Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. I. Áramótaskaup ársins 2011 endaði á kröftugum söng barna. Börnin í áramótaskaupinu eru orðin leið á árvissum axarsköftum fullorðna fólksins. Þau eru orðin þreytt á síendurteknu klúðri og vilja nýja veröld. Þau syngja:
Kannski gleymist stundum hverjir taka við Við krakkarnir ykkar þetta pínulitla lið Hlustum því á hjartað alla tíð Högum okkur skynsamlega bæði ár og síðVið kyndum bálið og berjumst áfram við byggjum saman þetta dásamlega land en hagfræðin og hamslaus græðgin við hendum báðum. Svo 2012… Við tökum nýjan sið Við hreinsum til í hólf og gólf Og við byrjum upp á nýtt.
Það er kraftur í laginu um bálið sem kynt er, baráttusöng barnanna fyrir hið nýja ár 2012. Og um leið er þeim skilaboðum komið á framfæri við okkur fullorðna fólkið að við tökum okkur saman í andlitinu. Að við tökum upp nýjan sið, högum okkur skynsamlega, að við berum hag hins pínulitla liðs fyrir brjósti og hlustum á hjartað alla tíð.
II. Meðan við rifjum upp lagið úr áramótaskaupinu með sjálfum okkur langar mig til að taka ykkur með mér inn í fermingartíma í Guðríðarkirkju. Þegar við hófum umfjöllun um Jesú Krist í vetrarbyrjun var krökkunum rétt bleikt spjald þar sem þau áttu að skrifa það sem þau langaði til að vita um Jesú frá Nasaret. Hér koma sautján flottar spurningar úr fermingarfræðslunni:
Hvað gerði Jesús við gjafirnar sem vitringarnir gáfu honum? Af hverju var hann settur í þessa jötu? Átti hann systkini? Átti hann börn? Átti hann hús? Átti hann mörg föt? Hvernig leit hann út? Hvernig var Jesús þegar hann var lítill? Var hann líka smiður eins og Jósef? Fór hann í skóla? Gekk honum vel í skóla? Hvar bjó hann? Var Jesús með bólur þegar hann var unglingur? Átti hann peninga? Burstaði hann tennurnar? Hver er hinn rétti afmælisdagur hans? Klukkan hvað fæddist hann? Af hverju hét hann Jesús? Hver varstu Jesús?
Það er hægt að svara sumum þessum spurninga með nokkurri vissu með því að raða saman fróðleiksmolum úr elstu heimildunum um Jesú, samstofna guðspjöllunum Mattheusi, Markúsi og Lúkasi og með þeim upplýsingum sem við höfum um daglegt líf í Mið-Austurlöndum á dögum Jesú.
Jesús átti heima í Nasaret og bjó næstum örugglega í húsi. Það er líklegt að foreldrar hans hafi verið það vel stæð að hann hafi átt föt til skiptanna. Foreldrar hans hétu Jósef og María, pabbi hans var smiður og þar með hefur Jesús örugglega lært þá iðn líka. Markús og Mattheus nefna fjóra bræður Jesú með nafni og systur hans líka. Bræður hans hétu samkvæmt guðspjöllunum Jakob, Jósef eða Jóse, Júdas og Símon, en enginn veit hvað systurnar hétu eða hversu margar þær voru. Drengir voru yfirleitt í skóla til 12 ára aldurs á dögum Jesú og lærðu þá fimm fyrstu bækur lögmálsins, torah utan að. Hann hefur að líkindum verið hörundsdökkur, breiðnefjaður og svarthærður. Hann talaði arameísku og hefur aldrei tannburstað sig, því tannburstinn var ekki fundinn upp fyrr en árið 1780. Lúkasarguðspjall segir að Jesús hafi verið látinn heita þessu nafni vegna þess að engillinn hafi beðið Maríu um það, en Jesúa á arameísku þýðir Guð frelsar.
Annað það sem krakkarnir spurðu um er sveipað þoku. Við vitum ekki hvaða dag Jesús fæddist, hvaða ár og þaðan af síður klukkan hvað. Ég á erfitt með að trúa því að unglingurinn Jesús hafi geymt gull, reykelsi og myrru undir koddanum sínum, enda ber vitringasagan á sér nokkuð ævintýralegan blæ. Eina sagan í Biblíunni sem gefur okkur einhverja mynd af bernsku- og unglingsárum Jesú er guðspjall dagsins í dag. Þar eru engin kraftaverk, engar glæstar ræður, engar dæmisögur.
Guðspjall dagsins birtir okkur Guð sem var unglingur Pínulítið lið, svo vitnað sé í söngtextann. Og það er dálítið gott að staðnæmast við þessa uppgötvun um Guð sem ungling. Mörgum okkar finnast unglingar ekkert sérstaklega guðdómlegir og allra síst unglingunum sjálfum. Unglingsárin eru umbrotaskeið þegar líkaminn er að breytast, skapgerðin líka og þörfin eykst á að eiga sitt eigið líf óháð mömmu og pabba. Slík umbreytingaskeið geta kallað á óteljandi uppgjör og reiðisköst, líka vansæld og einmanakennd. Sumir fara auðveldlega í gegnum unglingsárin, öðrum reynast þau mjög erfið. Og einmitt þess vegna er gott að hugsa til þess að ekkert tímaskeið er öðru æðra eða síðra í því að geta borið Guð. Guð varð barn, unglingur og fullorðin manneskja. Hann hefði orðið gamall og hrumur líka ef hann hefði ekki verið drepinn á ofbeldisfullan hátt. Guð varð unglingur og það segir okkur að unglingar eru mikilvægir í augum Guðs. Elskum unglingana okkar og sýnum þeim virðingu.
Hlustum því á hjartað alla tíð Högum okkur skynsamlega bæði ár og síð.
III. Guðspjallið segir frá því þegar foreldrar Jesú fóru til Jerúsalem, en það gerðu þau á hverju ári í samræmi við lögmál Gyðinga. Þau tóku Jesú með sér þótt það væri heilt ár í það að hann væri orðinn fulltíða maður að þess tíma hætti. Ferðin til Jerúsalem hefur líklega tekið fjóra til fimm daga og þau ferðuðust með langri lest af fólki í svipuðum erindagjörðum. Kannski var þetta í fyrsta sinn sem Jesús var einn með foreldrum sínum eftir að systkini hans fæddust. Ferðalagið til hinnar öldnu borgar Jerúsalem hefur efalaust verið honum mikill viðburður.
Ekki segir af ferðum þeirra fyrr en María og Jósef eru komin eina dagleið aftur heim til Nasaret og uppgötva þá að þau eru búin að týna barninu sínu. Við taka hræðilegir dagar þar sem þau fara aftur til baka og leita í örvæntingu sinni að honum í öllum skúmaskotum sem þeim detta í hug. Að lokum fara þau í musterisgarðinn, þar sem Jesús situr innan um alla fræðimennina.
Það er athyglisvert að hugsa um staðinn sem Jesús hélt til í þrjá daga meðan foreldrar hans leituðu hans. Hann var í húsi Guðs og hann segir við þau undrandi þegar þau finna hann loksins: “Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?” Stundum er þessi spurning þýdd með orðunum: “Vissuð þið ekki að mér ber að gera vilja föður míns?”
Sjálfsmynd okkar getur verið byggð upp af ólíkum hlutum og suma þeirra nefna fermingarbörnin í spurningum sínum. Sjálfsmynd okkar getur verið tengd því hvort við eigum mörg föt og peninga hvort okkur gengur vel í skólanum og eigum marga vini hvernig við lítum út. Ég veit ekki hversu miklu þessir hlutir skiptu unglinginn Jesú. Hitt veit ég eftir lestur þessarar sögu að sjálfsmynd unglingsins Jesú var fast bundin tengslum hans við Guð. Guð skipti unglinginn Jesú miklu máli. og hann gerði sér far um að gera vilja Guðs. Enda segir síðasta vers guðspjallsins að hann hafi vaxið að “visku og þroska og náð hjá Guði og mönnum”.
IV. Kannski var unglingurinn Jesús með bólur. Við vitum ekki hvort hann átti vini. Fermingarbörnin í Guðríðarkirkju eru hins vegar ekki einu manneskjurnar sem hafa velt því fyrir sér hvernig unglingurinn Jesús hafi haft það. Raunar hafa menn velt þessu fyrir sér alveg frá fyrstu tíð. Og þegar heimildir vantaði urðu til sögur um barnið og unglinginn Jesú. Bernskuguðspjöll, sögur af bernsku Jesú og Maríu urður metsölurit á annarri og þriðju öld eftir Krist og þar var fléttað saman goðsögum og guðspjallaefni oft á listilegan hátt. Ekkert þessara rita var tekið inn í Biblíuna og smátt og smátt var þeim eytt eða þau týndu tölunni. Það er einungis á síðustu öldum sem þau eru að birtast á ný og rannsóknir á þeim hafa leitt í ljós áhugaverða sýn á þá mynd sem að fyrri tíðar fólk gerði sér af unglingnum Jesú.
Bernskuguðspjall Jakobs rekur fæðingu Maríu og Jesú miklu nákvæmar en Biblían og bætir við ýmsum athyglisverðum minnum til dæmis um ljósmóðurina sem annaðist Maríu í fæðingunni. Bernskuguðspjall hins falska Mattheusar segir meðal annars frá tímanum sem Jósef og María dvöldu í Egyptalandi.
Bernskuguðspjall Tómasar rekur fjölmörg minni frá æskuárum Jesú og sum æði goðsagnakennd. Þar fer lítið fyrir hinum mennska Jesú, heldur er Jesú lýst sem yfirnáttúrulegum dreng með mikla hæfileika sem allir eru hræddir við því að hann getur gert hvað sem er. Hann getur orðið öskureiður og móðgaður og líka séð að sér þegar reiðin hefur hlaupið með hann í gönur. Hann bæði drepur fólk í bernskuguðspjallinu og reisir upp. Hann læknar bróður sinn Jakob af snákabiti og ber vatn heim til Maríu í kyrtlinum sínum af því að hann hafði brotið fötuna.
Ein arabísk saga af Jesú sem hefur varðveist í Kóraninum. Þar segir frá drengnum Jesú sem enginn vill leika við. Þegar hann biður þau um að koma með sér út, þá fela þau sig fyrir honum, en Jesús hefnir sín með því að breyta þeim öllum í geitur. Þegar mæður barnanna sjá að börnin þeirra eru öll orðin að geitum grátbiðja þær Jesú um að gefa sér börnin aftur, hann sér aumur á þeim og breytir þeim aftur í börn, sem þorðu ekki annað en að fara út að leika við Jesú. Það þarf ekki eitt orð að vera satt í þessum bernskuguðspjallssögum, en það sem mér finnst áhugavert við þær er að þær draga upp mynd af pilti sem er vanur að þurfa að fara sínar eigin leiðir og treysta á sjálfan sig. Kannski var hann mikið einn. Kannski skildu hann fáir og hann kann að hafa átt erfitt að aðlagast öðrum börnum. Hann kann líka að hafa verið vinsælasti strákurinn í bekknum sem átti mikið af fötum og kærustu með. Við vitum það ekki, en við getum velt því fyrir okkur.
V. Það er áhugavert að bera saman muninn á því hvernig Lúkasarguðspjall og bernskuguðspjall Tómasar segja frá unglingnum Jesú í musterinu. Í bernskuguðspjallinu segir að fræðimennirnir og prestarnir hafi allir setið í kringum hann. Þar rökræddi hann við þá og leysti ýmis álitamál úr lögmálinu og spámönnunum fyrir þá. Guðspjall Lúkasar lætur sér nægja að segja að hann hafi setið og hlustað og lagt fyrir þá spurningar. Og þessi hæfileiki að hlusta vel og spyrja áleitinna spurninga, spurninga sem að breyttu lífi samferðafólks hans hefur fylgt Jesú eftir að hann varð fullorðinn.
Bernskuguðspjallið gerir ráð fyrir því að allir hafi verið að hlusta á Jesú. Lúkasarguðspjall gerir ráð fyrir að Jesús hafi setið með þeim, hlustað og spurt. Er ekki seinni leiðin uppspretta hinnar sönnu skynsemi, forsenda hins nýja siðar? Sannir leiðtogar mæta ekki á staðinn með allar lausnirnar tilsniðnar og fínar. Þeir þruma ekki bara yfir fólki. Sannir leiðtogar hlusta vel og greina vel og spyrja krefjandi spurninga. Sannir leiðtogar setjast niður með þeim sem þeir vilja eiga samneyti við. Sannir leiðtogar hlusta með hjartanu til þess að lausnirnar verði til í samræðunni og samvinnunni. Svo hægt sé að taka nýjan sið hreinsa til í hólf og gólf Og byrja upp á nýtt.
Svo 2012… Við tökum nýjan sið Við hreinsum til í hólf og gólf Og við byrjum upp á nýtt.
Við getum velt því fyrir okkur hvernig í ósköpunum við eigum að byrja upp á nýtt og hreinsa hólf og gólf og taka nýjan sið. Fólk þyrstir í siðbreytingar og þær breytingar syngja ekki aðeins til okkar úr áramótaskaupinu, heldur úr andlitum velflestra sem byggja landið okkar. Við þurfum von og kjark til að halda áfram, trúa því að hlutirnir verði betri og að hægt sé að breyta gömlu, slæmu venjunum um græðgi, einkavinavæðingu, ógagnsæi og spillingu til hins betra.
Og þá bæn á ég til handa Íslendingum á árinu 2012 að sjálfsmynd okkar verði heil og sterk og í tengslum við það sem gerir okkur betri, glaðari og heilli, að von okkar og trú á framtíðina eflist með degi hverjum að við veljum okkur góðar fyrirmyndir og góða leiðtoga og hreinsum til með djörfung á nýju ári að við berum gæfu til að vaxa að visku og þroska og náð eigum stundir í musterinu þroskum okkar gáfur, trúarlegu þarfir og siðferði og eigum líf hjá Guði og mönnum Guði sem var unglingur hugsaði með hjartanu og varð eftir í Jerúsalem til að gera vilja hins góða. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.