Þegar stóra hurðin hér í Hallgrímskirkju rennur frá í hægum kirkjulegum takti oftast að morgni kl. 9.00, stundum fyrr og sjaldan seinna þá líður varla á löngu þar til húsið, kirkjan, kjallarinn, turn og salir, allt iðar af lífi og hingað sækja margar kynslóðir.
Ferðamenn sem reka inn nefið til að dást að kirkjuskipinu, eiga sína kyrrðarstund,skilja eftir hugsanir og bænir. Þau sækja heim landið okkar og koma við í helgidóminum Aðra daga er gengið þungum hljóðlátum skrefum inn fyrir dyrnar þegar kirkjuskipið myndar umgjörð utan um þungbærustu stundir lífsins, útför. Aðra daga er það gleðin sem kallar, messuhald þar sem fólk þiggur og gefur elsku sína og til góðra mála Fólk staðfestir heit sín með þeim sem þau elska mest og vilja gleðjast með eða þá að barn er borið til skírnar og gleðin og þakklætið er í fyrirrúmi yfir nýju lífi. Bænastundir þar sem ótalmargir eru bornir á bænaörmum og svo margt margt fleira...
Kirkja er umgjörð um þakklæti og kærleika, gjafmildi, þungar raunir og sorgir, efasemdir, reiði og angist undrun, líf og ljós, tóna og orð, lífsgildi og miðlun á menningararfi, siðferði og siðfræði. Um þetta myndar kirkjuskipið umlykjandi faðm og sömuleiðis þær þúsundir með nærveru sinni Kirkja sem fyrir orð Krists, gefur líf og vill líf. En það sem skiptir máli næst ekki á mynd nokkurn tíman, rúmast ekki í orðum en hjartað rúmar það helst, hugsunin, íhugunin. Kirkja sem stendur opin og heldur utan um þó dyrnar lokist að kveldi - þar er Guð, lífsneistinn sem logar alltaf.
Eins og dyrnar sem ljúkast upp á hverjum degi þá opnast okkur nú í kvöld dyr að nýju ári með blikandi himni, gleði og væntingum, nýjum tækifærum. Áður en við vitum þá iðar það ár af nýju lífi, verkum okkar, hugsunum , dómum, umburðarlyndi, skorti á hugsun og umburðarlyndi. Árið myndar umgjörð um hugsanir okkar, framtíð og líf. Vonir og vonbrigði, afrek og mistök. Kirkjan er samferða þjóð og lífi á þessari leið.
Kirkjan vil fá að heyra og hlusta á vangaveltur eða mótrök en þá verða þau sem alltaf halda sig vera að segja ný tíðindi í með gagnrýni sinni – finna hjólið upp á nýtt og þannig slá á óraunhæfar væntingar með gagnrýni á kirkju og kristni - að vera til samtals.
En erum við bættari ? Er heimurinn betri íverustaður án kirkju og trúar ? Þeirri spurning getum við samt ekki í raun svarað.
Það opnast enn dyr inn í framtíðina. Við stígum hikandi inn um dyrnar – framtíðin er óljós og óttaleg. Vestrið óttast nýja valdhafa og lönd og þjóðir í austri eru á barmi tortímingar þaðan sem fólk flýr í dauðans angist. Kirkjan veit ekki alltaf alveg hvað hún má segja og hvað ekki í opinberu rými og hvort hlutverk hennar er að leggja til í umræðu samtímans þau gildi sem hún miðlar, þá samfylgd sem hún bíður eða menningu sem hefur fært okkur ótalmargt. En við þurfum líka að standa með okkur sjálf sem kirkja, hvert og eitt Ræða, gleðjast yfir því sem vel er gert, þakka stuðning og láta gott af okkur leiða.
Og hvaða augum lítur þú samtíma okkar þegar það er eins og óttabylgja fari um heiminn.
Hvað sem okkur kann að finnast um stórar ákvarðanir sem hafa verið teknar á vesturhveli jarðar. Niðurstöður hinna ýmsu kosninga, framhald og spurningar sem vekja með okkur efasemdir, umhugsun. Ég hef staldrað aftur og aftur við orð vísindamannsins Stewen Hawking í netútgáfu breska Guardian frá fyrr í desember. Þar segir hann:
“Við búum yfir fullkominni tækniþekkingu til að eyðileggja plánetuna okkar en höfum ekki enn yfir að ráða þekkingu eða möguleikum á að flýja hana. Kannski eftir nokkur hundruð ár, ...núna eigum við aðeins eina jörð, eina byggilega plánetu og við verðum að vinna saman til að vernda hana. Til að gera það þurfum við að brjóta niður en ekki byggja upp hindranir og veggi – innan þjóða og milli þjóða. Ef við eigum að eiga möguleika til að gera það verða höfðingjar og leiðtogar heimsins að viðurkenna að þeir hafi brugðist og eru að bregðast mörgum – fjöldanum..Með auðævi og auðlindir sem í auknu mæli eru á færri og færri höndum þá erum við skyldug að og verðum að læra að deila betur, skipta betur og jafnar en við gerum í dag “
Svo mörg orð um heimssýn og áhyggjur hins merka vísindamanns sem horfir til himins og stjarna með þekkingu og rannsóknir í huga og í væntingar um líf á meðal stjarnanna þarna úti en hefur ekki enn fundist. Sumir hafa sagt að að árið 2016 sé á mælikvarða atburða og heimsfrétta súr og lélegur árgangur ef miðaða væri við vín og margt annað sem er metið í slæmum og góðum árgöngum. Næstum þrotlaust stríð í Sýrlandi og víðar, mannréttindabrot sem teygja anga sína um allan heim, minna okkur á það og svo ótalmargt annað sem miður er. Kannski er eitthvað í þínu lífi sem er þannig að þú óskar að þetta ár hafi aldrei orðið en aðrir eiga ferskar og undursamlegar minningar um sigra og gleði og meira segja sögðu “Aldrei að vakna” gleðin, ánægjan, elskan og það sem byggir okkur upp. Við þurfum að minnast þess líka. ___________________
“lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan..”
stendur í guðspjalli Gamlársdags.
Þetta ár er framtíð okkar og von segir Kristur sem af snilldinni segir okkur þessa dæmisögu. Minnir okkur á að það er eitt ár enn, ekkert sjálfsagt og við viljum fá að reyna aftur, ganga til góðs, fá annað tækifæri, gera betur, vera betri.
Munum að elska og umburðarlyndi í garð manneskjunnar er hinn kristni mannskilningur. Hann snýst um framtíðarhugarfar og ekki bara fyrir þau valdamiklu eða ráðandi heldur fyrir hvern mann. Mannskilningur kristinnar trúar rúmast ekki bergmálshellum samfélagsmiðlanna. Að lokast inn í þröngsýni og aldrei að horfa í eigin barm og sjá helst aðeins eigin skoðanir og dóma endurvarpast. Það er betra að horfa á skjáinn en horfa í sitt eigið hjarta því þar er allskyns óreiða sem enginn sér og vill sjá. Það er oft hægara að dæma en hlusta og kynnast.
Þetta varðar okkur öll og lífið gerist ekki á glampandi skjá tækniundranna en þau hjálpa okkur. Fréttannaálar fjölmiðla og netmiðla rúma ekki veruleika þinn það gerir aðeins tilvera þín. Ryðjum múrum á braut, umberum hvert annað til að við saman getum leitað leiða eftir öllu því besta sem okkur er blásið í brjóst, trú, sannleika eða elsku og kærleika. Það gerist hér og nú og því er undursamlegt að finna í líkingu guðspjallsins ilm úr mold sem minnir okkur á undur umhverfis og jarðar. Við sjáum fyrir okkur tréð sem fær tækifæri eitt ár enn, einn dag enn, eitt andartak því þannig gerist lífið. Fyrirgefning og gleði, sátt og opnar hendur gerir lífið okkur móttækilegt fyrir framtíð sem er svo oft óráðin. Kirkjustarf byggir á sömu þáttum hvar sem. Lokið er upp dyrum og þið eruð velkomin til kirkju sem rúmar nýjar vonir, nýjar raddir, hvísl, englasöng tónlistarfólksins og jafnvel þrumandi rafmagnað rokk eins og við fengum að kynnast nú í desember. Kirkja sem rúmar raddir allra, hugsanir, allt sem er uppbyggilegt, vangaveltur og stundar ekki áróðurkennt trúboð heldur býður til samtals og samfélags. Miðlar trú á að handan okkar veruleika og í okkar veruleika sé eitthvað stærra og meira en við sjálf. Laðar fram ábyrgð á náunganum og umhverfi. Til að miðla þessu opnar kirkjan dyr sínar. __________________
Í kvöld langar mig fyrir hönd kirkjunnar okkar að flytja þakklæti til allra þeirra sem gera starfið hér í Hallgrímskirkju mögulegt, starfsfólki kirkjunnar, þeim sem sinna kirkjuvörslu, fjárhaldi og umsjón, organistum og kórstjóra kirkjunnar. Þakkir til þeirra sem halda utan um stjórn safnaðarins, sóknarnefnd, listalífið Listvinafélags og svo eru það ótalmargir sjálfboðaliðar sem sinna margvíslegum störfum. Tónlistarfólkinu, söngfólkinu sem með hæfileikum sínum gengur um dyrnar hér og gefur okkur ómælt af hæfileikum sínum tíma og messuþjónar, safnaðarfólk og aðrir sem gefa tíma sinn og þið ótalmörgu sem styrkið með gjöfum ykkar í hverri messu Hjálparstarf kirkjunnar, ýmislegt góðgerðastarf og öll þau sem þarfnast hjálpar okkar. Guð laun og þakkir til ykkar allra
Kirkja er samfélag sem byggir starf sitt á því sem hjartað rúmar og orðin reyna að tjá, tónlistin birtir og fólkið leggur af mörkum sem leitar samfélags við Guð skaparann og Krist leiðtogann. Þetta kannski stemmir ekki við allra hugmyndir og hugsanir en sýnum umburðarlyndi hvert öðru og gleðjumst yfir að eitt ár enn fær tréð að dafna og vaxa og við tækifæri til að ýta nýrri mold að rótum kirkju og samfélags. Við hlökkum til að takast á við nýjan dag, ný verkefni, nýtt ár og samfylgd með skapara okkar og leiðtoga, Kristi. Guð gefi ykkur öllum gleðilegt ár.
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Lexía lesin Hlj 3.21-26, 40-41 En þetta vil ég hugfesta og þess vegna vona ég: Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín. Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vona ég á hann. Góður er Drottinn þeim er á hann vona og þeim manni er til hans leitar. Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins. Rannsökum breytni vora og prófum og snúum aftur til Drottins. Fórnum hjarta og höndum til Guðs í himninum. Þannig hljóðar hið heilaga orð.
Guðspjall: Lúk 13.6-9 Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“