Eilífum föður öll hans hjörð af hjarta syngi þakkargjörð, með sinnar náðar sætu orð sendi Jóhannes oss á jörð.Hér með þá lýður hræddur var, hjálpar veg sannan predikar, sjálft lamb með fingri sýnir þar, sem mannkyn við Guð forlíkar.
Ó, faðir þig áköllum vér að þú vor hjörtu uppvekir. Svo öll vér trúum eflaust þér, eins sem Jóhannes vitni ber.
Úr Hólabókinni 1589. Philipp Melanchton
Það var mið nótt og í svefnherbergisdyrunum mótaði fyrir dökkri mynd, útlínurnar voru stórvaxinnar veru en aðra drætti greindi ég ekki, ekkert nema svartan skugga. Ég var skelfingu lostinn þar sem ég lá sofandi í rúmi mínu og barðist við að vakna, eins og ég gerði mér grein fyrir því, að veran sem mér stafaði svo mikil ógn af, myndi við það hverfa, eða ég yrði alltént betur í stakk búinn vakandi til að mæta henni en sofandi. Það kostaði mig gríðarlegt átak að lyfta höfðinu af koddanum og opna augun; ég starði skelfdum augum á dyrnar en þær voru tómar og húsið var hljótt. Það hafði þá bara verið draumur! Ég lét höfuðið falla á koddann og varp öndinni léttar í feginleik mínum en óttinn dvaldi enn um hríð í taugunum meðan svitinn sem af honum spratt þornaði á líkama mínum.
Fyrir hugskotssjónum mínum get ég enn greint hinn myrka skugga í dyragættinni og fundið kjarnþunga ógnina sem af honum lagði. Samt var hann ímyndun, en ótti minn var raunverulegur.
Eflaust hafa allir hér viðstaddir einhverju sinni fengið martröð og kannast við hve raunverulegur óttinn er sem þær vekja með manni. Lýsingin, sem þið hafið fengið að heyra, var einvörðungu lokakaflinn á martröð sem ég fékk fyrripart vikunnar; ég man að hún var löng og ströng, ég hef sjaldan sofið verr en þá nótt. En þrátt fyrir það og þá staðreynd að það var mið nótt, þráði ég ekkert heitar en að vakna og sjá að allt væri með felldu.
Margir trúaðir gyðingar á tíma Jesú og Jóhannesar glímdu við martröð sem ásótti þá, ekki aðeins að nóttu til og ekki aðeins einu sinni. Hún nagaði sál þeirra og sáði fræjum ótta og kvíða í huga þeirra: Hvernig myndi þeim farnast á efsta degi er Guð kæmi til að dæma menn og þjóðir, hvern eftir verkum hans? Þá, sem nú, deildu fræðimenn og lögspekingar um túlkun á lögum og vilja Guðs eins og vitnað er um hann í ritum Gamla testamentisins, því jafnvel á þessum tíma voru ýmis lagaákvæði orðin úrelt og úr takti við gerð samfélagsins. Fólk velktist þess vegna í vafa um hver væri rétt, Guði þóknanleg hegðun, og leitaði gjarnan til lögspekinga og lærimeista eða rabbína um svör.
Þessum aðstæðum er vel lýst í tíunda kafla Markúsarguðspjalls þar sem maður kemur hlaupandi, fellur á kné og spyr Jesú: „Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Ég ætla ekki að rekja hér svar Jesú og orðaskipti þeirra tveggja en niðurstaðan er athyglisverð. Eftir að maðurinn, sem var auðugur, var genginn á brott hryggur í bragði, enda ekki tilbúinn til að gefa fátækum allar eigur sínar, mælti Jesú hin fleygu orð: „Auðveldara er Úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ Lærisveinarnir urðu skiljanlega steini lostnir og spurðu: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Hér varpa lærisveinarnir fram lykilspurningu: „Hver á það skilið að öðlast hjálpræði Guðs?“ „Hver er nægilega góður og réttlátur?“ Þetta eru spurningar sem velflestir samferðarmenn lærisveinanna hafa spurt sig.
Við getum fundið svarið með því að draga ályktun af viðbrögðum Jesú við því, að vera kallaður „Góði meistari“, því hann sagði: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.“ Ef Jesús fellir þann dóm um sjálfan sig að hann sé ekki góður, þá gefur auga leið að enginn er nægilega góður eða réttlátur til að eiga hjálpræði Guðs skilið. Með öðrum orðum: Maðurinn getur ekkert gert af eigin rammleik, sem er nógu gott til að vega upp á móti öllum þeim ranglátu hugsunum, orðum og gjörðum, sem hann gerir sig sekan um á lífsleiðinni.
„Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús svarar: „Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt.“ Hér erum við algjörlega upp á náð og miskunn Guðs komin.
Sá skilningur á manni og Guði og sambandinu þeirra á milli, sem býr að baki þessum orðum Jesú, birtist glögglega í þeirri kenningu Marteins Lúthers að maðurinn öðlist ekki réttlætingu fyrir verk sín heldur fyrir trúna á hjálpræði Guðs. Í augum Lúthers skipti höfuðmáli að trúa orði Guðs, í þeirri trú birtist afstaða mannsins til hans.
Nú gæti einhver spurt hvort það skipti þá yfirhöfuð nokkru máli hvernig við högum okkur. Því er til að svara að það skiptir vissulega máli; það skiptir máli fyrir samfélag manna og sköpunina alla og það skiptir Guð máli, því hann elskar þessa sömu sköpun. Þess vegna gerir hann afar strangar kröfur um félagslegt réttlæti og náungakærleik. Maðurinn er siðferðisvera og hann getur ekki kæft ábyrgðartilfinningu sína og lifað sem dýr sem stjórnast einungis af hvötum. Guðfræðingurinn Paul Tillich benti á að þrátt fyrir að hið flókna nútímasamfélag virðist rugla manninn í rýminu með síbreytilegum kröfum og gildum, þá virðist hann einnig finna, að handan við allt mannlegt regluverk „hvílir veruleiki sem höfðar með djúpum hætti til mannsins og hann finnur sig mjög bundinn af.“
En reynslan sýndi og sýnir enn að vegna breyskleika síns er það manninum um megn, að haga lífi sínu þannig, að Guði sé fullkomlega þóknanlegt. Slík var saga Ísraelsþjóðar eins og henni er lýst í Gamla testamentinu: Aftur og aftur gerði fólkið sig sekt um svo rangláta breytni, að Guð kippti verndarhendi sinni að sér og rauf samband sitt við hana. Þannig túlkar Gamla testamentið t.d. fall ríkisins og herleiðingu meginhluta þjóðarinnar til Babýlon í byrjun 6. aldar fyrir Kristsburð. En Drottinn sá aumur á sinni útvöldu þjóð og gerði henni kleift að snúa aftur til Jerúsalem. Hvers vegna gerði hann það?
Í Lexíu dagsins heyrðum við að áþján Jerúsalem væri á enda, að sekt hennar hefði verið fjarlægð, Drottinn hefði gefið henni tvöfalt meira til baka en syndir hennar sögðu til um. Hvers vegna? Trú miðaldakirkjunnar var sú, að maðurinn væri „í skuld við Guð vegna synda sinna og greiddi fyrir þær með góðverkum sínum“ en ekkert bendir til þess að Jesaja hafi slíka greiðslu í huga. Hann er ekki í vafa um svarið: „Því að orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega.“ Það sem hann hefur í huga er án efa fyrirheit Guðs til Abrahams og sáttmálinn, sem Drottinn gerði við Ísrael og lýst er í 19. kafla 2. Mósebókar en þar segir hann: „Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir.“ En þjóðin átti í erfiðleikum með að halda sáttmálann og því fór sem fór, að Guð sagði tímabundið upp sínum hluta samningsins: „Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér“. Í frásögn Gamla testamentisins er ekkert sem vitnar eins sterkt um miskunn Guðs en frelsunin frá Babýlon utan frelsun Ísraels úr þrældómi Egyptalands. En Ísrael var ekki þar með stikkfrír; Drottinn gerir einnig kröfu á viðtakanda náðarinnar: „Leitið Drottins, meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur! Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins, þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.“ Þess vegna vissu áheyrendur Jóhannesar skírara nákvæmlega um hvað hann var að tala, þegar hann hrópaði: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ Þeir vissu að til að öðlast fyrirgefningu Guðs og endurnýja sambandið við hann, yrðu þeir að iðrast og biðjast fyrirgefningar.
Kannski hefur það, að láta skírast iðrunarskírn hjá Jóhannesi virkað á marga sem væri þungu fargi af þeim létt. Eins og þeir hrykkju upp af vondum draumi. En aðrir hafa án efa burðast áfram með óttann við reiði Guðs og refsingu, enda talaði Jóhannes tæpitungulaust.
Sú var og raunin með Martein Lúther tæpum fimmtán hundruð árum síðar; hann kiknaði undan kröfunni um að sýna ást sína til Guðs með svokölluðum góðum verkum og fór loks að hata þennan Guð sem krafðist fullkomleika sem maðurinn rís ekki undir. Þannig gnæfði reiði Guðs yfir Lúther eins og svart skrímsli í martröð verkaréttlætisins. Lúther vaknaði af þessari martröð þegar hann komst að þeirri niðurstöðu, að réttlæting mannsins gagnvart Guði væri ekki fólgin í réttri framkvæmd jarðneskra verka, heldur í því að vita og trúa því, að Kristur sitji „við hægri hönd föðurins, ekki sem dómari heldur sem sá sem er orðinn okkur vísdómur frá Guði, réttlæti, helgun og endurlausn [1Kor 1.30],“ eins og segir hjá Páli.
Lúther talar af sjónarhóli kristins manns. Þess vegna stendur Kristur náttúrlega í miðpunkti trúarlegrar sýnar hans. Fyrir áheyrendur Jóhannesar skírara gæti krafan um að iðrast og snúa sér til Drottins hafa haft svipaða þýðingu. Með því lögðu þeir traust sitt og trú á miskunn og mildi Guðs. „Menn streymdu til hans frá Jerúsalem, allri Júdeu og Jórdanbyggð, létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.“ Jafnvel Jesús var þar á meðal. Að skírast merkir í þessu sambandi að hreinsast og er fyrst og fremst táknræn athöfn, tákn um nýtt upphaf í samfélagi við Guð, þar sem fyrra líf er lagt að baki.
Það var þó ekki ákall Jóhannesar til fólks um að iðrast sem var mikilvægast verk hans í þeirri þjónustu „að veita lýð [Drottins] þekkingu á hjálpræðinu,“ eins og segir í guðspjalli dagsins, heldur það að greiða veg Jesú og benda fólki á hver hann er.
Eitt af þeim svokölluðu góðu verkum, sem samferðamenn Lúthers framkvæmdu í þeim tilgangi að safna sér inneign á himnum til að vega upp á móti syndunum, var að fara í pílagrímsferðir til helgra staða. Lúther færði fyrir því sannfærandi rök, að með slíku athæfi væri ekki með nokkru móti hægt að tryggja syndaaflausn. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að pílagrímsgöngur eða helgigöngur hafi verið stundaðar af lútherskum mönnum en þá einvörðungu sem vettvangur til að styrkja trúarlíf sitt og til samveru með öðru trúuðu fólki, sem á sameiginlegt markmið og áfangastað. „En gangan er einnig innra ferðalag hvers og eins þar sem pílagrímurinn hugleiðir lífsgöngu sína með sjálfum sér um leið og hann styrkist og endurnærist í bæn og sameiginlegu helgihaldi.“ Í þessu ferli pílagrímsins getur eitthvað átt sér stað, sem líkist því, sem kallað er iðrun í ritningunni. Það er í raun það að vera meðvitaður um breyskleika sinn og um leið treysta á fyrirgefningu kærleiksríks Guðs.
Hin síðari ár hefur það færst í vöxt á Íslandi, að gengnar séu svokallaðar pílagrímsgöngur vissar leiðir. T.a.m. er boðið upp á tvær helgigöngur undir Jökli nú um Jónsmessuna. Í þessum töluðum orðum er verið að ganga frá Ingjaldshóli gömlu þjóðleiðina um Prestahraun og á morgun verður gengið frá Einarslóni að Hellnakirkju. Og dagana 22. – 23. júlí verður gengið frá Þingvöllum til Skálholts með viðkomu á Laugarvatni. Ekki veit ég hvort Klakkstjörn geti talist helgur staður, en þó hlýtur svo að vera í einhverjum skilningi, ef marka má þá þjóðtrú að upp fljóti þar óskasteinn á Jónsmessunótt. En jafnvel þó að við verðum óskasteinsins ekki vör, þá er tilvalið að nota gönguna á fjallið sem tilefni til að tæma hugann af öllum þeim hversdagsáhyggjum sem íþyngja okkur og biðja Drottinn að vera okkur samferða þrátt fyrir breyskleika okkar og syndir. Það endurnýjar samband okkar við Guð en það þarfnast stöðugrar endurnýjunar rétt eins og planta þarfnast vökvunar.