Djúpið

Djúpið

Er nokkur góður maður til í Bandaríkjum? Í texta dagsins er fjallað um djúpveiðför og mikla veiði. Svo er þjóðhátíðardagur mikillar þjóðar sem veiddi merkileg gildi og skráði plagg fyrir sig og heiminn. Veröldin er undursamlega gerð. Við erum kölluð til undralífs.

Í dag er þjóðhátíðardagur Bandaríkja Norður Ameríku. Margt merkilegt er í sögu þeirrar þjóðar. Mér þykir vænt um Bandaríkin því ég hef hef notið margs þess besta sem sú þjóð hefur að miðla. Ég naut þeirrar gæfu að nema við bandarískan háskóla, kynntist mörgum og flest voru þau og eru úrvalsfólk. Ég komst að því margt af því besta, sem heimsmenningin hefur alið, varð til í Bandaríkjunum. Alltaf hefur mér þótt skemmtilegt, að fáni þeirrar þjóðar skuli hafa sömu liti og hinn íslenski. 4 júlí er þjóðhátíðardagur Ameríkana vegna þess að þann dag árið 1776 var samþykkt Sjálfstæðisyfirlýsing hinna þrettán nýlendna, The Declaration of Independence of the Thirteen Colonies.

Nokkur góður maður?

Mér er minnistætt atvik þegar ég – fyrir aldarfjórðungi – var við nám vestra. Ég kom heim í sumarfrí og átti tal við roskna konu hér í borginni. Sú hafði afar sterkar, svokallaðar vinstrisinnaðar skoðanir, á pólitík, fólki og þjóðum. Hún vissi af námsstað mínum, horfði á mig djúpum áhyggjuaugum og spurði svo: “Er til nokkur góður maður í Bandaríkjunum?” Spurningin var fullkomlega heiðarleg. Hún var sannfærð um, að þjóðfélag Bandaríkjanna væri svo illt að manneðli íbúanna væri skemmt. Ég var forviða á fordómum, svaraði auðvitað og reyndi að fá viðmælanda minn til að leggja á djúp skilnings og víðsýni. En spurningin hefur lifað með mér og vitjar mín þegar einhver vitleysan gengur fram af mér. Þetta voru fordómar af verstu tegund. Og staðreyndin er að alltof margir hafa svipaða veruleikanálgun. Er til nokkur maður góður í Bandaríkjunum? Býr eitthvað í þér sem hindrar þig að leyfa fólki, já jafnvel þjóðum, að njóta sannmælis. Ertu t.d. hræddur við muslima, Austur-Evrópumenn, hefur þú ímigust á útlendingum eða fólki sem aðhyllist aðrar pólitískar skoðanir en þú?

Legg þú út á djúpið

Biblíusaga dagsins er um fiskidráttinn mikla, hina miklu og óvæntu veiði. Jesús kom að mönnum, sem voru að þrífa net sín eftir veiðiskap. Þeir hafa væntanlega ekki verið í góðu skapi, höfðu puðað frá því snemma og ekkert fengið. Mannfjöldi fylgdi meistaranum og hann fékk bát Símonar (þess sem síðar fékk nafnið Pétur líka). Jesús settist í bátinn og Símon lagði frá landi, væntanlega til að allir gætu séð meistarann og heyrt til hans. Ekkert vitum við um inntak ræðunnar, við vitum ekkert um hvort Jesús talaði um fordóma eða verðmætamat. En eftir að hann hafði talað sagði hann við skipperinn Símon: “Legg þú út á djúpið.” Símon var klókur og góður í sínu fagi og hafði enga trú á að Jesús kynni nokkuð til veiða eða hefði innsýn í gæftaleysi. En hann lét sig hafa það að hlýða, undrið varð og báturinn fylltist, Símon gerði sér grein fyrir að hann hafði orðið vitni að einhverju mikilvægu, féll fram og bað þennan boðbera undurs og djúps að fara því hann væri flekkaður maður.

Legg þú út á djúpið. Hver er grunnhyggni mín, fordómar þínir og okkar? Konan sem hélt að enginn góður maður væri til í Ameríku fékk sannarlega sögu af ýmsu góðu fólki og að margt gott væri í erlendum stofnunum, menningu, heimilislífi og einstaklingum.

Legg þú út á djúpið. Við lendum oft í aðstæðum veiðimannnanna sem ekkert bein drógu úr sjó, höfðu ekki árangur sem erfiði. Þjóðlíf okkar er í þeim aðstæðum að margir hafa puðað í langan tíma og að mikilvægum málum, en þykir að lítið gangi og afrakstur eða árangur sé of lítill þó margt vísi reyndar til góðs. Viðhorfskannanir varðandi ýmis samfélagsmál okkar sýna að margir eru óánægðir.

Legg þú út á djúpið. Þegar dýpst er skoðað er ábending Jesú margþætt og varðar allt okkar líf. Hún gildir þegar við erum að hreinsa okkar samfélagsvef og peninganet eftir hrunið. Legg þú út á djúpið, sagði Jesús og segir enn. Við erum kölluð frá einföldum fordómum okkar, einföldum túlkunum. Það eru djúpgildin og þetta heimafengna sem veita þér hamingju, þetta sem opinberast þegar dýpst er skygnst og mest er reynt.

Viskurof

Ég hef verið að skoða íslenska guðfræðisögu síðustu vikurnar. Í hefð okkar er viska kynslóðanna um, að við – allir menn – eigum að kunna okkur hóf, seilast ekki of langt, iðka hið góða, gæta að mörkum okkar og köllun til að lífinu sé vel lifað og það verði farsælt. Boðskapur í postillum, hugvekjum, sálmum, í þjóðsögum og ýmsu þjóðfræðiefni er að menn væru tengslaverur og ættu að sjá hlutverk sitt í stóru samhengi við náungann og Guð. Menn ættu ekki að gera efnislega hluti, fjármuni, stöðu og ytri dýrmæti að keppikefli lífsins, að hjáguðum sínum, heldur leggja sig eftir góðu og gjöfulu sambandi við Guð og menn, sinna skyldum sínum í smáu og stóru, iðka réttlæti og seilast eftir farsæld – en ekki fé og frama.

Þegar ég var að íhuga þessar áherslur og lífsreynslu kynslóðanna hefur sótt að mér spurningin: Getur verið að ein meginástæðan fyrir að illa fór í íslensku samfélagi hafi verið að í þjóðlífinu hafi orðið viskurof, að fólk var hætt að skeyta um gildi, speki og lífsboðskap sem fyrri kynslóðir voru búnar að margreyna að væru mikilvægt veganesti til hamingju. Það siðrof sem rætt hefur verið um í tengslum við þjóðfélagskreppu Íslendinga er hluti af því hefðar- og visku-rofi. Við megum gjarnan heyra boðið: Legg þú út á djúpið þegar að þér er kreppt. Líttu upp og sjáðu hið stóra samhengi.

Manngildi og ábyrgð stjórnvalda og einstaklinga

Já, það er þjóðhátíðardagur Ameríkana í dag. Meðal djásna þeirrar þjóðar er Sjálfstæðiyfirlýsing Bandaríkjanna, sem fjallar um frumrétt fólks til lífs, frelsis og sóknar í hamingju. Rétt eins og Marteinn Lúther en ekki Thomas Jefferson væri við pennann segir í yfirlýsingunni, að til að fólk og þjóðir geti notið grunngæða séu stjórnvöld stofnsett. Valdið er frá fólkinu og stjórnvöld stýra í krafti þess valds. Mannvirðing er leiðarstjarna yfirlýsingarinnar og er raunar endurómur kristinna grunngilda.

Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna er stórkostlegt plagg og fjallar um frumrétt fólks til lífs, frelsis og sóknar í hamingju. Til að fólk og þjóðir geti notið þessara grunngæða eru stjórnvöld stofnsett. Þegar þau bregðast skyldu sinni er rétt og skylt að kollvarpa þeim stjórnvöldum. Hér er grunnhugsun lýðræðis og mannréttinda niðurrituð. Hlutverk stjórnvalda og þar með stofnana og einstaklinga er að verja gæði og einstaklinga. Legg þú út á djúpið og vitja djásna í sögu þjóðanna til að benda til góðs vegar í samfélagi. Við megum gjarnan læra af og vitkast af reynslu Bandaríkjanna!

Hver eru lífsgæðin – djúpið?

Og svo er nærsamhengi lífs okkar, lífs þíns og þinna. Ertu á einhverju grunnsævi í lífinu? Hvað hrjáir þig? Hvað dregur þig niður? Ertu komin/n í land og ert að hreinsa net þitt, hvort sem það varðar atvinnu, hjúskaparmál, fjármál þín, tengsl við annað fólk eða vini þína? Í fornum sögum Biblíunnar er til þín kallað í amstri hversdagsins. Legg þú út á djúpið, þitt djúp. Vitjaðu þess sem meira er, stærra og undursamlegra. Lyftu höfði, þorðu að taka skrefið, vertu ekki hrædd eða óttasleginn. Hver sem kreppan er má sjá í henni tækifæri.

Í liðinni viku minnti góður maður mig á að kínverska táknið fyrir kreppu hefði aðra merkingu líka, það væri líka tákn fyrir tækifæri. Og þannig er staðan. Þegar allt virðist ganga á afturfótum, kreppa meiðir eða depurð læðist má staldra við og opna. Það er hin trúarlega afstaða, hin trúarlega lífshvöt, hið guðlega kall, að leggja á djúp möguleika, vona, lífsvilja og gilda. Sagan um aflann mikla er saga um að lífið getur farið í plús þó við höfum verið í mínus. Jafnvel hin mesta sorg getur orðið fólki tilefni til að eflast og læra. Hin mestu og bestu jarðarbarna hafa vaxið til mestu visku vegna átaka og erfiðleika sem fólk hefur staðið af sér og unnið úr.

Og svo endar Biblíusagan á að maðurinn sem ekkert veiddi, fékk ofurafla og var svo beðinn um að taka að sér að veiða menn til lífsgleði og guðssambands. Þar er köllun okkar allra, að tengja lífið við Guð með þeim hætti að við verðum menn Guðs í heimi, þjónum fólki vegna þess að það er lífsafstaða okkar, berum öðrum gott, af því að Guð vill þessum heimi gott, að við göngum erinda gilda, gleði, vonar og undursins. Því þessi veröld er undursamlega gerð. Í heiminum megum við veiða heilagleikann, allt þetta sem Guð gefur.

Er nokkur góður maður í Ameríku? Er nokkur góður maður á Íslandi? Er nokkur góður maður í þessu húsi í dag? Já, og góðmennunum fjölgar því fleiri sem heyra kallið um að vitja dýpta, til að veiða til lífs og gæða og tengjast elskuneti Guðs.

Legg þú út á djúpið… Amen.

Sigurður Árni Þórðarson, Neskirkja, 4. júlí 2010.

Textar 5. sd. e. þrenningarhátíð A Lexían er úr spádómsbók Jeremía: Orð Drottins kom til mín: Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig. Áður en þú fæddist helgaði ég þig og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar. Ég svaraði: „Drottinn minn og Guð. Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“ Þá sagði Drottinn við mig: „Segðu ekki: Ég er enn svo ungur. Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig og boða hvað eina sem ég fel þér. Þú skalt ekki óttast þá því að ég er með þér til að bjarga þér,“ segir Drottinn. Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn minn og sagði við mig: „Hér með legg ég orð mín þér í munn. Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja.“

Pistill er úr fyrra Pétursbréfi Komið til hans, hins lifanda steins, sem menn höfnuðu en er í augum Guðs útvalinn og dýrmætur. Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms, til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar. Því að svo stendur í Ritningunni: Sjá, ég set hornstein í Síon, valinn og dýrmætan. Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar. Yður sem trúið er hann dýrmætur en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, orðinn að hyrningarsteini og: ásteytingarsteini og hrösunarhellu. Þeir steyta sig á honum af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað. En þið eruð „útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,“ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin „Guðs lýður“. Þið sem „ekki nutuð miskunnar“ hafið nú „miskunn hlotið“.

Guðspjall: Lúk 5.1-11 Nú bar svo til að Jesús stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. Þá sá hann tvo báta við vatnið en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn er Símon átti og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum. Þegar hann hafði lokið ræðu sinni sagði hann við Símon: „Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.“ Símon svaraði: „Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ Nú gerðu þeir svo og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska en net þeirra tóku að rifna. Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana svo að nær voru sokknir. Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné frammi fyrir Jesú og sagði: „Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ En felmtur kom á hann og alla þá sem með honum voru vegna fiskaflans er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“ Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.