ég sé níræð, getur þá ekki verið að flest okkar þrái eitthvað naglfast til að festa trú sína á, eitthvað sem hægt sé að framvísa eins og efnafræðiformúlu, eða ljósmynd? Hebreabréfið segir að trú sé fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem ekki er auðið að sjá. Og þó þráum við að sjá og að fullvissa okkar sé ekki full af efa alltaf hreint. Við viljum hafa lífslán okkar og vonir í hendi, að vona ekki upp á von og óvon, heldur það sem er skothelt, öruggt og óbreytilegt. Svona eins og ljósmynd af Kristi. Við viljum hold, eða að minnsta kosti mynd sem sannar þetta hold og tengir okkur við það. Og svo viljum við einhverja tryggingu fyrir því hvert þetta hold fór og hvort og þá hvenær það komi aftur. Getur verið að þrá fólks eftir því að líkklæðið sé ósvikið endurspegli þrána eftir því að atburðir páskanætur séu einnig ósviknir? Jafngildir falsað líkklæði fölsuðum páskum og ósvikið líkklæði ósviknum páskum?
II.
Engin af páskafrásögnum guðspjallanna er annarri lík. Þið getið sannreynt það með því að fletta upp í þeim. Þau segja öll sögu af tómri gröf, en þeim ber ekki saman um það hverjir komu að gröfinni eða hvort Jesús birtist þar eða ekki. Fimmta sagan, páskafrásögn Páls postula, sem lesin var fyrir okkur áðan er líkast til er elsta frásagan af þeim öllum. Hún nefnir ekki hina tómu gröf, en segir frá birtingum hins upprisna Jesú í Jerúsalem. Elstu útgáfur Markúsarguðspjalls segja okkur ekkert af útbreiðslu fagnaðarinsboðskaparins um hinn risna Drottin. Í fyrstu útgáfunni koma konur að tómri gröf og fara heim og segja engum neitt því þær voru hræddar. Hinar frásögurnar af atburðum páskanætur og páskamorguns eru ítarlegri og Mattheusarfrásagan er skrautlegust þeirra allra og umvafin goðsagnakenndum orðaforða.
Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
Jarðskjálftar, yfirskilvitleg vera í snjófötum sem lítur út eins og elding í framan og vekur mikla hræðslu. Þannig velur Mattheus að segja okkur frá því sem gerðist við gröfina þegar innsigli hennar var rofið og gröfin sem Jesús hafði hvílt í frá föstudeginum langa opnuð á ný. Skjálftinn og engill sem veltir bjargi frá gröf gefa til kynna hnjask og stórbrotin umskipti, umskipti sem kalla fram ógurlega hræðslu. Og svo kemur fólk í til grafarinnar, fyrst hikandi konur sem líta inn í gröf, en hlaupa síðan frá fullar ótta og mikillar gleði, síðan pirraðir lærisveinar sem eru undrandi á sögum kvennanna, lærisveinar af báðum kynjum sem hitta Jesú og síðan annað fólk og segja því frá.
Ótti og gleði? Hver vissi að hægt væri að upplifa ótta og gleði í sömu andránni? Og nú erum við komin að þessari gröf eins og konurnar forðum á páskadagsmorguninn, við sem völdum að taka daginn snemma og fagna páskahátíðinni hér í kirkjunni. Hvernig snertir okkur þessi saga um skjálftann, engilinn og steininn sem velt hafði verið frá? Hvaða virði er hún okkur? Veldur hún okkur vandræðum, rekst hún ekki á við lífsviðhorf okkar, sem byggt er upp á því sem hægt er að sjá og sanna, ekki yfirskilvitlegum verum sem sitja á steini?
Ég játa það fúslega að mér hefur ekki alltaf þótt auðvelt að prédika á páskadegi. Mér þykir vænt um vísindi og mér leiðist þegar guðfræðingar og trúað fólk talar þau niður, eins og trú og vísindi séu andstæður. Ég tek líka mark á vísindum, rétt eins og ég tek mark á trú. Og í ljósi þess að engar vísindalegar niðurstöður liggja til grundvallar þeirri hugmynd að fólk rísi upp frá dauðum, er ekki skrýtið þótt oft fari um vísindavininn í aðdraganda páska. Og mér finnst heldur ekki skrýtið þótt margur halli sér að líkklæðinu og oti því framan í vísindin. Þannig getum við örugglega sannað að Jesús hafi verið krossfestur og að frásögn guðspjallanna sé sönn og rétt. Við erum kannski ekki með empírískar sannanir fyrir hvarfi líkamans úr gröfinni, það er eftir allt saman ekkert auðvelt að leggja mat á það sem er horfið. En við erum hér með líkklæði með áprentaðri mynd, sem gæti sannað að hinn látni frelsari hafi einhvern tímann verið í því. Eða er það ekki annars? Og svo heldur áfram deilan um það hvað sé vísindi, hvað sé sannanlegt og hvað sé fölsun og við endum uppi sem sindónólógar, sérfræðingar í líkklæðafræðum. Er þetta virkilega boðskapur páskanna? Eða erum við að glíma við ljóðrænan orðaforða?
III.
Vísindi eru meira en raunvísindi. Þau eru líka félagsvísindi sem byggja á eigindlegum og megindlegum rannsóknum. Og síðast en ekki síst felast hugvísindi í vísindahugtakinu, vísindi sem lesa m.a. forna texta út frá nýju sjónarhorni og raða saman í áður óséðar heildir. Náskyldar hugvísindunum eru síðan listirnar sem kenna okkur að horfa á veruleikann og fegurðina út frá nýju sjónarhorni og samhengi. Við skynjum veruleikann með þessum aðferðum hvort sem við erum langskólagengin eða ekki. Sum okkar leita listrænnar skynjunar og merkinga í táknum. Önnur eru sáttari við raunvísindalegar skýringar. Og þegar við göngum að þessari gröf með smyrslabaukinn okkar í hendi og íhugum sigur lífs á páskum þá væri ekki óskynsamlegt að fylgjast með okkar eigin gleraugum þegar við íhugum þessa sögu. Eru það raunvísindagleraugun eða hin listrænu og hugvísindalegu túlkunargleraugu sem við tökum upp þegar við hugsum um páskana?
Ég velt því fyrir mér hvort þess gerist þörf að skreppa til Tórínó fyrir páskana, að sanna og kalla fram á óhrekjanlegan hátt mynd Jesú frá Nasaret til að upplifa æðstu hátíð kristinna manna. Hvað gerðist eiginlega í þessari gröf þar sem líkami lá forðum sveipaður líni og hvarf svo skyndilega? Þurfum við samfellda mynd, með beinhörðum staðreyndum af því sem gerðist á hinum fyrstu kristnu páskum? Eða er páskaundrið eitthvað sístætt í okkar huga, trúarlegur og táknfræðilegur orðaforði sem síst á öllu á að naglfesta og sanna vegna þess að þá tapar hann mætti sínum eins og útskýrt ljóð eða málverk með neðanmálsgrein? Eru páskarnir ekki tákn um hið óræða og ósannanlega sem myndar rof í lífi okkar og heldur áfram að gerast í hvert skipti sem óttinn snýst í undrun og síðan gleði? Er hægt að lýsa páskunum sem gleðilegu hnjaski, andlegum jarðskjálfta með engli í snjóhvítum fötum sem sækir okkur heim í gröf okkar, þetta eitthvað sem veldur því að við getum haldið áfram þegar erfiðleikar og efasemdir eru að buga okkur?
IV.
Margt hugar þíns fóstur svo firna ljótt þú felur, því illu skal leyna. En mundu að lífið er léttasótt. Lengi skal manninn, lengi skal manninn reyna.Þó fátt eitt þú megnir og flest sé tál og frækorn þín hrjóti um steina, þá mundu að lífið er leyndarmál. Lengi skal manninn, lengi skal manninn reyna.
Ef tregarðu' að kristur þitt traust og hald í tötrum var þræddur á fleina. Þá mundu að lífið er lausnargjald. Lengi skal manninn, lengi skal manninn reyna.
Þannig syngja Megas og Senuþjófarnir lag Megasar við ljóð Þorvalds Þorsteinssonar. Og ef Megas hefur rétt fyrir sér verður lífinu ekki lifað án reynslunnar, eins erfið og eyðileggjandi og hún getur annars orðið. Lengi skal manninn reyna og án þeirrar reynslu væri engin mennska. Í kvæðinu er haldið áfram að tína til það sem bugað getur manneskjuna, ástarsambönd, kynlíf og kynlífsvandamál, barneignir, brauðstritið, fíknin. Kvæðið er harmkvæði, passíusálmur þar sem Kristur er þræddur á fleina og manneskjan þar með honum. En í kvæðinu leynist líka von í þessu skrýtnu orðum í þriðju línu hvers erindis, orðum sem öll enda á elli og við erum beðin um að minnast í þungbærri reynslunni miðri. Lífið, syngur Megas, er lyftuhús, lausnargjald, og léttasótt, leigubíll, lykkjufall og lambagras. Lyftan fer bæði upp og niður, lausnargjaldið leiðir til lausnar, léttasóttin endar með barni og stundum lykkjufallið líka. Og flest höfum við fundið ilminn af hinum fínlega lambagrasi með sínum fjólubláu blómum. Megas, senuþjófarnir og Þorvaldur kalla þessa von sem hjálpar okkur að þrauka þegar manninn skal reyna lambagras og léttasótt. Kristnin kallar hana páska, sigur lífs yfir dauða. Og þessir páskar vonarinnar brjótast fram í orðaforða táknanna og myndanna eins og landskjálfti með skuggalegum englum á steini. Þeir kaupa okkur líf, ilm og lambagras og senda okkur upp á næstu hæð þegar við höfum lokið erindum okkar á jarðhæðinni og í kjallaranum.
V. Við erum komin inn í gröfina og sjáum steininum velt frá. Inni er enginn dáinn maður, heldur líkklæðið eitt. Kannski er þetta sama líkklæðið og síðar á eftir að vekja svo mikla athygli vísindamannanna, og draga að sér mannfjöldannn mikla í dómkirkjuna í Tórínó. Kannski er nóg að líkklæðið í Tórínó standi fyrir líkklæði sem við skoðum í huga okkar, rétt eins og myndin á tórínska klæðinu stendur fyrir líkama sem er þar ekki lengur. Og engillinn segir við okkur: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá.“
Og við löbbum út úr gröfinni aftur með þennan merkilega boðskap, og finnum ilminn af lambagrasinu við hlið hennar sem teygir sinn stutta og seiga legg upp í sólina. Lengi má manninn reyna. Og Kristur er upprisinn mitt í reynd mannsins. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.