Láttu trú þína bera ávöxt er yfirskrift æskulýðsdagins sem er er í dag – og reyndar æskulýðsstarfs Þjóðkirkjunnar allan þennan vetur. Haldnar hafa verið fjölskyldu- og æskulýðsguðsþjónustur víðast um landið og í kvöld er sameiginleg samvera ÆSKR í Neskirkju.
Láttu trú þína bera ávöxt. Það er ekki bara æskulýðurinn sem þarf að heyra þá hvatningu. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá, auglýstu Silli og Valdi og vitnuðu þar í frelsarann sjálfan (Matt 7.16) sem segir ennfremur í fjallræðunni: Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu (Matt 7.18).
Á föstunni erum við hvött til að skoða líf okkar, ganga í okkur, eins og gamla fólkið sagði, líta í eigin barm, inn í eigin sál. Hvar er ég stödd/staddur? Hvaðan kem ég? Hvert stefni ég? Ritningarlestrar föstusunnudaganna eiga að vera okkur hjálp í þeirri skoðun, sálarspegill, viðmið þegar við tökum stöðuna. Skoðum þessa lestra og leitum eftir því sem Guð vill segja við okkur. Hann á við okkur erindi í dag fyrir heilagan anda, nærveru sína, og við þessu erindi þurfum við að taka einlægum huga.
Lexían: Andi samúðar og tilbeiðslu Fyrri ritningarlesturinn, lexían sem svo var nefnd, er aðeins eitt vers. Það er orð Drottins úr spádómsbók Sakaría, 12. kafla, 10. vers:
En Davíðs ætt og Jerúsalembúa læt ég fyllast anda samúðar og tilbeiðslu og þeir munu líta til mín vegna hans sem þeir lögðu í gegn og harma hann jafnsárlega og menn harma lát einkasonar og syrgja hann jafnbeisklega og menn syrgja frumgetinn son.
Við kristið fólk höfum tekið þessi orð til okkar, fáum að eiga þau með Davíðs ætt og Jerúsalembúum, því við erum grædd á stofn olíuviðarins (sjá Róm 11.13-24). Við finnum til á föstunni þegar við íhugum pínu og dauða Jesú Krists, hörmum sárlega, syrgjum beisklega vegna hans sem saklaus dó fyrir okkar sekt. Slík íhugun, sem við sjáum í hvað tærastri mynd í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, kallar fram í okkur anda samúðar og tilbeiðslu.
Gagnvart Jesú Kristi verður samúðin að tilbeiðslu þegar við horfumst í augu við þörf okkar fyrir þann viðsnúning sem dauði hans á krossi kemur til leiðar í lífi okkar. Í kærleiksleysi þeirra sem tóku hann af lífi sjáum við okkar eigin vöntun á kærleika, nokkuð sem kristið orðfæri kallar synd. Það að dauði Krists varð lífgjöf okkar, líflína kærleikans inn í þitt líf og mitt, kallar fram þann anda tilbeiðslu innra með okkur sem orkar svo djúpa umbreytingu að oft hefur verið kölluð frelsun, frelsun frá dauða til lífs, frá synd til sáttar, frá viðjum ranglætisins til vængja réttlætisins. Á þeim degi, segir hjá Sakaría (13.1), á þeim degi opnast lind fyrir Davíðs ætt og Jerúsalembúa til að þvo burt syndir og óhreinleika.
Samúðin með þeim sem þjást Láttu trú þína bera ávöxt. Fyrsta skrefið á því ferli er að taka á móti í trú, að taka á móti þeirri gjöf andans sem er trúin sjálf, þegar augu okkar og innri vitund ljúkast upp fyrir þeim andlegum sannindum sem hér var lýst. Og þar finnum við löngunina til að láta gott af okkur leiða. Því samúðin með Kristi er um leið samúð trúarinnar með öllum þeim sem þjáðst hafa vegna ranglætis mannanna og sú samúð staðnæmist ekki í harminum og sorginni heldur verður afl sem knýr kristna sál til góðra verka. Hún svellur fram sem ástríða fyrir réttlætinu, verður umbreytingarafl inn í þennan heim, sem líður svo sáran skort á kærleika.
Nú er til margt vel meinandi fólk sem ekki telur sig knúið áfram af kærleikskrafti Krists og vill jafnvel ekkert af þeim veruleika vita. Það er ekki þar með sagt að það fólk geti ekki unnið réttlætinu gagn og gengið fram í elskusemi og alúð. En við sem njótum þeirrar gæfu að finna okkur höndluð af Kristi Jesú (Fil 3.12) sjáum ekki hvernig við gætum komist af án hans, svo brothætt sem líf okkar er og eigin staðfesta völt og varasöm.
Pistillinn: Munið hver þið eruð Í síðari ritningarlestrinum, pistlinum, erum við minnt á sumt af því sem getur brugðið fyrir okkur fæti. Það sem þar er talið upp – frillulífi, óhreinleiki eða ágirnd, svívirðilegt hjal eða ósæmilegt spé – á það sameiginlegt að vera brot gegn kærleikanum, sem er okkar viðmið í einu og öllu. Hvatning Páls postula hér í Efesusbréfinu (Ef 5.1-9) svo sem endranær er að við munum hver við erum, ljós í Drottni, börn ljóssins, elskuð börn Guðs. Það er sá grunnur sem við göngum út í lífið á, sá grunnur sem gerir okkur kleift að bera ávöxt í samræmi við trú okkar.
Og ávöxtur ljóssins er hér talinn upp: einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. Í Galatabréfinu er lengri listi yfir ávöxt andans: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi (Gal 5.22). Þann ávöxt skyldi trú okkar bera, eða með orðum Jóhannesar skírara: ávöxt sem er samboðinn iðruninni (Matt 3.8, 1981), að við sýnum í verki að við höfum tekið sinnaskiptum (2007).
Guðspjallið: Að heyra Guðs orð Hvernig kemur þá guðspjallið, Lúk 11.14-28, inn í þessar hugrenningar? Það er langt og það er erfitt. Í stuttu máli snýst það um ásakanir nokkurra úr mannfjöldanum á hendur Jesú í kjölfar kraftaverks sem hann gerði. Einhverjum datt það í hug að verk hans væru myrkraverk, runnin frá hinum illa. En Jesús lýsti því yfir að sá sem í honum er sé meiri og öflugri en sá sem er í heiminum (sbr. 1Jóh 4.4), að verk hans séu unnin með fingri Guðs, yfirlýsing þess veruleika sem nefnist Guðs ríki þar sem enginn er mállaus eða líður annan skort.
Það sem einkum snertir þá hugsun sem hér er sett fram um hvernig trúin sem heilagur andi Guðs skapar í okkur getur borið ávöxt eru síðustu fjögur versin.
Á þeim dögum sagði Jesús: „Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.‟ Er Jesús mælti þetta hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.‟ Jesús svaraði: „ Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.‟
Húsið sópað og prýtt merkir hér tómt hús, líf sem hvorki hefur verið fyllt af gjöf heilags anda, trúnni, og því síður ávexti sama anda, kærleikshugsun og kærleiksverkum. Manneskjunni dugar ekki að leitast við að halda frá sér því sem illt er og skemmandi. Kristin trú segir okkur að enginn geti það í eigin mætti. Hættan er sú að inn komi ,sjö andar verri´ til viðbótar við hinn sem þegar olli truflun.
Að bera Jesú í lífi sínu og næra hann af lífsmjólk sinni Við þurfum því að fylla okkar tóma hús, lifa því lífi sem við höfum þegið að gjöf sem börn ljóssins, varast það sem tekur frá okkur ljósið en bjóða Guð velkominn inn í líf okkar með þakklæti. Og í samtali Jesú við konuna í mannfjöldanum sem guðspjallið gefur okkur í lokin kemur nákvæmlega fram hvernig við eigum að fara að þessu, hvernig trú okkar getur borið ávöxt. Það er með því að heyra Guðs orð og varðveita það.
Þannig verðum við jafnvel lík Maríu móður Jesú, henni sem bar hann í kvið sínum og nærði hann af brjóstum sínum – þegar við tökum við Orði Guðs sem varð hold (Jóh 1.1-5, 14) inn í líf okkar, berum Hann innra með okkur, Jesú Krist, frelsara heimsins, og nærum hann með lífsmjólk okkar, því sem við segjum og erum og gerum. Þannig – og aðeins þannig – ber trú okkar ávöxt í verki.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.