Aldrei sem nú hafa jafn margar hugmyndir og skoðanir verið uppi um lífið og tilveruna. Samtími okkar er nánast sem hlaðið borð í samkvæmi lífsins er svignar undan girnilegum hugmyndum og erfitt getur verið að neita sér um að smakka á þeim. Nýir réttir eru alltaf spennandi í augum margra þó aðrir kjósi fremur það sem þeir kannast við og vita af reynslu að það fer vel í hugmyndamaga þeirra. Einn af þeim réttum sem er á borðum okkar er kristin trú og kannski ekki svo ólík heitu flatbrauði með feitu hangikjöti - eða harðfiski. Eitthvað sem stendur alltaf fyrir sínu.
Stundum er sagt að kristin trú standi höllum fæti í hugmyndaflaumi samtímans. Hún sé nánast hliðarréttur á allsnægtaborði Vesturlandabúans sem hverfi í skuggann af nýstárlegum réttum og frumlegum. Hún sé fyrst og fremst bundin við kirkjulegar athafnir og hátíðir – já, sé bara eins og hangiketsflatbrauðið góða sem er ómissandi í öllum veislum. Fólk leiði hugann almennt sjaldan til kristinnar trúar. Í því sambandi er bent á að margt í sögu Jesú Krists sé á reiki hjá fólki enda þótt það lumi á einstaka sögubita sem snertir líf hans og starf. Flestir hafa þó skoðun á meistaranum frá Nasaret og telja áhrif hans á heiminn jákvæð og er þá einkum horft til þess siðferðisboðskapar sem byggður er á orðum hans.
Þegar vindar ýmissa lífsviðhorfa blása um kinnar okkar kunnum við að spyrja um þýðingu kristinnar trúar fyrir okkur. Hvað það sé sem geri okkur að kristnum manneskjum og hvers vegna við köllum okkur kristin. Kristin trú er á vissan hátt mjög ólík ýmsum skyndibitum þeirra lífsviðhorfa sem okkur er boðið að narta í sem og hinum flóknari réttum með kryddi sem fæst aðeins í einni verslun.
Þegar við reynum að skilja okkur sjálf sem kristnar manneskur í erlilsömum samtímanum leitar hugurinn til löngu liðins tíma. Leitar til upphafs kristinnar trúar. Kristin trú í nútímanum kallast á við það sem eitt sinn var og við lesum frásagnir af lífi meistarans frá Nasaret. Fylgjum honum um mannlífssvið sem löngu er horfið en þó svo sé þá verða atburðir sem þar gerðust ljóslifandi fyrir hugskotssjónum okkar og orð sem þar voru mælt eru sem töluð til okkar. Fortíð og nútíð fléttast saman í einn þráð.
Kristin trú verður aldrei skilin til fulls nema í sögulegu ljósi vegna þess að höfundur lífsins hefur stigið inn í sögu okkar og sína eigin og spinnur ævivefinn með okkur. Þessi saga er orðin nokkuð löng og eins og í mörgum góðum sögum gengur á ýmsu í samskiptum sögupersónanna. Á þessari ferð um veg lífsins sem hvorki er lagður í botngöng né heldur um mislæg gatnamót er saga meistarans frá Nasaret okkur sem leiðakerfi. Við rýnum í ýmsar línur í þessu kerfi og sumar eru daufar og aðrar skýrar. Okkar er að lesa úr þeim og túlka. Við erum á ferð í lífinu og höfum traustan leiðsögumann með okkur.
Kristin trú er hvorki hávaðasöm né væmin. Hún er bjartsýn og djörf. Kannski karlmannleg og ofur lítið kvenleg - eða kvenleg og ofur lítið karlmannleg. Lætur ekki undan síga, gefst ekki upp frekar en kærleikurinn. Hún lætur ekki heldur múra sig inni í ofstæki samtíningslegrar bókstafstrúar eða logsjóða sig við dularfullar kennisetningar.
Kristin manneskja getur ekki lagt frásagnir af Jesú Kristi á hilluna vegna þess að hún sé búin að lesa þær. Kjarni trúarinnar er Jesús Kristur og frásagnirnar af honum eru ekki lesnar í eitt skipti fyrir öll eins og einhver tískureyfari. Frásagnirnar eru nefnilega sígildar í anda Njálu og Shakespears en ólíkt djúpri speki þeirra geyma þær dýpri speki eða speki spekinnar: Sögu Guðs og manns í heiminum. Sögu sem hver og einn þarf að túlka. Þessi saga segir frá grundvelli trúarinnar og er heimild um hana. Hún verður lifandi þegar hún er lesin - ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur. Spyrja þarf spurninga þegar texti er lesinn, láta textann spyrja sig og lesa sig. Á þann hátt verður trúin lifandi samtal við Guð en rykfellur ekki eða liggur bundin í ógæfulegu samsafni vanahugmynda. Trúin mótar viðhorf okkar til lífsins sem felst í því að við þorum að segja upphátt og kinnroðalaust að við séum kristnar manneskjur og höfum dirfsku til ganga fram í heiminum með útrétta hjálparhönd til þeirra er minna mega sín. Já, hrópa svo hátt að það yfirgnæfir glasaglamm samkvæmisins þar sem gruggugar lífsskoðanir fljóta og sumar meira ættskotnar náskoli en góðu og sterku kaffi á mjúkum og fuglglöðum morgni.