Uppistaðan í helgiriti okkar í kirkjunni eru sögur, frásagnir og upplifanir fólks af lífinu, bæði gleði og harmi. Hver saga gefur okkur spegil til að horfa á okkur sjálf, tengsl okkar og líf, svo við getum fetað okkur áfram í þeirri trú að við séum að ganga veg sem færir blessun og ljós inn líf okkar og samferðafólksins. Hver saga gefur okkur færi á að taka skref áfram, en þá verðum við að hlusta og leyfa henni að hreyfa við okkur.
Í dag þegar Samtökin 78 og Þjóðkirkjan kynna niðurstöður verkefnisins „Ein saga, eitt skref“, þá verðum við líka að hlusta og leyfa frásögnum af slæmu viðmóti þjóðkirkjunnar og presta hennar gagnvart hinsegin fólki að hreyfa okkur. Í kirkjunni halda mörg að í dag sé staðan önnur og gjörbreytt frá því sem var, að fordómar og útilokum tilheyri einhverri forneskju – en það er bara rúmur áratugur síðan þjóðkirkjan barðist gegn einum hjúskaparlögum. Eins sjáum við sem tilheyrum hinsegin samfélaginu og störfum fyrir kirkjuna að fordómarnir eru enn til staðar. Það eitt að við í Glerárkirkju skyldum mála regnboga við kirkjuna okkar fyrr í sumar olli því að fólk hafði samband til að láta vita að það myndi ekki taka meiri þátt í safnaðarstarfi okkar. Við erum ekki komin lengra en það.
Það er kjarninn í trúarsýn okkar að allt fólk sé skapað í mynd Guðs. Við berum öll í okkur þennan heilaga neista guðdómsins auk þess sem orð og líf Jesú kenna okkur hvernig við eigum að mæta samferðafólki okkar – í kærleika og væntumþykju. Þær sögur sem við fáum að heyra í dag sýna okkur að samfélag þjóðkirkjunnar hefur ekki verið opið eða tekið vel á móti öllum. Sögurnar segja okkur frá brotnu trausti, útilokun, sársauka og vanlíðan. Því þurfum við að hlusta. Ef við sem reynum að fylgja Kristi í okkar lífi og feta þann veg friðar og kærleika sem hann boðar getum ekki hlustað á þessar sögur og leyft þeim að hreyfa okkur í nýja átt þá erum við að fara á mis boðskapinn. Þá erum við að tapa sjónum á því grundvallar stefi trúar okkar að hver einastasta manneskja sé dýrmæt sköpun Guðs sem eigi skilið að vera mætt af virðingu og kærleika.
Ég fagna því að okkur sé gefið tækifæri til að hlusta, til að meðtaka þann skaða sem þjóðkirkjan hefur valdið hinsegin samfélaginu og ég vona að við leyfum okkur að eiga hugrekkið til að taka skrefið og vera sannarlega kirkja með opinn faðm. Kirkja sem mætir öllu fólki af þeirri virðingu og kærleika sem við þráum sjálf að upplifa.
Hlustum og tökum skref í rétta átt.
Sindri Geir Óskarsson
Sóknarprestur Glerárkirkju.
birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. júní 2022