Nú hefur Borgarráð ályktað í hinu langdregna og sérstaka máli er varðar samskipti reykvískra skóla við trú- og lífsskoðanafélög. Það góða er að niðurstaðan felur í sér samráðsferli sem skuli fara fram. Þar með er viðurkennt að það þurfi að ræða þessi mál betur á breiðum faglegum og félagslegum grundvelli.
Eins ber að fagna því að nú eru reglurnar settar af borgarráði sjálfu en ekki af mannréttindaráði og málefninu vísað til Skóla- og frístundasviðs þar sem það á betur heima um leið og mannréttindaráð hefur sínu mikilvæga eftirlitshlutverki að gegna.
Reglurnar sem nú hafa verið samþykktar bera ekki með sér þóttann og andúðina sem upphaflegur texti mannréttindaráðs fól í sér og margt hefur verið fært til betri vegar.
- Reiknað er með prestum sem fagmönnum í hópi annara fagmanna í tengslum við sorgarúrvinnslu .
- Gert er ráð fyrir því að sóknarkirkjur standi áfram við hlið annara félaga sem bjóða börnum hollar tómstundir í skólahverfinu er kemur að kynningarmálum.
- Ekki er lagt bann við ferðum fermingarbarna með kirkjum sínum og fleira gott mætti nefna.
- Auk þess er áfram í textanum sú klára afstaða sem enginn deilir um að skólinn sé ekki vettvangur trúboðs og að allir sem hann heimsækja geri það á forsendum skólans.
- Sá ákvörðun að trúar- og lífsskoðunarfélög skuli ekki stunda starfssemi sína innan veggja leik- og grunnskóal borgarinnar á skólatíma né heldur á starfstíma frístundaheimila virkar mjög eðlileg við fyrstu sýnog er það líka að mestu leyti. En sums staðar háttar svo til að skátar, íþróttafélög, tónskólar eða sóknarkirkjur bjóða upp á tómstundir eða kennslu á starfstíma frístundaheimila og fá aðstöðu í skólahúsnæði. Þetta er gert til þess að minka skutlið þar sem vegalengdir eru miklar innan hverfa í því skyni að bjóða betri þjónustu. Það þarf að ræða þennan þátt, hvort við viljum í raun og veru að félagsstarf sem unnið hefur sér trúnað skólasamfélags og foreldra verði að víkja af þeirri ástæðu að það sé sóknarkirkjan sem bjóði upp á það en ekki íþróttafélagið, skátarnir eða tónskóli.
- Þá tel ég líka að það sé mikil afturför og ekki í anda nútíma hugsunar að hafna heimsókn Gídeonmanna sem áratugum saman hafa komið í heimsóknir í skóla til þess að færa börnum Nýjatestamenntið að gjöf. Gídeonfélagið er að sjálfsögðu trúboðsfélag eins og Þjóðkirkjan, en þegar Gídeonmenn stíga inn fyrir þröskuld skólans eru þeir á hans forsendum eins og hver annar gestur. Nýjatestamenntið er vissulega trúarrit en þó er það enn fremur menningarrit og sem slíkt er það hluti af námsefni í grunnskólum. Gídeonmenn eru því að afhenda börnunum menningargjöf og námsgagn. Þeirri gjöf þarf að finna þokkafullan farveg þar sem öllum aðilum er sómi sýndur. Þetta málefni verður eitt þeirra sem væntanleg samráðsnefnd þarf að finna sanngjarnan flöt á.
- Eins hygg ég ekki farsælt að banna börnum þátttöku í helgisiðum og athöfnum er þau heimækja sóknarkirkjuna í hverfinu sínu. Það er bara eitthvað rangt við það að banna barni að signa sig eða segja Faðirvorið sem því hefur verið kennt. Þarna þarf að gæta hófs og það er hlutverk okkar allra saman.
Með afgreiðslu málsins hefur Borgarráð sýnt ábyrgð sem lýðkjörið yfirvald og vísað þessu umdeilda máli í ásættanlegan farveg þar sem upplýst og vönduð umræða getur átt sér stað. Við Íslendingar erum svo fátæk af samfélagsinnviðum, það er svo ferlega fátt sem við höfum til þess að styðjast við er kemur að sameiginlegum hefðum og festu að við höfum ekki efni á að rífa niður það sem er gagnlegt og gott. Um leið er það skylda stórs aðila eins og Þjóðkirkjunnar að temja sér í enn auknum mæli það göngulag í samfélaginu sem reiknar með fjölbreytileikanum og fjölmenningunni. Þjónusta sóknarkirkjunnar í hverfinu má aldrei jaðarsetja börn sem eiga aðrar trúarlegar eða menningarlegar rætur. Lausnin á vandanum finnst í röklegu samtali, faglegu samráði og gagnkvæmri háttvísi.