Á fundi biskups

Á fundi biskups

Sú góða hefð er fyrir hendi að vígsluþegi gangi á fund biskups og ræði væntanlegt hlutverk, þiggi ráð sér reyndari manns og þannig gefst bæði biskupi og prestskandidat tækifæri til að ræða mikilvægi þjónustunnar og þær áherslur sem mest er um vert að virða í þessu ábyrgðarmikla starfi.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
03. júlí 2011
Flokkar

Á leiðinni sagði maður nokkur við Jesú: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“ Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“ Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“ Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“ Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“ En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“

Mér þykja kröfur samferðamanna Jesú harla hógværar í þessu guðspjalli , er ekki sjálfsagt að eiga eitthvert húsaskjól og mega kveðja sína nánustu? Ég hefði haldið það. Það er eins og frelsarinn sé hálf geðstirður í tilsvörunum, hafi farið vitlausu megin fram úr um morguninn, þ.e.a.s. ef hann fékk þá yfirhöfuð að leggjast til hvílu. En þegar ég hugsa betur um þetta þá sé ég að svona er samfylgdin í raun, dauðans fyrirhöfn og vesen, það væri svo auðvelt að setjast við vegkantinn og láta lítið fyrir sér fara, meðan lestin færi áfram, týnast í rykmekkinum sem þyrlast undan fótum samferðamannanna, já hver vill ekki eiga næðisstund? Það er auðvelt að verða vegmóður á þessari leið, varð ekki Jesús það sjálfur? Nema þá settist hann niður hjá samverskri konu og gaf henni að drekka af lind hins eilífa lífs og styrkti þannig sjálfsmynd hennar sem annars var brotin. Næðisstundirnar voru líka nýttar. Allar hans stundir höfðu tilgang, já það var hugsun í öllu sem hann gerði en ekki bara hugsun heldur líka hjarta, stórt og heitt hjarta. Guðspjall dagsins er eins og kjarni þeirrar fyrirhafnar sem er fólgin í því að vera kristin manneskja, í raun eru það ekki fyrirmæli Jesú sem slík er skipta höfuðmáli heldur miklu fremur andblær samskiptanna, tilsvör Jesú hafa samnefnara og sá samnefnari er að stíga skrefin, sleppa takinu, þora, hafa frumkvæði að því að skapa Guðsríki hér og nú, af því að við erum hér og nú. Þau 5 ár sem ég hef þjónað sem prestur þjóðkirkjunnar hafa síður en svo verið átakalaus, stundum hefur hvarflað að mér að þetta tengdist eitthvað minni kynslóð, hún væri svona dæmalaust uppreisnargjörn, en svo er nú ekki, í raun hefur alltaf verið eitthvað upp á borðum á öllum tímum sem hefur krafið kirkjuna um sjálfsskoðun, hvatt hana til að stíga fleiri og stærri skref, já hvatt hana til að sýna frumkvæði, sleppa takinu á ótta og hefðbindingum og þó að maður hafi oft orðið dálítið vegmóður á þessari leið þá er ekki annað hægt en að viðurkenna að áreynslan hefur verið þess virði. Þetta guðspjall minnir mig á þá tíma sem við lifum nú, það er sársauki í því, en um leið ný sköpun, von en umfram allt trú, þetta er fæðingarguðspjall Guðsríkis og kannski eru það einmitt örlög kirkjunnar að vera alltaf á fæðingardeildinni. Ég held að ástæðan fyrir því að þolmörk þjóðarinnar verða alltaf minni og minni gagnvart vandræðagangi kirkjunnar og afturgöngum er sú að fólk treystir á kirkjuna og þess vegna sárnar því vanmáttur hennar. Á liðnum dögum rifjaðist upp fyrir mér samtal sem ég átti við biskup Íslands herra Karl Sigurbjörnsson þegar ég var í þann mund að ganga til vígðrar þjónustu innan kirkjunnar. Sú góða hefð er fyrir hendi að vígsluþegi gangi á fund biskups og ræði væntanlegt hlutverk, þiggi ráð sér reyndari manns og þannig gefst bæði biskupi og prestskandidat tækifæri til að ræða mikilvægi þjónustunnar og þær áherslur sem mest er um vert að virða í þessu ábyrgðarmikla starfi. Samtalinu lýkur síðan á því að biskup les valið ritningarvers og biðu bænar fyrir væntanlegum presti og þjónustu hans. Ég man að mér þótti þetta viðtal bæði gott og gagnlegt, eitt er mér þó minnisstæðara en annað sem biskup sagði, ekki síst vegna þess að það hefur margsinnis opinberast mér á þessum annars stutta starfstíma mínum. Það varðar það að telja sig ekki ómissandi, ég man að biskup talaði um það við mig að í fáum öðrum störfum fengi maður eins mikið hól og þakklæti eins og í prestsstarfinu og þess vegna væri auðvelt telja sig ómissandi og gangast upp í að vera það. En það er enginn ómissandi, það eru allir menn óendanlega dýrmætir og mikilvægir en enginn ómissandi af því að staðreyndin er sú að í veröldinni er til ógrynni af góðu og hæfileikaríku fólki sem getur leyst hvert annað af í hinum margvíslegu störfum og þannig mun það alltaf verða, alveg eins og þegar þú ferðast um landið og hvert landshorn hefur sína mögnuðu fegurð sem þú heldur að geti ekki orðið meiri, þangað til þú kemur á nýjan stað. Í raun er maður engum ómissandi nema sinni nánustu fjölskyldu og vinum, það eru manneskjurnar sem líða mest undan fjarveru þinni enda minnir maðurinn minn mig oft á það þegar ég er farinn að gangast upp í hrósi og þakklæti annarra. Ég er nefnilega nákvæmlega eins og annað fólk, með hégómlegan metnað fyrir því að vera algjörlega ómissandi. En eitt er að að vera ekki ómissandi og annað að gera gagn, aðvörun biskupsins um að gangast ekki upp í sjálfri mér geymi ég í hjarta mínu og bið Guð um að hvísla henni að mér eftir þörfum. Hitt er annað mál að þó enginn sé stöðu sinni ómissandi er mikilvægt að gera gagn með lífi sínu og starfi og það er alls ekkert víst að það gagn kitli hégómagirnd mannsins, í raun vinnur maður oft mesta gagnið án þess að uppskera hrós já og með því að gera eitthvað sem er auðmýkjandi og erfitt, jafnvel sárt, eins og þegar maður segir sáran sannleika eða víkur af vettvangi til að skapa traust og trúverðugleika þess málstaðar sem er manni hjartfólgin. Í fljótu bragði man ég ekki til þess að Jesús Kristur hafi fengið mikið hrós á starfstíma sínum hér á jörðu, mér finnst sem aðrir hafi notið mest góðs af erfiði hans, gleði frelsarans liggur hins vegar í því að sjá ævistarf sitt verða öðrum til eftirbreytni svo að veröldin megi verða dálítið bjartari og betri, réttlátari og ríkari af kærleika og von. Í guðspjalli dagsins kallar Jesús fylgjendur sína til nýs lífs, svör hans eru ekki byggð á fálæti gagnvart fjölskyldu og vinum þó svo getir virst við fyrstu sýn. Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“ Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“ Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“ En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“ Nei hér er Jesús að tala um þá sem eru ekki tilbúnir að klífa fjallið eða vaða árnar í átt að Guðs ríki heldur kjósa að sitja eftir í ótta sínum og láta tímann vagga sér í ró. Jesús vanvirti aldrei það heilaga hann var sjálfur uppspretta þess og þess vegna má ekki skilja orð hans sem svo að hinir látnu skipti engu máli, hér eru hinir dauðu þeir sem ekki vilja taka þátt í lífi sem er fyllt af hugrekki en erfiði, afhjúpun ranglætis og opinberun raunverulegra lífsgæða. Það eru gæðin sem rannsóknarskýrslan gat fært kirkjunni en hún hefur ekki móttekið, það eru gæðin sem konurnar sem liðu undan ofbeldi og þöggun færðu kirkjunni en hún kunni ekki að þiggja, það eru gæðin sem við þurfum að móttaka til að verða heil svo við getum tekið næstu baráttu því mannréttindi verða eilífðarverkefni kirkjunnar og þess vegna er það ekki fyrr en ranglætið víkur af vettvangi sem dyr fæðingarstofunnar lokast. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.