Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Sviðsljós líðandi stundar er eftirsóknarvert í augum margra. Ekki þarf annað en að fletta helgarblöðum og þar getur að líta viðtöl við fólk úr öllum áttum. Allir hafa einhverja sögu að segja, sögu sem þeir vilja koma áleiðis. Oft eru það sögur sem lýsa miklu þreki, baráttu og sigrum. Stundum sögur sem segja frá sárum ósigrum. Sögur tengdar sjúkdómum og hvers kyns áföllum í lífinu. Við lesum líka sögur sem segja frá frækilegum afrekum einstaklinga eða hópa. Menn hafa klifið fjöll og firnindi, ýmist til að ögra sjálfum sér og komast að því hvað hver og einn getur lagt á líkama og sál - eða til að leita áheita til stuðnings einhverju góðu málefni eins og sá ágæti prestur sem kleif nýverið þrjátíu fjöll til að vekja athygli á söfnun Þjóðkirkjunnar til stuðnings tækjakaupum á Landspítalanum. Fjölmiðlar lyfta þessu fólk upp úr hinum nafnlausa fjölda svo við hin getum séð viðmælendurna og velt vöngum yfir sögu þeirra. Fundið samstöðu með sumum þeirra, kannski er saga einhverra þeirra ekki svo ólík okkar. Þarna er einhver sameiginleg reynsla sem leiðir okkur saman. Eða hún vekur kannski í einhverjum tilvikum upp hneykslun í huga okkar, jafnvel fordæmingu. Í öðrum tilvikum fyllumst við samúð og finnum til löngunar til að rétta fram hjálparhönd. Og í enn öðrum tilvikum fyllumst við aðdáun og undrun yfir þreki fólks og kjarki. Þannig mætti lengi telja. Sögurnar eru margar og stundum er sagt að stysta leiðin milli manna sé saga. Jóhannes guðspjallamaður er sögumaður þessa sunnudags. Hann er nafnlaus maðurinn sem endurheimti heilsu sína við laugina Betesda. Laugina sem var sannkallaður heilsubrunnur. Trú manna var sú að þá vatnið gáraðist færi engill Drottins um og sá sem fyrstur færi ofan í vatnið fengi bót allra sinna meina hvaða nafni sem þau nefndust. Engin furða þótt þarna væri fjöldi sjúkra manna, blindir og haltir, lamaðir og bæklaðir. Fólk hefur nú safnast saman af minna tilefni. Víst er að í hvert sinn er hreyfing varð á vatninu að þá hafi orðið uppi fótur og fit. Fólk hefur ætt að vatninu og með offorsi til þess að verða fyrstur – eða fyrst. Kannski er eitthvað dýrslegt við þetta eins og stundum er sagt. Maðurinn í leit að heilsu eða æti. Þá gefur hann ekkert eftir. Ryður öðrum frá sér til að bjarga sjálfum sér – hugsar ekki um aðra. Hver er sjálfum sér næstur, segir orðtakið. Í þrjátíu og átta ár hafði þessi nafnlausi maður beðið þeirrar stundu að hann yrði heill. Hann hafði séð marga fá heilsu sína á ný við laugina en það virtist aldrei koma að honum. Hann hafði engan til að bera sig í vatnið þegar það hrærðist – hann lá þarna lamaður – og horfði. Enginn hafði rétt honum hjálparhönd – og svo er að sjá sem hann hafi verið einstæðingur. En hann kom á hverjum degi og beið við laugina. Gafst ekki upp og horfði á aðra öðlast heilsu sína á nýjan leik. Við vitum ekki hvaða hugsanir hafa farið um huga hans þegar hann sá aðra verða heilbrigða. Kannski hefur hann fagnað með þeim í anda eða fyllst öfund og vorkennt sjálfum sér. Hvernig hefðum við sjálf brugðist við ? Hversu hár er mótlætisþröskuldur okkar ? Stundum er sagt að hann sé lægri hjá okkur en fyrri kynslóðum. Um það er ekkert hægt að segja nema að hann er þarna - og illt er að þola mótlæti. „Þú ert númer milljón í röðinni. Vinsamlegast bíddu.“ Síðan hljómar ljúf tónlist sem á að stytta þér stundir meðan beðið er. Stundum hefurðu biðlund – stundum ekki – og hringir seinna. En líf þessa lamaða nafnlausa manns breytist í einu vetfangi þegar röðin kom að honum með óvæntum hætti án þess þyrfti að æða ofan í laugina. Kannski segir einhver að hátt í fjörutíu ára bið hans hafi skilað árangri – við gætum lært af þessari frásögn Jóhannesar guðspjallamanns að þolinmæði skilar árangri – þolinmæði þrautir vinnur allar. Gefa vonina aldrei upp á bátinn. Meistarinn frá Nasaret verður á vegi hans. Hann stendur skyndilega þarna hjá lauginni. Horfir á allt þetta sjúka fólk sem bíður – bíður þess að engill fari um – og vatnið hreyfist. Þá hefst mikið kapphlaup um að verða fyrstur. Aðeins einn fær endurheimt heilsu sína í hvert sinn. Mörgum finnst það eflaust harður kostur. Aðeins einn í hvert skipti. Meistarinn frá Nasaret stendur þarna. Og aldrei þessu vant er ekki sagt frá því að hópur fólks safnist að honum… svo er að sjá hann standi nafnlaus hjá þessu sjúka fólki – og óþekktur – og hann virðir það fyrir sér. En þá skrifar guðspjallamaðurinn: Jesús sá hann… Sá hann. Þennan sem lá þarna og hafði beðið svo lengi. Ekki gefið upp vonina heldur hélt fast við hana. Kannski lýsti einhverri festu úr svip hans og trú að einhvern daginn myndi hann ná til vatnsins í þessari mögnuðu laug miskunnarinnar. Myndi verða fyrstur í kapphlaupinu og hamaganginum. Kannski. Eða hafði hann gefið upp vonina? Sætt sig við hlutskipti sitt sem virtist vera það eitt að horfa á aðra endurheimta heilsu sína? Hann bara var þarna – gat eins vel legið þarna í kröm sinni eins og annars staðar. En: Jesús sá hann. Það er merkilegur samfundur sem guðspjallið greinir frá. Jesús spyr lamaða manninn: „Viltu verða heill?“ Þetta eru orð vonarinnar. Sjúka manninum dettur ekki í hug að Jesús geti læknað sig – þekkti enda ekki manninn. Hrópar ekki upp: „Já, auðvitað! Hvað annað!“ Nei, hann útskýrir fyrir Jesú – kannski rólega og yfirvegað – eða daufum rómi og vonlausum – jafnvel afsakandi, hvers konar aumingi var hann eiginlega að hafa ekki komið sér í vatnið við fyrstu hreyfingu þess eftir nær því fjörutíu ára hangs þarna – já, hann hafði svo sannarlega oftsinnis útskýrt þetta fyrir hinum og þessum hvers vegna hann væri ekki orðinn heill. Útskýring hans er einföld. Nístandi einföld. Hann hefur engan til að hjálpa sér. Ekki svo afleit fyrirsögn á forsíðu einhvers helgarblaðsins …. Eða hvað? Hann er einn. Hann missir alltaf af tækifærinu – horfir á eftir öðrum ofan í vatnið. Horfir á aðra verða heilbrigða. Ekki hann. Hann hefur engan sér til aðstoðar og engum hefur flogið í hug að rétta honum hjálparhönd. Hér var hver sjálfum sér næstur. Og hvað segir meistarinn frá Nasaret? Hver voru viðbrögð hans? Ekki er skotið á fundi í teymi né nefnd. Matshópur ekki kallaður saman. Enginn biðlisti. Nei. Hann segir: Statt upp. Gakk. Þrjátíu og átta ára bið var lokið. Maðurinn stóð samstundis upp, tók rekkju sína eða rúmbæli og gekk á brott. Heill heilsu því Jesús sá hann. Læknaði hann. Reisti hann við til lífsins. Gaf honum nýtt líf. Nýtt líf sem gæti svo sannarlega verið forsíðufrásögn í nútímanum – eða Kastljósviðtal – Ísland í dag. Okkur er sagt frá því að menn hafi síðan farið að abbast upp á manninn fyrir það að bera rekkju sína á hvíldardegi. Það var orðið að kjarna málsins en sjálft undrið, kraftaverkið, endurheimt heilsunnar, aukaatriði. Já, hvers konar hegðun var þetta eiginlega á hvíldardeginum! Rogast um með slitið og snjáð rúmbæli sitt á meðal manna. Var hann ekki í lagi, maðurinn? Hann fékk hörð orð í eyra. Hvöss augu siðprúðra manna stungu hann í hjartastað – hverjir voru þetta eiginlega sem voru að snupra hann en sáu ekki að hann var orðinn heill maður? Hvort skyldi nú vera mikilvægara? Sennilega hefði hann fengið hrinu athugasemda yfir sig í athugasemdakerfum netmiðla og sumar auðvitað verið vinsamlegar en aðrar rætnar. Sá sem lækningu hafði fengið segir í afsakandi tóni að sá sem hafi læknað hann hafi sagt honum að taka rekkjuna og ganga. Þessu hlýddi hann umyrðalaust. Hann vissi ekkert hvaða maður þetta var sem gaf honum nýja lífið enda var mikil mannþröng á staðnum og sá horfið í fjöldann. Ekki er fráleitt að blessaður maðurinn hafi ráfað þarna um furðu lostinn vegna endurheimtrar heilsu með rekkju sína eða rúmbæli í fanginu. Glaður yfir heilbrigði sínu og vissi kannski ekki sitt rjúkandi ráð – kominn aftur út í samfélag heilbrigðra manna sem hann hafði verið fjarri í tæp fjörutíu ár. Samfélag sem hann þekkti ekki og var ókunnur. Hver var hann? Hvert átti hann að fara? Það var stórkostlegt að vera orðinn heilbrigður og myndi taka tíma að venjast því. En þessi nafnlausi maður og Jesús hittast aftur. Í helgidóminum. Þeir taka tal saman. Að því loknu heldur maðurinn á fund Gyðinganna og segir þeim hver það var sem gaf honum nýtt líf, læknaði hann. Jesús sá hann. Þessi maður stendur fyrir allt það nafnlausa fólk sem bíður hjálpar. Stendur fyrir öll þau sem Jesús sér. Bíður þess að ég og þú réttum fram hjálparhönd. Sjáum þau. Bíður þess að samfélagið taki sig á í málefnum þeirra sem minna mega sín. Sjái þau. Hver eru þau í íslensku samfélagi sem við þurfum að sjá? Eru þau ekki víðar en á forsíðum dagblaða, viðtalsþáttum og nærmyndum og úttektum? Og hvernig sjáum við þau? Með skörpum augum og hjálpfúsum? Sljóum og sofandi? Næmum augum hins upplýsta manns sem vegur allt og metur með gerhygli og aðstoð Excel-skjala? Augu kristins manns. Með augum meistarans frá Nasaret. Það er ekki lítið. Kannski reynist það okkur á stundum ofraun; við finnum til veikleika okkar – hvað gerum við þá? Eða við finnum til styrkleika okkar, þreks sem okkur er gefið til að horfast í augu við það sem væri hverjum manni annars um megn. Augu kristins manns og augu meistarans frá Nasaret horfa í eina átt: til þess sem er hjálpar þurfi.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.