Þegar líður að Hvítasunnu finnum við í verslunum og á vegunum að eitthvað sérstakt liggur í loftinu: Það stendur mikið til hjá mörgum. Það er kominn mikill vorhugur í þjóðina á þessum tíma, þjóðina sem elskar sumarið meira en flestar þjóðir, líklega vegna þess hvað sumarið er stutt. Ef við spyrjum einhvern hvað hann ætli að gera um Hvítasunnuna er eins víst að hann segi hvert hann sé að fara þessa löngu helgi. Við verðum þess óneitanlega vör, að Hvítasunnan á í vök að verjast sem kirkjuleg stórhátíð.
Sannarlega er Hvítasunnan þó mikilvæg hátíð í kirkjunnni. Hún er gjarnan nefnd stofndagur Kristinnar kirkju. Messutextar páskatímans fela í sér nokkra upprifjun á orðum Jesú. Þar kemur skilnaðarræðan við sögu og það sem hann sagði rétt fyrir krossfestinguna. Þannig hefur það líka verið eftir hina fyrstu páska, að hinn litli hnípni hópur fylgjenda hans hefur rifjað upp það sem hann hafði sagt og velt fyrir sér gidli fyrirheitanna sem hann gaf. En þegar upp var runninn hvítasunnudagurinn gerðist nokkuð alveg nýtt. Þegar þeir fylltust heilögum anda var nýtt fyrir stafni. Þeir mæltu á framandi tungum eftir því sem andinn gaf þeim að mæla og tal þeirra var auðvitað boðun sannleikans um hinn upprisna Drottinn. Þarna var ekki lengur um að ræða lítinn hnípinn hóp heldur flokk sem átti brýnt erindi við alla heimsbyggðina.
Viðbrögð þeirra sem urðu vitni að þessu undri eru athyglisverð. “ Þeir voru allir furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: “Hvað getur þetta verið?” En aðrir höfðu að spotti sögðu: Þeir eru drukknir af sætu víni”. Skyldi þetta nú hafa breyst svo mikið? Þegar ég fer í kirkju á hvítasunnudag er ég alveg viss um að það eru margir utan kirkjunnar sem skilja ekkert í mér að vera að þessu og hafa það jafnvel að spotti. En ég veit líka að þeir eru til sem alvarlega hugsa út í þetta og undrast að enn skuli menn koma saman þennan dag til að lofa Guð í helgidómi hans og spyrja: “Hvað getur þetta verið?” Já hvað getur það verið að kirkjan, sem við segjum að stofnuð hafi verið hinn fyrsta hvítasunnudag, skuli enn lifa? Hvað getur það verið annað en það að enn starfar andi Guðs á meðal okkar, fyllir þá sem trúa heilögum anda og gefur þeim þrótt til að boða trúna af djörfung og fagnandi?
Þeir töluðu á framandi tungum. Enn er fagnaðarerindið boðað á tungum sem okkur eru framandi eins og það er boðað á íslensku, tungu sem ekki var til í sinni núverandi mynd hinn fyrsta hvítasunnudag. Þetta segir okkur að þarna er um að ræða eilíf sannindi, sem ekki mást eða falla úr gildi þó að tungurnar breytist og deyi út. Við sem fáum að meðtaka þessi sannindi erum í viðtöku þeirra orðin hluti af alþjóðlegu og eilífu samfélagi sem varðar alla veröldina, heimsrásina alla og boðar heiminum vilja hans sem er upphaf allra hluta, hans sem gefur líf og eilífa framtíð og lífi hvers og eins heilagan tilgang.
Við ættum því sannarlega að staldra við á Hvítasunnuhátíðinni til að meðtaka boðskap hennar. Sá boðskapur fjallar um að hvernig sem á stendur fyrir okkur hverju og einu er það vilji og ætlun Drottins að gefa okkur anda sinn svo að enn höfum við eitthvað alveg nýtt fyrir stafni. Ekki bara eitthvað, heldur það sem öllu máli skiptir og varðar alla okkar framtíð og felst í því að við megum sannarlega kalla okkur Guðs börn og vænta þess að í öllu muni andi hans verða okkur til leiðsagnar og gefa okkur þróttinn sem þarf til þess að sigrast á öllu sem gegn okkur rís. Fyrir vitneskjuna um þetta munum við njóta vordaganna enn betur því að í ljósi þeirrar vitneskju verður allt nýtt.