Í dag, 9. október, eru liðin 25 ár frá stærstu mótmælagöngu í Austur-Þýskalandi kommúnismans, þegar nærri eitthundraðþúsund manns gengu fylktu liði um Leipzig og sungu einum rómi: ,,Við erum fólkið“ - ,,Wir sind das Volk.“ Andmælin við skerðingu á ferðafrelsi og öðrum mannréttindum áttu sér upphaf í Nikulásarkirkjunni, 800 ára gamalli kirkju í miðborg Leipzig. Ungu prestarnir Christian Fuehrer og Christoph Wonneberger fundu að eitthvað mikilvægt var að fara að gerast. Um 8000 manns voru í kirkjunni þennan dag en þar hafði fólk komið saman á mánudögum í nærri áratug til að biðja og ræða saman um þjóðfélagsmál. Fyrir utan hópaðist fólkið saman og síðan hófst friðsöm ganga sem átti eftir að breiðast út um Austur-Þýskaland næstu mánudaga á eftir og endaði með falli Berlínarmúrsins þann 9. nóvember sama ár, fimm vikum síðar.
Nú er liðinn aldarfjórðungur frá þessum atburðum, frá því að fólkið í Austur-Þýskalandi snérist gegn ranglátum valdhöfum – og hafði sigur á friðsaman hátt. Það var fyrir innri styrk fólksins sem það sótti til kirkjunnar, til kristinnar trúar, að þetta varð. Þetta var sigur fólksins hérna, segir séra Fuehrer, án afskipta herja stórveldanna. Óeinkennisklæddir lögreglumenn reyndu að koma af stað óeirðum, en þá sló fólkið hring um óeirðaseggina og söng ,,ekkert ofbeldi.“ Einkennisklæddir lögreglumenn hopuðu; feður vildu ekki ráðast gegn uppkomnum börnum sínum sem gengu um götur heimaborgar sinnar syngjandi.
Lífsafstaða lærisveins Í gegn um fréttamiðla heyrum við aðrar sögur í dag. Brugðist er við friðsamlegum mótmælum með ofbeldi. Fólk er hrakið frá heimilum sínum og víða blasa ógnir við. Í ljósi þessa rís aldan frá Leipzig upp eins og sól að morgni, gefur von um aðrar leiðir. Þýski guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer sá í kristinni trú leið friðsamlegrar andstöðu á tímum óhuggulegra ofsókna nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Fyrir það lét hann líf sitt. Okkur, fylgjendum Jesú Krists, lét Bonhoeffer eftir máttuga lífsafstöðu lærisveinsins, m.a. í bókinni „Eftirfylgd“ – „Nachfolge“ – þar sem hann lýsir einkennum fylgjenda Jesú í ljósi Sæluboðana Jesú (Matt 5.3-11):
Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki. Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða. Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá. Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki.
Friðflytjendur Jesús boðar þeim blessunar sem eru heilshugar í afstöðunni til Guðs. Hann boðar ekki veraldleg gæði eða hagræna hagsæld heldur nýja andlega stöðu, stöðu himnaríkis, huggunar, fullnægju, miskunnar – að sjá Guð, vera kölluð Guðs börn, erfingjar jarðar. Sú nýja staða byggir á fátækt andans – að vera tilbúin að taka við Guði sem grundvelli lífs síns án allra málalenginga. Að vera fátæk í anda hefur ekkert með gáfnafar að gera – en er samt gáfa, gjöf Guðs, að treysta Guði í einu og öllu. Þar með erum við snortin af samúð Guðs með því sem aflaga fer og finnum til hryggðar yfir ranglætinu í þrá eftir réttlæti. Í eftirfylgdinni við Jesú fáum við að líkjast honum sem er hógvær og miskunnsamur, erum kölluð til að sýna mildi og skilning í öllum aðstæðum. Jesús biður okkur um að vera hjartahrein, heilshugar í afstöðunni til Guðs, og þiggja fyrirgefningu hvert augnablik. Og hann býður okkur að vera friðflytjendur, boðberar friðar hvar sem við förum og láta ekkert hræða okkur.
Með Jesú Kristi er þetta hægt. Í mannlegum mætti er það óhugsandi. Um leið og Jesús boðar okkur sælu, flytur okkur blessunaróskir, gefur hann okkur kraft til að fylgja sér, í fátækt andans, sorg yfir þrengingum veraldar, hógværð, þrá eftir réttlæti, miskunnsemi, hreinleik hjartans, sem friðflytjendur og þjáningarsystkin. Þaðan trúi ég að styrkur fólksins í Leipzig haustið 1989 hafi sprottið, frá bæn og samtali kristinna systkina í Nikulásarkirkjunni í nær áratug, frá mótun til þeirrar myndar sem Guð kallar okkur til og sjálfur kemur til leiðar í okkur. „Leitið fyrst ríkis Guðs og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matt 6.33).