Guðspjall: Matt. 13. 24-30 Lexia: Sálmur 37. 3-6 Pistill: Kól 3. 12-17
En meðan fólkið svaf kom óvinur hans og sáði líka illgresi meðal hveitisins".
Þessi dæmisaga jesú um illgresið meðal hveitisins hefur löngum þótt nokkuð hörð undir tönn og menn ekki verið á eitt sáttir hvernig skilja beri. En hvað sem því líður þá er þetta áleitin líking og vekur margar spurningar. Jesús lætur okkur hér standa frammi fyrir sjálfum leyndardómi illskunnar. Ekkert þýðir að leggja á flótta.
Hvernig stendur á þessari illsku uppi vaðandi í okkar fögru veröld? Jesús svarar ekki þeirri spurningu hér en hann undirstrikar blákalt: Illska heimsins er gallharður veruleiki, illgresi vex upp innan um hveitið. Það er engin ímyndun. Hvarvetna liggur slóð hennar, ósjaldan blóði drifin: Dráp, misþyrmingar, slys, sjúkdómar, ranglæti, svik. lygi, illkvittni. hvað er til ráða? Hvernig skal berjast við þennan óhugnað?
Bardagaeðlið í okkur skipar að ráðast á ótótið og rífa það upp með rótum. Í snarheitum skal því illa útrýmt. Þessi aðferð á sums staðar vinsældum að fagna. Margar trúverðugar sögur eru til um slíka bardagamenn, þ.á. m. innan kirkjunnar sem fylltir eldmóði og vandlætingu hugðust útrýma villu með róttækum aðgerðum" - og jafnvel villumönnunum líka.
En hér kemur Jesús og segir: "Látið hvort tveggja vaxa saman til kornskurðarins. Hvað þá? Eigum við þá ekkert að að hafast að, láta allt dankast, gefast upp fyrir illsku heimsins? Nei, ekki þurfum við lengi að lesa orð Jesú til að sjá að slíkt er fjarri honum. Eiginlega hvetur hann til rósemi og stillingar. Líklega er það raunbesta bardagaaðferðin.
Við höfum ekki kafað til botns í leyndardómum heimsins. Þar sem t.d. meðbræður okkar eru annars vegar er erfitt á stundum að vinsa hveitið frá illgresinu. Og hvað um mig og þig? Erum við hveiti eða illgresi á kornskurðardaginn?
Heimspekingur nokkur sagði: “Maður verður að rækta garðinn sinn”. Svo við höldum okkur enn að líkingu Jesú frá jarðyrkjunni, þá veit hver garðyrkjumaður að mikla natni þarf við að reyta illgresi svo að ekki skemmist viðkvæmar nytjajurtir.
Við sjáum illa hluti gerast. En oft þegar við stöndum andspænis slíku erum við í vafa um hver sé orsökin. Hvað olli? Hvar er rótin? Þetta eru góðar spurningar eins og þeir segja í útvarpinu.
En vandræðin eru oft þau að við finnum ekki sökudólginn og dembum þá sökinni í reiði okkar yfir á einhvern sem hendi er næst. Margt verður til að villa sýn. Illska og spilling er veruleiki. “En svo að þér eigi reytið upp hveitið ásamt því", vill Kristur heldur hafa illgresið um hríð í garðinum.
Í stjórnmálum, trúmálum og félagsmálum hafa menn nú hvað ríkastar tilhneigingar til að tæta upp illgresið og fleygja því á eldinn. Ekki skyldum við amast við hreinum skoðunum en samviskuspurning er það heiðarlegum manni hvort hann hafi höndlað hina hreinu skoðun. Svo að hin stærri dæmi séu tekin þá hafa "villumenn" og "andófsmenn" stundum verið boðberar nýrra sanninda eða nýrra leiða að markinu.
Slík dæmi skyldum þó ekki gera okkur deig í hinni linnulausu baráttum með Guði við illskuöfl tilverunnar, - við synd, eyðileggingu og dauða. Þá svíkjum við Krist. En er hann ekki samt að vara okkur við fljótræði?
Best fer á því að við glímum af harðfylgi við hin myrku öfl, sem í okkur sjálfum búa en sýnum varfærni gagnvart bróður og systur. Okkur hættir til þröngsýni. Frammi fyrir Jesú er ég rétt einn syndarinn sem þarfnast fyrirgefningar. Minnumst þeirra gjafa sem Guð gefur okkur og látum náungann njóta þess í einhverju. Það er góður kriistindómur.
Í pistli þessa drottins dags segir Páll postuli:"Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar".
Það kann að hljóma undarlega að hvetja fólk til þess að láta frið Krists ríkja í hjörtum sínum á þessum öfugsnúnu tímum þegar heimurinn er í báli og réttara sýnist að friðsamt fólk blási til orustu. Á þetta ekki eitthvað skylt við það að draga sig út úr skarkala heimsins, láta sig litlu skipta böl hans, setjast í helgan stein, "innan klausturmúra"?
Málið snýr öðru vísi við þegar við athugum að sá sem þarna talar um "frið Krists" er Páll postuli, sá mikli bardagamaður. Mörg bréf hans í N. t. eru orustubréf. Hann barðist eins og ljón við böl heimsins. Samt bjó þessi friður ríkulega í hjarta hans. - Hvernig má það vera?
Friður Krists þýðir alls ekki sátt við heiminn eins og hann er heldur sátt við Guð, sátt við Krist.
Sá maður hefur eignast frið Krists, sem finnur sig hafa hlotið fyrirgefningu Guðs og er orðinn heilshugar þátttakandi í starfi með honum og fyrir hann og allt þer það Jesú að þakka.
Páll útlistar nánar hvernig þessi friður komi fram í persónu kristins manns: "Íklæðist... hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð, langlynd, ... En íklæðist yfir allt þetta elskunni..".
Mörg okkar verða þreytulúa, streitunni að bráð um aldur fram. Það er eitthvert eiturgutl í sálinni: Nautnagræðgi, leiði, framagirni, hefndarhugur. Það finnur enginn frið samhliða þessum tilfinningum, síst af öllu "frið Krists".
Það er spor í áttina að kynnast ögn þessum friði, að íklæðast hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, langlyndi og ganga þannig búinn til bardaga við spillingu heimsins eins og Páll postuli gerði. Þá kunnum við að finna forsmekkinn að "friði Krists" um leið og við nálgumst það að verða nýtilegir kristnir menn. "Hver sem hefur týnt lífi sínu mín vegna mun finna það", sagði Jesús. Höfum við hugleitt dýpt þessara orða?
Leitumst við að lifa hvern dag undir handarjaðri Drottins Jesú. Þá eignumst við smátt og smátt bjargfasta trú þótt hönd hans sé að vísu ósýnileg. Og þá kemur það alveg sjálfkrafa að við gerum allt í ráðum með honum eða eins og postulinn ráðleggur: Allt í nafni Drottins Jesú. Það gefur mikla öryggiskennd á veginum.