Í krepputalinu öllu gleymist oft að okkur hefur tekist að byggja upp gott þjóðfélag á Íslandi. Hér er gott að búa, þrátt fyrir bankahrun, Icesave, misvitra stjórnmálamenn, misheppnaða fjölmiðla og mistækar eftirlitsstofnanir, svo maður slái um sig með frösum.
Eflaust fer það í taugarnar á mörgum að því skuli haldið fram að Íslendingar séu þrátt fyrir allt lánsamir. Þeir sem dirfast að benda á það eru stundum sagðir reyna að afsaka hrunið og bera blak af öllum þessum misvitru, misheppnuðu og mistæku. Þeir séu að réttlæta spillinguna og allt þetta gjörómögulega og vonlausa og hundleiðinlega land sem við búum í.
Þessa dagana er frekar illa þokkað að vera þakklátur Íslendingur.
Þeir eru nánast grýttir sem benda á að þó að allt hafi farið hér á hausinn og annan endann er óvíða betra að búa en í þessu kalda, einangraða, fámenna og furðulega landi.
Hinir virðast eiga hljómgrunn meðal þjóðarinnar sem segja okkur svo ægilega illa stödd að við höfum ekki lengur efni á að styðja okkar minnstu bræður og systur.
Áhrifafólk hefur stungið upp á því að Íslendingar hætti eða dragi stórlega úr þróunaraðstoð.
Þess ber að geta að þó að hér hafi orðið mikið áfall telst Ísland ennþá með ríkustu löndum. Hér eru bjartar framtíðarhorfur.
Nú segja menn að þessi ríka þjóð hafi ekki efni á að hjálpa fátæku fólki.
Það að eiga gnóttir, vilja sitja einn að þeim og heimta meira, er græðgi. Og græðgin er ein höfuðorsök þess að svo fór sem fór á Íslandi.
Ef við viljum fyrirbyggja annað svona hrun verðum við að uppræta græðgina.
Ég legg til að við Íslendingar bindum í lög að ákveðið hlutfall af þjóðartekjum okkar eigi að renna til fátækari landa.
Ákvörðum um slíkt er fyrirbyggjandi aðgerð. Hún er menntandi og þroskandi.
Nú er vinsælt að tala um að Ísland þurfi að endurheimta traust. Það á að gera með því að láta almenning borga skuldir sem hann stofnaði ekki til.
Það á víst að vera siðaðra manna háttur.
En ætli það teljist siðsamleg framkoma að tíma ekki að miðla öðrum af auðæfum okkar?
Er það traustvekjandi?
Að lokum fagna ég ákvörðun umhverfisráðherra um að vilja ekki undanþágur fyrir Ísland í loftslagsmálum.
Við eigum að vera til fyrirmyndar í þeim efnum og öðrum.
Við eigum ekki að keppa að því að vera ríkust.
Við eigum að keppa að því að vera góð.
Myndin með pistlinum: Harðbakur á Melrakkasléttu.