En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lúk 2.1-14
Gleðileg jól.
Það er byrjað besta og fegursta kvöldið á árinu. Söguþjóðin norður í höfum hefur heyrt söguna um fæðingu frelsarans. Hversu oft höfum við heyrt hana? Hversu mörg jól höfum við átt? Og alltaf er jólaguðspjallið jafn sjálfsagt og kærkomið eins og jólin sjálf. Ljósið vitjar mannanna í raun og veru. Heimurinn breytist, batnar meira en við nokkurn annan atburð eða dagamun. Lestur helgra texta, sálmasöngur, allt sem heyrir til komu jólanna er á sínum stað - og stund. Gleði barnanna, þys eftirvæntingarinnar, innileiki fullorðinna, - hamingjan í hjartanu. Þetta er allt svo ósegjanlega gott og fallegt. Varla er hægt að ímynda sér hvernig líf okkar væri ef ekki væru jól? Ekkert sérstakt um að vera í desember. Við alla þessa umbreytingu verður manni á að hugsa um það hvort nokkuð sé sannara en jólin?
Hvað er nær hjarta þínu en kærleikurinn sem þau boða?
Hvaða stundir lifirðu betri en jólahátíðina?
Hvað viltu að gerist frekar í lífi þínu en að tilfinning jólanna vari?
Ekkert vissi Lúkas guðspjallamaður betra. Læknirinn sem gerðist kristinnar trúar. Hann skrifaði guðspjallið til þess að við ættum auðveldara með að trúa. Hann var ekki sjónarvottur. Fæstum dettur það í hug. Og fæstum finnst það skipta máli. Ekki kom hann að luktum dyrum gistihúsanna í Betlehem. Hann sat ekki sjálfur hjá hjarðmönnum á Betlehemsvöllum, þekkti ekki vitringana. Lúkas ritaði alllöngu síðar og er ekki öruggur á ártölum. Það er öllum ljóst sem rannsaka ritningarnar. Hann segir myndræna, lifandi sögu um fæðingu Jesú. Hann ritar til þess að setja umgjörð um það sem hefur haft meiri áhrif á heiminn en nokkuð eða nokkur annar. Kristur og trúin á hann var að breyta heiminum innan frá: Guðsríkið er innra með yður, það er komið og það er líka framundan. Þess vegna eigum við þennan helga texta. Læknirinn Lúkas vildi hjálpa Drottni sínum að lækna heiminn. Jólin styrkja þá trú og vilja þótt vissulega mætum við jólum við ólíkar aðstæður, jarðarbúar. Ólíkar aðstæður þótt við lítum eingöngu til okkar Íslendinga.
Ekki sjá allir ljósið í myrkrinu - finnst jólin ekki gagntaka sig. Sumir geta ekki hrifist með, lifna ekki til vitundar um að jólin séu annað en umbúðir. Og ekki séu þetta nú sennilegar sögur að Guð gerist maður. Að skapari heimsins sé hér allt í einu sem lítið barn. Það er alveg rétt, þetta er ofar skilningi okkar. Þú, sem efast, ert aldeilis ekki einn. Þú átt skilningsleysið sammerkt með englum og helgum mönnum - og okkur hinum líka. Við erum í sporum fjárhirðanna sem gleðjast en meðtaka boðskapinn og fagna með einlægu og trúu hjarta. Og kannski eru jólin þetta fyrst og fremst: Sannfæring fyrir því að hið góða sigri. Að það eigi ítök í okkur - og geti leyst úr læðingi og virkjað miklu meiri krafta í mannheimi en ennþá er raunin.
Og svo eru þeir sem hafa misst sér nákominn á árinu eða fyrr og jólin minna svo sterkt á. Það gerðist eitt sinn að maður einn missti konu sína rétt fyrir jólin. Vinur hans sagði: Þetta verða nú dapurleg jól hjá þér. “Já”, svaraði hinn sorgbitni maður, “en mér hefur samt aldrei fundist ég þurfa eins mikið á þeim að halda og núna.“ ”Í dag er glatt í döprum hjörtum - því Drottins ljóma jól.” Það gerist í raun og veru. Þetta þekkja þau sem fóru í kirkjugarðinn í heimabyggð sinni í dag eða gær eða á liðnum vikum. Minningarnar um þá sem hafa kallast frá okkur eru svo sterkar núna. Allt minnir á - og þær minningar verða helgar og dýrmætar.
Og svo er það fólkið okkar sem er fjarri heimaslóðum, erlendis. Góður drengur íslenskur sendi mér bréf frá Afríku og segir: Gildismat okkar hjónanna er breytt við það kynnast svona ólíkum aðstæðum. Við sækjumst nú eftir lífshamingju en ekki dauðum hlutum.
Aðrir eru fjarri ástvinum sínum vegna starfa sem nauðsyn ber til að sinna á sjó eða landi - veikindi eða óviðráðanlegar ástæður, sem hafa breytt fyrirætlunum um þessi jól. Aðstæður eru margbreytilegar en öll erum við eitt í kvöld - og skulum gjarnan finna til þeirrar samkenndar alltaf.
Kærleikurinn ríkir á heimilunum. Þar eru pakkar við tré. Mikið er búið að velta vöngum, hvað á ég að gefa? Með hverju get ég glatt þá sem mér þykir vænst um - þau sem gleðja mig með tilveru sinni og nærveru?
Heimilið er skreytt, mikið eða lítið. Hátíðleikinn og helgin fer ekkert endilega eftir því. Ekki verðgildi gjafanna, heldur gildi þeirra - og alls þessa sem við gerðum til að undirbúa jólin með. Hvarvetna eru tákn, - allt er fullt af táknum í jólahaldinu okkar.
Umbúðirnar verða líka hluti af innihaldinu, þær tjá hug þinn og vilja til að gleðja. Þannig er það með jólakortin sem við sendum og jólakveðjurnar, sem hljómuðu í útvarpinu í gær. Allt hefur þetta áhrif á okkur. Vani og venjur vissulega. En ég held að þær séu ekki tómur vani eða tómar venjur. Þær hafa áhrif á líf okkar, hugsun og líðan. Umbúðirnar verða þannig eins og partur af innihaldinu.
Við setjum margt í umbúðir í lífinu. Reynum að tala fallegt mál, viljum vera kurteis og háttprúð, og ekki særa nokkurn mann. Fátt er verra en vita sig hafa sært annað fólk í hugsunarleysi. Sannari erum við og heilli þegar við gefum gjafir - og leitumst við að breiða út meðal mannanna þær dyggðir sem við þekkjum bestar og fegurstar. Tækifærið til þess er núna. Hvort samfélagið, hvort líf okkar, er meira umbúðir eða innihald veltur á okkur sjálfum.
Ég rakst á heilræði um þetta á dögunum, það var í lítilli bók sem góður kunningi minn tók saman fyrir jólin og gaf mér. Bókarkornið er um lífið og tilveruna og hún endar á hugleiðingu um það hvernig við höndlum hamingjuna. Ég ætla að deila með ykkur að lokum þessum ráðleggingum:
“Hættu að bíða eftir því að þú ljúkir námi, farir aftur í nám, að þú léttist um 10 kíló eða þyngist um annað eins, að þú gangir í hjónaband, að þú fáir skilnað, nýjan bíl eða nýja íbúð, að þú eignist börn, að börnin fari að heiman, að þú byrjir að vinna, að þú hættir að vinna. Hættu að bíða eftir föstudagskvöldinu, að fjárhagurinn komist í lag, að útborgunardagur launa renni upp, að vorið gangi í garð, að sumarið banki upp á, að snjórinn byrji að falla. Hættu að bíða eftir því að þú sláir í gegn. Minnstu þess að núna er stundin til að vera hamingjusamur, hættu að drepa tímann því tíminn er þitt eigið líf. Lifðu lífinu. Njóttu augnabliksins. Þú átt bara þetta eina líf.”
Þannig endar þessi tilvitnun. Þetta líf verður alltaf fullt af óleystum gátum og einnig verkum sem þarf að vinna. Ekkert tímabil ævinnar er gallalaust, ekkert fullkomið eða fyrirhafnarlaust. Það er draumsýn um hamingju, einhvers konar algleymi. Hamingjuleitin má ekki snúast upp í bið eftir að slíkt tímabil renni upp. Ekki bíða með að njóta þess lífs sem Guð hefur gefið þér. Láttu það gerast í kvöld með því að sættast við þig og alla aðra. Láttu það gerast núna vegna þess að dýrð Drottins ljómar í kringum þig. Gleðileg jól í Jesú nafni. Amen. Hjálmar Jónsson er prestur í Dómkirkjunni. Flutt við aftansöng jóla, á aðfangadegi, 24. desember 2003.