Biblíuleg íhugun með bæn Jaebesar

Biblíuleg íhugun með bæn Jaebesar

Nú biðjum við bæn Jaebesar lið fyrir lið, fyrst fyrir okkur sjálfum, þá fyrir þeim sem eru okkur kær eða þarfnast fyrirbænar og loks fyrir öllum heiminum. Við tví- eða þrítökum hvern bænarlið og gefum okkur tóm til þagnar á milli bæna.
Mynd

Kyrrðarstund í Grensáskirkju 16.6.20: Bæn Jaebesar



Bæn Jaebesar er að finna í fyrri Kroníkubók 4.9-10:

Og Jaebes var í mestum metum af bræðrum sínum. Móðir hans nefndi hann Jaebes því að hún sagði: „Ég ól hann með kvölum.“ En Jaebes hrópaði til Guðs Ísraels og sagði: „Blessaðu mig. Auktu við land mitt. Hönd þín sé með mér og bægðu frá mér böli svo að ég þurfi ekki að líða kvalir.“ Guð veitti honum það sem hann bað um.

Nú biðjum við bæn Jaebesar lið fyrir lið, fyrst fyrir okkur sjálfum, þá fyrir þeim sem eru okkur kær eða þarfnast fyrirbænar og loks fyrir öllum heiminum. Við tví- eða þrítökum hvern bænarlið og gefum okkur tóm til þagnar á milli bæna.


Blessaðu mig:

Blessaðu mig, Guð, með allri andlegri blessun himinsins
Blessaðu þau sem eru mér kær, blessaðu þau í bak og fyrir
Blessaðu allt sem lifir, þú sem elskar allt sem er til


Auktu við land mitt:

Auktu við land mitt, gefðu mér ný tækifæri til að vitna um þig, jafnvel í þrengingum
Auktu við land þeirra sem eru mér kær, að meðal þeirra muni náð þín dvelja, svo að þau eflist á öllum sviðum
Auktu við land okkar allra, að heimurinn og allt sem í honum er mætti í einlægni og réttvísi njóta blessunar þinnar því þinn er himininn og þín er jörðin


Hönd þín sé með mér: 

Hönd þín sé með mér, þú sem heldur í hægri hönd mína og segir við mig: „Óttast eigi, ég bjarga þér.“
Gæskurík hönd þín sé með ástvinum mínum, þú kallar þau og heldur í hönd þeirra
Hönd þín sé með okkur öllum að við mættum varpa allri áhyggju okkar á þig, Guð, því að Guð ber umhyggju fyrir okkur 


Bægðu frá mér böli svo að ég þurfi ekki að líða kvalir: 


Bægðu frá mér böli svo að ég þurfi ekki að líða kvalir, vernda mig sem leita þín
Bægðu böli frá þeim sem mér eru kær svo að þau þurfi ekki að líða kvalir, hönd þín hvíli yfir þeim og verndi þau á leið þeirra
Bægðu böli frá öllu sem lifir, Guð, bægðu böli frá með trúfesti þinni sem styrkir og verndar gegn öllu illu

 

·


Saman biðjum við bæn Jesú:

Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð veiti okkur það sem við biðjum um.


[1] Ef 1.3: Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem í Kristi hefur blessað oss með allri andlegri blessun himinsins.

[2] Sbr. Sálm 139.5: Þú umlykur mig á bak og brjóst og hönd þína hefur þú lagt á mig.


[3] Ssal 11.24-26: Þú elskar allt, sem er til, og hefur ekki ímugust á neinu, sem þú hefur gert, né skapaðir þú neitt er þú gætir haft óbeit á. Hvernig fengi nokkuð staðist gegn vilja þínum eða varðveist ef þú hefðir ekki gefið því líf? Þú hlífir öllu af því að það er þitt, ó, Drottinn, sem elskar allt sem lifir, því að óforgengilegur andi þinn er í öllu.


[4] Lúk 21.12-19: En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns. Þetta veitir yður tækifæri til að bera mér vitni. En festið það vel í huga að vera ekki fyrir fram að hugsa um hvernig þér eigið að verjast því ég mun gefa yður orð og visku sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið. [...] Verið þrautseigir, með því munuð þér ávinna lífið.

[5] Sír 26.21: Þá munu niðjar þínir lifa og þeim vel farnast og þeir eflast sakir trausts á góðum uppruna sínum. Sír 44.11: Meðal niðja þeirra mun náðin dvelja, afkomendur þeirra njóta góðs arfs.

[6] Jer 4.1-3: Ef þú snýrð aftur, Ísrael, segir Drottinn, skaltu snúa aftur til mín. [...] ef þú sverð í einlægni, rétt og réttvíslega: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir“ munu þjóðirnar njóta blessunar hans og hrósa sér af honum. Því að svo segir Drottinn við Júdamenn og Jerúsalembúa: Brjótið nýtt land, sáið ekki meðal þyrna. Sálm 89.12: Þinn er himinninn, þín er jörðin, þú grundvallaðir heiminn og allt sem í honum er.

[7] Jes 41.13: Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: „Óttast eigi, ég bjarga þér.“

[8] Esra 8.18: Þar sem gæskurík hönd Guðs var yfir okkur sendu þeir okkur vitran mann. Jes 42.6: Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti og held í hönd þína.

[9] 1Pét 5.6-7: Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.

[10] Esra 8.22: Hönd Guðs okkar er yfir öllum sem leita hans og hann verndar þá.

[11] Esra 8.31: Hönd Guðs okkar hvíldi yfir okkur og verndaði okkur á leiðinni.

[12] 2Þess 3.3: En trúr er Drottinn og hann mun styrkja ykkur og vernda fyrir hinum vonda.