Biblían miðlar til okkar þeim boðskap að ákveðin gildi standi óhögguð, algjörlega sönn og rétt hvernig sem við lítum á þau og hvaða örlög sem við kunnum að hljóta í lífinu. Markmið okkar eru alltaf að segja satt og því skyld þá er það markmið okkar að stuðla að réttlæti. Tilgangurinn er ekki sá að við fáum að launum einhverja umbun, heldur skiptir það máli alls óháð öllu öðru.
Liggur í augum uppi
Það sama á við um heiðarleika, umhyggju fyrir öðrum, ástina til náungans, allt það sem við gerum til að bæta líf fólks, hlúa að börnum og komandi kynslóðum, já mæta þörfum þeirra sem búa við skert kjör. Í þessum efnum erum við ekki að leita viðurkenningar fyrir hugsjónir okkar og framtak. Því þarna leynist hvorki meira né minna en tilgangur hverrar manneskju.
Að baki býr sú hugsun að þrátt fyrir það hversu ójafnt gæðum heimsins er skipt á milli okkar mannnanna þá séum við í grunninn jöfn. Grundvöllur þessarar hugmyndar er í rauninni örstutt setning eða setningarbrot sem finna má í upphafsköflum Biblíunnar, nefnilega: „Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd“. Þessi hugsun er svo tekin enn lengra í orðum Jesú þar sem hann bendir á öll þau sem eru hungruð, veik, dúsa í fangelsi eða eru á flótta og lýsir því yfir að í þessum hröktu systkinum okkar sjáum við hvernig Guð raunverulega er.
Skömmu eftir að Jesús flutti þessi orð setti hann sjálfan sig í spor þeirra sem enga sér engan málsvara í hörðum heimi. Þannig verður krossinn áminning um það hvernig mannskilningur og Guðsmynd renna saman í eitt. Þessi aftaka sem postulinn kallar heimsku og hneyksli rennur saman við þá sýn að guð mæti okkur í hverjum þeim sem þolir órétt. Um leið kallar hann okkur til ábyrgðar.
Mér varð hugsað til þessa þegar ég óskaði unnustu sonar míns, bandarískri stúlku til hamingju með daginn nú í síðustu viku. Já, fjórði júlí var runninn upp og ég fór að rifja upp mannkynssöguna úr menntaskóla. Það var einmitt lóðið 1776 undirrituðu frukvöðlar lýðræðis sjálfstæðisyfirlýsingu nýfrjálsrar þjóðar.
Illugi Jökulsson þýddi upphafsorð hennar svo:
„Vér teljum þann sannleika liggja í augum uppi, að allir menn séu skapaðir jafnir, að skapari þeirra hafi búið þeim ýmis óframseljanleg réttindi og meðal þeirra séu líf, frelsi og eftirsókn eftir hamingju. Að til að tryggja þau réttindi sé komið á stjórnvöldum meðal manna, sem eigi vald sitt til að stjórna undir samþykki þeirra sem lúta stjórninni. Að hvenær sem nokkur stjórnvöld taka að brjóta gegn þessum réttindum sé það réttur fólksins að breyta um eða fella niður þau stjórnvöld, og að koma á fót nýjum stjórnvöldum, sem reist séu á fyrrnefndum grundvallarreglum og skipulögð með það fyrir augum að þau virðist líkleg til að tryggja öryggi og hamingju fólksins.“
Ég játa það fúslega að á nefi mínu eru þykk gleraugu sem birta mér heiminn gegnum síu guðfræðinnar. Þessi texti spratt þó upp úr frjóum jarðvegi kristinna hugsuða sem höfðu meðal annars stofnsett fylkið Fíladelfíu þar sem upphaflega stóð til að samskipti fólks yrðu Guði þóknanleg ef svo má segja, í anda þess að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd.
Sjálft orðið er sótt til grísku. Fíló er að elska og Adelfos er bróðir – bróðurást gætum við sagt. Eða í anda hugsjóna meþódistans Penn, sem stofnsetti fylkið: systkinaást, því hann barðist fyrir réttindum kvenna, frumbyggja og leiddi baráttuna gegn þrælahaldi.
Sáttmáli
Textar dagsins fjalla um það að eiga sér hugsjón um eitthvað það sem stendur ofar hinu tímanlega, er ákveðin hugsjón sem mun lifa lengur en sá eða sú sem á þá á hana í brjósti sínu á hverjum tíma.
Þessar frásagnir birtast okkur með ýmsum hætti. Lexían kemur úr fimmtu bók Móse og þar er talað um sáttmála sem Guð gerir við þjóðina. Hér heyrum við óminn af þeim tóni sem berst í gegnum ritninguna allt til enda. Það er að segja að því fylgir ábyrgð að vera manneskja og hver og einn ber ríka skyldu gagnvart systkinum sínum einkum þeim sem standa höllum fæti.
Það er merkilegt að þessi boðskapur skuli vera endurtekinn í sífellu í gegnum hið gamla testamenti í ljósi þess að þetta voru ættbálkasamfélög þar sem heimsmyndin var nátengd þjóðinni og þeim sem voru af sama stofni. Aðrir stóðu þar fyrir utan. Sumir fræðimenn hafa til að mynda túlkað hina kunnu sögu af Adam og Evu, á upphafssíðum Biblíunnar sem svo að þau hafi ekki verið fyrsta fólkið á jörðinni heldur þau fyrstu af ættstofni Gyðinga.
Og þessi sáttmáli sem talað er um í lexíunni byggir á því að fólk komi vel fram gagnvart náunga sínum og þá ekki þeim sem hafa völd annarra í hendi sinni sökum auðs og áhrifa heldur einmitt hinna sem eiga sér ekki viðreisnar von í hörðum heimi.
Þegar við lesum frásagnir nýja testamentisins af Jesú sjáum við hvernig hann í raun talar og starfar inn í þessu samhengi. Því þrátt fyrir allt, þá var tilhneigingin jafnan sú í því samfélagi þar sem hann starfaði að greina á milli fólks. Það er líklega mannlegt að skipta heiminum upp í tvo hópa – okkur og hin. Við eigum allt hið besta skilið. Hin geta ýmist verið ógnun í okkar garð nú eða unnið þau störf sem við kærum okkur ekki um að sinna en gera líf okkar betra og ánægjulegra.
Fólkið sem varð vitni að orðum hans og gjörðum furðaði sig á því hversu ötullega hann rauf þessa múra. Gyðingurinn sem hann var átti samneyti við samverja. Karlinn sem hann var settist niður með konum og þáði leiðsögn þeirra og veitti þeim forystuhlutverk. Heilbirgður og hreinn sem hann var lagði sig fram um að umgangast holdsveika og þau sem voru kölluð bersyndug.
Sáttmálinn sem við lesum um í textum Gamla testamentisins stendur einmitt gegn þessari flokkun þótt hann tali til ákveðins hóps fólks í hafi þjóða og ættkvísla.
Sannleikur og réttlæti
Og þegar við hugleiðum það þá sjáum við hversu ríkt erindi þessi boðskapur á við okkur enn í dag. Ef við tökum hann til okkar þá kann að vera að við metum umhverfi okkar og samferðafólk með öðrum hætti en við myndum annars gera.
Því allt í kringum okkur getum við séð birtingarmyndir óréttlætis og harðstjórnar. Hvert sem við lítum sjáum við merki um brotinn heim, fallið mannkyn sem lætur jafnvel fánýt lífsgæði varna sér því að rísa upp til varnar réttlæti og mannhyggju.
Og eitt af því sem við kynnumst í Biblíunni er afstaðan til þess að hneppa fólk í ánauð. Ein mestu þáttaskilin í sögu hinnar guðs útvöldu þjóðar er þegar hún var sjálf leyst úr þrælakistunni í Egyptalandi. Sá bakgrunnur verður síðar nýttur til að skapa hluttekningu með þeim manneskjum sem búa við svo ömurleg kjör að vera eign annarra og njóta engra gæða eða réttinda.
„Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða en sá sem trúir ekki mun dæmdur verða.“
Þetta trúboð snýr ekki aðeins að því að fólk játi kristna trú með vörunum einum. Ein áhrifamestu mannréttindasamtök heimsins, Lútherska heimsambandið hefur gert baráttuna gegn þrælahaldi að sínu brýnasta verkefni. Sú hugsun Lúthers að manneskjan sé frelsuð fyrir Guðs náð – fær félagslega skírskotun og verður að ákalli um frelsi til handa ánauðugu fólki.
Heimsambandið hefur náð þar markverðum árangri. Einnig vinnur það gegn siðum í ýmsum löndum þar sem konur eru seldar í hjónaband. Flóttafólk er svo sérstaklega útsett fyrir slíku en það gengur víða kaupum og sölum, varnarlaust á framandi slóðum.
Við getum vissulega reynt að breyta reglum, koma á auknu eftirliti og beitt fyrirtæki og félög þrýstingi til að taka til í sínum ranni. Mikilvægast er þó að við byrjum á okkur sjálfum. Kirkjan flytur okkur þann boðskap sem byggir á reisn manneskjunnar og til að undirstrika það eru okkar minnstu systkini í sífellu tilgreind sem jafnrétthá þeim sem hafa auðinn og völdin í sínum höndum.
Þannig spretta hugmyndir og hugsjónir upp úr jarðvegi skoðana sem í þessu samhengi eru raunverulega trúarskoðanir. Þannig sögðu höfundar sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna að það lægi ,,í augum uppi að allir séu skapaðir jafnir."
Hugmynd Biblíunnar um sáttmála manns og Guðs gengur út á það að í lífinu megi greina gildi og verðmæti sem eru óháð skoðunum hvers og eins, standa óhögguð í gegnum strauma tísku og duttlunga. Og þrátt fyrir þann reginmun sem er á hinu guðlega og því sem við köllum mannlegt þá byggist sáttmáli engu að síður á jafnrétti – samskiptum jafningja. Og hagsmunirnir eru sameiginlegir – það er þetta sem Biblían boðar, að sannleikur og réttlæti séu að endingu markmið ferðalags okkar og áfangastaðurinn í leit okkar að lífsfyllingu og tilgangi.