Fischer fallinn, Mozart manntaflsins

Fischer fallinn, Mozart manntaflsins

Því er manntaflið, skákin, heillandi, að hún tæmist ekki af leikjum og möguleikum þrátt fyrir aðeins 64 reiti skákborðsins og endurspeglar um margt átök og baráttu lífsins. Baráttusvið hennar er augljóst, taflmennirnir á sínum reitum. Hver leikur mótar framvinduna.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
16. febrúar 2008
Flokkar

Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ Jóh. 8.31-32

Náð sé með okkur og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.- Sé heimur og lífsfyrirbrigði litin sem guðlegt sköpunarverk líkt og kristin trú og helstu trúarbrögð heimsins játa, er tilveran í grunninn skynsamleg og vitræn. Orð Guðs og regla setja hana í heildarsamhengi, og skapandi andi hans flæðir og fer í gegnum hana. Himinstjörnur á hreyfingu í geimnum vitna um það og jarðneskt líf margvíslega líka þrátt fyrir margs konar ójafnvægi og röskun sem líka einkenna það. Frelsi manns og ábyrgð ræður úrslitum um hvernig farnast og stefnir hér í sýnilegum heimi. Kristin trú auðkennist af því að hún sér orð og skynsemi Guðs opinberast og gefast í Jesú Kristi og lítur verk hans sem lausn og sigur á eyðingaröflum, er myrkva huga og hjörtu og hindra framrás lífgefandi ljóss og máttar Guðs. Og sé trúin heilskyggn sér hún Guð í lífsfegurð og uppbyggilegum og góðum verkum, hver sem menningin er og trúarbrögðin þótt hvarvetna beri að segja frá Jesú Kristi. Sannleikurinn, sem miðar að raunhæfu frelsi, felst í því að þekkja Guð í auðmjúku hjarta og höndlast af nærveru hans, anda, skynsemi og ljósi og eflast að samkennd og elsku með vaxandi þekkingu og dómgreind, sem veit hvað máli skiptir til lífsheilla og auðgast jafnframt að réttlætisávöxtum þeim sem Jesús vísar til og kemur til leiðar í Drottins nafni. Erfiði, margvísleg raun og þjáning eru þó óhjákvæmileg á þessum baráttu- og þekkingarvegi en hann nær lengra og hærra en augu sjá, og jarðnesk endalok og dauði marka aðeins vegamót á æðri leiðum anda og sálar, sem íklæðast nýjum lífsformum ofar sýnilegum heimi, sem miða að fullkomnu samræmi og fegurð.

Því er manntaflið, skákin, heillandi, að hún tæmist ekki af leikjum og möguleikum þrátt fyrir aðeins 64 reiti skákborðsins og endurspeglar um margt átök og baráttu lífsins. Baráttusvið hennar er augljóst, taflmennirnir á sínum reitum. Hver leikur mótar framvinduna. Rökrétt hugsun og glöggt stöðumat, listræn skynjun og fléttuhæfni einkenna góða skákmeistara, djörfung og festa. Þeir kunna að sækja, verjast líka og halda í horfi er á móti blæs. Þeir nýta tímann og hafa styrk til að taka afleiðingum eigin gjörða og verða að samþykkja niðurstöðuna hvort sem er ósigur eða sigur. Skákborð er vissulega vígvöllur þar sem taflmenn falla hver á eftir öðrum uns yfir lýkur, en barátta manntaflsins er samt oft vettvangur mikillar virðingar og vináttu skákmannanna, sem hafa tekist á af fullri einurð og hörku.

Það sannaðist vel í einlægri vináttu þeirra Roberts James Fischer og Borisar Spassky. Skákeinvígi aldarinnar svokallaða þeirra á milli, sem haldið var hér á landi í Laugardalshöllinni í Rvík 1972, var smækkuð mynd af samkeppni og togstreitu andstæðra stórvelda í austri og vestri. Og þótt ólíkir væru sýndu báðir skákmeistaranir mikla snilld.

Sigur Bobby Fischers vakti verðskuldaða hrifningu víða um heimsbyggð. Hann varð í vissum skilningi fyrirboði að falli Sovétríkjanna og ríkisrekinnar sameignarstefnu og skákmönnum og skáklistinni mjög til framdráttar. Og einvígið varð örlagaríkt fyrir skákmennina sjálfa. Fischer hætti því miður alveg að tefla opinberlega og Spassky tefldi lítið og báðir misstu, er tímar liðu, tengsl við þær menningarrætur og hugmyndakerfi, sem höfðu hvatt þá til leiks, en þeir héldu sambandi sín á milli og áttu hvor annan að í ölduróti lífsins sem traustir vinir og félagar.

Einvígi þeirra tveimur áratugum síðar vottaði það.

En það varð Fischer dýrkeypt, því að hann varð fórnarlamb stjórnmálaátaka. Yfirvöld í Vesturheimi, þar sem hann var fyrrum hylltur sem hetja einstaklingsframtaksins og sigurvegari á siðlausu hugmyndakerfi kommúnismans, sýndu honum skilnings- og miskunnarleysi.

Sú meðferð hefur angrað Fischer meira og orðið honum erfiðari og þungbærari en nokkur staða, sem hann hafði fyrir hitt á taflborði lífsins. Dýrmætt var Fischer að eiga samt ávallt að trausta vildarmenn og vini, sem virtu hann og mátu fyrst og fremst sem skáksnillinginn mikla, Mosart manntaflsins, og vildu greiða götu hans hverju sem fram vatt.

R .J. F hópurinn hér á landi, sem kenndi sig við upphafsstafi meistarans, er jafnframt geta merkt Rights, Justice and Freedom, ,,Réttindi, réttlæti og frelsi”, var þar hvað fremst í flokki. Hann beitti sér fyrir lausn Fischers úr höftum og fjötrum í Japan og komu hans hingað til lands og tókst að tefla til fulls sigurs í þeirri úrslitaskák með eindregnum stuðningi þáverandi utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar og Alþingis, sem sýndi þá eftirbreytnisvert hugrekki og sjálfstæði í utanríkismálum. Bobby Fischer, hrakinn og þjáður, fékk hér landvistarleyfi og íslenskan ríkisborgararétt.

Það voru sanngjörn laun fyrir að hafa komið Íslandi í miðja skáksöguna og birt það sem miðju og tengilið milli heimsálfa og átakastrauma, er valdið getur sköpum um framvindu og lausnir.

Ég hitti Fischer í fáein skipti á förnum vegi síðustu misserin enda heyrandi stuðningsliðinu til. Hann kom líka í Hafnarfjarðarkirkju og Strandberg, safnaðarheimili hennar og virtist vera að ná öruggum áttum og safna kröftum. Það verður mér minnisstætt, þegar hann átti með okkur Einari S. Einarssyni nokkra stund í Stafni, lítilli kapellu Strandbergs. Kapellan hefur lögun eins og skipsstafn en er innilukt og minnir því líka á lúkar. Birta berst niður í hana úr lúkarsglugga, er rís upp úr byggingunni, og niður úr glugganum liggur ljós viður, sem verður líkt og útvíkkandi geisli. Silfraður kross er í honum, en kringum krossmiðjuna er viðurinn eilítið dekkri og myndar hring og þar með keltneskan sólar -og upprisukross. Fischer spurði mig um viss álitamál í Nýja Testmentinu. Ég svaraði eftir bestu getu og ræddi síðan við hann um áhersluatriði keltneskrar kristni. Þau eru mér hugleikin og felast í þeim trúarskilningi, að andi Guðs sé grunnur og lífsmáttur sköpunar og náttúru, og sólarljósið, er glæðir allt líf, sé endurskin af veru hans og elsku, sem opinberast í Jesu Kristi. Æðri heimar séu innan seilingar og trúin sé fyrst og fremst stillingaratriði og felist í því að opna sál og sinni fyrir áhrifum þeirra og jafnframt nærveru Guðs.

Líf hér í inniluktum tímans heimi takmarkaðra skynfæra sé oft stormasamt og brotsjóir margir, en mestu varði að tapa ekki von og trú og sjá lífið í æðra ljósi. Fischer hlýddi á þessa ræðu auðmjúkur og hógvær að sjá, vel móttækilegur fyrir slíkri lífssýn enda í þörf fyrir frið og lífssátt.

Yfirburða gáfur hans höfðu glöggt komið fram á skákborði þar sem hann sýndi oft leiftrandi og aðdáunarverða snilli.

Reglur voru ljósar í skákinni og rökin skýr þrátt fyrir oft flóknar stöður og niðurstaðan rökrétt, en lífið í samfélagi manna var mun flóknara. Þar virtist margt svo æði órökrétt og óskynsamlegt og úr lagi fært, og öll náttúran væri nú í augljósri hættu vegna ásælni og virðingarleysis. Fram kom í samræðum okkar Fischers og viðbrögðum hans, að hann var náttúruunnandi og vildi að gætt væri að innri lögmálum lífríkisins og lifað í sátt við þau. Þriggja blaða smárinn í efniskránni á að minna á þá afstöðu hans. Smárinn græni er reyndar lifandi trúartákn í keltneskri kristni, sem fylgdi fyrstu landnemum forðum daga hingað til lands. Hann minnir bæði á þrenningu Guðs í sköpunaverkinu og þá trú, von og kærleika sem Guði tengist og nærir lífið.

Sárt er til þess að hugsa að Bobby Fischer skyldi ekki endast lífsþrek og aldur til að festa góðar rætur og öðlast endurnýjaða heilsu eftir að hafa náð hér landi. Og sorglegt er, að hann skyldi svo ungur, sem raun varð á, hætta að tefla á opinberum vettvangi. Áhrifa hans mun þó æ gæta í skáksögunni, því að arfleifð hans er auðug og gjöful. Fischer hóf skák og skákiðkun í æðra veldi. Skákklukkan hans sýnir það líka og “Random- Óræð skák” hans, sem gjörbreytir manntaflinu, svo að það verður enn margræðra en fyrr, gæti líka bent til þess, er fram líða stundir.

Saga Fischers og íslensk menning og skáksaga eru samfléttuð. Hér á landi reis færni hans og frægðarsól hæst og hingað komst hann loks eftir volk á lífsins ólgusjó í friðarhöfn. Öllum ber að þakka, sem stuðluðu að því og reyndust Fischer úthaldsgóðir og traustir vinir á lífsleið og velgjörðarmenn, hér á landi, og í Japan þar sem Miyoko Watai, eiginkona hans, var honum vonarljós og styrkur og heimsótti hann mjög oft hingað til lands, og víðar naut Fischer hollra vina. Boris Spassky, sem því miður gat ekki verið viðstaddur þótt gjarnan vildi, sendir hingað þessa fögru kveðju.

“Consider that I am with you.”” We are with Bobby and he is with us for ever.” “Bobby was my brother. Eða.. ,,Hafið í huga, að ég er með ykkur. Við erum með Bobbý og hann er með okkur að eilífu. Bobbý var bróðir minn.”

-Hér í garði Laugardælakirkju er nú legstaður Roberts James Fischer. Hann er friðsæll og fagur og verður ef að líkum lætur fjölsóttur af þeim sem unna skák og manntafli og þekkja sögu þess og þeirra sem þar hafa staðið fremst að getu og hæfileikum. Við lok þessarar minningarstundar munum við ganga að gröf Fischers til að signa yfir hana eða kveðja með öðrum hætti. Virðing og þökk hæfir best menningu hans.

Og sú trúarsýn gerir það líka, er lítur þær gáfur og hæfni er birtast í rökréttri og leiftrandi hugsun og uppbyggilegri sköpun, sem farvegi guðlegrar skynsemi og ljóss. Það ljós skín einnig segir trúin, sem Kristi binst, handan jarðneskra endaloka og dauða í upprisubjarma. Þar blómgast náðargáfur og listfengi í friði og fegurð til dýrðar Guði og sköpun hans í alheimi víðum.

Honum sé dýrð um aldir og að eilífu. Amen.

Soli Deo Gloria