Betra er seint en aldrei

Betra er seint en aldrei

En ég velti fyrir mér, hvers vegna hin níu þökkuðu ekki fyrir sig. Getur veri að þau hafi öll verið vanþakklát og dónaleg? Ég þekki svo sem fólk sem sjaldan eða aldrei þakkar fyrir sig og ég verð að viðurkenna að það er aðeins minna gaman að gefa þeim gjafir.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
09. september 2012
Flokkar

Óhrein og útskúfuð Hugsaðu þér ef þú þyrftir að halda þig fyrir utan Reykjavík, já, eða öll samfélög fólks á Íslandi í dag vegna þess að þú værir með smitandi sjúkdóm eða sjúkdóm sem samfélagið og kirkjan hefur ákveðið að geri þig óhreina(n). Eða ef ástæðan væri aðeins sú að þú værir með lýti sem væri svo ljótt og truflandi fyrir umhverfið að þú værir þvinguð (þvingaður) til að búa uppi á hálendi, langt frá mannabyggð.

Kannski ættirðu börn og maka, foreldra og vini sem þú fengir ekki að vera í samneyti við lengur vegna sjúkdómsins.

Það var ekki til neinn Landspítali Háskólasjúkrahús á tímum Jesú og læknisfræðileg þekking var ekkert í líkingu við það sem hún er í dag. Og vegna vanþekkingar var best að hafa allan varann á og halda þeim sem gætu smitað okkur af einhverju hræðilegu, utan við samfélagið. Fordómar um óhreinindi fólks sem fyrst og fremst byggðust á vanþekkingu og ótta voru einnig ástæður útskúfunar.

Þín heitasta ósk hlyti að vera að fá lækningu. Þú vilt hitta fólkið þitt. Þú vilt verða samþykkt(ur). Þú vilt vera með.

Ég sé þau fyrir mér, hangandi fyrir utan þorpið óhamingjusöm og þjáð. Þau hafa beðið lengi eftir lækningu, reynt ýmislegt en allar tilraunir mistekist. Kannski getur þessi Jesús hjálpað þeim. Þau hafa heyrt ýmislegt um hann.

Þau hrópa á hann.

Þau hrópa á hjálp.

Hann rétt svo lítur í áttina til þeirra og segir þeim að fara til prestana og leyfa þeim að skoða sig.

Prestarnir voru valdamiklir karlar. Þeir höfðu m.a. það hlutverk að kanna hvort fólk hefði læknast af smitsjúkdómum sem gerðu fólk óbeint. Þeir voru eiginlega bæði læknar og dómarar ásamt því að vera prestar.

Jesús gerði ekkert við fólkið eða fyrir það. Hann lagði hvorki hendur á höfðu þeirra né skyrpti á þau eins og hann gerði við blinda og mállausa manninn.

Hrein og samþykkt Svo gerist þetta stórkostlega á leiðinni.

Þau læknast. Líkaminn verður heill. Þau finna ekkert fyrir einkennunum lengur. Þau eru frísk.

Nú fjallar þessi einfalda og auðskilda frásögn um mikilvægi þess að þakka fyrir sig. Þessi eina manneskja sem fer til baka, leitar uppi Jesú og þakkar fyrir sig fær Guðsríki og allt saman að launum.

En ég velti fyrir mér, hvers vegna hin níu þökkuðu ekki fyrir sig.

Getur veri að þau hafi öll verið vanþakklát og dónaleg? Ég þekki svo sem fólk sem sjaldan eða aldrei þakkar fyrir sig og ég verð að viðurkenna að það er aðeins minna gaman að gefa þeim gjafir.

Getur verið að þau hafi verið orðin svo ”markeruð” af sjúkdómnum og framkomu fólks í þeirra garð að þau gátu alls ekki kreist fram þakklætis tilfinningu? Að þeim hafi þótt þau eiga þetta skilið? Ég hitti svo sem reglulega fólk sem er svo fullt af biturleika vegna þess að það hefur þurft að þola of mikið óréttlæti.

Getur verið að þau hafi verið full efasemda og ekki tengt lækninguna við Jesú og jafnvel ekki við Guð? Ég kannast við það sjálf að hafa verið bænheyrð en ekki þakkað vegna þess að ég hef verið búin að gleyma því að ég hafi nokkru sinni beðið þessa. Kannski var bænin mín þá aðeins óljós hugsun eða andvarp sem Guð þó heyrði.

Getur verið að þau hafi einfaldlega verið svo glöð og spennt yfir því að fá loksins að hitta fólkið sitt að þau hafi bara gleymt öllu öðru? Ég kannast við það sjálf og kannski gerir þú það líka, að hafa verið svo innilega glöð að ekkert annað hefur komist að.

Þetta erum við Nú hljómar þetta kannski í eyrum einhverra eins og að ég sé að reyna að finna afsakanir fyrir þessa níu dóna sem ekki þökkuðu fyrir sig.

Ég er ekki að því.

Ég er að reyna að sjá ástæðurnar fyrir því hvers vegna við erum eins og við erum. Stundum þakklát og vel upp alin, góð og full af náungakærleika.

Stundum erum við vanþakklát, dónaleg, bitur og særandi í garð annarra.

En ég á líka auðvelt að setja mig í spor þakklátu manneskjunnar. Hennar sem var að springa úr gleði og þakklæti, áttaði sig um leið á því hvaðan hjálpin bars og var enn ekki orðin bitur vegna allra vonbrigða lífsins.

Stundum ert þú einmitt þessi þakkláta manneskja sem Jesús lofar Guðs ríki.

Stundum ert þú einmitt þessi sem gleymir að þakka eða finnur enga þörf hjá sér fyrir þakklæti og Jesús er svolítið pirraður yfir.

En hvernig sem okkur líður þegar bænum okkar er svarað, þegar óskir okkar verða uppfylltar þá á þakklæti að sjálfsögðu vel við. Það segir sig sjálft að við eigum alltaf að muna eftir því að þakka eins og þessi sem fór til baka.

En betra er seint en aldrei.

Kannski mundu hin níu eftir þakkarbæninni þegar þau voru búin að átta sig á því sem hafði gerst.

Kannski ekki.

Eitt er ég þó viss um eitt.

Ég er algjörlega sannfærð um að kærleikur Guðs er ekki skilyrtur frekar en kærleikur foreldra til barna er skilyrtur. Það hvarflar ekki að mér að Guð úthýsi þér þó þú gleymir stundum að þakka fyrir þig.

Betra er seint en aldrei.

Guð er nefnilega svo miklu stærri en ég og þú! Amen.