Vinir og vandmenn

Vinir og vandmenn

Hvítvoðungurinn fæðist í þennan heim í fullkomnu varnarleysi og auðsæranleika. Það finnum við vel í minni fjölskyldu þegar við handleikum þessa brothættu lífveru. Þá reynir á nærsamfélagið. Gullna reglan minnir á að við erum einnig bundin öðrum börnum. Við erum einnig vinir þeirra og vandamenn. Og þar sem við virðum hana fyrir okkur ættum við að hugleiða mannkynið allt og þá vitaskuld þá kröfu að við hlúum að framtíð þeirra einstaklinga sem jörðina byggja.

Stysta smásaga sem samin hefur verið er eignuð bandaríska skáldinu Ernest Hemingway. Hún er nákvæmlega sex orð og hljóðar svo:

 

,,For sale: baby shoes, never worn.”

 

Hvítvoðungar


Saga þessi er í formi smáauglýsingar en lesandinn skynjar það fljótt að þar býr miklu meira að baki, jú harmsaga um fósturmissi eða andlát barns við fæðingu.

 

Ég heyrði þessa örsögu nú á dögunum og tengdi við kenndirnar sem hún miðlar. Við eignuðumst heilbrigðan dótturson nú þann 9. júlí en sannarlega voru taugarnar spenntar í aðdragandanum. Samkvæmt skífunni góðu, sem sýnir lengd meðgöngu, hefði hann átt að koma í heiminn í dag, 21. júlí en fagfólk mat það svo að rétt væri að kynna hann fyrir heiminum tveimur vikum fyrr.

 

Og maður minn, hvað við manneskjurnar erum veikburða á þessu fyrsta æviskeiði. Hversu ólík er staða hvítvoðungins og þeirra afkvæma sem dýrin eignast? Nýkastað folaldið bröltir á fætur og það gerir nýborið lambið líka. Nokkurra mánaða gamall flýgur kríuunginn af eigin vöðvaafli yfir hálfan hnöttinn. Okkar nánustu ættingjar sjimpansarnir koma alhærðir í heiminn og unginn hefur styrk til að halda sér í feld móðurinnar sem getur þá aflað sér helstu nauðsynja. Þetta er auðvitað afar hentugt eins og gefur að skilja og krefst ekki mikillar samvinnu hópsins. Oftar en ekki er það móðirin sem hlúir að því eða þá að umönnunin stendur yfir í skamman tíma áður en einstaklingurinn er orðinn sjálfbjarga.

 

Við aftur á móti, erum sannast sagna á fóstustigi á þessum stað í þroskaferlinu. Ekki get ég ímyndað mér hvernig móðirin gæti ein og óstudd annast allar þarfir þessa viðkvæma lífs í frumstæðum samfélögum. Hvað sem okkur kann að finnast um nútímann með öllum sínum ósköpum þá eru aðstæður eins og þær sem lýst er í smásögunni örstuttu, blessunarlega fátíðar. Ungbarnadauði heyrir til algerra undantekinga. Meira að segja á fátækustu svæðum jarðar komast yfir 95% nýfæddra barna á legg. Það er ólíkt því sem var.

 

Þarna leynist þverstæðan, sem er áhrifamáttur hins ófullburða og viðkvæma.


Vinir og vandamenn

 

Þegar við skírum smábörn þá horfi ég gjarnan yfir hópinn sem er samankominn. Sá fjöldi er auðvitað misstór en með þátttöku sinni þá sendir fólk mikilvæg skilaboð. Nefnilega þau, að í veikleika sínum hefur barnið undramikinn mátt. Það gæti ekki lifað nema fyrir aðstoð og liðsstyrk ættarinnar og allra vandamanna. Hvert og eitt getur lagt eitthvað af mörkum, mismikið vitaskuld í hlutfalli við stöðu þess og tengsl. Ég stenst sjaldnast mátið og orða þetta við hópinn, oftar en ekki tvær ættir sem barnið sjálft samanstendur af, ef svo má að orði komast.

 

Í þeim anda getum við séð fyrir okkur á hvaða forsendum konur yfir höfuð eignast börn. Við þekkjum dýr sem lifa í samfélögum, hjörðum eða stóði. Þar er gjarnan eitt karldýrið sterkara en hin og situr að kvendýrunum í hópnum. Eðlilega hefur það engar skyldur í framhaldinu en þær fá þá óvænt hraustara afkvæmi fyrir vikið. Þannig hefur náttúran hagað þeim málum.

 

En konan þarf að horfa til fleiri þátta. Það er ekki nóg að karlinn veiði, hann þarf að hlúa að sínu fólki, koma með bráðina heim, sinna og hlúa að. Að öðrum kosti er ólíklegt að afkvæmið lifi í hörðum heimi. Já, allur hópurinn ber ábyrgð. Við sjáum þetta í breyttri mynd í dag þegar við lítum á útgjöld þessa samfélags sem við tilheyrum. Tæpur fimmtungur útgjalda okkar renna til mennta- og heilbrigðismála.

 

Hugsanir mínar um gullnu regluna, sem hér var lesin, leiddu mig að þessum vangaveltum: Upp úr grimmri veröld mótast lífsbjörgin, atferli þar sem lífverur hámarka möguleika sína á að lifa af. Og einn þýðingarmesti þátturinn í þeirri baráttu er samvinnan.


Gullna reglan

 

Já, hver þekkir ekki Gullnu regluna? Fermingarbörnin eru, sum hver, ekki mikið gefin fyrir utanbókarlærdóm. Þau sleppa þó ekki við að fara með þennan texta – stundu vissulega í breyttri mynd. Og ég spyr þau alltaf – hvað hefur þetta með gull að gera? Svörin eru margvísleg en ég bið þau að ímynda sér að þau standi í 1000 ára gömlum húsatóftum og finni þar tvo hringa. Annar þeirra eru úr járni en hinn úr gulli. Hvernig lítur sá fyrri út – eftir að hafa þvælst í rakri moldinni allan þennan tíma? Jú, hann er sennilega ryðgaður og illa farinn. En hinn – tja, ætli hann líti ekki eins út og hann gerði þegar einhver glataði honum fyrir þúsund árum?

 

Þarna kemur tengingin við gullið. Reglan er jafnsönn í dag og hún var þegar Jesús miðlaði henni til fólksins og auðvitað fyrir þann tíma líka. Og vonandi um ókomna framtíð verður þessi lífsspeki enn á vörum fólks, eða eins og sum fermingarbörnin gætu orðað hana: ,,sko, ekki gera það við aðra sem þú, sko, vilt ekki að aðrir geri við þig, eða þanni.” Já, og auðvitað hitt líka – að vera virk í aðstoð okkar og liðssinni. Þetta snýst ekki bara um hvað við gerum ekki, heldur hvernig við hjálpum hvert öðru.

 

En hvað á Jesús þá við þegar hann setur fram þessa reglu, sem er sannarlega inngróin í vitund okkar og sjálfsbjörg? Og af hverju talar hann um breiðan stíg og þröngan? Er þetta ekki einmitt sú vitund sem býr í hverri manneskju, og sjálfsagt miklu víðar í sköpunarverkinu? Heimspekingurinn Kant óf á 18. öld, upp úr reglunni gullnu, það sem hann kallaði ,,skilyrðislausa skylduboðið” – nefnilega að við spyrjum okkur áður en við aðhöfumst, hvort við myndum vilja að allir breyttu með sama hætti. Og í framhaldi af því – að við lítum alltaf á annað fólk sem markmið í sjálfu sér, aldrei sem leið að einhverju öðru marki.

 

Þarna kjarnar Kant þessa stóru hugsun sem reglan orðar. Nefnilega að frammi fyrir Guði erum við öll jafnsett, það sem einum lýðst, á öðrum einnig að leyfast. Og auðvitað hið gagnstæða.

 

Við lesum orðin jú í samhengi heimildanna sem við eigum um orð Jesú og verk. Hann horfði nefnilega út fyrir ramma fjölskyldu og ættar. Hann leit víðar en til þeirra sem voru af hans eigin sauðahúsi. Hver frásögnin af annarri sýnir hvernig hann rauf hina ósýnilegu múra sem við reisum utan um þau sem eru af okkar kyni og ætt, hvernig sem við skilgreinum það.


Breiður stígur og þröngur

 

Gullna reglan horfir til alls mannkyns, já allra mannsins barna. Því þröngi og torsótti vegurinn er einmitt afstaðan sem ögrar hugmyndum okkar og heimóttarskap. Þar er okkur stillt upp fyrir framan hópana sem tala annað tungumál, eiga annan uppruna, koma úr öðrum stéttum, öðrum heimshlutum og já, eins og dæmin af starfi Jesú sýna og sanna, eiga sér aðra trú og sannfæringu.

 

Þessi regla er svo skýr, tímalaus og einföld að fermingarbörnin skilja hana. Hún er óður til hluttekningar, þeirrar sömu og kann að vakna í brjóstum okkar þegar við hlýðum á lestur heimsins stystu smásögu. Skyldur okkar varða ekki eingöngu okkar eigin afkvæmi, þótt hlutverk okkar í umönnun þeirra sé brýnast. Þau varða systkini okkar um víða veröld og gera þá kröfu til okkar að þeirra hlutskipti sé um leið okkar hlutskipti.

 

Hvítvoðungurinn fæðist í þennan heim í fullkomnu varnarleysi og auðsæranleika. Það finnum við vel í minni fjölskyldu þegar við handleikum þessa brothættu lífveru. Þá reynir á nærsamfélagið. Gullna reglan minnir á að við erum einnig bundin öðrum börnum. Við erum einnig vinir þeirra og vandamenn. Og þar sem við virðum hana fyrir okkur ættum við að hugleiða mannkynið allt og þá vitaskuld þá kröfu að við hlúum að framtíð þeirra einstaklinga sem jörðina byggja.