En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lúk 2.1-14
Gefðu, drottinn, gleðileg jól, börnunum þínum öllum. Amen.
Gleðileg jól.
Enn fáum við að ganga í heilagt hús á helgri jólanótt. Enn höfum við fengið að syngja jól með ykkur, ungu vinir í Hamrahlíðarkórnum og kór Menntaskólans við Hamrahlíð, og þér Þorgerður. Guð launi það og blessi ykkur.
Engin nótt er eins og þessi, hin helga nótt, hljóða nótt. Hvað er það sem gerir að verkum að hún er töfrum fyllt þessi nótt? Það er sagan, frásögn jólaguðspjallsins.
Löngum hafa menn velt vöngum yfir þessar sögu, sagnfræðinni, tímatali og staðfræði. DV fórnaði á dögunum heilli opnu af sínum dýrmæta pappír til að afsanna sannleiksgildi jólaguðspjallsins. Og fyrirsögnin í stríðsletri eins og verið væri að afhjúpa meiriháttar hneyksli. Var þar teflt fram því sem blaðið nefndi “virtustu fræðimenn” samtímans, sem væru sammála um að Það hafi EKKI borið við um þessar mundir. Ekkert boð frá Ágústusi keisara, engin skrásetning, ekkert sem hönd á festi. Sem sé: jólaguðspjallið sé markleysa, boðskapurinn sem prestarnir fara með ár eftir ár, ómark, staðleysa, “nær eintómur tilbúningur.” Trú okkar byggir á sandi ósanninda.
Nú er það svo, að þau rök sem rakin eru til virtustu fræðimanna í greininni eru hreint ekki ný af nálinni. En hafa mörg hver verið hrakin af engu síður virtum fræðingum, hrakin lið fyrir lið. Kýreníus landsstjóri er vel þekktur og tilvist hans og stjórnkænska vel vottfest. Eins er um manntalið.
Við skulum annars ekki elta ólar við þetta. En við skulum gefa því gaum og þeirri staðreynd að þjóðsögur og ævintýri og goðsagnir valda engum viðlíka vangaveltum. Enginn spáir í því – ekki einu sinni á síðum hins virta DV - hver hafi verið konungur þegar Mjallhvít var hjá dvergunum sjö, eða þegar Þór var í austurvegi að berja tröll. Það er ekki vegna þess að þær sögur séu ómerkilegri út af fyrir sig, eða vegna þess að engum heilvita manni detti í hug að tengja þær yfir höfuð raunverulegum aðstæðum í raunverulegum heimi. Hvort þessi ævintýri eða goðsögur standast rýni sagnfræðinnar eða ekki breytir engu, þær eru jafngóðar eftir sem áður, halda gildi sínu óhaggað.
Það sama má segja um grundvallaratriði hinna margvíslegu heiðnu trúarbragða, svo sem til dæmis hindúismans. Þau eru tímalaus, máttarvöld þeirra endurspegla hringrás náttúrunnar eða andlegar þarfir sem breytast ekki öld eftir öld. Enginn spyr hvenær þau fæddust, atburðir sögunnar hafa ekkert varanlegt gildi, þeir eru eins og stormur og sólarfar sem marka engin spor í yfirborð hafsins.
En við? Hvað er tíminn, hvað er sagan í okkar huga? Þegar við bjóðum gleðileg jól erum við þá bara að hugsa um jólasveininn og jólaboð? Erum við ef til vill, þegar allt kemur til alls, ekki komin hætis hót lengra en þeir sem í fyrndinni frömdu sín miðsvetrarblót. Heiðnir forfeður okkar og mæður voru fullviss um að það og meðfylgjandi veisluhöld og svall myndi tryggja að sól færi að hækka á lofti á ný. Hefur jólaguðspjallið breytt einhverju um heimsmynd okkar og skilning á lífi og örlögum, náttúru allri og eðli manns? Ég er ekki í vafa um það. Sá sem sagt er frá í jólaguðspjallinu, hann sem fæddist í Betlehem og var lagður í jötu, hefur markað spor, ekki aðeins í gljúpan jarðveg Galíleu endur fyrir löngu, heldur í harðan raunveruleika lífs og heims, í vitund mannkyns, reynslu, sögu. Fótspor sannleikans. Og andi hans og áhrif hafa reyndar gert mikilvægasta andlegt afrek okkar tíma kleyft, nefnilega raunvísindin, já, og sagnfræðina! Einmitt vegna þess að frumforsenda tilverunnar er ekki heimur goðsagnanna og hringrás náttúrunnar, heldur hugur, vit, vilji og skynsemi sem að baki býr allri tilveru. Orðið, viskan, sannleikurinn. Guð, sem er að verki í sögu manns á jörðu.
Lúkas byrjar ekki guðspjall sitt á orðunum: “Einu sinni var.” Hann leyfir sér ekki að láta glimmer goðsagnanna falla yfir boðskap sinn. Hann setur fram skýrt og skorinort þá staðhæfing að “það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara….þegar Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi…fór þá einnig Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu til borgar Davíðs sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs….”
Lúkas notar þá háu herra, Ágústus og Kýreníus til að tímasetja ferð þeirra Jósefs og Maríu. Honum er í mun að staðsetja þau í okkar tíma, í okkar sögu. Fæðing frelsarans er söguleg staðreynd, en ekki goðsögulegt tákn. Og nú er þeirra herra yfirhöfuð minnst vegna þeirrar staðreyndar að þeir eru nefndir til þessarar fábrotnu sögu. Af því að hún er sannleikur, boðskapurinn hennar hvílir á traustu bjargi sannleikans. Sagnfræðin getur fundið eitt og annað sem stangast á við texta guðspjallsins. Lúkas notar líka ljóðmálið og táknmálið til að bera fram boðskapinn um frelsarann. Með málfari ljóðsins segir hann meir en heimspekihugtök og fræðileg rök megna nokkru sinni. Ljóðið, söngurinn og tónlistin, táknin og iðkunin eru framar öllu farvegir trúarinnar. Fagnaðarerindinu er ætlað að hrífa hugann og hjartað um leið og það virkjar skilning og skynsemi. Kristnir menn hafa alltaf, á öllum öldum, hlustað á röddina sem segir söguna helgu, og þá laðan sem við heyrum, til samfélags, návistar, umhyggju, ástar. Jólaguðspjallið, fremur en aðrar frásagnir guðspjallanna, svarar ekki öllum spurningum, vekur jafnvel nýjar spurningar, en það varpar nýju ljósi á lífið, og á þá merkingu sem að baki býr. Þegar við nálgumst texta hinnar helgu sögu er málið að líta upp frá bókstafnum til andans, frá orðunum til Orðsins, frá sögunni til leyndardómsins, og hlusta eftir röddinni, rödd sannleikans, sem ávarpar mig og þig til að leiðbeina, hugga, lækna, ummynda.
Nöfn og gildi koma og fara, og þau eiga sinn tíma, stundir og staði. Þar kemur að okkar menning og þjóðir hverfa í gleymskunnar sökkvisæ og allt það sem við metum mest og hossum hæst fellur og fer. En jólaguðspjallið mun ekki gleymast. Af því að það er sannleikurinn. Nöfn þeirra Ágústusar og Kýreníusar, Jósefs og Maríu munu enn og aftur rifjuð upp og sagan sögð, sungin og tjáð. Af því að örlög mannkyns hafa eignast samnefnara í barninu í jötunni. Jólin birta þann Guð sem varð maður, mannsbarn á jörðu, Jesús. Guð vildi ekki dvelja hulinn utan og ofan við framrás lífs og sögu, atvik og örlög. Hann gekk inn í það allt, af því að hann elskar þennan heim, elskar þig og vill mæta þér í augnhæð og tjá þér elsku sína, og kalla þig til fylgdar við sig. Mannleg örlög og tilgangur lífsins hefur fengið andlit, mál og róm, sem unnt er sjá og heyra, taka afstöðu til, hafna, þiggja, forðast, fylgja. Og þau viðbrögð öll eru öll hluti þeirrar dramatísku sögu sem er að gerast hér í heimi, sögu Guðs á jörðu. Og ef Guð er ekki í tísku þá er það stórslys – fyrir hvaðeina það sem er í tísku.
Þannig erum við hvert og eitt, og sagan öll, ofin inn í eitthvað sem meira er og stærra en það sem alla jafna fyllir líf okkar, daginn og veginn. Jólaguðspjallið er meir en sagnfræði. Það er samtíð. Það er heimboð. Við erum stödd í Betlehem. Og þegar þau nálgast, Jósef og María, venjulegt hversdagsfólk og algjört aukaatriði í heimi hinna voldugu stóru, og hún María auk þess heldur komin á steypirinn, þá erum við kölluð út úr ævintýralandi ábyrgðarleysisins, kölluð til raunveruleikans sem er Kristur Drottinn. Kölluð til að bregðast við þegar neyðin ber dyra, þegar trúin og vonin og kærleikurinn leita sér skjóls og farvega hjá okkur. Kölluð til að fylgja þeim boðskap og þiggja þá hjálp sem hann birtir, hann sem var í jötu lagður lágt.
Slepptu nú fyrirvörunum, og líttu í anda til þeirra í fjárhúsinu lága. Sjáðu barnið í jötunni. Smælingja meðal þeirra sem heimurinn treður á. Þú manst að englarnir sögðu að þetta barn væri frelsari heimsins, frelsari þinn. Hirðarnir trúðu því. Gerðu það líka. Þetta barn er frelsari þinn, Kristur Drottinn. Í því er lausnin fólgin að þú takir mark á því og látir það móta líf þitt allt, dagfar, gildismat. Trúin sem hann leitar og gefur er ekki bara ljúfar kenndir á hljóðri nótt, heldur líf. Líka á björtum degi. Hversdagslíf í hversdagsheimi. Og þegar þú heyrir, þegar þú kemur auga á barnið í jötunni og lýtur í trú, þá ber það til að Guð hefur fundið þig og snortið hjarta þitt. Guð sem vill helga lífið þitt allt návist sinni, og senda þig til móts við lífið og daginn með frið í hjarta, söng í sál og dýrð hans fyrir sjónum. Gleðileg jól! Í Jesú nafni. Amen.
Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt í Dómkirkjunni í Reykjavík við miðnæturmessu á jólanótt, 24. desember 2003.