Traustsins verð

Traustsins verð

Okkar köllun er að vera trúföst, heiðarleg og gera okkar besta hvar svo sem við erum stödd í lífinu. Í því felst líka að vera réttlát og réttsýn, í stóru sem smáu; að safna ekki eignum á kostnað þjáningar annarra, heldur leyfa kærleika Guðs að vera í fyrsta sæti og móta allt líf okkar.

9. sunn. e. trin. Am 8.4-7, Ef 5.8b-14, Lk 16.10-13. Flutt í Egilsstaðakirkju 1. ágúst 2021.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í samanburðargír

Ein öruggasta leiðin sem ég veit um til að verða óhamingjusamur er að bera sig stöðugt saman við aðra.

Það kemur fyrir mig stundum að það koma augnablik eða dagar þar sem ég stunda slíkan samanburð á mínu lífi og samferðafólksins. Þá klikkar það ekki að maður stillir reikningsdæminu alltaf þannig upp að manni finnst maður sjálfur hafa tapað á vegferð lífsins og ganga svo vel hjá öllum öðrum. Gömul bekkjarsystkini eru þá komin í svo fín og flott störf, orðin dómarar, háskólaprófessorar og ég veit ekki hvað. Ef marka má samfélagsmiðla eiga líka mörg þeirra sem ég þekki og eru á mínum aldri ekki bara flottari ferilskrá en ég, heldur einnig: stærri hús, fínni bíla, betri sólpalla, brosmildari maka, hressari vini, hreinni tennur og jafnvel stilltari krakka heldur en ég. Flest af þessu ágæta fólki er líka duglegra að stunda útivist en ég, og auk þess fær það örugglega aldrei frunsur, öfugt við mig!

Eða hvað?

Auðvitað veit ég innst inni, þegar ég dett í þennan samanburðargír, að þetta er alls ekki rétt. Og auk þess er lífið alls ekki svona einfalt. Ytri aðstæður eða sýnileg afrek, og það sem við látum í ljós á yfirborðinu, segir oft harla lítið um bæði hvernig okkur líður eða hverju við höfum í raun og veru áorkað í lífinu.

Þegar öllu er á botninn hvolft veit ég að þetta allt með stöðu mína og markmið í tilverunni er nefnilega ekki milli mín og allra hinna, heldur milli mín og Guðs.

Aðstæður okkar eru vissulega mjög ólíkar og svo höfum við mismunandi hlutverk og köllun í lífinu. En trúin á Jesú hjálpar mér líka að muna að Guð hefur stórkostleg áform um líf okkar allra, „fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð“ eins og það er orðað í spádómsbók Jeremía (29.11).


Það sem þú getur

Í guðspjalli dagsins hvetur Jesús okkur til að vera „trú í því smæsta“ – semsagt að vera trúföst, réttlát og heiðarleg í okkar aðstæðum, hverjar svo sem þær eru, og hvernig svo sem þær eru metnar af umheiminum. Þetta á bæði við um þau verkefni sem okkur eru falin og þá fjármuni eða veraldlegu eignir sem okkur áskotnast.

Það þýðir ekki að við megum ekki láta okkur dreyma um að vera á öðrum stað í lífinu, eða að vinna að því að gera jákvæðar breytingar á lífi okkar. En við megum ekki gleyma að oft er okkur ætlað stórkostlegt hlutverk, einmitt þar sem við erum stödd, jafnvel þó að einhverjum öðrum finnist það lítils virði. Látum ekki aðra líta smáum augum á okkar hlutverk og köllun þar sem við erum á vegi komin í lífinu, hvort sem það er að stjórna banka, ala upp börn eða hreinlega vinna í okkar eigin heilsu.

Þegar ég var að íhuga þetta í vikunni kom upp í hugann eitt af gullkornunum frá honum Unnari Erlingssyni. Unnar býr hér á Egilsstöðum og hefur uppörvað fjölda manns með rafrænu hvatningarorðunum sem hann sendir frá sér undir myllumerkinu #ekkigefastupp. Í herbergi okkar hjóna má sjá í ramma þetta gullkorn frá Unnari:

Gerðu það sem þú getur, þar sem þú ert, með því sem þú hefur.

Vertu trúr – traustsins verður – í stóru sem smáu, segir Jesús:

Þjónaðu Guði í heilindum og trúfesti eftir því sem þú getur, þar sem þú ert, með því sem þú hefur.


Ráðsmaðurinn: Trúr eða ótrúr?

Sú sem er trú í því smæsta er einnig trú í miklu, segir Jesús.

Eitt af því sem þessi orð vísa til eru veraldlegar eigur, peningarnir okkar, og með hinu „smæsta“ er þá líka átt við lágar fjárhæðir. Við erum brýnd til að vera heiðarleg og réttsýn í öllu sem tengist fjármálum.

Það er svo merkilegt að áður en Jesús segir fylgjendum sínum að vera trú í því smæsta, og að þau geti ekki þjónað bæði Guði og mammón, táknmynd peninga, þá segir hann þeim eina óvenjulegustu dæmisöguna sína. Sagan fjallar um ríkan mann sem rekur ráðsmanninn sinn fyrir að fara illa með eigur hans. En áður en ráðsmaðurinn hættir hjá þeim ríka ákveður hann að nota aðstöðu sína til að reyna að bjarga sinni eigin framtíð og koma sér vel hjá fólki. Hann kallar á þau sem skulda húsbónda sínum, ríka manninum, og snarlækkar hjá þeim skuldirnar með einu pennastriki – gefur semsé upp stóran hluta af skuldum sem hann hefur alls ekki lánað sjálfur!

Við fyrstu sýn virðist þessi ráðsmaður vera skólabókardæmi um mann sem er alls ekki trúr, hvorki í því smæsta né í miklu, einhvern sem er alls ekki traustsins verður og átti bara skilið að vera rekinn!

En bíðum hæg.

Jesús endar söguna með óvæntum hætti: á því að láta húsbóndann hrósa svikula ráðsmanninum „fyrir að hafa breytt kænlega“ (v. 8).

Lesandinn klórar sér í kollinum: Af hverju ætti ríki maðurinn að hrósa ráðsmanninum fyrir að lækka það sem fólk skuldar þeim ríka?

Það eru auðvitað ótal leiðir til að túlka þessa sérkennilegu sögu og draga lærdóm af henni. En ein leiðin er sú að skoða hana í ljósi peningakerfisins í samtíma Jesú. Þar voru fátækir bændur og verkamenn háðir lánsfjármagni frá þeim ríkari í samfélaginu, háðir því að fá peninga og matvæli lánuð, oft með okurvöxtum, og voru þannig fastir í skuldavef.

Er þetta kannski kunnuglegt stef í dag, þegar fjöldi manns verður háður til dæmis smálánafyrirtækjunum eða yfirdráttarlánum bankanna til að draga fram lífið?

Ríki maðurinn í sögunni er þá fulltrúi óréttláts kerfis, þar sem sumir verða stöðugt ríkari og aðrir stöðugt fátækari. Og kannski kemur ráðsmaðurinn, sem missir starfið fyrir að sóa eigum þess ríka, okkur á óvart og er einmitt trúr í því smæsta með því að rísa upp gegn óréttlátu kerfi og setja manneskjur fram fyrir auðsöfnun!

Í beinu framhaldi af þessari frumlegu dæmisögu segir Jesús: Sá sem er trúr í því smæsta er einnig trúr í miklu! Og: Þið getið ekki þjónað tveimur herrum, bæði Guði og mammón!

Með öðrum orðum: Okkar köllun er að vera trúföst, heiðarleg og gera okkar besta hvar svo sem við erum stödd í lífinu. Í því felst líka að vera réttlát og réttsýn, í stóru sem smáu; að safna ekki eignum á kostnað þjáningar annarra, heldur leyfa kærleika Guðs að vera í fyrsta sæti og móta allt líf okkar.


Hver manneskja ljóð

Í gömlu Bræðslunni á Djúpavogi stendur nú yfir sýning á verkum Sigurðar Guðmundssonar, eins merkasta myndlistarmanns þjóðarinnar, sem lengi hefur búið í Kína. Sýningin ber yfirskriftina Alheimurinn er ljóð (The Universe is a Poem) og unnið er með það stef með ólíkum hætti á sýningunni.

Eitt verkið greip mig sérstaklega þegar ég skoðaði sýninguna. Það var myndband frá gjörningi, sem Sigurður hefur framkvæmt á nokkrum stöðum, og ber heitið Every person is a poemHver manneskja er ljóð. Hann felst í því að einum hljóðnema er stillt upp á sviði fyrir framan áhorfendur. Þátttakendur í gjörningnum koma einn í einu upp að hljóðnemanum, staldra þar við góða stund í þögn, segja svo nafnið sitt í rólegheitum og hleypa svo þeim næsta að. Þetta eru engir þekktir einstaklingar, bara ósköp venjulegt fólk sem stígur fram og segir nafnið sitt.

Þegar ég túlka þetta listaverk í ljósi kristinnar trúar les ég þessi skilaboð:

Líf hverrar og einnar manneskju er eins og ljóð – stórkostlegt ljóð, sem er ort af Guði, skaparanum okkar, og um leið af manneskjunni sjálfri í sínum frjálsa vilja.

Við skulum yrkja lífsljóðin okkar með trúmennsku og réttlæti að leiðarljósi, minnug þess að sérhver manneskja sem við mætum er líka ljóð Guðs.

Dýrð sé því Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.