Týndur - fundinn

Týndur - fundinn

Í nágrenni þínu er pirrað tölvuleikjafólk. ...þrautalendingin er að kippa tölvunni úr sambandi. Þá verða uppþotin... ...Er krakkinn orðinn vitlaus? Er hér kannski komin nútímaútgáfa af sögu Jesú? Týndi sonurinn í tölvuheimum, týnda dóttirin á nethögum?

Hvenær er maður týndur og hvenær ekki? Kajakræðararnir erlendu, sem réru yfir Faxaflóa og Breiðafjörð fyrir hálfum mánuði, töldu sig vísa og í góðum málum þótt allir aðrir teldu þá týnda. Umfangsmikil leit var gerð, hundruð leitarmanna skimuðu, flugvélar voru á ferð og bátar líka. Hvenær uppgötvar maður villurnar? Paris Hilton í fangelsi er vissulega dálítið “lost” - ekki satt? En hvað um okkur – hvað um þig? Ertu nokkuð að týnast, tapa sambandi? Og hvað merkir það? Á bjartasta tíma ársins er gott að skoða myrkustu skotin, baða sig í ljósinu til að sjá sannleikann.

Fíkn og leikir

Á öllum sviðum og í öllu mannlegu samhengi getur fólk týnst í einum eða öðrum skilningi. Menn hverfa ekki aðeins í hitabeltisskógum, á öræfum heldur verða útilegumenn jafnvel á heimilum sínum. Á högum og melum veraldarvefsins týna margir sjálfum sér!

Þessa Jónsmessuhelgi halda stærstu læknasamtök Bandaríkjanna, AMA, ársfund. Stjórn þeirra leggur til að fíkn í tölvuleiki verði skilgreind sem geðröskun. Ýmsir í heilbrigðisgeiranum halda fram, að í sumum tilvikum geti tölvuleikjafíkn unglinga verið jafn sterk og heróínfíkn. Sjaldnast er tölvunotkun fólks misnotkun. Fíknin varðar fyrst og fremst tölvuleikina. Í skýrslu stjórnar bandarísku læknasamtakanna segir að allt að 90% bandarískra unglinga spili tölvuleiki, og kunni 15% þeirra að vera háð leikjunum, eða rúmlega fimm milljónir unglinga. Vandinn er samur á Íslandi. Í nýlegri rannsókn sálfræðinema við HÍ kom í ljós að um 14% íslenskra framhaldskólanema á Íslandi spila tölvuleiki í allt að átta klukkutíma á dag og flest eru það drengir, eða níutíu prósent.

Tugþúsundir Íslendinga spila og það er víst, að nærri þér, í næsta nágrenni, í húsinu þínu eða á heimili þínu er svefnlítið, pirrað, öfugsnúið fólk - eins og umskiptingar. Aðstandendur og heimilismenn vita ekki hvernig eigi að bregðast við þeim. Svo er þrautalendingin að segja upp netáskriftinni eða bara kippa tölvunni úr sambandi. Þá verða uppþotin, sem við höfum heyrt af og fjölmiðlar greina frá, æðisköst fólks á heimilum, lögregluútköll og meðfylgjandi skelfing allra heimilismanna hið innra. Er krakkinn orðinn vitlaus? Er hér kannski komin nútímaútgáfa af sögu Jesú um týnda soninn? Týndi sonurinn í tölvuheimum, týnda dóttirin á nethögum?

Týndur

Hvernig var nú þessi saga? Jú, Jesús sagði nokkrar sögur um það að týna og finna og í Lúkasarguðspjalli er röð slíkra. Sagan um ungan mann í útrás og viðbrögð fjölskyldunnar er ein þeirra. Maðurinn var týndur af því að hann vélaði út arf sinn fyrirfram, fór með auðinn, lifði hátt meðan fé entist, en klúðraði svo fjármálum sínum. Hann eignaðist að sjálfsögðu viðhlægjendur. Gleðipinnar allra alda eru þefvísir á lausbeislað fé. En svo var víman úti og hryllilegur raunveruleikinn blasti við ungum manni, sem hafði átt allt en líka misst allt, vini og von. Þegar hann hafði aðeins svínafæði til átu gat hann ekki annað en horfst í augu við stöðu sína. Hann hafði náð botni. Í þeim aðstæðum eru bara tvær leiðir, dauði eða líf, upp eða niður. Á botni er dauðaval vont en lífsvalið líka erfitt. Menn verða að viðurkenna bresti og brot, biðjast fyrirgefningar og leita sáttar. Það gerði sonurinn, viðurkenndi að hann hafði verið týndur, en vildi finna sjálfan sig, finna fólkið sitt að nýju, finna hamingju. Hann var dottinn af stallinum, gerði sér grein fyrir að hann var ekki veraldarmiðja, heldur maður í samfélagi. Þá var hann á leið heim í öllum skilningi.

Þrír karlar

Þrír karlar eru aðalpersónur Jesúsögunnar. Týnda syninum var fagnað með grillveislu og dansi, sem hefði sómt Jónsmessu. Eldri bróðirinn var til fyrirmyndar og hafði aldrei verið til vandræða. Hann bara puðaði heima og kom svo einn daginn úr vinnunni og horfði forviða á rjóðar, dansandi konur, syngjandi sveina og svo var hann þarna viðbjóðslegur bróðir, sem hafði komið í tötrum en var hafði verið færður í glansandi skartklæði og var með hring á hendi. Þegar þessi flækingshundur kom var allt falt og til reiðu. Var nema von að eldri bróðirinn snöggreiddist og neitaði að taka þátt í veislu á fáránlegum forsendum?

Því lengur, sem ég íhuga þessa sögu, vex samúðin með eldri bróðurnum. Ábendingar hans eru réttar. Að halda veislu fyrir ruglukollinn er ekkert annað en að viðhalda meðvirkni. Þeir bræður eiga sér systur og frændgarð í öllum fjölskyldusögum heimsins. Í hverri einustu fjölskyldu eru til þau sem sóa og sukka, fara forgörðum af einhverjum ástæðum. Svo eru hin, sem eru ábyrg og hafa lög að mæla, en eru kannski kalin á hjarta, kramin og heft í afstöðu til síns fólks. Eldri sonurinn var ekki týndur í útlöndum heldur týndur heima. Hann var dugnaðarmaður en skemmdur hið innra. Hann var sjálfmiðaður í gæðasókn sinni og fjárplóg og hafði tapað tengslum við föður sinn.

Þegar grannt er skoðað sést, að fjölskylda karlanna er ólánsfjölskylda. Fólkið er týnt hverju öðru og úr verður misskilningur. Í slíkum aðstæðum týnast ekki bara þeir sem leggjast í flakk, útilegumennirnir í útlöndum. Allir ruglast – allir ófrjálsir – allir týndir – eða hvað?

Meginstefið

Til hvers sagði Jesús þessa sögu? Var það til að benda á að brotnar fjölskyldur ættu að halda partí hvenær sem fíkillinn kæmi úr meðferð - hvenær sem einhver flakkarinn kæmi heim frá útlöndum? Nei. Reyndar var Jesús veislusækinn og beitti sér í gleðiþágu, en þó er saga hans engin stuðauglýsing. Pabbinn í sögunni er óvenjulegur faðir og ekki sjálfgefið að beita uppeldisaðferðum hans, rökum og viðbrögðum í okkar aðstæðum. Hver er aðalpersóna sögunnar? Er það sukkarinn eða kannski heimalningurinn, bróðir hans? Eða getur verið að hvorugur sé lykilpersónan?

Hinar yfirdrifnu sögur Jesú

Líkingasögur Jesú eru merkilegar og ljóst, að hann var slyngur sögumaður, meðvitaður um uppbyggingu, flækju og merkingarburð sögu. Sögur hans eru gjarnan með andstæðupari og í þessari sögu eru bræðurnir andstæðingar. En svo sprengir Jesús venjulegar aðstæður og almenna úrvinnslu í mannheimum með óvæntum úrslitum. Sögur hans enda oftast með ótrúlegu móti, með yfirdrifnum viðbrögðum og óvæntum niðurstöðum. Af hverju? Jú, Jesús sagði ekki sögur til að sannfæra aðra um eigin snilld, heldur reyndi ávallt og líka með sögum sínum að efla tilheyrendur sína til rænu og vits – fá fólk til að staldra við og hugsa hvort lífshættir væru réttir og lífsstefna í samræmi við Guðsríkið og gleði þess. Faðirinn, viðbrögð hans og örlæti eru úr takti við dómgreind okkar flestra, á skjön við það, sem við myndum gera, eru þvert á reglur hins gyðinglega samfélags, og andstæð því sem fólk í öllum heimshornum myndi gera í hliðstæðum aðstæðum þegar barnið kemur loks heim. Jú, flest viljum við taka á móti iðrandi börnunum okkar en varla með svona yfirdrifnu móti. Það væri að umbuna því fyrir vitleysuna – og varla eru það góðir uppeldishættir.

Ekki er Jesús að kenna okkur að bregðast við lífinu með oflæti. Nei, miðjan í sögunni er vissulega faðirinn, viðbrögð hans og verk. En föðurmyndin sprengir þó allt faðerni og móðerni þessar veraldar. Það er ekki faðir af þessum heimi, sem sprettur fram í sögunni, heldur hinn himneski Faðir. Sá faðir breytir og er öðru vísi en við karlar í veröldinni sem eigum börn, eða mömmur sem elska. Afstaða föðurins einkennist af yfirfljótandi ást, sem umvefur alla.

Iðrun og sátt

Þessa snilldarlegu líkingasögu segir Jesús til að vekja okkur til íhugunar um guðsmynd okkar. Munum, að guðsmynd okkar skilgreinir hver við erum og veruleika okkar. Guðsmynd er alltaf tengd mannskilningi og þar með sjálfsskilningi og sjálfsmynd. Guðsmynd okkar skilgreinir líf okkar og líshætti.

Tveir synir. Var annar týndur en hinn bara vís heima? Er víst að tilveran sé svo skýr og klár. Hvenær er maður týndur? Ertu nokkuð á skjön við lífið? Ertu á réttri leið, aflar puðið þér varanlega hamingju, leiðir atið til góðs eða hefur komið í ljós, að það sem þú helst að væri hamingjuleið var bara blekking? Hvernig líður þér og hvernig farnast fólkinu þínu? Getur verið að einhver sé inn í herbergi að týnast fjölskyldu sinni, sjálfum sér, sé orðinn útilegumaður þrátt fyrir innisetur? Eru kannski allir týndir á þínu heimili?

Hver er týndur?

Týndi sonurinn – hver er hann? Jú það eru þau, sem hafa tapað sér. En það eru líka við hin, sem þykjumst vera vís, en höfum tapað tengingum. Jesús segir okkur sögu um okkur og horfir með okkur í djúp okkar og bendir á að við erum öll eins, við erum öll týnd í einum eða öðrum skilningi. Vinna, eignir og athæfi greina okkur bara að í hinu ytra. Hið innra eru við að leita, reynum að tengja og gleðjast.

Hvað skiptir mestu máli í þessu lífi? Þegar þú ert búinn að tæma alla gleðibikara lífsins getur þú komið til sjálfs þín og séð að allt voru þetta mistök og misskilningur. Þá er gott að vita að Guð er faðir sem sér þig á vegi þínum til lífs og tekur á móti þér. Ekki af því að þú ert búinn að vinna þér inn höfuðstól, heldur af því að Guð elskar þrátt fyrir vitleysur þínar. Og þú sem alltaf hefur verið heima og sinnt þínum skyldum, en hefur samt tapað fjölskyldutengslum, sjálfstengslum, býrð í brotinni veröld, þú mátt líka vita að faðirinn opnar fyrir þér, gefur þér, elskar þig, ekki vegna þess hver þú ert, hvað þú átt eða hefur gert, heldur af því að þannig er líf þessa heims, þannig er gerð veraldar. Þannig er Guð.

Á Högum og Melum veraldarvefsins, í vinnu og á heimilum er fólk sem þráir að lifa vel. Hin mannlega veisla getur endað skelfilega en hin himneska veisla er í boði. Hún er vissulega sérstæð því hún tengir saman tíma og eilífð, bræður, feður og dætur, mæður og syni, læknar brotnar fjölskyldur og tengir líka saman þjóðir og trúarbrögð, af því Guð er ekki lítill, smár, reiður, refsandi dómari heldur elskulind, sem veitir næringu og lífi yfir allt og alla. Meðan við sjáum það ekki, upplifum það ekki og gleðjumst yfir að við fáum að njóta þess að vera synir og dætur elskuríkisins erum við bara eins og Paris Hilton, rík en lánlaus, týnd og aðeins á leiðinni og allt á niðurleið. En þegar við erum búin að týna öllu megum við halda heim – okkar býður nýtt upphaf. Það er einkenni elskunets Guðs að við þér er tekið. Guð sér þig, finnur þig þegar þú heldur heim til sjálfs þín.

Amen

Prédikun flutt í Neskirkju 24. júní 2007. 3. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Lexían; Jes. 64. 3-8

Frá alda öðli hefir enginn haft spurn af eða heyrt, né auga séð nokkurn Guð nema þig, þann er gjörir slíkt fyrir þá, er á hann vona. Þú kemur í móti þeim er gjöra með gleði það, sem rétt er, þeim er minnast þín á vegum þínum. Sjá, þú reiddist, og vér urðum brotlegir, yfir tryggðrofi voru, og vér urðum sakfallnir. Vér urðum allir sem óhreinn maður, allar dyggðir vorar sem saurgað klæði. Vér visnuðum allir sem laufblað, og misgjörðir vorar feyktu oss burt eins og vindur. Enginn ákallar nafn þitt, enginn herðir sig upp til þess að halda fast við þig, því að þú hefir byrgt auglit þitt fyrir oss og gefið oss á vald misgjörðum vorum. En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir! Reiðst eigi, Drottinn, svo stórlega, og minnstu eigi misgjörða vorra eilíflega. Æ, lít þú á: Vér erum allir þitt fólk.

Pistillinn: 1Tím 1.12-17

Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði. Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.

Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur. En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.

Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjallið: Lúk. 15. 11-32

Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.

Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Hann sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.