„Við erum með eitruð gen. Við erum óhrein.” Þessa yrðingu heyrði ég í Wittenberg í síðustu viku. Hvað er að vera óhreinn og hvað merkir að vera eitraður? Og hvernig losnar maður við slíkan hroða og genasköddun?
Ég fór um Lúthersslóðir í austurhluta Þýskalands í lok ágústmánaðar. Ferðin var afar vel heppnuð, fararstjórarnir voru frárbærir og ferðafélagarnir sömuleiðis. Við ferðarlok skildum við betur samhengi, umhverfi, átök og erindi siðbótarinnar. Það var merkilegt að koma í herbergi Lúthers í Wartburgkastala – og líka að gista í klaustrinu hans í Erfurt þar sem hann háði trúarbaráttu sína og tók síðan ákvörðun um að berjast gegn kirkjuvitleysum síns tíma. Kirkjan í Eisleben, þar sem Lúther var skírður, er nýuppgerð. Viðgerðin miðar við, að hún var skírnarkirkja siðbótarmannsins og eiginlega er búið að byggja sterkar guðfræðilegar skírnaráherslur í þessa gömlu bygginu. Gólfið er með öldumynstri og stór vatnslaug er við kórin og má nota til niðurdýfingarskírnar.
Náttúran, húsin, listin og mögnuð saga landsins orkuðu sterkt á mig og verða mér lengi íhugunarefni. Persónur siðbótarinnar urðu mér nánari, ekki síst sú merka kona Katharina frá Bora, sem eftir að hafa verið nunna varð kona Lúthers.
Lútherslandið herkví Lútherslandið, átakasvæði siðbótarinnar, er að mestu á því svæði, sem var það sem við kölluðum Austur Þýskaland. Og fólkið þar var eiginlega í herkví í nær hálfa öld - frá seinni heimsstyrjöld. Í slíku fangelsi líður fólk ekki aðeins frelsissviptingu, heldur margvíslegar þjáningar. Hryllingssaga kommúnismans opinberaðist okkur ferðalöngunum með ýmsum hætti. Þegar við ókum um smáþorpin sáum við yfirgefin hús, búið var að negla hlera fyrir dyr og glugga skólanna og gamla fólkið var eftir, einkum gamlar konur því margir karlanna höfðu fallið í seinni heimstyrjöldinni. Aðalferðamannagatan í Wittenberg er ljómandi falleg og húsin viðgerð. En við næstu götu að baki var fjöldi yfirgefinna hjalla, sem höfðu grotnað niður og skjáirnir voru brotnir. Borgarkirkjan í Wittenberg, hin eiginlga siðbótarkirkja Lúthers, er í dapurlegu ásigkomulagi en verður væntanlega viðgerð fyrir fimm alda siðbótarafmælið 2017.
Þrír hópar Prestar og kirkjufólk sagði okkur ýmsar sögur um hvernig var að alast upp í Austur-Þýskalandi kommúnismans, þessu mesta lögreglu- og eftirlitsríki sögunnar. Þrír hópar voru yfirvöldum til ama: Pólitískt andófsfólk, kirkjufólk og umhverfissinnar. Þau voru gerð tortryggileg. Meðal þeirra voru börn á kristnum heimilum. Prestarnir voru niðurlægðir og líka fjölskyldur þeirra. Börn á andófsheimilum áttu ekki sjö daga sæla í harðhentri mótunarmaskínu kommúnismans. Einræði hentar lífinu illa og harðstjórar falla alltaf að lokum. Kommúnisminn hrundi og fólkið í Lútherslandinu reynir nú að vinna með lífið – nútíð en líka fortíð. Og það er þeim svo sannarlega mikilvægt því þeim, sem ekki vinna með sögu sína og læra af henni, hefnist illa. Og kirkjan reynir að leggja til lyfsteina, sálgæslu, aðstöðu, hjartahlýju og samfélag til að vinna með fortíðina.
Flekkun Í Wittenberg hlustaði ég á prestinn Curt Stauss, sem starfar við evangelísku akademíuna – sem er n.k. systurstofnun Skálholtsskóla - segja frá tilraunum til að kalla saman ólíka hópa til samtals og sátta. Frásögn hans var grípandi. Hann lýsti vanda kommúnista, þeirra sem höfðu starfað í Stasi-leyniþjónustunni og barna þeirra eftir hrunið. Eftir að kommúnisminn féll héldu margir kommúnistanna fram, að þeir hefðu ekki gert neitt rangt. Það er gömul saga og ný, að valdahópar og forréttindafólk verja sig fimlega með ýmsum rökum til að sýna, að ekkert illt hafi verið gert eða meint. „Við gerðum ekkert rangt.“ En svo eru hin, sem njósnað var um, urðu fyrir ónæði, illsku og jafnvel fangelsunum. Þau þurfa að glíma við hvað eigi að gera við órétlætið og ofbeldismennina. Eiga þau bara að fyrirgefa misbeitingu, þjáningar, barsmíðar og fangelsanir? Hvernig er hægt að gera upp slíka glæpi?
Svo eru börn þessa fólks og fjölskyldur. Börn kommúnistanna og Stasiliðanna hafa svo sannarlega liðið mikið og orðið fyrir óréttlæti. Ekki var þeim að kenna að þau urðu til og foreldrar þeirra voru í hópi ráðandi afla. Eitt þeirra dró saman óbærilega stöðu þeirra eftir hrunið með því að segja: „Við erum með eitruð gen. Við erum óhrein.” En eru þau með eitruð gen? Eru þau holdsveik? Hvers eiga þau að gjalda, að faðir eða móðir þeirra gerði rangt eða aðhylltist ranga kenningu á röngum tíma? Börn Stasifólksins eru raunverulega fórnarlömb rétt eins og hin.
Svo var það hinn hópurinn, hinum megin við hina pólitísku hreintrúarlínu. Það var ekki auðvelt að halda á móti straumi, vera andófsmaður eða hafa óæskilegar skoðanir í hinu kommúníska kerfi. Sumt af þessu fólki var sent í fangelsi og líka fyrir það eitt að vilja fara út úr kerfinu, flýja. Og börn þeirra liðu. Þau lifðu í ótta og mögnuðu jafnvel með sér biturð og reiði vegna þess að foreldri eða fjölskyldur þeirra hefðu barist og lent svo í fangelsi. Börn fórnarlamba eru fórnarlömb, eru jafnvel reið sínu fólki fyrir að hafa ekki verið til friðs. Jú, þau áttu eins og önnur börn rétt á foreldrum og friðsælli bernsku. Svo voru sum þeirra tekin af foreldrunum með dómsúrskurði því foreldrarnir, sem voguðu sér að mótmæla og andæfa – eða bara að reyna að flýja - og voru ekki taldir hafa þroska til að ala upp börn. Því var framin margvíslegur óréttur á þessu fólki.
Hvernig lækning? Hin þýsku sár eru djúp og syndir fortíðar erfast í marga ættliði. Tíminn læknar engin sár, heldur aðeins viðeigandi andleg og líkamleg hjúkrun. Sárin verða ekki hreinsuð vel nema með mörgum samtölum og miklum heiðarleika. Börnin með eitruðu genin þarfnast sátta, þurfa fyrirgefninu - ekki aðeins vegna sjálfra sín heldur líka vegna síns fólks. Börnin, sem liðu mikið vegna þess að foreldrar þeirra börðust gegn kommmúnismanum, þurfa að fá útrás fyrir reiði og sorg sína. Og kirkjan á Lútherssvæðinu reynir að sætta einstaklinga við sjálfa sig og umhverfi sitt, við annað fólk, leiða saman mismunandi hópa til samtals og sátta. Fólk þarf frið, elskusemi og framtíð. Þetta er verkefni á siðbótarsvæðinu, siðbót hið innra sem ytra. Bót siðar, bót í lífi fólks.
Kyrie - eleison Og þá erum við komin að texta dagsins, sem rímar við hin eitruðu og þjáðu. Tíu menn stóðu álengdar og hrópuðu á hjálp. Hjálp – hjálp. Þeir höfðu það, sem við getum líka kallað eitruð gen. Enginn vildi koma nálægt þessu fólki, sár þeirra voru viðurstyggileg og fólk vildi ekki smitast og rotna lifandi eins og þetta fólk. Var nema von að þau æptu á þennan fræga lækni. Og óp þeirra var þetta sama og við biðjum alltaf í upphafi messunnar: „Drottinn miskunna þú oss. Kristur miskunna þú oss. Drottinn miskunna þú oss.“ Miskunna oss – hjálp - og á grískunni hljómar þetta sem: „Kyrie eleison, Kriste eleison, Kyrie eleison.“ Við megum gjarnan muna, að söngurinn er hjálparóp. Kristnir menn hafa æpt á Guð í messum allra alda, biðja Guð um að leggja við hlustir og bjarga.
Í þjáningunni eru einstaklingarnir eitt þó ólíkir sú. Þjóðerni skiptir ekki máli, tunga, kynhneigð, pólitík eða litur. Þjáning eitrar gen, er hræðileg staða sem ekki er samboðin lífinu. Fólkið æpti og Jesús Kristur heyrði. Og þau, sem voru óhrein urðu hrein, þau sem voru sjúk urðu heilbrigð og allt breyttist til betri vegar. Jesús Kristur fór ekki um vegi lífsins til að vera tákn, heldur til að sjá, bregðast við og umbreyta. Og í því erum við lærisveinar hans þegar við sjáum, heyrum, bregðumst við og megnum að breyta. Þá getur sáttin fæðst.
Okkur er ætlað að heyra þegar einhver segir, að hann eða hún hafi eitruð gen. Kirkja Jesú Krists á að temja sér þunnt eyra og hlýjan faðm gagnvart þeim, sem eru reið. Það er ekki hlutverk okkar að beygja fólk til hlýðni og kúgunar, heldur til fullveðja fyrirgefningar rétt eins og Guð leiðir á réttan veg, læknar, sættir, fyrirgefur. Og kirkja Jesú Krists á að bregðast við óretti gagnvart öllu lífi, ekki aðeins í mannheimum, á Íslandi eða Þýskalandi, heldur líka náttúru sem er beitt órétti.
Hvar eru hinir níu? Aðeins einn kom til baka. Stasiliðið telur sig ekki hafa gert neitt rangt og finnur ekki fyrirgefninguna. Þau, sem með framferði sínu, hafa arðrænt aðra finna oft ekki til afleiðinganna. Þau, sem hafa með yfirgangi farið illa með tilfinngar fólks, sjá oft ekki að sér. Guð heldur áfram að lækna og styrkja og menn munu áfram halda áfram að misnota lífsgjafir Guðs. En Guð hættir ekki að elska þó við menn séum sjálfhverf og ástgrönn. Guð hættir ekki við að frelsa heiminn þó við sjáum bara hrotta og „Stasilið” í kringum okkur. Guð kom og kemur í þenann heim til að láta gott af sér leiða.
Jesús heyrir og læknar. Okkar hlutverk er að hegða okkur eins og hann. Við megum flytja fólkinu okkar, félögum og vinum, samfélagi og þjóðfélagi, mannheimi og lífríkinu sáttarvilja Guðs, elsku Guðs, lífgjöf Guðs. Við megum sjálf heyra hann. Hvar eru hin níu? Það er sístæð spurning. Erum við eitt af þeim? Sjáum við samhengið? Erum við eitruð gen eða hjálpum við að lækna. Jesús Kristur sagði: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér“ Það er boð dagsins og erindi altarisgöngunnar á eftir. Þú ert elskaður og elskuð. Hreinn og læknuð. Og svo skulum við tala um hvað það merkir og hvernig afleiðingar það hefur í lífi þínu. Amen.
Prédikun í Neskirkju 9. september, 2012.
(Bókin Stasiland eftir Önnu Funder segir sögur af lífi fólk í Austur Þýskalandi á kommúnistatímanum. Bókin kom fyrst út í Ástralíu og var þýdd á ísl. og kom út á árinu 2012 http://www.forlagid.is/?p=599193)
Textaröð: A Lexía: Slm 146 Hallelúja. Lofa þú Drottin, sála mín. Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til. Treystið eigi tignarmönnum, mönnum sem enga hjálp geta veitt. Þegar öndin skilur við þá verða þeir aftur að moldu og áform þeirra verða að engu. Sæll er sá sem á Jakobs Guð sér til hjálpar og setur von sína á Drottin, Guð sinn, hann sem skapaði himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem er ævinlega trúfastur. Hann rekur réttar kúgaðra, gefur hungruðum brauð. Drottinn leysir bandingja, Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta, Drottinn verndar útlendinga, hann annast ekkjur og munaðarlausa en óguðlega lætur hann fara villa vegar. Drottinn er konungur að eilífu, Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Hallelúja.
Pistill: Gal 5.16-24 En ég segi: Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru til þess að þið gerið ekki það sem þið viljið. En ef þið leiðist af andanum þá eruð þið ekki undir lögmáli. Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég ykkur fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki. En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.
Guðspjall: Lúk 17.11-19 Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“